Færslur: 2007 Nóvember

29.11.2007 19:49

Viðvörun? Kannski...



Jæja. Þá er húsbóndinn kominn heim. Það er flott. En ekki hefur dofinn horfið. En læknarnir útilokuðu allt sem við kannski höfðum mestar áhyggjur af eins og þröngar æðar og þannig hluti. Þeir töldu hann ráðgátu!! Gunna og læknanemarnir æfðu sig...Einna helst eitthvað ofnæmi eða ofþreytu væri um að kenna.

Svo er bara að vona að þetta lagist..Fari bara eins og það kom. En hann kom heim með geimfarabúning...Það er kæfisvefninn sem er slæmur og auðvitað átti hann að vera löngu búinn að láta athuga það mál. Svo nú á hann að sofa með vél eins og fjöldi annarra Íslendinga þarf að gera.


Og hann sleppur ekkert með að koma sér undan því. Hann á að mæta eftir helgi á spítalann og þá verður lesið úr dæminu. Já tæknin! Hann fékk sem sagt allavega rannsóknir og það var fínt. Nú verður hann bara að læra að anda með nefinu í orðsins fyllstu merkingu..Slaka á. Svo þið sjáið að það er all nokkuð gott að frétta. Það er að gera vitlaust veður eina ferðina enn (ég þarf alltaf að tala um veðrið Bjössi!). En að endingu látið ykkur líða vel.
 Kv. Silla.

28.11.2007 21:03

Brattur á Borgó..



Nú er Gunni búinn að vera tvo sólarhringa á Borgarspítalanum. Hann er nokkuð hress og ég held að hann sé í afstressun þar. Annars að öllu gamni sleppt þá finnst ekki orsökin að dofanum. Hann er viðvarandi en versnar heldur ekki.

Sem betur fer er heilinn í lagi! Hann er búinn að fara í ómskoðun sem sýnir bara allt gott. Hann fór líka í einhverja svefnmælingu sl. nótt og hún kom illa út. Það kemur mér ekki á óvart að hann sé illa haldinn af kæfisvefni. En samt vilja þeir vita meira og telja það ekki orsökina, allavega ekki eina sér.

Læknarnir halda að helst sé um einhverja eitrun eða ofnæmi að ræða. Eitthvað eiga þeir líka eftir að skoða æðakerfið. En þeir ætla að setja hann í áframhaldandi rannsóknir og ég held að það taki sinn tíma. Á meðan þarf hann að sýna þolinmæði sem hann gerir og getur ekki annað.

Ég skrapp í bæinn í dag. Orðin vön að keyra á milli. Ég stytti mér leið og fer nýja veginn heim. Hann er reyndar malarvegur á köflum og dimmt að fara hann en samt er ég fljótari. Það verður flott þegar vegagerðin setur á hann malbik. Veginn okkar Suðurnesjamanna, Ósabotnaveginn.


Það hafa margir verið að hringja og skrifa kveðjur.Takk fyrir þær allar elskurnar!! Við erum nú bjartsýn og vonum það besta. Allavega segir læknirinn að við komumst út. Við eigum pantað far til krakkanna í D.K á miðvikudaginn næsta 5. des. Ég skrifa fljótlega aftur. Bestu kveðjur.Silla.



27.11.2007 01:14

Á LSH í Fossvogi.



Ég var að koma heim frá Landspítalanum í Fossvogi! Æ..og skildi Gunna eftir. Hann á að fara í rannsóknir þar á næstu dögum... Um helgina var hann að tala um að hann væri dofinn í vinstra fæti. Allt í lagi, ég hugsaði klemmd taug eða eitthvað..
 
En mér leist nú ekkert á það eftir að hann kom heim kl. sex í kvöld að hann væri dofinn alla leið upp í höfuð..Hann vildi bara fara að sofa og sagði að þetta myndi örugglega batna.

Svo ég reyndi að hringja í læknir á Heilsugæslu Suðurnesja í Keflavík til að spyrja ráða. En þar var svo mikið að gera að afgreiðslustúlkan sagði að læknirinn myndi hringja seint.

Enda var hann að hringja núna eftir að ég kom heim. Komst ekki í það fyrr. Hugsið ykkur álagið. (Reyndar sagði læknirinn að við hefðum gert það rétta. Hann (Gunni) hefði að öllum líkindum verið sendur í Rvík).

