Færslur: 2007 Júlí

30.07.2007 09:46

Týra og fleira.



Já Týra er upptekinn hundur þessa dagana. Og alltaf mjólkar þetta skinn fyrir hvolpana..ennþá. Nú eru þeir orðnir svo stórir að þeir komast varla að allir í einu. Ég tek stundum einn og einn þeirra stærstu og held á þeim meðan hinir fá sér sopa. Það eru þeir stóru sem eru alltaf fyrstir á staðinn! Í gærkvöld tók ég einn og prufaði að setja volga mjólk í undirskál. Bíðið við það var eins og hann hefði ekki gert annað en lepja. Eðlislægt.. Svo prufaði ég annan, hann var skíthræddur við þetta. Sá þriðji var alveg klár líka svo þetta kemur fljótt núna hjá þeim.

Týra hefur stundum elt mig út að labba en það var fyndið í gærkvöldi. Hún snéri fljótlega við..æ ég nenni þessu ekki.. Fór heim og gelti þar til Gunni opnaði fyrir henni og hann hélt að eitthvað hefði hent mig, nei bara löt Týra. En það er nú komin rigning. Byrjaði í gær með smáskúrum en nú er komið alvöru rok og rigning! Það spáir aftur norðanátt svo kannski verður þetta stutt. Maður er orðin svo góðu vanur, sól og blíðu dag eftir dag svo maður ætti að halda sig á mottunni.

Mamma er hjá Lillý fyrir norðan. Hélt kannski að hún kæmi heim í vikunni en er ekki viss. Það er gott fyrir hana að stoppa hæfilega lengi því hún er alltaf öruggust heima. Hún er komin með öryggislykil sem er mjög gott. En nú er sól hjá þeim nyðra. Þær hafa verið í heimsóknum og haft nóg að gera skilst mér. Svo kíkir hún á netið hjá Lillý!


Jæja læt þetta duga þennann morguninn. Hafið það sem best..

 

28.07.2007 23:45

Gestagangur..


Já það er búin að vera gestagangur í Heiðarbæ.
 Það er nú gott því þá veit fólk hvar við eigum heima!!
 
Kolla Malla var hér að skoða ,,langömmubörnin sín,, og leist vel á. Jóhanna var í mat og Konný og Sigrún komu og hún fór með þeim heim.
 
Svo kom Bjössi og vinnufélagar um miðjan daginn og það var flott. Siggi Hreins sem ég kíki stundum á í gegnum Bjössasíðu var annar..Björk Ína kom líka en ég missti af henni sökum gestagangs. Eða þannig..

En annars er allt gott að frétta. Við fórum í daglegan göngutúr og það var varla fært fyrir umferð.. En Grétar Sigurbjörns og frú stoppuðu og við spjölluðum um Týru og afkvæmin.

En við erum að hreinsa gluggana og svo er eftir að bera á austur og norðurhlið hússins. En nú spáir rigningu..hvað er nú það..svo við sjáum til hvað við gerum.

Góða nótt og sofið rótt.
Kv. Silla.



26.07.2007 09:52

Gönguferðir.



Það er makalaust hvað það er upplífgandi að fara í smá gönguferð. Ég gerði það í fyrra að ganga alltaf smá spöl. Byrjaði á því á Reykjalundi og lærði hvernig best er að fara að!! Það mætti halda að ég væri að tala um einhverja kúnst en það er nú ekki. Nú er ég aftur byrjuð eftir letikast í þeim efnum.

Það er nefnilega þannig að þegar maður byrjar þá bara verður maður að fara aftur og aftur. Útiloftið er svo hressandi og auðvitað í hvernig veðri sem er. En það var nú einmitt veturinn í vetur sem stoppaði mig af..svo hundleiðinlegur. En nú ætla ég ekki að gefast upp þó á móti blási!!

Hvolpaland er í fullum blóma og enn er Týra þolinmóð..ég er alveg hissa. En litla Victoría (victory-sigur) er samt orðin léttust af þeim . Hún verður eitthvað útundan þó ég passi vel upp á hana. En samt er hún í góðri framför. Sumir eru nú bara hlunkar. Nú eru þeir að reyna að labba í grindinni og velta um sjálfa sig. En hún kraflar sig líka áfram á þrem fótum..greyið. Bráðum þarf ég að fara að kenna þeim að lepja. Það kemur að því að mamman verður löt.

