Færslur: 2008 Október

31.10.2008 22:16

Atvinna.

emoticon
Góða kvöldið öll sömul bæði nær og fjær.

Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur. Gamalt og gott máltæki sem á við um svo marga hluti. Og núna þegar fólk missir atvinnuna í þúsundatali eru örugglega margir sem hugsa eitthvað í þessa áttina. Um þessi mánaðarmót veit ég um tvær mjög nákomnar mér sem hafa fengið uppsagnarbréf. 

Ég heimsótti þær báðar í dag. Önnur er Lilla vinkona og hin er Konný dóttir mín. Lilla er svo heppin að eiga þriggja mánaða uppsagnarfrest og í apótekinu var einnig annari sagt upp sem hafði unnið stutt. Þar var farið eftir starfsaldri. En Konný sem er búin að vinna tæpt ár á Vitanum á bara mánuð í uppsagnarfrest. Það er þeim mun erfiðara að kyngja því hjá henni að hún átti aðeins einn mánuð annann eftir í vinnu fram að því að hún hætti vegna þess að hún er ófrísk. Þetta skerðir að líkindum fæðingarorlofið hennar fyrir utan allt annað. Maður veltir fyrir sér siðfræði nú um stundir. En ekki orð um það meir.

En svo verðum við líka að líta á að þó erfitt sé að missa vinnu þá er ýmislegt svo miklu verra. Bára frænka hans Gunna var að missa dóttur sína hana Lindu. Hún var 49 ára og það er mikil sorg hjá gömlu konunni að sjá á eftir dóttur sinni sem var reyndar fyrirvinnan á heimilinu. Bróðir hennar Donald er atvinnulaus. Þau bjuggu þrjú saman og það eru myndir af þeim í albúminu mínu frá því við fórum til LA í janúar s.l.

Svo er Gunni Þór frændi Gunna búinn að standa í ströngu eða réttara sagt konan hans hún Stína. Hún fékk einhverskonar heilaæxli (sjaldgæfan sjúkdóm) og hún þurfti að fara út til Stokkhólms í mikla aðgerð. Hún er nú komin heim eftir um það bil tvær vikur úti og liggur á spítala hér heima í einangrun eftir því sem Gunni sagði okkur. Gangi þeim allt í haginn en aðgerðin gekk að vonum.

Svo peningar og peningaleysi..þar með talið atvinnumissir er ekki verst þó vont sé. Alltaf getum við og verðum að sjá ljósið. Annað er ekki til umræðu. Við vorum að tala við Eirík rétt í þessu sem berst við blankheitin eins og aðrir fjölskyldumenn í námi erlendis.

Svo að lokum sendi ég ykkur öllum bestu kveðjur hvar sem þið eruð á jarðarkringlunni. Í Flórida ....í Los Angeles.... í Danmörku....á Spáni..... (S og A).... á Norðurlandinu og bara alls staðar elskurnar.
Góða nótt.emoticon.
Ykkar Silla.

29.10.2008 11:08

Úr landi.

emoticon
Hæ hæ og góðan dag. Nei ég er ekki flúin úr landi..nei nei. En Maddý og Gísli eru farin af landi brott. Þau eru heldur ekki flúin. Eru bara farin til Flórida í húsið sitt í Epplagötu í Jacksonville. Þau fóru í gær og ég hefði alveg getað hugsað mér að vera samfó.

Reyndar fékk nú Gunni ferð þangað (fyrir okkur bæði og heim aftur) í afmælisgjöf í síðasta mánuði (60 ára) svo það gæti vænkast hagurinn eitthvað. Það væri nú ekki amalegt að kíkja í Epplagötuna og hitta svo Dísu og krakkana og David og Stacey sem örugglega munu kíkja niðureftir. Það er sex tíma keyrsla frá þeim í Atlanta til Jacks. 

En þetta kemur allt í ljós. Vonandi fer gengið að verða stöðugra. Þetta ástand hjá okkur er skelfilegt. Vextir Seðlabankans komnir í 18% og hvað gerist næst. En mikið þótti mér vænt um að heyra að Færeyingar vinir okkar ætluðu að leggjast á árarnar með okkur. Ég gleymi aldrei aðstoðinni frá þeim í Vestmannaeyjagosinu 1973. Vonandi getum við einhverntímann rétt þeim hjálparhönd. Þeir hafa alltaf verið vinir okkar. En stundum hefur mér fundist Íslendingar sýna þeim tómlæti. Og margir hafa aldrei farið til Færeyja þó þeir hafi kannski farið alla leið til Ásralíu eða til annarra fjarlægra landa.

