Færslur: 2008 Janúar

30.01.2008 16:06

LA Lakers!

 
Sjáið leikmanninn sem vann í gær!!!


Hæ hæ! Nú er komin miðvikudagsmorgun og síðasti dagurinn okkar í Los Angeles framundan. Klukkan er átta að morgni og við erum á leið í morgunmat. Siðasti sýningardagur á Pace og smá aukatími líka. Þau hafa fengið helling út úr sýningunni, lært margt og eru bara ánægð.

En í gærkvöld fórum við á körfuboltaleik í Stable Center risahúsi í nágrenninu. LA Lakers á móti New York. Frábært að upplifa svona leik og heimamenn unnu við mikil fagnaðarlæti 120-108. Við vorum orðin eins og hinir farin að standa upp veifa flöggum og öskra í restina. En þetta var svooo gaman!

Í kvöld erum við boðin í mat til Báru frænku hans Gunna. Og Linda dóttir hennar ætlar að elda eitthvað nammi fyrir okkur. Það verður gaman að hitta hana Lindu. Við sáum hana síðast árið 2001. Systir hennar Diana kom til Íslands fyrir fjórum árum. Svo fer það eftir tímanum sem fer í sýninguna hvað við gerum í dag að öðru leyti. Skoðum okkur um og förum kannski í eins og eina smásjoppu!

Í fyrramálið förum við á flugvöllinn. Við eigum sem sé að mæta hálf átta og dagurinn fer allur í að komast heim á leið. Við lendum svo í Keflavík á Sandgerðisflugvelli ef veður og Guð leyfir rétt fyrir klukkan sjö á föstudagsmorgun. Ég vona að þið verðið glöð að fá okkur heim. Jæja elskurnar, hef ekki meiri tíma í blogg í bili en bæti kannski við áður en ég kem heim.

Bestu kveðjur frá vesturströndinni.
Silla og öll hin.

29.01.2008 01:05

Í leti...


 Í morgunkaffi á Starbucks kaffi....David tók myndina..



Sæl verið þið öll nær og fjær. Nú er fjær á Íslandi öfugt við það venjulega. Þetta hafa verið viðburðaríkir dagar og við höfum verið heppin með veður fyrir utan eina nótt og hálfan dag sem hellirigndi..Hitinn oft um 15 stig að deginum. Svo styttist í heimferð því þetta er ekki svo langur tími. Það verður viðsnúningur á tíma aftur á föstudaginn (fimmtudagurinn fer í ferðina heim) og örugglega verra að skipta í þá tímaáttina.

Sýningin Pace 2008 var opnuð í gær með pompi og pragt. Og núna eru þau á sýningunni Erla Jóna, Sigfús, Gunni og David. Við Stacey nenntum ekki. Reyndar hef ég ekki neinar fætur í svona stapp í marga klukkutíma. Ég hef aldrei náð mér alveg eftir brotin og verð bara að lifa með því. Ég er alltaf í sjúkraþjálfun tvisvar í viku nema þegar ég stelst úr landi.

Svo nú er ég bara á hótelinu að slaka á!!Hótelið er vel staðsett, alveg í miðborginni innan um skýjakljúfana og er bara frekar lágreist miðað við þá.. Bara tuttugu og ein hæð!! Við erum fjögur á tólftu hæð en Erla og Fúsi á fimmtándu. Erla segir að það sé af því hún sé bossinn að þau séu hærra..Það er pottþétt!
 
En það er létt yfir hópnum og mikið hlegið. Erla Jóna er hrókur alls fagnaðar. Frábært að ferðast með tengdadótturinni. Við höfum aldrei ferðast saman áður. En kannski gerum við það það oftar.. Það er stutt héðan í allt sem við höfum verið að gera. Stutt í sýninguna, frænkurnar sitt hvoru megin í lítilli fjarlægð á ameríska vísu og Hollywood rétt fyrir ofan í hæðunum. Á eftir ætla ég aðeins að kíkja á sjónvarpið. Bush er að fara að flytja stefnuræðu..eitthvað um allt það góða sem hann hefur áorkað vinurinn.

