Færslur: 2007 Apríl

29.04.2007 11:50

Uppskeruhátíð.



Jæja ég varð að hafa svona dulítið virðulegt nafn á partýinu í gærkvöldi. Þetta var reyndar meiriháttar grillveisla hjá Erlu og Fúsa og öllum boðið úr vinnunni. Litríkt málfar var á svæðinu sem maður skilur ekkert í. En sumir bjarga sér á enskunni. Það var búið að vinna tvær vikur án þess að taka nokkurt frí hvorki á sumardaginn fyrsta eða um helgarnar tvær. Svo var búið að loka húsinu á Ásabrautinni og verið að klára verkefnið við Steingrímsvirkjun. Eftir eru einhverjir tveir dagar í frágang þar. Svo það var slegið upp veislu. Og auðvitað fengu þeir sem vildu, bjór og snafs rauðvín ofl.

Við gömlu fórum nú fyrst heim og þá var komið alveg nóg af góðmetinu. Konný skutlaði okkur því eftir einn (ofl) ei aki neinn. Ég skutlaði svo Gunna í vinnuna kl.ellefu í morgun og er nú komin heim búin að hella mér á kaffi og farin að blogga. Og ég þarf ekki að elda þeir ætla víst að vera latir einn dag og sjá þá um sig sjálfir. Svo ætla ég að hlusta á fréttirnar, þeim næ ég best á netinu. Eitthvað erfið skilyrði hér eftir að annar diskurinn datt út.

Já Gunni hringdi í Huldu vinkonu þegar ég var skriðin upp í rúm í gærkvöld, sagði henni frá blogginu og hélt fyrir henni vöku hm nei nei þetta var ekki svo seint. Vona að hún finni síðuna mína. Það er svo langt síðan við höfum heyrt í hvor annari. Þetta bara gengur ekki. Frétti reyndar af henni í gegnum Sigrúnu þá var hún samsíða henni á Reykjalundi. Það reyndar gengur út í öfgar um þessar mundir hvað maður sinnir lítið vinum sínum. Alltaf brjálað að gera en svo hvað? Engin veit hvað lífið verður langt. Á reyndar við alla..Þetta voru smá hugleiðingar.

Og Jón tengdasonur og pabbi hans eru að flísaleggja í Heiðarbæ. Gengur bara vel sýnist mér.Þetta á eftir að koma rosalega vel út. En allt tekur tíma sem er gert fyrir utan reglulega vinnu. En þeir eru megavandvirkir og það er það sem á eftir að standa. Jæja læt þetta duga í bili og látið ykkur nú líða vel elskurnar.
Sú sem telur dagana í flutning!!!!

26.04.2007 22:18

Fúsi ehf.


Já á þessu bloggi mínu hef ég annað slagið verið að tala um vinnuna eða Fúsa ehf. Ég ætla núna að segja ykkur aðeins út á hvað það gengur. Fyrirtækið var stofnað fyrir rúmum tveimur árum og er staðsett að Strandgötu 20 í Sandgerði. Eigendur eru hjónin Sigfús og Erla Jóna og Gunni. Húsnæðið var keypt af Degi Ingimundarsyni og þar var áður fiskverkun Arneyjar. Hann er búin að reynast þeim mjög góður og þau hlusta eftir hans ráðleggingum. Og búið er að ákveða að reisa sandblásturshús og málningarklefa. Megin verkefni Fúsa ehf er sandblástur og málning en eftir að það sameinaðist Sértak ehf (Fyrirtækið okkar Gunna) um síðustu áramót hefur verið farið aðeins út í húsbyggingar. Sérstaklega var það hugsað til að fylla upp í auða tíma.
 