Það er verið að segja upp fólki atvinnunni til hægri og vinstri. Líka hér í Sandgerði. Það er allt betra en atvinnuleysi..Vona að börnin mín komist í gegn um þessa lægð ..Og það þýðir ekkert annað fyrir okkur en vera bjartsýn...

En brosum nú og knúsum hvort annað.
Kveðja úr Heiðarbæ.


25.10.2008 10:18

Vetrarbyrjun.

emoticon
Heil og sæl. Þá er vetur konungur genginn í garð samkvæmt dagatalinu. Og ekki hefur verið skortur á fréttum af veðri. Ófært í flugi um landið og fleira. Í fyrrakvöld urðu flugvélar að lenda á Egilstöðum í stað Sandgerðisflugvallar!! En veðrið í fyrrinótt fór fram hjá mér því ég gisti í Reykjavík og þar virtist ekki vera neitt að veðri..En í þessum stóru húsum finnst nú líklega minna fyrir veðri. Allavega finnum við vel fyrir veðrinu hér í Heiðarbæ. En það er nú stundum bara notalegt í hófi. En í dag er bara blíða..

Ég var í bænum eins og ég sagði á ársfundi Alþýðusambands Íslands. Þessi fundur var nú haldinn í skugga bágrar efnahagsstöðu landsins okkar því miður. Og auðvitað sást það á fólki. Þó var reynt að halda uppi smá glensi inn á milli. En aðaláherslan var á að gæta þess að þeir sem minnst mega sín yrðu aðstoðaðir eins og í sambandi við húsnæðislán og fleira í þeim dúr.

Yfirskrift fundarins var ákveðin fyrir mörgum mánuðum og var Áfram Ísland fyrir unga fólkið og framtíðina. Ekki átti það síður við núna þó að efnahagsmálin væru fyrirferðarmest. Svo var kosinn nýr forsti sambandsins. Gylfi Arnbjörnsson er nýr forseti og var Grétar Þorsteinsson kvaddur eftir tólf ára setu. Grétar er mjög ljúfur maður og hefur staðið sig vel, þó ekki hafi farið fyrir miklum hávaða hjá honum. Reyndar er hann frændi minn og við höfum verið að spjalla saman um ættina okkar Lækjabotnaætt.

Ég hitti eins og oft áður mág minn Eið Stefánsson á fundinum. Einnig Konráð bróðurson Gunna. Ekki veit ég hvort þeir hafi komist heim vegna veðurs fyrir norðan og austan. En ég hef heyrt að það viðri illa þar í bili.

En í dag ætlar að vera hjá mér Vilmundur Árni. Mamma hans er að vinna og löng helgi hjá honum. Veit ekki um Garðar Inga hvort hann kemur líka eða verður heima hjá systir sinni eða fer til frænku sinnar eða ömmu í Sandgerði. Auðvitað vill hann eyða frítímanum í nágrenni við vini sína svo það kemur í ljós í dag.

En ég læt þetta duga í bili. Góðar kveðjur úr Heiðarbæ.
Silla.


21.10.2008 20:51

Innlit vina.

emoticon
Hæ öll! 
Þessir dagar undanfarið hafa verið óraunverulegir svo ekki sé meira sagt. En þar með er ekki sagt að við séum fallin í einhverja sorg Íslendingar..NEI..NEI..NEI.. Við gefumst ekki upp þó á móti blási. Og þvílíkt hvað það yljaði mér um hjartarætur að heyra í vinum frá Færeyjum í útvarpinu í dag.

Og ég sem bæjarfulltrúi Sandgerðisbæjar í tólf ár (1994-2006 ) er furðu og skelfingu lostin. Hef áhyggjur af málunum. Ég hugsa um innstæður Sandgerðisbæjar í Sparisjóðnum og fleira..Þið vitið það sem að lesið bloggið mitt hér að ég tala yfirleitt lítið um mitt bæjarfulltrúatímabil. Kannski meðvitað og kannski ómeðvitað. 