Við höfum farið aðeins oggulítið í búðir líka.  Ekkert til að tala um. En það er alltaf gaman að kíkja. Ég hef verið að fylgjast aðeins með fréttunum heima og veðrið hefur orðið bilað enn einu sinni. Þær hljóta að fara að klárast þessar kröppu lægðir. Mér skilst að það verði frost þegar við komum heim á föstudagsmorgun..En ég ætla nú að kveðja ykkur að sinni og vona að þið hafið það sem allra allra best.
Ykkar Silla.

27.01.2008 05:15

Borg englana!



Halló kæru blogglesendur vinir mínir..

Nú erum við í Los Angeles og í mikilli fjarlægð frá Íslandinu góða. Við fengum rigningu þegar við lentum í fyrrakvöld um kl. 24.00 að staðartíma. Þá var tíminn heima átta að morgni föstudags. Við vorum hálfrugluð í tímanum fyrst en svo er þetta bara fínt núna..Klukkan er rúmlega níu að kvöldi og þá sama og yfir fimm að morgni hjá ykkur.

Veðrið hefur leikið við okkur fyrir utan dropana þegar við lentum en nú er spáð stórrigningu næsta sólarhringinn. Ég hef séð fólk með sandpoka á pickuppnum sínum! Svo við eigum eiginlega von á regni að ég held! Vægast sagt. En það styttir upp um síðir. Við erum á hóteli í miðju þorpinu!! (Miðborginni).

Og þið eruð vonandi öll í fasta svefni!! Í gær fórum við af stað og fórum til Hollywood..sem er bara hér í nágrenninu. Við sáum stjörnusporin frægu...Það var margt á ferli og við fórum inn á frægan hamborgarastað sem heitir eitthvað sem IN-N-OUT..Og margir brandarar urðu til út af þessu nafni. En hamborgararnir voru góðir..Við fórum fyrr um daginn í smá búðarráp og fórum í Sams Club og fleiri slíkar.

Í morgun fórum við til Báru frænku Gunna. Hún er föðursystir hans og auðvitað voru fagnaðarfundir. Reyndar erum við nýbúin að hitta Báru því hún kom heim í október og var í áttræðisafmæli bróður síns Fúsa eldri. Við hittum líka núna Donald son hennar og kisuna Kisu.Við stoppuðum dágóðan tíma hjá Báru. Þá vorum við búin að fá flatkökur og nammi. Svo var farið í 2-3 búðir og verslað það sem áætlað var (næstum því).

Seinna í dag fórum við að skoða Beverly Hills og alla leið að Hollywood merkinu..Vá villurnar þarna..ekki orð um það meir..Þá lá leiðin til Ástu frænku minnar sem ekki var heima. Þá kom þar að sonur hennar Páll og sagði okkur að hún væri eiginlega flutt þó hún ætti húsið enn. Og ég fékk símann og við enduðum 20 mílum frá gamla heimilinu og hittum mína elsku frænku sem býr ein og er þó hún vilji ekkert um það tala 81 árs og ungleg.(Segist sextíu og eitthvað)

Sigfús var að sjá hana í fyrsta sinn og henni fannst hann annsi myndarlegur..la la. Þetta loðir við okkur kerlingar í föðurætt að pæla í svona hlutum..eða hvað. ég er nú ekki viss. Og ekki vissi hann hvaðan á hann stóð veðrið! En svo leysti hún nokkur út með gjöfum sem hún hafði sjálf unnið. Brilliant kona!!! 

En á morgun byrjar sýningin sem er upphafið að þessu öllu. Vonandi fá feðgarnir einhverjar nýjungar að sjá þarna. Það kemur svo bara í ljós. En við höfum félagsskap sem gæti orðið þeim að liði. David Rose. Hann og konan hans sem hann giftist í mai í Hvalsneskirkju eru með okkur hér. Og ég ætla að enda þetta með að biðja að heilsa ykkur öllum. Líði ykkur sem allra best.
 Kveðja Silla

P.s Ætlaði að segja ykkur að ég talaði við Mumma...Hann hringdi í mig og það var gaman að heyra í honum bekkjarbróðir mínum. Við höfum verið nokkuð lengi í tölvusambandi og tilbreyting að heyra röddina..Hann býr hér norðar á vesturströndinni í borginni Seattle.