Þeir tímar reyndust svo aldrei miklir og mörg verkefni stór og smá verið hjá fyrirtækinu. Að jafnaði starfa fjórir til fimm hjá okkur en í vetur voru feðgarnir einir um tíma. Þá tel ég ekki okkur Erlu með. En það ætti í raun að gera. Ég sé um að elda fyrir þá og Erla er forkur dugleg og tekur miklar syrpur í að laga til. Svo er hún nokkurskonar bakarameistari..En ef við förum út í titlana þá er Erla forstjóri fyrirtækisins Sigfús framkvæmdastjóri og Gunni stjórnarformaður, jamm.
Einnig hefur hún verið að passa upp á bókhaldið. En Bókhaldsþjónusta Suðurnesja sér um aðalbókhald. En Erla er nýbúin að fara í Tölvuskóla svo kannski kemur að því að hún taki þetta að sér með tímanum. En hún vinnur í Grunnskólanum sem skólaliði (stuðningsfulltrúi) að aðalstarfi.
 
Núna eru Fúsi og co að ljúka við verkefni fyrir Landsvirkjun sem er búið að taka ca 6 vikur. Og í dag var verið að flytja upp í Steingrímsstöð stærstu einstöku hlutina. Lok á einhverja risatúrbínu. Bara sem dæmi þá var hvor hlutur rúmlega NÍU tonn, segi og skrifa níu tonn. Og það þurfti aflmikinn krana og treiler til flutninganna. Ég horfði á aðgerðirnar út um gluggann og var hálfstressuð. Vissi að ekkert mætti fara úrskeiðis. En allt tókst þetta og það var mikið spennufall hjá Fúsa, Gunna og Gumma þegar allt var komið á bílinn og njörvað niður. Úff.
 
En svo er unnið á hinum vígstöðvunum í húsinu við Ásabraut sem er alveg að verða fokhelt..Það er verið að ljúka við þakið. Reyndar er járnið ekki komið á en allt er þetta mikil vinna. En húsið er að taka á sig mynd þó mikið eigi eftir að breyta útlitinu. Það á eftir að klæða gaflana með liggjandi stáli og síðan verður gengið frá innkeyrslum ofl. En reyndar er ekkert farið að spá í sölumál. Það birtist sölumaður og vildi taka þá hlið að sér en það einfaldlega hefur ekki gefist tími í það ennþá. Hvert hús er 156 fm með bílskúr. Ég myndi segja fín stærð. Jæja ætli ég láti þetta ekki duga í bili. Góða nótt.
Sofið rótt í alla nótt..

24.04.2007 13:35

Krían er komin....


Nú er krían komin.. Mummi var að spyrja um kríuna. Hún sást á Hornafirði í gær. Svo þá styttist í sumarið. Og nú fer að styttast í samræmdu prófin í skólunum. Ég var trúnaðarmaður eða svona yfirsetja í fyrra, vorið 2006 í Grunnskólanum í Sandgerði og verð það aftur núna. Prófin standa yfir 2-3-4 og 7-8-9 maí n.k. Svo það er best að taka þá daga frá. Erla frá Menntamálaráðuneytinu hringdi í gær til að minna mig á þetta. Ég var nú að lesa í dag að það ætti að fella niður samræmdu prófin í framtíðinni. O.k það er seinni tíma mál. Þetta verður ágæt tilbreyting hjá mér núna og svo sendi ég vinnudýrin mín á Vitann. Fæ frí frá þeim um leið ha ha.

Og svo vill þannig til að það eru þrír fundir á vegum Verkalýðsfélagsins í þessari viku. Stjórnarfundur var í gærkvöld, aðalfundur á morgun og aðalfundur lífeyrissjóðsins Festu á fimmtudag..Var ég ekki að segja að ég væri hætt í svona stússi. Og nú eru feðgarnir Jón tengdasonur og Kalli pabbi hans byrjaðir á flísalögninni í Heiðarbæ. Eru náttúrulega bara á kvöldin og um helgar en það er orðið bjart til tíu þessa dagana. Ég fer að verða spennt. Og svo fer sturtan að koma frá Sturtu.is. Þeir lofuðu því allavega að hún kæmi seinnipartinn í apríl...

Það gengur vel í húsasmíðinni við Ásabraut en veðrið hefur verið að stríða þeim. Og Litháarnir sem komu með húsinu á vegum verksmiðjunnar eru harðduglegir. Borða líka vel hjá mér sem er gott, ekki er þá maturinn vondur he he. En það gengur upp og niður með pólverjana tvo sem eru í vinnu hjá Fúsa ehf. Gengur ekki nógu vel með þá að mér sýnist. Svona er bara lífið. Læt þetta duga í bili..Látið ykkur líða vel. Kveðjur.. 