Ég hringdi síðan í 112 og þeir sögðu mér að hringja tafarlaust í læknavaktina á höfuðborgarsvæðinu og þar var mér sagt að fara strax með hann á bráðavaktina. Þangað komum við um hálf níu. Þar er hann í góðum höndum en þeir vildu leggja hann inn til rannsóknar. Svo er bara að vona að þetta sé ekki alvarlegt..en eitthvað er þetta.

Svo nú er ég komin heim aftur og ætla að koma mér í háttinn.
Næturkveðjur. Silla.

26.11.2007 10:29

Helgardútl og fleira.



Jæja þá er kominn mánudagur. Og bráðum kominn desember. Það er ótrúlegt hvað tíminn flýgur. Það var nú frekar hryssingslegt veðrið megnið af helginni. En við gömlu hjónin notuðum tímann til að gera ýmislegt innanhúss sem var á biðlista. 

Og við skruppum svo yfir í Glaumbæinn til Maddý og Gísla á laugardagskvöld. Langt síðan við fórum síðast eða þannig. Það er annaðhvort í ökkla eða eyra...hjá okkur.. við vorum bara saman í einn mánuð í USA! Um helgina komu svo stelpurnar og barnabörnin í heimsókn. Það var fjör í kotinu. Börn og voffar á hlaupum. Gaman!!

Í dag koma Sigfús og Erla Jóna heim frá Barcilona og ég býst við að sækja þau upp í flugstöð. En nú er ég að fara og útbúa nokkrar bollur handa strákunum sem eru að vinna í Fúsa. Þeir eru núna að smíða skemmuna. Það gengur bara vel. Komið þak sem telst nú bara gott miðað við allt.

Og ég læt þetta vera stutt og lítið þreytandi fyrir ykkur. En þið vitið að ég kem alltaf aftur og aftur.
Hafið það sem allrabest.
Silla. 


23.11.2007 14:08

Kvöldferð í Kópavog.


 Já nú er komið að saumaklúbb. Og í kvöld skellir maður sér í Kópavoginn til Helgu frænku. Það er gaman að halda þessu gangandi hjá okkur. Og hún hefur nú ekki síst verið dugleg við það. Einu sinni fyrir yfir 30 árum voru allir meðlimir klúbbsins búsettir í Sandgerði. En það hafa tvær helst úr lestinni og aðrar bæst við.
 
En samt ...til gamans! Allar höfum við einhverntíma búið í Sandgerði! En engin okkar býr í sjálfum bænum núna. Frá upphafi hafa verið í klúbbnum.. Lilla, núna búsett í Keflavík, Eydís í Njarðvík, Helga í Kópavogi og ég hér í Heiðarbæ. Þær sem hættu heita Hilda og Vordís. Fyrir mörgum árum bættust svo í hópinn Sigrún nú í Keflavík og Lilla Árna frá Landakoti nú í Kópavogi.

Gaman að geta þess að við Sigrún vorum í saumaklúbb saman sem litlar stelpur en þá með öðrum. Sigrún er frá Melabergi. Við fengum sko hlátursköst í gamla daga líka! Það fer nú ekki mikið fyrir saumaskap hjá okkur en því meira spjallað og hlegið. Jú Sigrún og Lilla Á. eru þær myndarlegu! Ég vona að veðrið verði til friðs rétt á meðan maður keyrir brautina. Lítur nú út fyrir það!

En annars er ósköp lítið að frétta héðan úr sveitinni. Sigfús og Erla Jóna skruppu í helgarferð til Barcilónu og ég vona að það verði smáfrí um helgina í vinnunni hjá Gunna. En hann fær þá ekki frið karlanginn fyrir mér sem finnur alltaf eitthvað sem þarf að gera!!

Svo þar til næst..hafið það gott.
Kveðja Silla.

P.s Já þetta var flott kvöld..Góða nótt..

21.11.2007 10:27

Uppeldi.

 Sæl gott fólk!!
Það er eitt sem alltaf verður til. Uppeldi barna Ekkert er nýtt undir sólinni þar. Eða hvað? Jú tímarnir hafa breyst mikið á rúmlega hálfri öld svo ég segi ekki meira en það !!! Það er gaman að spá í þessa hluti þegar barnabörnin stoppa við. Maður var svo upptekinn við að ala upp sinn eiginn hóp að maður ígrundaði þetta kannski bara jafnóðum þá. Og svo verður maður að vona það hafi tekist ágætlega..