Ég fór með Jóhönnu inn á spítala í gærkvöld. Hún var svo slæm. Vonandi fer þetta að ganga hjá henni. Ég veit að Fannar tekur Vilmund í dag, það léttir mikið á og Konný var með hann í gær að hluta. Hann er ja dálítið erfiður strákurinn..

Það er áfram sama veðurblíðan og hásumar. Mér fannst alltaf vera einmitt hásumar þegar Bjössi bróðir átti afmæli og hann á afmæli í dag. Til hamingju með daginn brói. 57 ára. Nóg af bulli í bili. Eigið góðan dag.



24.07.2007 11:40

Sólarlaust...


Það er sólarlaus dagur í dag. Ágæt tilbreyting því ég er sólbrunnin. Passaði mig ekki alveg þegar ég var að þvo gluggana um daginn. Við ætlum í bæinn í dag ég Jóhanna og Konný. Vona að það sé ekki of mikið fyrir Jóhönnu því hún er enn eftir sig eftir aðgerðina. Ég ætla í dýrabúð og ná mér í grind eða einhverskonar girðingu fyrir hvolpana. Þeim er farið að langa mikið upp úr rúminu sínu sem er samt nokkuð stórt.

Pabbinn þ.a.e.s. fólkið hans er búið að velja Agnarögn sem sína. Svo þá eru fjórir eftir. Hrafnhildur er næst til að velja.. Nóg að gera í Hvolpalandi.
Við ætlum að vigta þá aftur í kvöld, þeir rifna út og Týra er dugleg mamma.

Ég þarf ekkert að hugsa um mat í dag því liðið er farið upp á Akranes í vinnu. Það er ágæt tilbreyting. Ég hef því verið í rólegheitunum í morgun og var að fylgjast með Lolla í Bala áðan. Hann er eitthvað að gera við litla gula skúrinn sem er hérna megin við veginn. Vona að hann sé bara að fara að rífa hann. nei bara grín, ekki kemur mér það við. Kisan hans var upp á þakinu að fylgjast með.

Svona er lífið í Stafneshverfinu þessa stundina. Kveð í bili, góðar stundir.

Og það eru komnar nýjar myndir inn...

22.07.2007 00:48

Nágrannar í heimsókn.



Já ég var nýkomin upp í rúm með blað og gleraugu!! Koma ekki gestir.. Og góðir gestir eru alltaf velkomnir í Heiðarbæ hvort sem er að nótt eða degi. Jæja, Lillý ,Maddý og Gísli komu og við byrjuðum á því að ná í ungviðið hennar Týru til að sýna þeim.
 
Gísli var að selja verkstæðið og er kominn með dótið sitt suður, allavega mikið af því og kannski verður hann aðalmaðurinn á svæðinu í bílaviðgerðum! Nei ég er að grínast..hann er svona næstum að hætta, eftir yfir fjörutíu ár í bílastússinu..

Og svo þurftum við svo mikið að spjalla um Kanadaferðina.. Íslendingabyggðirnar, Gimli og fleira. Gaman ef við náum að sjá þessa staði sem fólkið okkar flúði til í harðindunum í lok næstsíðustu aldar.

En nú er kominn meira en háttatími og ég segi góða nótt..
.


Ps. Í sambandi við gestakomur..þá komu Anna og Óli góðir vinir úr Grindavík og Lilla vinkona í heimsókn í gærkvöld og það var glatt á hjalla. Anna er engri lík og ef þú ert í fýlu gleymdu því þegar hún er annarsvegar.

21.07.2007 20:48

Sumarkvöld...


Það tosast áfram sumarið og ekki getum við núna kvartað yfir því. Í rigningunni er meira segja næstum logn og sól á milli. Ég baðaði Týru áðan og hún var nú ekki par ánægð með mig. En það þurfti og hvolparnir dafna mjög vel. Til að aðgreina þá hef ég gefið þeim nöfn sem þeir hafa allavega fyrst um sinn. Þau eru Agnarögn, Victoría, Frekja, Steinka, Snúlli og Snati. Nú eru þeir farnir að líta í kring um sig og horfa á mann litlu skinnin.