22.04.2007 20:24

Kosningar framundan.


Jæja ég hef ekki verið á pólitísku nótunum í eigin spjalli. Kannski búin að fá nóg eftir sextán ára þátttöku í stjórnmálum. En áhuginn hverfur ekki svo glatt.

 Ég hef verið að skrifa mín álit á greinar hjá Sigga Jóns fyrrverandi sveitarstjóra í Garðinum. Mér finnst hann oftast mjög málefnalegur og vissulega trúr sinni stefnu, sjálfstæðisstefnunni. En ég hef alltaf talið mig jafnaðarmann og var einn af stofnendum Samfylkingarinnar hér um árið. Ég hef reyndar verið svolítið misánægð með málflutning þeirra í Samfylkingunni. Flest er samt að mínu skapi. En þeir þingmenn sem ég hef kynnst best eru að hætta á þingi og það finnst mér miður.
 
Þar vil ég helst nefna Rannveigu Guðmundsdóttir sem ég kynntist fyrst sem Félagsmálaráðherra. Það vildi ég óska að hún hefði fengið lengra umboð til þeirra starfa. Þar fer kona með bæði gott hjarta og eldklár. Svo kynntist ég Margréti Frímannsdóttur. Alveg frábær og ef þið ekki þekkið til hennar þá skal ég segja ykkur að hún er bara einstök. Lesið bókina hennar sem kom út fyrir jólin ef þið viljið fræðast meira um konuna.


En víða út á landi eru ekki alltaf hrein framboð einhverra ákveðinna landsmálaflokka í sveitarstjórnarkosningum. Það er þannig hér í Sandgerði. Svo ég ætla aðeins að koma inn á þau fyrirbæri. Hjá okkur hér hefur K-listinn alltaf frá upphafi 1966 verið talinn málsvari jafnaðarmanna þó svo að innan hans væru óháðir, sem í raun voru á sömu nótum. Svo þegar ég byrjaði að taka sjálf þátt árið 1990 sem fimmti maður á lista flokksins þá kynntist ég betur flokksstarfinu sem samt var á landsvísu kennt við Alþýðuflokkinn.

 
Seinna, löngu seinna, var Samfylkingin stofnuð og þá óhjákvæmilega þurfti að stofna ný félög í sveitarfélugunum um nýja jafnaðarmannaflokkinn. Ég beitti mér mikið fyrir stofnun Samfylkingarinnar í Sandgerði og var þá ekki í vafa um að þar væri vettvangur fyrir fólkið mitt úr K-listanum. Var reyndar fyrsti formaður félagsins. En fyrir síðustu bæjarstjórnarkosningar kom í ljós að ekki var eining um að S-listi yrði sameinaður hinum rótgróna K-lista. Í bæjarmálunum hafði Káið verið mitt og á endasprettinum fékk því ekkert breytt. Einfalt mál.


Svo að á K-listanum var mitt 14 sæti í síðustu bæjarstjórnarkosningum og ég er sátt. En það er annað sem ég var ekki sátt við. Það var framganga forystumanna Samfylkingarinnar gagnvart okkur á K-listanum. Og ég veit að ég tala fyrir hönd fjölmargra okkar K-listamanna sem hafa á landsvísu stutt Samfylkinguna.


Og því miður held ég að það teygi anga sína til þessarra Alþingiskosninga..Það hefði verið í góðu lagi að heimsækja K-listann fyrir ári, ræða málin og leggja inn. En, nei það var of hættulegt og þar með var eingöngu farið í vitjun til framboðs S-listans. Af því sýpur Samfylkingin mín kannski seyðið. Vona innilega að það verði ekki. Kveðja til ykkar sem nenntu að lesa þetta..

Silla.

20.04.2007 21:38

Bakið mitt.