23.01.2008 23:25

Gæsahúð..


En já ég mátti til!

Og svo var talvan að hrekkja mig áðan. Ég var búin að skrifa þó nokkuð og svo..bara ekkert!!!! þótt ég vistaði eins og venjulega.
En ég ætla að endutaka eitthvað af því sem ég sagði. Ég fékk gæsahúð þegar ég horfði á beina útsendingu frá Vestmannaeyjum. Þetta allt er í svo fersku minni þó 35 ára sé. Ég efast um að ég muni smáatriði svo nákvæmlega í öðrum málum.

Við hjónin lágum í hláturskasti yfir parinu sem hafði meiri áhyggjur af því að það kæmist upp að þau væru að sofa saman heldur en eldinum!! En þau eru gift og eiga fimm börn og búa á eyjunni sinni. Frábært fólk eins og ég reyndar upplifði Eyjamenn almennt.

Samkenndin sem var mikil í Vestmannaeyjum hefur greinilega aukist og það er gott. Vona að Sig.Jóns hafi ekki misst af þessar útsendingu eins og hann er mikill Vestmannaeyjingur! En það er frábært að hlusta á börnin sem ekki hafa af þessu neina reynslu nema söguna.. Eins og við eldri upplifum Íslendingasögur..Ææ við eldumst líklega og þeim fækkar á næstu áratugum sem upplifðu Eldgosið í Heimaey.

En þetta var aukablogg..Endilega lesið síðasta... ef þið nennið!!

Góðar stundir.
Silla.

23.01.2008 18:58

Vestmannaeyjagos fyrir 35 árum.

 Gosið!

Í dag 23. janúar eru 35 ár frá því gos hófst í Heimaey. Þá bjuggum við þar að Vesturvegi 34 hjá Tótu á Enda sem kölluð var og Hjálmari bróður hennar. Þá voru strákarnir Sigfús og Eiríkur litlir eyjapeyjar fæddir 68 og 70. Þetta er atburðir sem aldrei gleymast, það er nokkuð víst. Við höfðum aðeins átt heima í bænum tæpt ár. Fluttum 5. febrúar 1972. Og sennilega ekki nógu lengi til að flytja aftur út.

Við fluttum úr Hafnarfirði mest vegna þess að þar var lítil atvinna. Gunni sem var nýbúin að læra vélvirkjun bauðst vinna í vélsmiðjunni Þór. Þar kynntist hann Sigmund hinum eina sanna sem teiknar fyrir Moggann. Reyndar myndaðist vinskapur milli okkar og Óla sonar hans sem hefur haldist síðan. Hann er aðeins yngri en við og byrjaði á því að passa strákana svo við kæmumst á ball!

En þetta var svolítið skrítið tímabil. Og margs að minnast. Siglingin til lands um nóttina og hvað ættingjarnir voru fegnir að fá okkur heil á húfi. Báturinn varð vélarvana og okkur sóttist ferðin seint. Komum til Þorlákshafnar kl. 10.30. En við lögðum af stað klukkan fjögur um nóttina. En Gunni fór svo aftur út til Eyja nokkrum dögum seinna á vegum Viðlagasjóðs og vann í yfir tvo mánuði þar við að bjarga verðmætum, kæla hraunið og fleira.

En í dag er verið að minnast þessa atburðar víða og fréttirnar í sjónvarpinu t.d. verða sendar út frá Vestmannaeyjum. Það verður gaman að fylgjast með því á eftir. Mér er minnistætt að fyrir nokkrum árum var ég fengin til að tala við krakka í kirkjustarfinu í Sandgerði og ég átti að segja þeim hvernig væri að vera flóttamaður.

Og sennilega hugsa flestir til Austurlanda þegar talað er um flóttamenn. En það hefði mátt heyra saumnál detta, svo spennt voru þau. Flest voru á aldrinum 9 til 10 ára og hópurinn var frekar stór hátt í þrjátíu krakkar. Og lengi á eftir voru þau að stoppa mig á götu og út í búð og spyrja..Ert þú ekki Flóttamaðurinn?? Já það er ýmislegt sem hægt er að segja frá og minnast. Og frá tiltölulega stuttum tíma!

