Færslur: 2007 Maí

19.05.2007 11:02

Brúðarparið mætt..


Jæja þau eru mætt David og Stacey og í fyrramálið koma svo átta í viðbót. Svo mæta þrjú seinna í vikunni. Það var fjör hjá okkur í gærkvöldi og grillað í Glaumbæ. Maddý og Gísli komu í heimsókn heim til sín til að hitta þau D og S og Jóhanna mætti á svæðið. Já svo fórum við og fengum harðfisk hjá Gísla og röltum svo í Heiðarbæinn og sátum þar dágóða stund og nutum útsýnis og góðra veiga úr efri stofu. Hún hefur nú fengið nafnið koníakstofa..Það var reyndar ekki á boðstólnum núna. Það bíður betri tíma.


Ég er í fríi frá kokkeríinu og við sendum Litháana á Kentucy. Þeir eru að vinna í Heiðarbæ og Jón og pabbi hans eru að flísaleggja. Þær skvísur dætur mína ætla í Reykjavík með Stacey meðal annars að skoða brúðartertur og ég fer að passa Hrafntinnu eftir mat.Jæja þetta verður bara létt og laggott núna og sennilega ekki mikill tími fyrir blogg á næstu dögum.
Svo látið ykkur líða vel.
 



17.05.2007 10:14

Nú fer þetta að smella...


Jæja nú fer þetta að smella á hjá okkur með Heiðarbæinn. Ég er svo þrjósk að ég ætla að flytja í maí og dagurinn er í dag. Uppstigningardagur.. ekki er nú alveg allt klárt en samt nóg til þess að ég ætla að sofa í nótt í Heiðarbæ. Og ég ætla að leyfa Gunna að lúlla hjá mér. Annars verðum við fyrst uppi á lofti í nokkra daga og flytjum okkur svo í réttu staðina smátt og smátt. Og ef eitthvað vantar er bara að skjótast í hina áttina við það sem við höfum verið að gera undanfarið. Bílskúrinn er alltaf til staðar og þetta gerist bara smátt og smátt. En prinsippinu skal náð. Flytja á aldrinum fimmtíu og eitthvað. Ég meina 29 m...þið skiljið..

Já kosningarnar fóru ekki alveg eins og ég vildi..Ég vildi fá Guðnýju Hrund á Alþingi. En koma tímar og koma ráð. Og hún er þó varaþingmaður. Og nóg um það í bili. Búið og gert...Já það er rétt hjá Erlu Jónu. Ég vil ekkert vera að skrifa of mikið um pólitík, það eru nógu margir um það. Og líka rétt hjá Konný að áhuginn er fyrir hendi en ég hef bara ákveðið að vera ekki með hann hér á þessum léttu eða blönduðu nótum mínum. Það er af svo mörgu að taka. Sjáið bara hvernig fór fyrir Birni Bjarna.. Alltaf að blogga um pólítík og er svo bara strikaður út karlanginnnnnn.


Jæja nú koma David og Stacey í fyrramálið og þá byrjar það vers. Það verður nóg að gera hjá okkur stórfjölskyldunni á næsu tveim vikum í brúðkaupsstandi og slíku. Á sunnudagsmorgun koma amk tíu manns í viðbót frá USA. Já og Dúna ég er með boðskort handa þér en ég ætla að geyma það þar til þú kemur suður. Jæja þó það sé helgidagur eru allir að vinna og ég sit hér í tölvunni í Fúsa og þarf að fara að huga að matnum í vinnudýrin mín..
Hafið það öll sem best elskurnar

11.05.2007 21:59

Bloggið


Hæ öll sömul. Nú sit ég hér hjá Bjössa bró og skrifa. Það hefur legið niðri netið hjá okkur í SMÁBÝlINU í nokkra daga. En nú eru spennandi tímar hjá okkur. Það eru til dæmis kosningar á morgun og ég var búin að lofa tengdadóttur minni að skrifa ekki um kosningar.... En ég var að lýsa yfir opinberum stuðningi við Guðnýju Hrund Karlsdóttur sem skipar fjórða sætið hjá okkur jafnaðarmönnum í Suðurkjördæmi= S.  Mér lýst mjög vel á stúlkuna..hef heyrt margt gott um hana og rætt við hana um landsins gagn og nauðsynjar..Læt þetta þetta duga um það mál. Og já á morgun stormum við á kjörstað öll sem ein ekki satt?


Og smíðarnar í Heiðarbænum ganga vel . Ég ÆTLA að flytja á fimmtudag, Uppstigningardag. Það er búið að klæða loftið og stendur til að leggja parketið á lofthæðina á morgun. Og Hannes kom í innréttinguna í kvöld og línur eru farnar að skýrast. Fúsi og Gunni voru að finna eitthvað út úr vatnslögninni og Jón er byrjaður á flísunum á baðinu. Benni hefur verið á fullu við að koma vatnsdælunni í réttar horfur og nú vantar rafvirkjann.  En þetta eru nú svona mál dagsins í hnotskurn...