Ég var að taka aðeins til hér í kring í dag og líka fyrir ofan garðana. Það leynist ýmislegt rusl hér og þar. Svo var farin ruslaferð og gott að losna við þó þetta. En vinnan er ótæmandi við að byggja upp og snyrta og gott að taka svona hænuskref í þeim efnum.

Ég var með pistil á 245.is á fimmtudaginn og var byrjandinn. Þankabrot heitir þetta hjá þeim og ég held að þetta eigi eftir að verða góður, fastur punktur. Sá sem skrifar skorar á einhvern að skrifa næst og svo koll af kolli. Bara gaman að þessu.

Ég fór með Jóhönnu í bæinn í morgun. Hún var að fara í æðahnútaaðgerð sem reyndist heilmikil. Sex hnútar, svo það er ekki gaman hjá henni núna. En Konný sótti hana og hún er komin heim. Vilmundur er hjá pabba sínum þar til á morgun sem betur fer þegar svona stendur á. Ástrós kom heim frá Danmörku í morgun svo hún hjálpar mömmu sinni. Hún er mjög dugleg, allavega þegar hún vill. Svo er Garðar Ingi það líka og orðinn svo stór. Tíu ára!

Jæja ég ætla bara að vera löt í kvöld og taka daginn frekar snemma á morgun. Hafið það nú gott um helgina. Bestu kveðjur til ykkar allra sem nenntuð að lesa...

 

19.07.2007 09:29

Langþráð súld !!!!


Ekki hélt ég að maður yrði ánægður að vakna og úti væri súld..ojú það er nú bara þannig þegar allt er orðið skrælnað úr þurrki. Ég held að það hafi komið ein rigningarnótt og einhver smá úrkoma daginn eftir í hátt í tvo mánuði. Svo þetta er kærkomið fyrir gróðurinn og landið. En auðvitað vona ég að hann leggist ekki í rigningu lengi...svo góðu erum við orðin vön nú á þessu yndislega sumri.

Dagurinn í gær fór að mestu í að ferja bíla. Vinnubíllinn hans Gunna sem er í ábyrgð er búin að vera á verkstæði seljandans í sjö vikur og var loksis tilbúin í gær. Við höfðum reyndar lánsbíl á meðan en ekki eins hagstæðan fyrir vinnuna. Jæja Gunni bað mig að skipta og ná í bílinn því hann var á nýviðgerðum vörubílnum á Akranesi þar sem þeir eru með verkefni. Ég geri það og er komin hálfa leið til baka þegar Gunni hringir úr R.vík og jæja.. 

Vörubíllinn bilaður, viðgerðin nýja ónýt. Svo hann varð að fara með hann í Ræsir aftur til viðgerðar! Ég snéri við til að sækja hann (Gunna). Svo vorum við komin að flugstöð á leið heim þegar allt byrjaði að blikka í Nissaninum og upp gaus ógeðsleg olíulykt..Stoppuðum, fórum út fyrir veg og hringdum í þá sem höfðu haft hann til viðgerðar meirihluta sumars. Þeir voru alveg eyðilagðir. Við máttum ekki hreyfa bílinn, þeir komu með flutningabíl til að sækja hann og nú erum við kominn með lánsbílinn aftur. Þarna fór góður tími í bara leiðindi. En maður verður að sjá broslegu hliðarnar á þessu og þær eru vissulega til staðar..ja hérna. Tveir sama daginn!!!!

Dúna systir og fjölskylda (Hún,Þröstur og fósturbörnin)eru að fara til Spánar í dag og ég ætla að skutla þeim upp í flugstöð í hádeginu og geyma fyrir hana bílinn (vona að ég bræði ekki úr honum) ha ha. Svo ég læt þetta duga í dag af súld og bílum og fer út í eitthvað allt annað næst. Líði ykkur sem best.

17.07.2007 14:40

Hvolparnir stækka!!