Ekki þannig að þeir tímar hafi verið slæmir. Aldeilis ekki. Þetta eru held ég bestu tímar ævi minnar fyrir utan fjölskyldulífið sem allir hljóta að sjá að eru bestu stundirnar. Ég hef það á tilfinningunni að ég hafi gert góða hluti fyrir Sandgerðisbæ og yfir því er ég glöð. Ég held ég hafi þar (í þessu samfélagi bæjarstjórnar) einnig eignast mína allra bestu vini. Auðvitað eru ekki æskuvinir mínir þar meðtaldir eins og Maddý og Gísli, Sigrún og Alli, Mummi G. Hulda Kristjáns og fleiri. 

Þessir vinir úr bæjarvinnunni verða hér ekki upp taldir. En þeir vita það þessar elskur við hverja er átt. Og ég vil hér þakka þeim fyrir virkilega góða vináttu.

En það sem ég ætlaði að tala um sérstaklega er innlit á bloggið mitt. Sumir ..flestir skrifa í athugasemdir (comment). En nokkrir skrifa í Gestabókina. Og þar hafa skrifað margir sem ég hef ekki hitt lengi. Þóra Kjartans..Sigrún. Sibba..Svandís..Lillý..Guðbjörg..Sævar..og öll þið elsku vinir sem væri of langt mál að telja upp. En mig langar samt að nefna það að það gladdi mig mikið að fá kveðju frá minni gömlu og góðu vinkonu Hönnu Þóru sem ég fékk í gær. 

En að endingu vil ég segja: Lifið heil og takið utan um hvert annað..Það er alltaf jafn áríðandi.
Bestu kveðjur úr Heiðarbænum.
Silla. 

16.10.2008 21:16

Vegamæling.

emoticon
Já nú er það mál málanna. Vegamæling. Nú er nýi Ósabotnavegurinn orðinn vel ökufær og ég fer hann næstum daglega. Og í dag datt mér í hug að mæla hann í kílómetrum eða þannig. Og í dag fór ég sem leið lá inn í Bónus og þar var staðan 14,5 km. Svo ók ég eftir Hafnargötunni og kom við þar við í búð. Þar næst upp Aðalgötu og heimleiðis. Þegar ég kom heim var ég búin að keyra 35 km. Sem segir mér að ef ég hefði eingöngu farið í Bónus og nærliggjandi búðir hefði ég aðeins ekið tæpa 30 km í stað 35. Svo þetta er sannarlega ávinningur fyrir okkur í dreifbýlinu Stafneshverfi. Og ekki síst ef við ætlum að fara á höfuðborgarsvæðið.

En að öðru. Þjóðin og við öll erum í losti. Við erum reið þessum ofurhugum sem yfirveðsettu okkur Íslendinga og við erum ÖSKUREIÐ Bretum.. Reyndar aðeins forsætisráðherranum Gordon Brown og hans fylgifiskum. Við erum ekki reið bresku þjóðinni. Hún hefur ekkert til saka unnið frekar en við almenningur á Íslandi.

En við verðum að halda sjó. Öll sem eitt. Fjölskyldur standa nú saman..Fyrirtæki sem útvega atvinnuna eru í hættu og við verðum að taka móralskan þátt í því. Ef við höfum ekki atvinnu þá er ekki gott í efni. Ég er stjórnarmaður í verkalýðsfélagi og þar erum við að reyna að finna einhverja útgönguleið. En elsku vinir tökum utan um hvert annað í þessum þrengingum sem yfir okkur dynja.

En að svo sögðu óska ég ykkur góðrar stundar og sofið sem best Elskulegu vinir.
Kveðja úr Heiðarbæ.
Ykkar Silla.emoticon

13.10.2008 14:45

Í vikubyrjun.


emoticon Heil og sæl. Sumir eru að skamma mig fyrir að nenna ekki að blogga nóg. En ég er hér og heil á húfi. En undanfarnir dagar hafa liðið dulítið hratt og hafa verið hálf óraunverulegir. Endalausar ekkifréttir af kreppu og aðgerðum og aðgerðarleysi. Ég var stórhneyksluð þegar Bretar tóku Kaupþing banka með hryðjuverkalögum. Skamm á Bretavarginn.