En nú fer að koma að því fljótlega að við förum að fara á sýninguna í LA. Þar verður vonandi hægt að sjá eitthvað sem þeim nýtist feðgunum. Ég ætla með fartölvuna mína og kannski læt ég heyra frá mér. Hver veit...

Hafið það sem best.
Silla.

21.01.2008 14:22

Guðrún amma.


Góðan daginn..
Í dag 21. janúar hefði Guðrún Gissurardóttir móðuramma mín orðið 110 ára. Hún fæddist að Gljúfri í Ölfusi árið 1898. Hún var mér fyrirmynd í marga staði og bjó á heimilinu hjá okkur í Nýlendu ásamt afa Arnbirni Guðjónssyni frá því ég var sjö ára. Hún bjó í Hafnarfirði síðustu sextán árin og lést árið 1981. Ég bjó samtímis í sjö ár þar á svipuðum slóðum.

Amma var pólitísk. Mikil Alþýðuflokkskona og ansi ákveðin. Hún sagði alltaf að hún hefði viljað vera fædd strákur því þá hefði hún fengið að læra. Það var nefnilega ekki sjálfgefið í stórum barnahóp á þessum tíma að ganga menntaveginn og þá frekar drengirnir sem það fengu.

Amma var líka mikil hannyrða og prjónakona og held ég að sumir sem eldri eru muni hana sem Guðrúnu prjónakonu. Hún var framsýn og keypti sér prjónavél og margir krakkar í Sandgerði og víðar gengu meðal annars í kisumyndapeysunum frá henni.

Amma og afi eignuðust eitt barn, móður mína sem hefur nú aldeilis fengið góða hæfileika frá þeim. Afi var einnig leikinn í höndum og smíðaði meðal annars stóla og dívana. En mamma bætti líka úr í sambandi við barneignir og eignaðist okkur sex systkinin.

Þetta var nú það sem mig langaði til að skrifa um í dag í tilefni dagsins. Ég tek undir með honum Sigurði Jónssyni sem skrifaði álit hjá mér í gær. Hann segir að hann bloggi sér til ánægju og er það ekki einmitt kjarninn? Það væri ekkert gaman að skrifa ef maður hefði ekki ánægju af því. Fyrir mig er þetta eins og tómstundagaman.

Ég hef eins og hann alltaf haft gaman af að skrifa. Setja eitthvað á blað. Ritgerð í skólanum í gamla daga var eitt af því skemmtilegasta. Og ég átti pennavini bæði á Íslandi og í Noregi. En kannski hefði ég átt að vera duglegri að koma frá mér skoðunum á prenti þegar ég sat í bæjarstjórn. Það er nú annað mál... En þá bara var ég ekki orðin svona tölvuvædd!  Tímarnir breytast hratt...

En ég ætla að láta hér staðar numið að sinni. 
Góðar kveðjur úr Heiðarbæ.
Ykkar Silla.


19.01.2008 00:03

Bætandi eða bull?


  • Halló halló. Ég var að koma úr saumó! Eins og ég sagði ykkur þá var saumaklúbbur í kvöld hjá Eydísi. Gómsætt hjá henni að snæða umm. Auðvitað var gaman eins og alltaf. Fjörugar umræður og sagðar sögur. Mín saga var um úrið mitt. Ég segi ykkur hana seinna. Ég hélt á leiðinni inn eftir að ég myndi þurfa á ökuleikninni að halda á heimleið því það skóf dálítið. En það var bara komið logn núna.

    Hluti af umræðunni í kvöld var um Blogg. Hvað það stæði fyrir. Væri það bara rugl að vera að þessu bloggi? Skiptar skoðanir voru á því. Við vitum að öll umræða hvort sem hún fer fram á netinu eða heima milli tveggja og fleiri er æði misjöfn.

  •  Sumir eru tölvuvæddir og nota netið mikið eins og ég geri. Aðrir ekki. Einni fannst asnalegt að tala um hvort Gunna eða Jón kæmu í heimsókn. En er það nokkuð verra umræðuefni en hvað annað. Vinir kíkja á síðuna og hafa gaman af. Ekki er nú  kannski um leyndarmál að ræða!!!