Já það dafnar vel í Hvolpalandi í kjallaranum hér í Heiðarbæ. Ég kíkti aðeins á vigtina áðan og þeir hafa allt upp í þrefaldað þyngdina. Þeir verða hálfsmánaðar gamlir á morgun. Allir farnir að sjá og nú er hamagangur á hóli við að vera fyrstur á spenann. Aumingja Týra orðin dálítið þreytt en lætur sig hafa það...Svo eru þeir að verða 'hvolpalegir' og skoða sig um.
 
Jæja hluti af fjölskyldunni er enn í útilegu. Konný og Hannes skruppu bara heim að ná í fleiri föt á krakkana  og lykla að sumarbústað foreldra Hannesar sem þau eiga þar. Jóhanna , Erla Jóna og börnin eru upp í Húsafelli. Það er svo flott veður og þau í fríi og eru ekki að flýta sér heim. Fúsi kom heim vegna vinnunnar en fer uppeftir í kvöld.

Það er nú aðeins hafgola hér á Stafnesinu en frábært veður samt. Nú ætla ég ekki að hanga í tölvunni um miðjan dag heldur fara út og gera eitthvað......Sumarkveðjur.

15.07.2007 20:34

Komin heim í Heiðarbæinn.


Alltaf gott að koma heim. Og allstaðar var sama veðurblíðan. Og þvílíkur fjöldi fólks að gera nákvæmlega það sama og við. Í útilegu...það var allstaðar troðið á tjaldsvæðunum. Við fréttum áður en við fórum að allt væri að fyllast og stelpurnar voru á undan og allt fullt í Skorradal. Svo við settum stefnuna á Þórisstaði í Svínadal. Þegar við mættum þangað um kl. þrjú var nóg tjaldsvæði en það fylltist svo snarlega.
 
En þarna rétt við Hvalfjörðinn undum við okkur mjög vel. Það var reyndar Íslenskur vindur á föstudag en 20 st. hiti. Svo var hvasst um nóttina. Einhver strengur beint úr Skorradalnum en svo eftir það logn og 22 st.hiti. Þetta er Ísland í dag.

Við gamla settið fórum fyrst heim, Týra heima og krílin. Ekki að það hafi ekki verið hugsað um þau...jú mjög vel. En jæja ferðafólkið okkar fór upp í Húsafell nema Linda Jón og Hrafntinna. Jón þarf að fara í vinnu á morgun. Þau hin eru í smáfríi og fannst bara ekki hægt að fara heim. En við höfum tvisvar verið á fjölskyldumóti í Svínadalnum sennilega 1987 og 8. Svo við þekktum vel til. Það er bara orðin miklu meiri þjónusta þarna núna.

Við Gunni vorum að rifja upp fyrstu útileguna okkar saman, þá í Húsafelli. Breytingin er mikil. Þá vorum við með tjald með lausum botni..ekta gamaldags.. en alveg rosalega var gaman.
En núna gistum við hjá Erlu Jónu og Fúsa í fellihýsi og beint upp í rúm eins og á hóteli!!!!Hinir krakkarnir eiga tjaldvagna nema Jóhanna sem var í tjaldi með sína gutta. Ástrós er í Dk.

En svona breytast tímarnir. Vonandi að gleðin sé ekki síðri en í den. Örugglega ekki. Allavega var kátt hjá okkur og sumir eru brenndir af sólinni. Við fórum í sund á Hlöðum hinu megin við Draghálsinn og það var erfitt að ná sumum upp úr..

En núna seinnipartinn var ég að dunda mér við að reyna að laga grjótgarðana. Það mjakast og hefst á endanum. Svo þurfti ég að vökva grasið og Gunni fór að smíða..Alltaf nóg að dudda ef maður vill. En þetta var góð helgi og ég vona að allir komi heilir heim.

Góðar stundir..

13.07.2007 09:08

Helgarferð.


Jæja þá er komið að fjölskylduferðinni. Reyndar eru aðeins 4 af 5 af krökkunum á landinu. Eiríkur og fjölskylda búa í DK. Og Ástrós er þar og Gunnar yngri á Kýpur hjá vini sínum. Ja hefði maður verið upprifin á þessum aldri að fara svona ferðir eins og þau. Þá horfði maður bara upp í himininn hérna á Stafnesinu á þessa furðufugla flugvélarnar og hugsaði um hvernig þær héngu í loftinu?
 