En í Danmörku gengur Eiríki og fjölskyldu illa að fá pening út fyrir mat og öðrum nauðsynjum. Vona að það hafi lagast í dag. En um helgina náðu þau að kaupa mat á kretitkortið. Einhvern veginn hefst þetta allt vonandi. Um annað er bara ekki að ræða.

En talandi um mat þá bauð Bjössi og Ísar okkur í mat í fyrrakvöld. Þar var fínasta ungnautakjöt á borðum. Ölli og Benni voru mættir líka. Auk þeirra voru þar Elín og börn. Í gærkvöldi var svo stór hluti af fjölskyldunni hér hjá okkur. Það voru tíu sem komu í lambalæri og lundir, ís og nammi. Svo ekki vorum við svöng þessa helgina.

En tengdamamma er ekki hress. Hún er komin af spítalanum og ekkert er hægt að gera fyrir hana annað en að hún tekur verkjalyf. Svo það er ekki gott ástand þar. Í fyrradag fór ég með mömmu smá rúnt og við fórum nýja veginn. Ósabotnaveginn. Stoppuðum svo dálítið hér í Heiðarbænum og kíktum við í kirkjugarðinum á leiðinni til baka til Sandgerðis.

En að öðru leiti er allt fínt að frétta. Nóg að gera í Fúsa og allt gengur sinn vana gang.

Bestu kveðjur inn í vikuna.
Ykkar Silla.emoticon

 


08.10.2008 15:16

Jæja.

emoticon
 Jæja það er nú lítið hægt að segja eins og staðan er á Íslandi í dag. Allavega ekki hægt að skrifa of mikið um það sem allir eru að hugsa um eða er í undirmeðvitundinni. KREPPA.

Svo það er bara að snúa sér að daglegu lífi og vona að landsfeðurnir fari að ná tökum á málum. Linda kom í morgun og var að hjálpa mér. Annars er ég orðin svo góð í hnénu að það er ekki til mikilla trafala. Ég er meira að segja byrjuð í rópjóga hjá Guðrúnu Gunnars. Einu sinni bar ég hana á háhesti en það er nú orðið langt síðan. Hún er barnabarn Guðrúnar og Guðmundar í Bala.

En tengdamamma er á spítala. Hún var með mjög slæman bakverk og var mynduð og þá kom í ljós að hún var með þrjú brot á hryggnum. Svo var farið að skoða þetta nánar og hún er með svona rosalega beinþynningu. Vissi reyndar fyrir að hún væri með hana. En hún fær svo mikil hóstaköst og hjúkrunarfræðingurinn telur að það hafi valdið sprungunum. Hún reykir mikið vægt til orða tekið. Svo hún fær lyf í æð til að reyna að hefta þynninguna. Sennilega fær hún að koma heim í kvöld.

En Fúsamenn eru uppi í Búrfelli og ég veit ekki hvort Gunni kemur heim í kvöld. Þar eru þeir vonandi á endasprettinum. Þeir vinna myrkranna á milli og allar helgar ef viðrar vel. 

Í fyrrakvöld fór ég á kaffi Duus og hitti nokkrar bloggvinkonur af moggablogginu mínu. Það var mjög gaman og þrjár þeirra hafði ég ekki séð. Allavega ekki hitt þær. En við vorum sjö og tvær ungar dætur Dóru Birgis. Þær sá ég einhverntímann þegar þær voru litlar því Dóra og Milla mamma hennar bjuggu í Sandgerði í tugi ára.

Jæja nú styttist í jógatímann og svo þarf ég sennilega að ná í tengdó.
Hafið það sem best,
Ykkar Silla.

05.10.2008 17:16

Sunnudagsblogg.


emoticonEnn á ný er farið að blása. Búið að vera rigning og rok síðan um hádegi. En ég var að tala við Gunna sem er uppi í Búrfelli og þar er stafalogn og blíða. Þar eru þeir að mála og það væri flott að rigningin næði ekki til þeirra strax. Svo er að taka saman og ég á von á honum seint í kvöld.