  • En kannski tók ég þetta til mín..ha ha. En mig langar að ræða þetta almennt. Hver er tilgangurinn? Hjá sumum er pólitík í aðalhlutverki..Allt í fínu með það en ég er búin með minn skammt þar (Sendi kannski kveðjutón til vinar míns í xD). Aðrir eiga marga ættingja og suma erlendis. Ég er í þeim hópi og fæ jafnt og þétt klapp á bakið fyrir að halda þessu úti.

  • En það sem mér finnst aðalatriðið er að bloggið sé á góðum nótum. Ekki rætið eða neikvætt. Helst alltaf jákvætt. Ég hef reynt að hafa það þannig ,ná til vina og ættingja og deila með þeim þessu venjulega í lífinu..Helst að þeim líði betur eftir lesturinn. Ég ætla að halda því áfram og á bráðum eins árs bloggafmæli eins og ég sagði ykkur.

  • Ein góð saga í lokin! Gunni var að fara í vinnuna í fyrradag um hálf átta og ók fram á gamla konu á göngu. Það er nú ekki svo óvenjulegt en hún var ansi sunnarlega. Milli Nesja og Melabergs. Gunni hugsaði. Þetta gamla fólk í morgungöngu og án endurskinsmerkja. En það fór að fara um hann þegar hann sá engan bíl, því fólk leggur oftast bílnum á einhverjum ákveðnum stað og gengur síðan.

  • Þegar hann var kominn að Hólshúsi snéri hann við. Honum fannst eitthvað skrítið við málið!! Þá var konan komin næstum því að Melabergi. Hún var skjálfandi úr kulda og ekki bráðung! Líklega vel yfir sjötugt. Konan sagði Gunna að hún og maðurinn hennar hefðu farið að biðjast fyrir við kirkjuna á Hvalsnesi og svo hefði bíllin fest sig þar í snjó og maðurinn farið að sækja hjálp. En hún sagði að biðin hefði verið svo löng að hún hefði gengið af stað og var orðin ísköld...

  • Já þetta líf er margbrotið. Líði ykkur sem best.

  • Ykkar Silla. 

  •  

    17.01.2008 16:28

    Friðsælt..



    Heil og sæl..

    Já það er friðsælt í Heiðarbænum. Mér finnst það notalegt þegar ég kem frá því að elda fyrir gengið mitt að hafa svona kyrrt. Bara Týra, Vikký og ég. Bangsi kom nú í heimsókn áðan. Það eru þessir þrír voffar í hverfinu. En mannfólkið telur held ég örugglega sjö manns. Það er að segja með lögheimili. Um helgar margfaldast stundum talan.

    Gunni kemur oft heim 5-6 og þá er nú friðurinn úti..djók! Nú er ég komin með janúaráráttuna sem ég kalla. Er að fara yfir gömul föt og dót og svo ætla ég eina ferð í Rauða krossinn. Það getur örugglega einhver notað sumt af þessu.

    Og litla barnið mitt hún Linda Ösp er 25 ára í dag. Ótrúlegt að yngsti grislingurinn okkar sé orðinn svo fullorðinn!!!!  En segir kannski meira um hvað við erum ung eða þannig. Hún ætlar að hafa kaffi á laugardaginn og í leiðinni fyrir dótturina Hrafntinnu sem verður tveggja ára þann 27. janúar.

    Annað kvöld er komið að saumaklúbb. Hann verður hjá Eydísi í Njarðvík. Ég vona bara að veðrið verði til friðs. Svo fer að líða að klúbb í Heiðarbæ. Þeim fyrsta!  En kannski hjá Sigrúnu í millitíðinni. Það er gaman að hittast svona og spjalla. Pössum að hafa þetta mátulega oft..Við höfum ástæðu..þetta heitir jú saumaklúbbur þó lítill partur lyfti litla fingri.!! 

    Daginn er greinilega farið að lengja og svo er það líka snjórinn sem gerir það að verkum að enn er bjart til ca fimm. Þetta rabb um daginn og veginn væri gaman að enda á því að hrósa Bæjarstarfsmönnum eða þeim sem eru á þeirra vegum fyrir hvað þeir hafa passað vel upp á að halda Stafnesveginum fínum.
     