Af og til verður manni hugsað til þess hvað mótaði mann mest í uppeldinu. Mamma og pabbi áttu þar stærstan þátt að sjálfsögðu. Þar var kjölfestan. 

En aðrir höfðu áhrif líka. Afi Arnbjörn var mikill íslenskumaður og vildi að við töluðum rétt. Alltaf að leiðrétta mann sem var kannski ekki þakkað fyrr en seinna! Og svo voru það fréttatímarnir sem ég hef sagt frá áður. Allir áttu að hafa hljótt meðan fullorðna fólkið hlustaði. Kannski er ég svona mikill fréttafíkill síðan?

Amma mín Guðrún var mikil alþýðukona. Ég meina Alþýðuflokkskona-krati. Örugglega hefur eitthvað síast þar inn án þess að maður tæki eftir og mótað pólitískt viðhorf seinna. En af því ég ætla ekki að tala um pólitík á síðunni minni þá læt ég þetta verða lokaorðin í því...Lífið er samt allt ein pólitík.

Aðrir sem maður hugsar hlýtt til frá æskuárum og seinna er Stefanía á Stafnesi. Hún fylgdist með manni og öllum afkomendum sem sínum eigin. Mjög ættrækin og elskuleg. Gunna í Bala er líka kona sem er stór mynd í barnæskunni og var góð kona. Ég veit að ekki síður yngri systur mínar fóru ófáar ferðirnar á þessa staði í heimsóknir.

Anna frænka mín á V.Stafnesi var líka hlý kona og mjög iðin. Fór meira að segja í kartöflugarðana meðan heilsan entist henni. Svona gæti ég haldið lengi áfram. Þetta kom í hugann af því ég var að hugsa um barnabarn í gær og maður skyldi ekki gleyma að börn muna marga hluti.

En ætli ég láti þetta ekki duga af hugleiðingum um gamla og nýja daga í bili.
Kveðja Silla.



18.11.2007 18:52

Stutt til jóla.



Já það styttist í jólin. Og aftur og nýbúin. En hvað myndum við gera í skammdeginu hér á klakanum ef við hefðum ekki þessa hátíð ljóss og friðar. Víst tala sumir um að þetta séu kaupajól eða þannig.
 
En samt held ég að flestir séu með þessi barnæskujól hjá sér. Sem betur fer því þetta færir okkur saman mannfólkið ekki síst fjölskyldurnar.

Og alltaf þarf ég að tala um veðrið . Í gærkvöld og nótt var norðanstormur !! Besta ráðið við honum var að fara í rúmið og kúra eða horfa á sjónvarpið sem við skötuhjúin gerðum til kl. eitt í nótt!! Horfðum á King Arthur..

En ekki hvað í dag var þessi bongóblíða..Svo dagurinn var nýttur til útiveru og í flakk. Betri helmingurinn var í vinnu svo við hundarnir vorum ein í kotinu!!

Maddý kíkti með Dag Núma litla sem er jú orðinn átta ára. Árni Snær (pabbi hans) kom líka en verst að ég var að þeytast út úr dyrunum..Æ æ alltaf á ferðinni..

En ég hef þetta stutt núna. Líði ykkur öllum sem best!
Kv. Silla í Heiðarbæ.

16.11.2007 11:10

Skemman.


Nú er skemman að rísa hjá Fúsa ehf. að Strandgötu 20 í Sandgerði. Þeir eru búnir að vinna við hana með öðrum verkum undanfarið. Þetta er stálgrindarhús og grunnurinn var steyptur í síðustu viku. Skemman er nauðsynleg til að geta sandblásið stærri og smærri verk. Þá meina ég verk sem ekki eru föst annarsstaðar eins og stórir olíutankar.
 
Þetta gengur vel sýnist mér og ég renndi inn eftir og setti kjúklinga í ofninn. Eitthvað verða þeir að nærast blessaðir. Og við Erla fljótum með. Og nú sit ég smá stund í tölvunni á skrifstofunni á meðan kjúllarnir grillast.

Það er ágætis veður þessa dagana sem telst fréttnæmt, held ég. Svo það er ekki spurt hvort það sé föstudagur,laugardagur eða eitthvað annað. Þeir þurfa að nota öll tækifæri. Þeir nota vörubílinn sem þeir eiga til að lyfta þessum þungu hlutum. Það liggur við að okkur Erlu standi ekki á sama að sjá þá svona hátt uppi með þessa þungu bita.