En ég er nú búin aldeilis að sannreyna að sem betur fer gengur það oftast vel. Ég vann hjá Flugleiðum seinna IGS í 17 ár og þá fengum við tækifæri til að skoða heiminn bara ansi vel. Allt frá Barcilona til Grænlands og New York og svo fórum við í fyrsta skipti til Dísu frænku í Florida árið 1992 með stelpurnar 3. Þvílík upplifun fyrir þær. Linda 9 ára Konný 12 og Jóhanna 17 ára.

Og ferðirnar urðu margar þangað og til vina í Milwalkee í Wisconsin og víðar. Búin að fara tvisvar til Texas og hitta frændfólk. Seinni ferðin var farin með Maddý og Gísla en þá var ég hætt í flugtengdu vinnunni. Þá stoppuðum við í New Orleans sem svo stuttu seinna eyðilagðist af flóðum. Undarleg tilfinning að hafa séð staðinn þegar hann var á skjánum dag eftir dag vegna atburðanna.

En nú erum við að fara styttra. Upp í Borgarfjörð sem mér finnst alltaf svo fallegur. Ég á dálitlar rætur þar því ég var í Reykholtsskóla einn vetur og tók landsfróf þar. Það var þungt að mínu unglinga-mati en dugði mér til að fara í M.R. En sá frægi menntaskóli var ekki það sem ég fílaði eins og börnin segja. Svo árið þar varð bara eitt. En örugglega hef ég haft gott af þessu eins og fólk hefur líka af því að vera í skóla lífsins. Hann er besti skólinn þó nauðsynlegt sé að hafa hina með..

En nú er veðrið gott líkt og sl. einn og hálfan mánuð svo vonandi gengur allt vel í útilegunni og verður gaman að vera þar með aldrinum eins og hálfs til fimmtíu og níu! Mamma skrifaði í gestabókina áðan að við ættum að fara varlega í umferðinni og ég vona að allir geri það.
Og Týra og afkvæmi verða í góðri umsjá Benna og Maddý svo hundaamma slappar bara af. Ég óska ykkur góðrar helgar hvar sem þið eruð öll elskurnar, nokkur í Seattle(Solla og fj. og Mummi) á fleiri stöðum heima og heiman. Ætla að fá mér aðeins meira morgunkaffi.

Góðar stundir.

11.07.2007 09:27

Pensill á lofti.



Ég var að bera fúavörn á húsið í gær eftir hádegi fram að kvöldmat. Ups hvað ég var þreytt. En hafði örugglega gott af því. Ég þurfti að nota tröppur og Gunni var hugsjúkur í vinnunni. Held að hann hafi séð kellu sína liggjandi,dettandi eða eitthvað. En þetta gekk bara vel og ég náði að bera á mestu vatnshliðarnar. Þær sem voru þurrastar. Svo kemur hitt með kalda vatninu.

Nú var ég að koma úr sjúkraþjálfun sem hafði góð áhrif á þreyttu vöðvana..Var óvenju snemma dags þessi tími svo ég skrapp bara heim til Týru og hvolpanna. Sumum finnst maður búa langt út í sveit en ekki finn ég fyrir því. Jú eyði kannski aðeins meiri olíu. Vegna þess að ég fer þegar mér dettur í hug. Þarf kannski að samræma það betur í framtíðinni.

Við erum að fara í fjölskylduútilegu um helgina og krakkarnir komu í gærkvöld til að ákveða stað og stund. Ætlunin er að fara að Fossatúni rétt við Borgarnes eða í Skorradal. Það má ekki fara of langt því veðrið virðist vera best á þessu horni landsins.
Við gistum í fellihýsinu hjá Erlu Jónu og Fúsa svo við þurfum ekki að tjalda eða neitt.

En svo eru það barnapíurnar....Hvolpapíurnar.. Benni frændi ætlar að sjá um þau fyrst (og kannski Bjössi,eftir að tala við hann) og svo kemur Maddý á laugardag og tekur við. Það þarf að hugsa vel fyrir þessu ungviði og mömmunni.
Svo það er nóg að gera á bæ. Svo þarf ég að fara að huga að skrifum sem ég er búin að lofa en ætli það verði fyrr en eftir helgi..sjáum til.