    Þeir komu meira að segja í morgun rétt áður en ég fór í þjálfun um níuleitið. En skaflarnir meðfram veginum eru sumstaðar vel háir og ef snjóar og skefur fyllist þetta fljótt....Er kannski að koma vetur eins og var algengur fyrir 30 árum og þar um kring???..
    Bestu kveðjur..
    Silla.

    15.01.2008 15:35

    Aftur að kokka í karlana mína..

     Snowball Fight Jæja ég fór ekki út að búa til snjókarl heldur bara hér í tölvunni og enginn kastaði í mig snjóbolta!! En ég var svo mikil skræfa að ég þorði ekki að fara í Sandgerði fyrr en birti. Enda eins gott því það hafði fennt í það sem var rutt í gær. En ég eldaði í gengið mitt og skrapp svo í heimsókn til Lillu í Keflavík.

    Svo þegar ég kom heim var búið að skafa vel og vandlega..Flott. Reyndar fann ég í morgun að jepplingurinn minn lætur bara vel að stjórn í sköflunum..munaði samt litlu að ég álpaðist út af á einum stað. Það var nú bara fljótfærni. Ættgeng!

    En ég var að lesa á vefnum að það ætti að segja öllum upp í Strýtu á Akureyri. Rækjuverksmiðju Samherja þar sem Lillý systir vinnur. Hún er reyndar í leyfi núna en ég held að hún hafi hugsað sér að fara aftur og hafði verið boðið það.. Sennilega veit ekki vinstri höndin hvað sú hægri gerir í þessum rekstri.

    Svona er nú allt ótryggt hjá verkafólki. Reyndar eru Samherjamenn að tala um að hjálpa fólki að fá vinnu ..en?.. Þetta hlýtur að koma illa við marga. En vonandi verður leyst úr málunum....

    Það var greinilegt í gær að það hafði orðið seinkun á flugi. Þær lentu vélarnar í röðum eftir sex. Venjulega heyri ég mest í þeim milli þrjú og fjögur. Vona að flugið verði á réttum tíma þegar við förum næst. 

    Við ætlum fjögur á sýningu í USA. Þar munum við hitta David og Stacey. Reyndar eru það feðgarnir og David sem þurfa mest að pæla...en við fljótum með ég, Erla Jóna og Stacey. Segi ykkur meira frá þessu ævintýri þegar nær dregur!..

    Segi þetta gott í bili. Ætla í smá göngu.. Snjóhvítar kveðjur úr Heiðarbæ.

    Ykkar Silla.

    14.01.2008 20:15

    Ónákvæmur fréttaflutningur!



    Oft hefur verið talað um að Ríkissjónvarpið væri með nákvæman og góðan fréttaflutning. Ég hélt það líka en ekki gat ég séð það áðan!! Þeir voru að lýsa snjónum í Grindavík sem ég ætla ekki að segja að hafi ekki verið óvenju mikill.........Hann var það!

    En ef þið hafið lesið bloggið mitt hér á undan þá snjóaði víðar. Fréttamaðurinn sagði að snjórinn virtist einskorða sig við fjallið Þorbjörn. Annarstaðar á svæðinu myndi fólk verða forviða að sjá slíkt.

    Ég get ekki orða bundist. Fréttakonan hefur sennilega farið beint til Grindavíkur og aftur til Reykjavíkur þar sem var lítil snjókoma. En Reykjanesið er talsvert stórt að flatarmáli.

    Ég er ekki viss um að bæjarstarfsmenn í Sandgerðisbæ séu sammála þessu. Búnir að vera á tækjunum frá því eldsnemma í morgun. Enda oft fljótt að fenna að í austanáttinni hér að vestanverðu. En þeir eru ekki teknir tali.. 

    Einhvern tíman talaði ég um litlar fréttir í fjölmiðlum um svæðið mitt. En engar fréttir eru betri en rangar. Og þetta snýst í raun ekkert um snjó heldur um að rétt skal vera rétt. Þetta er bara sýnishorn sem gæti verið um hvað sem er. Og oft að vísu í raun miklu mikilvægara. 

