Færslur: 2009 Október

31.10.2009 21:42

Næturvinna.


Sæl öll vinir mínir.
Nú sit ég í vinnunni í Sandgerði og ákvað að nota auðan tíma til að skrifa smávegis. Venjan er nú ekki á þessum tíma að vera vinna frameftir. En það kom upp dæmi sem þurfti að leysa strax og þeir verða fimm að vinna í alla nótt. Eru að taka í gegn tank í Helguvík (hélt reyndar fyrst að þetta væri í Örfirisey þar eru þeir stundum líka) sem þarf að vera tilbúinn fyrir olíu á mánudag. En þegar þarf að vinna  á þessum óvenjulega tíma þá þarf líka að gefa þeim orku..mat og í því er ég. Matur klukkann tólf á miðnætti!

En annars er allt bara gott að frétta..Meðan fyrirtækið hefur vinnu erum við alsæl. Þetta er ekkert verra núna en hefur verið þessi 4 og hálft ár sem þeir hafa unnið við þetta. Veturinn er rólegi tíminn,sumrin fjörugri. Vona bara að fari aðeins að birta til í atvinnulífinu svona almennt.

Nú eru Maddý og Gísli farin til Flórida og Fúsi og Erla eru úti hjá þeim núna. Þau koma heim í næstu viku. Það eru ekki allir sem komast út á þessum tímum og bara frábært að geta leyft sér það eftir streðið í sumar.
Enhverntíma í haust förum við í hálfan mánuð :o)) Segi frá því seinna..

En allir eru heilsuhraustir..Smáflensur hér og hvar en engin fengið Svínaflensu enn sem komið er..sem betur fer.

En læt þetta duga og hafið það sem allra best.
Ykkar Silla.




24.10.2009 21:30

Perlan.


 Sæl öll kæru vinir mínir.

Ég hef svo sem eitt og annað að segja. Viðburðaríkir dagar að baki. David og Stacey fóru í dag og þessir tíu dagar liðu hratt. Þau voru í spes erindagjörðum sem ég segi kannski frá seinna. Þau gistu hjá okkur fyrstu dagana en síðan hjá Maddý og Gísla í Reykjavík og hér í Glaumbæ.


Toppurinn á þessu var Perlan..Ýmsir hafa horn í síðu Davíðs Oddssonar en þessi hugmynd og framkvæmd hans í sambandi við Perluna mun lifa. Hann lét hanna og byggja hana þegar hann var borgarstjóri. Við komum þar fyrst á 25 ára brúðkaupsafmæli okkar árið 1992.

Síðan erum við búin að koma fjórum sinnum þarna. Þrjú af þeim skiptum hafa verið með útlendingum sem virðast hafa mjög mikinn áhuga á Perlunni og öllu sem henni tengist. 

Ég hitti frænku mín hana Sigríði Björg dóttir Huldu frænku..Hulda er dóttir Jónu systi pabba..Það var óvænt og gaman..Kveðja frænka mín!!!

En allt gengur annars nokkuð vel..Fyrirtækið hefur vinnu ennþá..Alltaf fellur eitthvað til sem heldur þeim gangandi..Enn sem komið er..Sem betur fer!!

Fúsi og Erla eru úti. Þau eru í Húsi Maddý og Ölla í Flórida. Reyndar núna í Nashville hjá frænku Erlu. Gott fyrir Fúsa eftir allt streðið í sumar. Segir mamman ;o))

En allra bestu kveðjur til ykkar.
Silla.






14.10.2009 15:40

Gestakoma.


Góðan daginn gott fólk.

Nú erum við búin að fá David og Stacey í heimsókn. Það eru vinir okkar frá Atlanta í Georgíu. Þau giftu sig hér í Hvalsneskirkju fyrir rúmum tveim árum. Þau komu eldsnemma á mánudagsmorgun en verða nokkra daga í Reykjavík hjá Maddý og Gísla. Það hefur verið mikil samgangur milli okkar allra þriggja hjóna undanfarin ár. En við kynntumst David 1990 þá 29 ára strák! Hann var sendur frá fyrirtækinu sem hann vann hjá til að uppfæra malbikunarstöðina hjá Gunna. En nú er sá vinnustaður (Malbikunar og steypustöðin) ekki lengur starfræktur.. Þegar maður keyrir Hafnaveginn framhjá stöðinni er ansi eyðilegt um að litast.