Æ þetta bakræksni er að hrekkja mig. Það er nú ekki alveg nýtt en ég hef haft frið fyrir því undanfarin ár. Ég var verst í bakinu á árunum 1982 -86. Fékk svo frið í nokkur ár en var svo skorin upp við brjósklosi árið 1993. En ég held að þetta sé ættgengur and..... því Bjössi er búinn að fara í tvær aðgerðir, Dabbý fór nýlega í aðgerð og Dúna er alltaf mjög slæm öðru hvoru.

En síðasta sunnudag þegar ég var að ryksuga í Heiðarbænum, bogra vitlaust auðvitað kom klikk..Og síðan er ég hölt í annann endan. Reyni að bera mig vel en sjúkraþjálfarinn heldur að ég sé með brjósklos..NEI og aftur nei ég viðurkenni ekki hvað sem er. En ég er mjög slæm í fætinum en kemst svo sem í gegn um dagana. Elda og spá í vinnudýrin mín, sendast fyrir gömlu hjónin, passa barnabörn af og til og er svo búin á því.

Og þegar ég varð fyrst var við þessa óværu var ég bara létt í pundinu svo ekki get ég skrifað allt á yfirþyngd. Ekki er Bjössi þungur eða Dúna. Reyndar eru öll systkini mín mjög nett..Svo nú sit ég við tölvuna mína því mér líður best þannig.
En allavega ekki lengi í einu í sömu stellingu..Þetta eru þankar sem allir þekkja er hafa glímt við svona vesin..Þeir eru margir án efa. Mér dettur ekki í hug að halda að ég hafi það verst.. Nei nei...Hef reyndar haft bjartsýni sem lífsmottó.

Í dag hefur verið rigning og allir í byggingarvinnunni hundblautir og kaldir. En svona er Íslandið okkar. Aldrei vitað hvaða veður verður næsta dag. En Konný tók myndir af Ásabrautarhúsinu og setti inn í myndaalbúmið undir.. Húsin hans Gunna... Svo ef þið hafið áhuga þá kíkið endilega þangað. Nú fer að koma tími á að segja góða nótt við ykkur. Sofið rótt.

 

19.04.2007 13:39

Sumardagurinn fyrsti.



Nú er komið sumar samkvæmt dagatalinu. Og það fraus saman vetur og sumar sem samkvæmt þjóðtrú boðar gott sumar! Svo þá er bara að setja upp sólgleraugun og vona það besta,ekki satt? Mikið er nú gaman að sjá ströndina hjá okkur Wilsonlausa.
Allt orðið næstum eins og áður. En einhver olíumengun varð þegar skipið fór og fuglarnir eiga í erfiðleikum. Ekki gott þegar æðarvarpið byrjar.. Vonandi tekst að hreinsa upp olíuna.

 
Í dag er fínt veður og allir að vinna í mínu umdæmi! Maddý og Gísli farin vestur á firði og mamma og Þórunn Anna í fermingu til Telmu á Akureyri. Við gátum ekki farið vegna anna en ég óska Telmu til hamingju. Hún er sú síðasta til að fermast í fjölskyldunni á þessu ári og næstyngsta barnabarnið hjá mömmu.


Um helgina verður eitthvað unnið í Heiðarbæ og smiðirnir ætla að halda áfram við að klæða loftið. Jón ætlar að byrja að undirbúa eitthvað á sunnudag en hann er í veiðitúr núna með pabba sínum. Hefur líka haft mikið að gera undanfarið. Þetta er gott í bili elskurnar mínar og ....Gleðilegt sumar!



17.04.2007 20:28

Wilson Muuga farinn.....


Nú er hann farinn blessaður. Ég horfði á hann togaðan út og það var frábært. Þetta gekk allt upp hjá björgunarmönnum sem eiga heiður skilinn. Hann eiginlega fór eins skyndilega og hann kom fyrir rétt fjórum mánuðum. Mikið er það nú gott. Enda sagði eigandinn í viðtali í dag að hann hafi fundið að Villa hefði liðið illa þarna og verið líklega illa séður! Svo Wilson renndi  bara rassinum mjúklega til sjávar og yfirgaf okkur við mikinn fögnuð áhorfenda. Svo hann verður ekki til sýnis út um stofugluggann í Heiðarbæ. Og ég er vissulega mjög ánægð með það.Vona bara að hann sigli meira fyrst hann hefur gengið í gegnum allt þetta blessaður. Endilega kíkið í myndalbúmið. Ég tók nokkrar myndir og svo eru margar á síðunni hjá Bjössa bróðir. Hann fór upp í Vita til að taka myndir.