En í gær var Benni frændi hér líka. Hann var að hjálpa Degi og honum var boðið í fiskibollur með okkur.

En að öðru. Ég var að lesa þankabrot Magnúsar Ingvarssonar á 245.is. Þau eru mjög fín, næstum því eins góð og Einars í Klöpp sem mér finnst hafa verið bestur til þessa, þó margir hafi skrifað flotta pistla.. Get sagt þetta..ha ha ég byrjaði. Einar er alveg stórkostlegur. Hann með sinn góða húmor en samt alvöru í bland.

Læt þetta nægja í bili. 

Kv. Silla.

14.11.2007 21:38

Já, þessi venjulegi dagur!


Hvað á ég að setja sem fyrirsögn!! Jú vegna þess að það er miðvikudagur og svona venjulegur þá...En þessi venjulegi dagur er góður og allt gengur vel, allir hraustir eða þannig. Ég tel það ekki neitt voðalegt þó fólkið mitt liggi í flensu..

Nei bara til að segja við þær..Lindu, Konný og Jóhönnu. Það gengur yfir og hugsið ykkur alla sem þurfa að takast á við stóru veikindin sem eru margir.

En nú erum við gömlu búin að ákveða að heimsækja barnabörnin þrjú í Söndeborg á Jótlandi í Danmörku. Foreldrana lika..auðvitað. Reyndar heitir bærinn þeirra Lisabild og er mjög nálægt borginni.

Þarna situr Eiríkur sonur okkar á skólabekk. Lærir róbótaverkfræði eða eitthvað slíkt. Róbóti flott!! Og hann tók börn og buru með sér. Lilja sem er prestur er ekki allt of ánægð með að fá ekki vinnu við hæfi. Ekki sem prestur..en! ! Hún er bara að reyna að finna einhverja góða vinnu. En vonandi gengur það upp.

En við förum 5. desember og tökum jólapakkana með okkur. Gott fyrir fjölskylduna að þurfa ekki að senda neinn póst þetta árið. Við ætlum að gera smá stopp í Kaupmannahöfninni í leiðinni.

 En þarna á Jótlandi er fjölskylda Eiríks búin að búa síðan í júlí 2006. Við fórum til þeirra í september sama ár. Í fyrra með Norrænu já!!

En læt þessa þanka duga í bili.

Kveðja úr Heiðarbænum..

 

13.11.2007 13:48

Ný frænka!


 Já frænku-(og frænda)hópurinn stækkar! Jóna Bergþóra Sigurðardóttir (Dúnudóttir) eignaðist dóttur númer tvö í gærmorgun..Til hamingju Jóna ,Óli og Álfheiður Una...Og ég er meira að segja búin að fá sendar myndir..Svo fín stelpa!!

Annars er allt í góðum gír hér í Heiðarbænum. Var að kokka ofan í karlana mína kjötbollur..Reyna að gera þá svolítið bollulega. Svo nú er bara að snúa sér að öðru. Skreppa í Keflavík fyrir mömmu og fleira svoleiðis.

Hitti Lindu og Jón með Hrafntinnu í morgun. Þau voru með hana hjá lækni. Hún er lasin stelpuanginn. Með streptakokkasýkingu. Gat ekki gengið á tímabili í gær. En við vonum það besta..Hún virtist eitthvað styðja í fótinn í morgun.

Og nú var Jóhanna að hringja, líka sárlasin. Ætla að skreppa fyrir hana í búð í leiðinni. Svo stundum er gott að vera laus við..á lausu!! Vona að ég fái ekki einhverja flensu..Má ekki vera að því.

Hef ekki tíma í meira mas og þras..
Bestu kveðjur.
Silla.


10.11.2007 21:36

Vinna í Heiðarbæ.



Jamm, það er auðvitað ekki allt fullbúið hér í Heiðarbæ..nei nei. Núna er Diddi að hjálpa okkur að klára gestabaðið. Þar verða líka þvottavélin og þurrkarinn. Einhverjir sögðu við mig þegar teikningarnar voru skoðaðar..Silla flott að hafa í kjallaranum þvottahús og svoleiðis.

En ég sagði nei þá og held að það sé raunsætt..Allt í lagi núna, en eftir 10-20 ár, þá hvað? Gott að hafa flest til daglegra nota á sömu hæð! Svo nú er hann Diddi eða Sigurður frá Hlíðarhúsum að flísaleggja fyrir okkur. Hann er mjög góður í faginu og duglegur. Góður strákur.