En það hefur verið líflegt hérna enda krakkarnir að kíkja í heimsókn og heilsa upp á þau. Stelpurnar mínar hændust að David þegar þær voru litlar enda er hann mjög barngóður. Ég veltist um af hlátri þegar ég sýndi þeim sviðahausana sem ég var með í matinn í dag..Svipurinn! Enda kannski ekki skrýtið.. En annars elska þau íslenska matinn og kaupa sósur og skyr til að fara með heim. Svo er kaffiframleiðsla Kaffitárs þeim mjög hugleikinn og það eru keyptir margir pokar af kaffi. Og ég er nú sammála því að það er betri matur á Íslandi en í Bandaríkjunum.

Við skruppum í Reykjavík í gær við þrjú. Fórum í 66°norður og þau keyptu líkt og Íslendingar í Ameríku!! Þau eru svo hrifin af þeim vörum. Og eru að kaupa jólagjafir fyrir fjölskylduna. Það er merkilegt hvað maður venst á að tala enskuna þegar maður þarf á því að halda. Stirður fyrst svo kemur þetta. Ekki er hægt að tala bara íslensku sem gestirnir skilja ekki. Annars er David orðinn nokkuð klár í einstökum orðum. Stundum erfitt að bera fram orð eins og hraðahindrun :)

En um síðustu helgi fórum við með starfsfólk Fúsa ehf í Reykjavík. Við gistum á hóteli og vorum fjórtán saman. Það var verið að gera sér dagamun eftir törnina í sumar. Erla Jóna skipulagði og við vissum ekkert fyrr en kom að því að fara eitt og annað. Við fórum í Keiluhöllina þar sem fólk skemmti sér vel. Við fórum á Askinn fyrra kvöldið og löbbuðum síðan heim á hótelið. Á laugardegi var farið í Perluna og skoðað Sögusafnið og síðan í Kolaportið! Aðalmálið var síðan kvöldverður á Hereford á Laugavegi..Þetta heppnaðis glæsilega og færði eigendur og starfsfólk (eigendur eru reyndar starfsfólk líka!) mikið saman.

En ætli ég láti ekki staðar numið að sinni.
Hafið það sem allra best.
Silla. 

05.10.2009 13:34

Snjókorn falla...

Sælir vinir mínir..

Nú eru snjókorn að falla..Veturinn við hornið greinilega. Reyndar bráðna þau við jörðina ennþá. Ég var nú að vona að það kólnaði ekki strax. En við búum á Íslandi og svona er þetta bara.

Lilja Kristín tengdadóttir okkar varð fertug í gær. En það var of langt að skreppa í afmæliskaffi til Danmerkur svo síminn varð að duga. En þau gerðu eitthvað til hátíðabrigða og eru bara hress heyrist mér. 

Bjössi er kominn heim úr tíu daga Flóridaferð og það eru komnar nýjar myndir á síðuna hans..Það er ágætt að geta aðeins brugðið sér af bæ..Hann vinnur mikið hann Bjössi og þetta hefur verið kærkomið. 

Ásrós Anna kom í helgarfrí að norðan um helgina. Hún er í VMA á Akureyri. Ég reikna nú alveg eins með að hún fari næstu önn í FS..Fjölbrautarskóla Suðurnesja. Hún hefur samt haft gott af eins og allir að standa aðeins á eigin fótum.

Ég er að elda fyrir strákana mína flesta daga og var að því í morgun. Mér finnst bara gaman að því og ekki verra að verða vör við matarást :o)

Svo er ég í Átak líkamsræktarstöðinni tvisvar í viku og það er mjög gott. Ég er svo að skreppa fyrir mömmu og tengdó annað slagið..Gott að vera svona á lausu :o)

Hilmar og Guðbjörg komu í gær með börnin..Þau koma alltaf annað slagið og krakkarnir farnir að kalla mig ömmu.. Bara gaman..Svo er kisan þeirra grafin í dýrakirkjugarðinum hér fyrir og þau kíkja þangað..

Ég læt þetta duga í bili..
Eigið góðar stundir.
Ykkar Silla.
  • 1
Flettingar í dag: 73
Gestir í dag: 20
Flettingar í gær: 43
Gestir í gær: 11
Samtals flettingar: 101005
Samtals gestir: 20412
Tölur uppfærðar: 18.4.2024 18:46:48