Það gengur vel að reisa húsið við Ásabraut. Allt samkvæmt áætlun, ágætt veður og spáir vel í bili. Nóg að gera við að fóðra mannskapinn. Erla Jóna bakaði heilan helling af kökum. Það er í rauninni gert allt til að þeir hafi það sem best. Ég fór til Lindu í dag og Konný kom í heimsókn í vinnuna með guttana. Svenni og Inga úr Grindavik komu við. Þau voru að koma með húsbílinn sinn í viðgerð og Fúsi eldri var með þeim.

Ég fór með Jóhönnu tengdó á spítalann í gær og hún var lögð inn. Var með vatn í lungum , bjúg og mikla mæði kerlingaranginn.
Kannski hún minnki eitthvað reykingarnar..kannski borin von. Ég fór aðeins til hennar í morgun. Þá var verið að taka hjartalínurit ofl.
Ég segi þetta gott í dag. Hafið það sem best.

15.04.2007 09:37

Fuglasöngur..



Jæja nú vaknar maður við fuglasöng svo það hlýtur að fara að koma vor. Það er tjaldur hér út um allt og fleiri tegundir eru að láta heyra í sér. Nú er sunnudagur og ég þarf ekki að elda í liðið mitt. Ekki nema okkur Gunna og ef veðrið helst þokkalegt þá grillum við í kvöld. Það hefur verið nóg að gera undanfarið og 15 manns voru í mat hjá mér í gær..Jæja ég meina samtals bæði í hádegis og kvöldmat. Það er verið að byrja að undirbúa að reisa á Ásabrautinni og það eru Litháar sem fylgja frá verksmiðjunni og sjá um að allt sé eins og það á að vera.

Hannes hefur verið að hjálpa okkur í Heiðarbænum hverja frístund undanfarið. Gunni hefur verið fastur í öðru en í dag höfum við tíma. Jæja það er komin miður apríl og tíminn flýgur áfram. Við sem ætluðum að vera flutt í maí. En það kemur bara í ljós hvort það tekst.

Nú er Bandaríkjafólkið, brúðhjónin og fleiri farin að telja dagana og það þarf að fara að hnýta alla lausa enda. Það stendur til að fara í smá ferðalag um Suðurland og við erum að leita að gistingu eina nótt í ferðinni. Vildum helst vera undir Eyjafjöllum eða þar um slóðir en það er erfitt að ná sambandi við suma þjónustuaðila. Eru kannski enn í vetrarsvefni.
En það verður að komast á hreint sem fyrst.

Jamm og jæja í þetta sinn. Fleira seinna.

13.04.2007 22:49

Að telja upp á tíu..


Ég er alveg brjáluð..nei segi nú svona en...Það eru heilbrigðismálin eða réttara sagt læknamálin í þjóðfélaginu.
Tengdaforeldrar mínir eru bæði veik. Sigfús búin að vera mikið veikur með flensu eða bronkítis. Bara mikið lasinn karlgreyið. Svo er hún (Jóhanna) orðin svo veik að hann svaf ekkert sl. nótt út af áhyggjum af henni. Hún á erfitt með að anda þegar hún leggst út af. Þau eru búin að hafa samband við lækna á heilsugæslunni, fyrst vegna hans og þá átti hann að koma með þvagprufu annars væri ekki hægt að ávísa sýklalyfjum og sama með hana, bara koma á heilsugæsluna og bíða eftir að fá að tala við lækni.