En annarri flísalagningu hafa feðgarnir Jón og Kalli sinnt með miklum sóma. En þeir höfðu ekki endalausan tíma og við skiljum það. Og þeir eru á öllum stöðum í einu feðgarnir. Núna er hús Lilju og Alla að rísa..Ekkert smá flott...Höll!!

Og svo eigum við hér eftir að ljúka við kjallarann. Þar ætlum við að hafa bókaherbergið og saumaherbergið. Get kannski lagað galla og náttföt fyrir barnabörnin. Og það er bara ljúft að hafa eitthvað að gera í framtíðinni ef heilsan leyfir.Góð heilsa er gulli betri!

Gott fyrir Gunna þegar hann kemst á eftirlaun að hafa eitthvað að snudda. Það verður örugglega eitthvað eftir handa honum eftir nokkur ár!! Átta ár eru fljót að líða. Eftirlaunin eða lífeyririnn eru reyndar smánarleg núna..En kannski lagar einhver réttlætissinninn það og tengir hálaunastéttunum..hver veit. Má láta sig dreyma..

Kveðja úr logninu..!!..Silla.

09.11.2007 10:49

Frændsemi.



Ég á stóran hóp frændfólks. Sérstaklega af náskyldu föðurfólki. Átta voru þau systkynin pabbamegin sem lifðu til fullorðinsára. Aftur á móti er mamma einbirni.Og við erum því stór hópur systkinabarna í föðurætt.

Eina frænku kveð ég í dag, Huldu Reynhlíð. Hún var 26 árum eldri en ég og það er skiljanlegur aldursmunur því Jóna móðir hennar var elst systkinanna frá Hólakoti (í Stafneshverfi) eins og þau voru oft kölluð en pabbi næstyngstur. Auk þess var pabbi orðinn 32 ára þegar ég fæddist.

Svo í dag erum við að fara í jarðarför í Reykjavík. Benni frændi ætlar að koma með mér og auðvitað mamma. Þær voru ekki á svo ólíkum aldri. Þó er mamma yngri. Þegar við Gunni bjuggum í Vestmannaeyjum (1972-73) þar sem Hulda var uppalin hafði hún flutt upp á land eins og kallað er. Veit að flestir eldri Eyjabúar kannast við hana sem Huldu í Mjólkurbúðinni! Hress kona. 

En annars er allt gott að frétta héðan úr blíðunni í Stafneshverfinu. Rólegt og fínt. Lolli í Bala farinn í Kópavoginn þar sem hann dvelur yfir háveturinn. Elín Bjössadóttir er búin að fá íbúð í Njarðvík og farin úr skúrnum. Gott mál því þó góður sé (skúrinn) þá er hann kannski ekki endilega barnvænn.

En Ísar býr hjá Bjössa núna. Svo í hverfinu búa núna sjö, hvað eigum við að segja..hræður..hm. Einhvern tíma hefur nú verið fjölmennara. Það þarf ekki að horfa lengra en til minna uppeldisára. Þá hafa líklega verið hér hátt í þrjátíu manns. Og ef ég fer aftur um 100 til 200 ár þá voru yfir hundrað bæir og kot hér!!!

En það var þá. Núna eru tímarnir breyttir og kannski bara skrítið fólk eins og við sem búum hér og kunnum svona vel við rólegheitin. Ekki má þó gleyma þeim mörgu sem koma um hverja helgi í bústaðina sína þó þau búi annarstaðar.

Læt þetta duga í bili af ættfræði og öðru.
Kveðja Silla.


06.11.2007 19:44

Fólk á faraldsfæti.

   
Já, þó að við Gunni séum búin með okkar kvóta í ár með ferðalögin eða þannig þá eru aðrir það ekki..Ég skutlaði Hrefnu og Dóru upp í Flugstöð. Þær voru að fara með vinnufélugunum (mínum gömlu) til Minneapolis. Gaman hjá þeim..gæti alveg hugsað mér að vera í hópnum.en.

Og svo fór Ölli til Flórida í dag á sama tíma. Ég kíkti á þá bræður í morgun og bað Ölla að taka pakka til David. Reyndar verð ég að biðja Dísu að senda pakkann í innanlandspósti. Nema David og Stacey komi í heimsókn í Appleton!!

Dagurinn minn í dag var svona..venjulegur.  Eldrauð í framan að elda fyrir karlana mína en það er enginn fýlusvipur á mér samt. Ég byrjaði daginn í Átak-þjálfun klukkan 9.30. Ekki snemmt það. Sú gamla fór á fætur kl. 8.00..Nákvæm dagbók! ...