    En annars vona ég að rúv-sjónvarpið mitt sem við erum skyldug til að borga af afnotagjald vandi sig..
    Bestu kvöldkveðjur úr Heiðarbænum.
    Silla.

    14.01.2008 10:28

    Snjór



    Þar kom að því að það fór að snjóa duglega. Svo að Bjössi varð að skilja vörubílinn eftir og fara á jeppanum. Gunni rétt komst í gegn og er í vinnunni. En hann treystir mér ekki innúr (og ekki ég sjálf). Það er búið að hvessa síðan í morgun og komnir skaflar. Svo ég bíð bara róleg. Annað hvort sækir Gunni mig eða ég bíð þar til búið er að skafa.

    Það getur nú dregist. Ef mikill snjór er í þéttbýlinu bíðum við hér!! Það er bara lögmálið. En það er langt síðan hefur verið ófært. Báða veturna sem við vorum í skúrnum hjá Bjössa var alltaf fært. Ég var að tala við Lindu og Jón fór á jeppanum í bæinn. En hjá Kúagerði snarbreyttist umhverfið..ekki snjókorn..Svona er þetta stundum ólíkt milli svæða og oft skiptist það einmitt þarna.

    En veðurspáin segir að það eigi að hlána eftir hádegi svo líklega mun þetta standa stutt.  Ég var að dásama veðrið í gær og þetta sýnir okkur hvað það er fljótt að breytast..En allt finnst mér betra en rok og rigning..... En áðan var ég að lesa þankabrotin hennar Kollu á 245.is og hafði gaman af því. Hún er svo jákvæð kona hún Kolla.

    Það var líka gaman að lesa um upphafið að listasmiðjunni. Það rifjuðust ýmsir góðir hlutir upp fyrir mér. Ég byrjaði einmitt í Bæjarstjórn árið 1994. (Var reyndar varamaður 90-94). En það er einnig gaman að minnast þess að á árunum 1994-2002 var K-listinn okkar með hreinan meirihluta. Já sem betur fer hefur með góðum samtakamætti mikið breyst bæði í málum listarinnar og ekki síður Heldri borgara!

    Ég veit að þeir eru fjölmargir sem hafa fundið listamanninn í sjálfum sér í Nýrri vídd hjá Kolbrúnu og hennar fólki og það er ekki lítið mál því eins og Kolla réttilega segir bætir það sjálfsmynd og sjálfstraust að hafa skapandi hugðarefni. Er ég ekki enn orðin háfleyg!! En nú ætla ég að fá mér kaffisopa og og horfa á þetta hvíta undur..ha ha. góðar stundir um þessar mundir..og alltaf.
    Ykkar Silla.

    13.01.2008 14:36

    Hverfispartý.



    Jæja ég geri lítið annað en skrifa um boð og partý  ..En í gærkvöld voru hér góðir gestir. Það má eiginlega segja íbúar Stafneshverfis og gott betur. Við áttum humar umm.. Það var kveikjan og svo var nú til ýmislegt annað. Svo við Maddý lögðum saman ásamt Bjössa og úr varð hin herlegasta veisla. Maddý kom með læri og Bjössi kjúkling.
     
    Við vorum samankomin hér ellefu á aldrinum átta ára til sjötíu og eins. Dagur Númi yngstur ..Benni elstur og svo allur aldur þar á milli. Við höfðum það mjög gaman og mikið spjallað og meira að segja sungið. Lilla vinkona kom líka og var að fara heim núna. En já ég held að öllum hafi fundist gaman og haft var í heiðri máltækið..hætta ber leik þá hæst stendur. 

    Og veðrið stendur sig vel núna. Stillt og fínt.  Æ hvað það væri nú gott að það héldist svona. Gunni skrapp í vinnuna eitthvað að dunda, henda rusli ofl. og ég er orðin ein í koti. Allt svo kyrrt og frábært að sitja við stofugluggann með kaffibollann. Meira að segja sjórinn er sléttur. Eins og hann getur verið úfinn stundum.
     
    Ég er að passa Brúnó..hund fyrir Jóhönnu. Og þeir eru allir þrír í kjallaranum að leika sér. Reyndar er Týra orðin löt.