 Þarna kem ég loks að efninu. Þvílík afturför frá því hægt var að fá lækni til að koma heim og meta ástandið. Ég hringdi áðan og talaði við lækni á vaktinni og það var það sama..bara panta sjúkrabíl og koma með þau..Ég sagði honum öskuvond að mér fyndist að læknir ætti að koma heim til þeirra. Hann ætti að meta hvort þau þyrftu að fara á sjúkrahús með hraði. En nei tad er ekki tannig sagði hann blessaður. Vid ekki koma heim.....Ég veit að þetta er ekki honum að kenna og ég veit líka að maður á að telja upp á tíu áður en maður segir eitthvað. en..kostar það þjóðfélagið meira að læknir komi í vitjun nokkra kílómetra leið heldur en kalla út allt sjúkragengið.
 Nú eru það því orðin forréttindi að vera á dvalarheimili eða hjúkrunarheimili því þar er þó læknir til staðar á vissum tímum. Svo er verið að tala fagurlega um að fólk fái að eyða síðustu æfiárunum heima. Já já..
Ég tala ekki bara út í loftið, ég var búin að vera það mörg ár í stjórn D.S.

En ég ætla að reyna að skrifa um eitthvað annað allavega meðan þau gömlu hringja ekki. Þau vilja sko ekki fara í sjúkrabílinn..skiljiði..
Það var mikið að gerast í Heiðarbænum. Áfram smíðað og Hannes að hjálpa okkur.Svo kom Fúsagengið að austan og allir glorhungraðir.Svo ég hafði nóg að gera í eldhúsinu og við hjúin komum ekki heim fyrr en að verða tíu.
Svo er auðvitað unnið á morgun svo ég tók út þessa fínu ýsu handa liðinu..
Jæja ég er að ná mér niður..Sofið rótt.

11.04.2007 10:10

Umhleypingar..

 
Jæja veturinn er ekki búinn enn. Í gær var bara komið vor en núna er hífandi rok og rigning. Reyndar snemma í morgun um kl.sex var svo fallegur himininn og næstum logn. Já himininn var rauðglóandi og sólin að koma upp fyrir fjórum tímum!
Er ekki sagt, morgunroðinn væti..kvöldroðinn bæti? Eða hefur maður það bara eftir því sem maður óskar eftir í hvert sinn. Jæja það var steypt plata á þríbýlishúsinu við Ásabraut í gær. Og nú eru strákarnir (Fúsi ,Gummi og tveir pólverjar) farnir upp í Steingrímsstöð að taka saman eftir sandblásturinn og málninguna. Það er svona aðeins til umhugsunar að þeir hafa verið að gera upp eina af elstu virkjunum landsins svona mitt í allri umræðunni um virkjanir. En það er víst nokkurra daga vinna að taka allt niður eins og að setja það upp. Allt er þetta upp frá unnið fyrir Landsvirkjun. Gunni er í sendingum á vörubílnum með einhver risatæki sem voru unnin í Sandgerði hjá þeim og koma við á leið sinni til virkjunarinnar í Héðni eða einhverju slíku fyrirtæki (renniverkstæði). Svo það er nóg að gera og ég veit ekki hvort nokkur verður í mat í dag hjá mér. Þess vegna er ég svona sallaróleg. Ég hef verið að dunda mér undanfarið í Heiðarbænum en Gunni hefur ekki komist nema á páskadag. Allt hefur sinn tíma og þýðir ekkert að vera að skæla yfir því. 

Ég er í sjúkraþjálfuninni á fullu og fer annann hvern dag. Það gerir mér pottþétt gott og bætir þessi lappagrey sem hafa reyndar ekki náð sér að fullu eftir brotin fyrir þrem og fjórum árum..plús úlnliðsbrotið..En ég er á góðri leið.
Jæja núna er ég að bíða eftir póstinum áður en ég fer inn í Fúsa ehf. Pósturinn kemur flesta daga milli tíu og ellefu. Þá fæ ég Moggann minn (málgagnið hans Sigga ha ha). Mér finnst hann reyndar líka fínn og finnst vanta eitthvað ef ég fæ ekki blaðið annaðslagið ,allavega. Reyndar var ég umboðsmaður í fimm ár og bar út í miklu fleiri ár. Við þá iðju ökklabrotnaði ég hjá Halldóru á Flankastöðum þegar ég var að hlaupa í skarðið fyrir Jóhönnu. Ekki get ég samt argast út í Moggagreyið!!