Nóg að sinni...njótið nú góða veðursins..

09.07.2007 22:49

Mamma í heimsókn..


Mamma er hjá okkur núna.. Hún kom með mér í dag eftir að ég eldaði í karlana mína og hún vill vígja Heiðarbæinn og sofa í nótt. Það er nú gott að fá mömmu til þess sem hefur búið hér í Stafneshverfinu í 50 ár. Flutti reyndar í Miðhús í Sandgerði fyrir 10 árum og líkar vel.
 
Hún hefur okkur öll í nágrenninu ekki síst börnin mín sem búa fjögur af fimm í Sandgerði (þéttbýli).Svo okkur Bjössa hér og flesta af hans börnum á sv.svæðinu
Svo á hún reyndar mikinn fjölda afkomenda sem býr í öðrum landshlutum og öðrum löndum líka..Hún er rík kona sem átti sex börn sem öll hafa skilað sínu...

Og í kvöld birtist góður vinur, Gúndi frændi Gunna. Grindvíkíngur..víkingur. sem reysti húsið okkar og hefur margt fleira gert fyrir okkur. Gull af manni..Hann er heillaður af Heiðarbænum og óskir hans eru okkur mikils virði. Hann missti fyrir ca. hálfu ári lífsförunaut sinn úr krabbameini og stendur sig eins og hetja.Vona hans vegna að hann finni nýtt líf og tregi ekki um of. Gaman að fá hann í kvöld.

Ég var úti í dag..hlýt að verða brún ..að vökva og bera á timburverkið. En næst er það húsið sjálft sem þarf áburð.Orðið þurrt og verður að bera á það strax. Allavega suður-austur hliðar.
Hingað til var svo hátt til veggja að það var erfiðleikum bundið að vinna það verk. En nú er kominn PALLUR og auðveldara um vik.

Já nú eru litlu ungarnir farnir að sofa..hvolparnir..og Týra hringar sig hjá þeim..Er þetta ekki ekta sveitamennska (rómantík). Ég er búin að fylgjast með þyngd þeirra og reyni að gæta þess að þeir minni verði ekki undir. Það er nefnilega eins í dýraríkinu og manna..þeir stærstu eru frekastir og fá mest ef ekki er passað upp á málin...

Bestu kveðjur.

Silla....  

07.07.2007 22:25

Stutt pössun....Hrafntinna í stuði.


Já ég var að passa Hrafntinnu og hélt að ég yrði hjá henni til 11-12. En foreldrarnir komu fyrr heim en ég hélt. En sú var nú í stuði..Sofa nei aldeilis ekki..bara leika amma! Sama þótt ég syngdi Siggi var úti og Afi minn og amma mín. Það var bara fjör og sama hvað ég reyndi..nei ekki sofa. En hún er skemmtileg sú litla og það var gaman hjá okkur og svo komu Linda og Jón og ég slapp við að koma dömu í rúmið.

Þau voru í giftingarveislu. Systir Jóns, Lilja var að giftast honum Alla (Arnlaugi Einarssyni).
Hann er sonur Einars í Hólshúsi og Kollu Kidda Lár svo ég tali Sandgersku ef t.d Mummi les þetta. Og ég skoðaði myndir sem Linda hafði sett inn á tölvuna sína frá því í dag og þau eru glæsilegt par.

En við ætlum að skreppa aðeins yfir í Glaumbæ og fara yfir ferðaáætlun septembermánaðar.
Ef Google eart er rétt held ég að þau séu að fara með okkur næstum til Vesturstrandarinnar. Ég var sennilega ekki búin að segja ykkur að ég keypti miða til Minneapolis á 40 ára brúðkaupsafmælinu 9. september. Daginn áður ætlar Linda að gifta sig. Svo nóg að gerast hjá gamla settinu.

En þetta dugar að sinni...vonandi daman sofnuð!! 

07.07.2007 10:13

Rigningardropar!!