Ég ætla að elda handa okkur og Jóhönnu fjölskyldu í leiðinni. Hún er búin að vera á útopnuðu alla helgina í Bónus. Ástrós er að vinna þar í dag líka. Það er líkt og jólin séu að koma, þvílík er traffíkin. Það er greinilega órói í fólki og sumir eru að setja kisturnar sínar í samband sem hafa ekki verið notaðar í nokkur ár. Fólk er að taka slátur og ýmislegt að gera sem kallast góð búmennska. Ef það verða einu afleiðingar þessarar kreppu er ég ánægð. Það þarf auðvitað að sýna aðhald og gleyma ekki gömlum gildum. Vona bara að forráðamenn þjóðarinnar nái að rétta skútuna við..

En ég skrapp í Sandgerði áðan og náði í Brúnó. Greyið var einn heima og var virkilega glaður að fá að koma með mér í hundafélagsskapinn! emoticonÍ gærdag passaði ég Hrafntinnu og fór svo líka í skírnarveislu hjá Sirrý..Réttara sagt hjá Konna hennar. Og barnið fékk nafnið Guðmundur Atli. Flottur strákur. 

Nú er verið að leggja lokahönd á vinnu við Ósabotnaveginn. Það er frábært. Ég fór hann í fyrradag og það er búið að leggja á hann möl sem á svo að keyrast niður í tjörulagið sem er undir. Vonandi verður einhver umferð um hann í vetur en ég sá að þeir völtuðu hann nú samt svo þetta er nokkuð þétt. Þvílík samgöngubót bæði fyrir okkur hér og fyrir alla sem vilja aka smá hring: Sandgerði-Stafnes-Ósabotnar-Reykjanesbær-Garður. Flottur hringur á Sunnudegi. Hægt að stækka hann út á Reykjanes. Það má að miklu leyti þakka bæjarstjórn Sandgerðisbæjar fyrir að þetta er orðið að veruleika, vegna flýtifjármagns sem þeir settu í veginn.emoticon

En að endingu..líði ykkur sem best.
Kveðjur úr Heiðarbæ.

01.10.2008 15:14

Slæmt ástand.


emoticon
Sæl öll nær og fjær.
Það eru ekki góðir tímar í efnahagsmálum þessa dagana. Þau mál hafa reyndar verið á niðurleið allt árið. Maður heldur hvern dag að nú sé botninum náð en svo versnar bara ástandið. En auðvitað verðum við að vera bjartsýn og ekki bætir það fyrir okkur að vera með bölsýni.

Síðasta stórfréttin var yfirtaka ríkisins á 75% hlut í Glitni (á undirverði að ég held). Hef reyndar ekki mikið vit á þessu en mér hefur heyrst í fréttum að erlendis komi seðlabankar til aðstoðar en yfirtaki ekki banka nema þeir séu eigna og allslausir. Það virðist ekki eiga við um bankann minn, Glitni!

En svona er staðan og um allt þjóðfélagið skynjar maður hálfgerðan ótta. En eins og ég sagði þá má ekki láta þetta draga sig niður í einhverja lægð. Við þingsetningu áðan ræddi forsetinn um að við Íslendingar hefðum staðið frammi fyrir mun verri málum í sjálfstæðissögunni.

Jæja ekki meir um þetta. Í fyrrakvöld fór ég út í kirkju og hitti þar félaga mína úr sóknarnefnd og meðhjálparana nýju Sólrúnu og Díu. Við vorum þar í dágóða stund að pússa koparljósakrónur og kertastjaka.Við vorum bara nokkuð sátt við árangurinn. En við söfnuður Hvalsneskirkju þurfum að fara að huga að viðgerðum í kirkjunni og það hefur verið rætt á fundum okkar.

Gulla frá Hvalsnesi er látin og hún hefur alla tíð sýnt kirkjunni mikla rækt og það var vel við hæfi að pússa dálítið áður en hún verður jarðsungin á laugardag.

Ég segi þetta gott í bili..Horfum með birtu fram á veginn.
Ykkar Silla.emoticon
  • 1
Flettingar í dag: 60
Gestir í dag: 16
Flettingar í gær: 58
Gestir í gær: 17
Samtals flettingar: 97213
Samtals gestir: 19705
Tölur uppfærðar: 19.3.2024 09:41:12