Jæja nóg af bulli í bili börnin mín!!! Bestu kveðjur..

08.04.2007 22:15

Í Miðtúni 6..


Hæ ..Við vorum boðin í páskamat að Miðtúni 6 í Sandgerði hjá Fúsa og Erlu. Jóhanna og börn líka.
Það var extra flott og nú erum við komin heim í kotið...
Ekki í Heiðarbæinn en það kemur seinna..
Við vorum að vinna í húsinu í dag og ég held að 25 manns hafi komið að skoða og okkur líkaði það vel ..en vorum lengur að verki fyrir bragðið. Ok vorum að festa wc og fl. Ég var endalaust að ryksuga og laga til og held að það verði líka tími á morgun ..Og þetta hefst á endanum og þá ætla ég að  bjóða vinum mínum og velunnurum í heimsókn.
Nóg í bili elskurnar mínar..

07.04.2007 21:00

Heiðarbærinn


Jæja, kannski verður nú tími fyrir húsið okkar um páskana.
Ekki förum við neitt núna og ætlum að vera bara uppi í húsi eins og við segjum þegar við vinnum í því.
 Gísli ætlar að hjálpa okkur að hreinsa leinirinn af öllu grjótinu sem þar grófst upp því það er betra að gera það áður en mesti gróandinn byrjar. Ég held að ég verði að kaupa grasfræ til að sá í sárið.

Í dag kom Gunni með fyrstu húsgögnin okkar, sófa og hluta af sófasettinu. Gott að fá það heim í Heiðarbæinn..
Þeir kapparnir voru að vinna til sex og það er ekki slegið af í Fúsa ehf..Og eins og þið hafið heyrt þurfa þeir mat sinn og engar refjar..Svo ég fór og eldaði fyrir þá blessaða annars hefðu þeir orðið hungurmorða allir 5...
En nú eru páskar og engin að vinna á morgun nema við í Heiðarbænum...
Ég ætla samt að sofa til a.m.k 10.00. Gunni er svo árrisull að hann verður örugglega farinn á undan mér upp í hús..

Góða nótt, sofið rótt.

06.04.2007 16:27

Spennufall.

 
Hæ í dag var ég bara löt. Ferming Ástrósar yfirstaðin og fór vel fram. Veislan tókst vel og ekki að heyra (og sjá) annað en fólki líkaði matföngin. Það var nóg til af öllu og við vorum í rest hjá Jóhönnu í dag. Það voru um 100 manns í fermingarveislunni.Svo nú er bara spennufall hjá mér. Í dag er föstudagurinn langi og Linda, Hrafntinna og mamma komu í heimsókn áðan. Þær fóru í kirkjugarðinn og voru að snudda við leiðið hans pabba. Mamma fór svo út að taka myndir í sólinni af húsunum og umhverfinu.
Hún sagði okkur að þau pabbi hefðu á föstudaginn langa 1945 ákveðið að rugla saman reitum og þetta er því mikill merkisdagur fyrir hana. Og kannski ekki síður fyrir okkur þessa stóru fjölskyldu sem væri bara ekki til ef það hefði ekki gerst....Þau eignuðust sex börn og afkomendurnir eru orðnir 67. Mamma er einbirni svo hún bætti heldur betur við í sínum ættlegg. En eins og ég sagði áður dó pabbi fyrir tíu árum .Hann var tæpum 12 árum eldri en mamma fæddur 1914 en hún 1926. Hún er sem sagt áttatíu og eins árs og þvílíkt í góðu formi. Það sem háir henni er heyrnin. Heyrir rosalega illa. En viðkvæðið hjá henni er að það sé nú í fínu lagi hún hafi svo góða sjón. Ekkert væl nei nei. Ég held að hún telji sig heppna í lífinu en fyrir utan pabba hefur hún séð á eftir einni dóttur, henni Möggu árið 2005 og drengnum hans Bjössa, honum Sigga. Það var rosalegt áfall, því hann var aðeins 18 ára og lést í bílslysi árið 2005. Þau tvö dóu með tveggja daga millibili. En mín kona lætur ekki biturð krækja í sig og sér björtu hliðarnar á lífinu.