Loksins kom rigning í fyrrinótt og smá í gær. Við vorum heppin því grasið var nýkomið á og allt rennblotnaði. En ef ekki verður meiri rigning en þetta þarf að fara að græja vökvunarbúnaðinn!
Þetta er aldeilis gott veðurfar og vonandi verður þessi dagur bjartur og fagur því það er alveg hellingur af fólki að fara að gifta sig. Ég veit um tvær giftingar. Mágkonu Lindu og vinkonu Konný.

Ég held að þetta sé að ganga hjá Týru en það er á mörkunum að hún hafi mjólk handa skaranum. Hún er róleg og allt það. Liggur mikið hjá þeim en fer samt meira og meira á hreyfingu..en samt fyndið hvað hún er alltaf fljót að koma til þeirra aftur. Hrafnhildur keypti hvolpamjólk og pela fyrir mig!  Þorði ekki annað en eiga það til vara. Mér sýnist helmingurinn vera frekari og sumir fái minna að komast að eins og stubba. Svandís kom í heimsókn. Hún er sérfræðingurinn! Hún heldur að þetta séu 4 stelpur og tveir strákar en svo kemur það í ljós án efa ha ha.

Smiðirnir sem við höfðum frá Litháen og voru í húsunum við Ásabraut og svo hjá okkur í öllum aukatíma og meira til, fóru seint í gærkvöld. Þeir eða réttara sagt hann því það var bara einn lærður smiður og ungur strákur með honum eru búnir að hjálpa okkur mikið í meira en viku. Og pallurinn er kominn við húsið. Ég þarf að fara að taka gömlu snjómyndirnar af forsíðunni hjá mér!!!.. Auðvitað er nóg eftir og múrararnir gátu bara pússað veggina þar sem pallurinn er. En þeir koma vonandi á næstunni í hinar hliðarnar, allavega fyrir haustið.


Og sláttuvélin mín ANTIKIÐ er komin heim. Þau geymdu hana  fyrir mig Sævar og Bylgja í Miðtúninu. Hún er þá búin að vera á fjórum stöðum síðan ég fékk hana á Fellsströndinni. Allt frá Hlíðargötu að Heiðarbæ með stoppi á Holtsgötu og Miðtúni... Ég var ekki heima þegar þeir settu hana niður og ætla að breyta um stað seinna. En hún er þung svo ég hleyp ekkert með svona hluti. Svo þá er bara eftir að setja stígvélin á góðan stað. Þá fer fólk að kannast við lúkkið!!!.

Hafið það sem best ......



04.07.2007 22:31

Hvolpar!!!!



Jæja ég giskaði rétt á. Týra kom með hvolpana í morgun. Og þeir eru sex. Það er mikið hjá svona smáhundum og mikið á greyið lagt. Nú er kominn hálfur sólarhringur og hún er dauðþreytt en getur ekki slappað af. Svo væla krílin og ég veit ekki hvort þeir ná allir að sjúga..Þarf að fylgjast vel með þeim. Sá sem fæddist fyrstur var ekki með annann framfótinn heilan. Reyndar bara stubb.. Litla skinnið..að öðru leyti fínn.

Þeir eru allir dökkir, svartir og brúnir og erfitt að þekkja þá í sundur nema Stubb litla. Hrafnhildur tengdamamma Lindu kom með vigt og við vigtuðum þá til að maður geti áttað sig á hvort þeir fái nóg. Sá minnsti er 80 grömm sá þyngsti 137 grömm.. Spáið í því svo pínu litlir.
Alveg gæti ég trúað að ég þurfi að fá mér pela ha ha. Ömmu-hundastand!!!

Jæja þetta voru fréttir dagsins. En svo gengur allt vel í Heiðarbænum og torfið í garðinn kom í dag. Byrjuð að setja það á og þurfum svo að fara á fullt að vökva í fyrramálið. Ef ekki rignir. Það eru allir hættir að vita hvað rigning er hér. Þyrfti að koma smá því allt er svo þurrt.
Góða nótt. sofið rótt..

Flettingar í dag: 1386
Gestir í dag: 977
Flettingar í gær: 139
Gestir í gær: 95
Samtals flettingar: 104563
Samtals gestir: 22300
Tölur uppfærðar: 8.5.2024 03:50:41