Síðan eins og ég sagði..steikja fisk fyrir fimm ''stráka,, og svo að skutlast með einhvern, bara venjulegt. Svo sótti ég Vilmund í dagvistunina. En ég fór heim tvisvar í millitíðinni. Og sumu fólki finnst svo rosalega langt í Stafneshverfið!! Ekki okkur..

Ég fór efri leiðina einu sinn í dag og það er bara í góðu lagi ef ekki er þurrt og ryk. Gaman að sjá Hafnirnar svona í öðru ljósi. Bónusferðirnar mínar styttast um 9 km. með þessari leið. Vona bara að ríkið í ríkinu sjái sér fært að olíubera eða malbika!!

En jæja ekki meira raus í bili..Kveðja úr Heiðarbæ.

04.11.2007 20:04

Sunnudagsblogg.



Já hvað tíminn flýgur. Aftur kominn sunnudagur og ný vika að læðast inn. Við vorum í þvílikt flottri afmælisveislu hjá Hrefnu í gærkvöld. Allir í megastuði og hljómsveitin Grænir vinir spiluðu fyrir dansi eftir að fólk var búið að fá sér kræsingar a la Hrefna.


Það voru örugglega hátt í 100 manns á staðnum. Heill hópur úr Flugstöðinni sem var gaman að hitta. Svo átti Margrét dóttir þeirra afmæli líka svo samtals var þetta 100 ára afmæli . Og Magga frænka mín(við erum systkinadætur)og fólkið hennar var mætt því hún er jú tengdamamma Margrétar..Svo lítið samfélagið okkar!


Linda var í nágrenninu í heimsókn og skutlaði okkur heim um klukkan hálf eitt í nótt. Svo það hefur víða verið fjör í bænum því árshátíð Sandgerðisbæjar var líka í gærkvöld.
Kannski einhverjir latir í dag ...


Maddý og Gísli voru í Glaumbænum og við kíktum í kaffi. Og svo var auðvitað spjallað um ferðina stóru sem við fórum!!! Nú er best að hætta þessu blaðri og ég kveð að sinni úr Heiðarbænum.
Silla.

02.11.2007 19:55

Í Bónus!



Ég fór í Bónus í dag eins og oft um helgar. Var að kaupa fyrir karlana mína í Fúsa ehf og fyrir okkur gömlu hjúin í Heiðarbænum. Ekkert óvenjulegt við það. Samt var ég smá hugsi þegar ég var að tína í körfuna .Allt fjölmiðlafárið sem hefur verið að undanförnu um samráð, um æðisleg hlaup þegar teknar eru verðkannanir og svoleiðis hluti. Það mættu þá vera fleiri verðkannanir ef það lækkar vöruverðið!!

En nýkomin heim frá Bandaríkjunum þá skil ég ekki verðið hér heima. Ég er samt búin að taka með í reikninginn háan virðisauka hér. Og í Bónus og Kaskó (á Suðurnesjum) og hinum sem líka eru í eigu sömu aðila er þvílíkur verðmunur og af hverju? Allt of mikill!!!!
 
Sparkaupsbúðir =Kaskó og Tíu -ellefu =Bónus! Hvað er málið? Jú lágvörubúðir með litla þjónustu og svo hinar með hvað? Ekki svo áberandi munur satt að segja.Jú kannski opnunartíminn..

Og færri viðskiptavinir, meira pláss til að skoða dýrðina. En ég er samt ein af þeim sem segi að Jóhannes í Bónus hafi lyft Grettistaki þegar hann byrjaði og fjöldi fólks nýtur enn góðs af þessu upphafi.

En betur má ef duga skal. Það er óútskýranlegur munur á verðlaginu hér og víða í nágrannalöndunum beggja vegna Atlantshafsins. Vonandi bera stjórnvöld gæfu til að koma okkur á hærra plan í þessum málum. Þá hætta kannski ferðamennirnir að glenna upp augun!!!

En þetta voru verðlagsþankar Sillu.
 Bestu kveðju úr Stafneshverfinu..
  • 1
Flettingar í dag: 19
Gestir í dag: 5
Flettingar í gær: 58
Gestir í gær: 17
Samtals flettingar: 97172
Samtals gestir: 19694
Tölur uppfærðar: 19.3.2024 04:00:43