Að öðru, Eiríkur kom í stutta heimsókn frá Danmörku. Hann fór í morgun. Var að setja bílinn á sölu og ætlar að kaupa annann úti. Hann fær víst einhverja ofurskatta ef hann heldur þessum bíl. Hann var duglegur að hjálpa og sendast í gær og sagðist vera að leggja inn.. ha ha. Hann á son Þorstein Grétar sem fermist á næsta ári. Krakkarnir í fermingarveislunni lögðu inn fullt af pöntunum á róbótum hi hi. Hann er í námi í  rafmagnsverkfræði með róbótanám í framhaldi. En ætli þeir spretti nú fljótt upp. En námið gengur vel og hann var með þeim hæstu í bekknum í vetur. Háskólinn er í Söndeborg á Jótlandi.

Jæja næsta mannfagnaðartörn verður þegar David og Stacey gifta sig þann 26. mai. Koma hingað 19.mai með hóp af fólki. Þá verður fjör á bæ....
Góða Páskahelgi kæru vinir....

04.04.2007 23:15

Stund á milli...



Jæja ég var að koma heim rauð í framan eins og epli.Var á fullu í matargerð og slíku. Nú er bara að ná sér niður fyrir svefninn ha ha.
Og á leiðinni heim blasti Wilson vinur við allur upplýstur og mikið um að vera þar. Svo það hefur verið rafstöð sem þyrlan var að flytja út í hann um daginn.
Jæja stóri dagurinn hennar Ástrósar fer að renna upp. Hún verður fermd klukkan 10.30 í fyrramálið í Safnaðarheimilinu í Sandgerði. Mér hefði nú fundist flottara að fermast í kirkjunni á Hvalsnesi en svona er þetta bara. Meirihlutinn valdi Safnaðarheimilið. Ástrós sjálf hefði kosið kirkjuna en ég held að það hafi fáir viljað það svo...Annars er þetta í fínu lagi.

Sigfús syngur í kórnum, ekki verra að eiga móðurbróður sem syngur fyrir fermingarbarnið. Annars var svolítið skondið um daginn. Það var verið að jarða tengdaföður Sigfúsar frá Keflavíkurkirkju og kór Hvalsneskirkju sá um sönginn. Sá gamli hafði beðið Sigfús að syngja yfir sér og allt gott um það að segja.
Hann var einnig líkmaður og sem slíkur gekk inn í byrjun athafnar. Stóð svo næstum strax upp og stormaði fram gólfið. Þeir sem ekki vita að hann syngur í kór hafa efalaust orðið hissa. Hvað var hann að æða í burtu og verið að jarða vin hans og tengdapabba. Já það er ekki alltaf allt sem sýnist.

Það er orðið dulítið framorðið og stendur til að vakna snemma.
 Svo góða nótt til ykkar allra.

03.04.2007 13:26

Allt á fullu...

 Jæja nú er allt komið á fullann skrið hjá mér og Jóhönnu .Taka úr frysti, skrifa niður það sem vantar :skipuleggja...
Það voru bara óvenjumargir í mat hjá mér áðan í Fúsa ehf. Við vorum átta samtals. Þó var Fúsi fyrir austan fjall.
Erla Jóna vinnur af krafti með þeim núna og í morgun var Ísar frændi að hjálpa tíl.

Og það er víðar nóg að gera. Það er fjöldi manna við Wilson Muuga að vinna. Þeir eru að koma með mikið af allavega farmi sennilega dælum pressum og fleiru. Ég held að það verði byrjað á fullu eftir páskahelgina. Já það er óskandi að björgunaraðgerðirnar takist.

Það þýðir ekki að hanga í tölvunni núna. Hlutir gerast víst ekki af sjálfu sér.
Hugsið vel um ykkur..
Flettingar í dag: 47
Gestir í dag: 11
Flettingar í gær: 58
Gestir í gær: 17
Samtals flettingar: 97200
Samtals gestir: 19700
Tölur uppfærðar: 19.3.2024 07:02:56