Færslur: 2010 Janúar

15.01.2010 09:04

Janúarkveðja.


Góðan dag vinir og ættingjar um allan heim.

Tíminn líður hratt og janúar er hálfnaður. Skil bara ekkert í þessu. Þetta er bara eins og augnablik. En kannski af því alltaf er nóg að stússa. Og ekki leiðist manni á meðan. Það hefur verið ótrúlega gott vetrarveður hér meðan snjór og stormar geisa beggja vegna Atlantshafsins. Flott gönguveður flesta daga. 

Nú eru rúmir tveir mánuðir frá því mamma kvaddi okkur og enn finnst mér það skrítin tilfinnig. Við Bjössi skruppum aðeins í íbúðina hennar í gærkvöldi..Það er nú bara eins og hún hafi aðeins brugðið sér frá. Systur mínar og Anna Margrét koma um næstu helgi og þá förum við saman yfir þetta.

Við kíktum aðeins í myndaalbúmin og Bjössi skannaði nokkrar myndir. Þar liggur heill fjársjóður minninga, í albúmunum hennar mömmu. Eins og áður þá bendi ég ykkur á Bjössa síðu. Á næstunni held ég að hann setji inn svona myndir í eldri kantinum

En annars er allt gott að frétta og sömu rólegheitin hér í sveitinni..Einstaka dag er brimhljóð og svo verð ég vör við þegar landinn fer til útlanda í flugvélum.emoticon

Hef þetta ekki lengra.
Góðar stundir.
Ykkar Silla.

03.01.2010 15:16

Gleðilegt nýtt ár.


Sæl verið þið öllsömul.
Nú er nýtt ár gengið í garð. Vonandi gott fyrir okkur öll. GLEÐILEGT ÁR. TAKK FYRIR GÖMLU.

Við í Heiðarbæ erum búin að vera löt yfir hátíðarnar en nú tekur hið venjulega við. Reyndar erum við búin að vera nokkuð dugleg að fara í gönguferðir og síðustu dagar hafa verið einstaklega fallegir.

Það var rólegt hjá okkur á aðfangadagskvöld. við vorum bara þrjú hér. Sóttum tengdamömmu og hún var hér til 10 um kvöldið. Það var lengri tími í stopp heldur en í áraraðir. Á jóladag vorum við í mat hjá Fúsa. Þriðji í jólum var sunnudagur og þá komu dæturnar Jóhanna, Konný og Linda með sitt fólk.Mættu hér klukkan þrjú og svo var spilað við börnin. Bræðurnir Gunnar og Ágúst Sigfússynir mættu svo í matinn.. Arnar Smári sonur Konný datt beint á vörina og voru saumuð 5 spor. Þetta leit illa út og ekki var mikil matarlist í hópnum. En betur fór en á horfðist.

Á gamlaárskvöld vorum við fimm í mat. Jóhanna og Ástrós og Benni frændi voru hjá okkur. Hann er einn heima um þessar mundir en Ölli bróðir hans er í Flórida í húsinu sem hann og Maddý eiga saman. Við spiluðum og horfðum á skaupið og þetta var mjög notalegt. Skruppum svo til Fúsa og Erlu um miðnættið til að horfa með þeim og fleirum á flugeldana..

Svo eins og ég sagði, nú byrjar þetta daglega amstur. Vona að árið beri bjartari tíma með sér.

Hafið það sem best vinir, nær og fjær.
Ykkar Silla.
  • 1
Flettingar í dag: 47
Gestir í dag: 11
Flettingar í gær: 58
Gestir í gær: 17
Samtals flettingar: 97200
Samtals gestir: 19700
Tölur uppfærðar: 19.3.2024 07:02:56