Ég var í samræmdu prófunum (Yfirsetja) og það er frá en reyndar er eitt sjúkrapróf eftir sem verður á þriðjudag. Og fleira man ég ekki sem ekki er daglegt eins og matseld og svoleiðis snudd. Sjúkraþjálfun og allt gengur vel. Sigfús tengdó búin að vera á spítala í uppskurði og er að hressast. Jæja það gæti komið smá eyður í bloggið en ég er sko ekkert hætt Dúna mín. Bara kíkja. Vona að við fáum netið klárt í Heiðarbæinn þegar þar að kemur.....Bestu kveðjur til ykkar..

05.05.2007 15:22

Dagarnir lengjast.


Já það lengjast aldeilis dagarnir núna. Bjart langt fram á kvöld. Hjá okkur er alltaf nóg að gera laugardaga, sunnudaga og aðra daga. Jón og Kalli flísaleggja af kappi og Gunni er að reyna að klára vatnslagnirnar, frá eldhúsi og böðum. Allir að vinna hjá Fúsa og ég eldaði fisk fyrir þá í hádeginu. Namm.. En einhvern tímann minnkar þetta vinnuálag hjá þeim. Allavega fer að styttast í Heiðarbæinn. Fúsi var að fá stórt verk í Örfirisey í Rvík og það var nú gott mál.

Og í gær hefði frændi minn Sigurður Ragnar Arnbjörnsson orðið tvítugur ef hann hefði lifað. En því miður höfum við hann ekki lengur hérna megin. En hann mun lifa í minningunni. Mér finnst ekki langt síðan að hann var skírður vorið 1987 og skírnarveislan var hjá ömmu hans og afa í Garðinum. Köllu frá Rafnkelsstöðum sem er látin og Sigurði Ragnari. Og hann var svo myndarlegur og fínn í skírnarkjólnum sínum. En ætli allt hafi ekki einhvern tilgang. Líka svona hrikaleg blóðtaka umferðarinnar. Við verðum að vona það.

Já það er sárt að skrifa um þetta og ég segi bara um hann bróðir minn: Hann stendur sig eins og hetja en auðvitað sjáum við öll að þetta tók stóran part af honum.. Gott hvað þau eiga stóran vinahóp sem stendur með þeim öllum. Honum, Erlu og systkinahópnum. En líklega verður lífið aldrei það sama eftir svona missi. Guð blessi ykkur öll sem eigið um sárt að binda.
Silla.


03.05.2007 14:12

Samræmdu prófin.

 
Jæja nú sit ég yfir börnunum í samræmdu prófunum. Trúnaðarmaður Menntamálaráðuneytisins. Svo fínt orð ha..Ég gerði þetta í fyrra líka og tók við af Jórunni Guðmunds sem hafði þetta starf til margra ára. En Þetta gengur bara vel og það er gaman að breyta til og koma innan um unga fólkið. Svo hittir maður gamla kunningja, skólastjóra ,kennara og allt þetta góða starfsfólk sem Grunnskólinn í Sandgerði hefur á sínum snærum. Reyndar notum við Samkomuhúsið núna í prófunum og það gefst vel. Mikið næði, engin truflun.

Jæja nú vorar og í gær var ég alveg frá fjögur til átta að reyna að laga túnið hérna..Leynirinn sem við köllum. Það þurfti að grafa í gegn um hann með öll rör í Heiðarbæ. Vatn og rafmagn. Gísli tók stærstu steinana og uppgröftin og jafnaði. Ég tók svo fram garðhrífuna og reyndi að slétta svolítið. Reyndar hefur þessi blettur alltaf verið svolítið ósléttur. Mikið grjót í honum. Svo ég rakaði mold og hrossaskít og sáði grasfræi. Sjáið bara hvað ég er komin heim aftur í náttúruna! Gaman, gaman.

Svo það er ekki mikill tími afgangs. Fór áðan og borgaði brúðargjöf David og Stacey. Svítuna á hótel Keflavík...Á svo eftir að ákveða eitthvað um aðkeypt skemmtiatriði, eitt eða fleiri. Það er mikil tilhlökkun í gangi í sambandi við brúðkaupið. Ég er búin að tala við Hrefnu í sambandi við brúðarbílinn. Hún á svo splunkunýjan fagurbláan bíl. Sumir voru að tala um 50th bíl en ekki veit ég hvar á að fá slíkan. Vona að Ísland sýni sína góðu veðráttu-hlið. Jæja þarf að rjúka í Sandgerði og sendast fyrir Gunna.
Læt heyra í mér...
  • 1
Flettingar í dag: 71
Gestir í dag: 20
Flettingar í gær: 58
Gestir í gær: 17
Samtals flettingar: 97224
Samtals gestir: 19709
Tölur uppfærðar: 19.3.2024 11:02:09