    En ég ætla ekki að hafa þetta lengra núna. Hafið það sem best.
    Kveðja, Silla í Heiðarbæ.

    11.01.2008 20:05

    Dimmt á Stafnesvegi..





    Já þó að veðrið sé gott þessa dagana þá er stuttur birtutíminn. Þar með er mikið myrkur á veginum frá Sandgerði eða frá Lyngseli, þar sem ljósastaurarnir enda og hingað út á Stafnes. Það er þó nokkuð um að fólk noti þessa leið til að ganga heilsubótargönguna. Það er nú bara gott mál en það er algengt að fólk sé ekki með endurskinsmerki! Og það er ekki gott mál.

    Þetta er mjög alvarlegt mál því dökklædd mannvera sést ekki fyrr en komið er annsi nálægt henni ef ekki eru notuð endurskinsmerki! Gunni var að koma heim á mánudag um fimmleitið og var að skipta um rás á útvarpinu. Allt í einu fannst honum eitthvað svona rétt strjúkast við bílinn. Hann kíkti í afturspegilinn og sá mann á gangi.
     
    Hann bakkaði og sagði við hann. Heyrðu vinur. Nú vorum við báðir heppnir . Gunni sem var ekki allskostar með augun á veginum og hinn á litinn eins og umhverfið! Vegurinn er svo mjór að hann þolir varla að fólk gangi langt inn á honum ef umferð er.

    Maðurinn var hjartanlega sammála og í dag þegar ég var á leið heim var hann kominn með endurskinsmerki og sást langt að. Þessi leið er ekki mjög fjölfarin á þessum árstíma en þó á ákveðnum tímum dags. Bjössi bróðir þarf að fara í vinnuna inn í Garð og segir að þeim megin sé þetta sama sagan. Það er ekkert að því að fólk velji sér þessar leiðir..aðeins út úr en bara nauðsynlegt að gera sig sýnileg því það er ekki aftur tekið ef slys verður.

    Að öðru..Í fyrradag fór ég með félögum mínum úr VSFK í bæinn á fund í Flóabandalaginu. Þar var ákveðið að vísa kjaradeilu bandalagsins til sáttasemjara. Svo nú eru kjaraviðræður komnar svona næstum á byrjunarreit. Vonandi kemur eitthvað gæfulegt út úr þessu öllu. En aðalatriðið er að tryggja kaupmátt þeirra sem lægst hafa launin og hækka þau en samt reyna að fá þá aðila sem mögulega ráða einhverju um..að tryggja að verðbólgan rjúki ekki upp!!!

    Það þýðir ekki endalaust að kenna verkafólki um að verðbólgan hækki. Þar eru áhrifameiri aðilar að verki..N.b að mínu áliti.  En nóg um þetta að sinni..Hafið það gott um helgina..skemmtið ykkur í hófi. Bestu kveðjur.
    Ykkar Silla.

     

    09.01.2008 14:07

    Fallegur dagur!



    Hæ allir!  Maður má ekki alltaf vera of neikvæður í sambandi við veðurfarið. Núna skín sólin úti og það er vægt frost. Ekta óskaveður í janúar. Ég fór nú í Fúsa og sauð ýsu fyrir okkur Gunna. Hann er einn þar í gær og dag. Það er vegna þess að nú er veður til að vinna í Hvalfirði og þar eru hinir. Gunni er í öðru hér heima. Er nokkurskonar reddari eins og kallað var.

    En þeir eru búnir að setja járnið á þak skemmunnar og Gunni tók á móti ullinni í gær. En þessi verk bíða ef annað er hægt að gera. Ég tók Vilmund með mér heim og við erum að tölvast núna. Hann er í leik og ég kannski bara í öðruvísi leik..bloggi. En það var foreldraviðtal í skólanum og allir krakkar heima og samkomulagið á Vallargötunni ekki upp á það besta.

    En hér erum við eins og ljós við Vilmundur og ég sá að Garðar var að fara til Jenna vinar síns (Inga Sumarliða) svo Ástrós fær smáfrí. Annars ætlar hún að vinna smávegis í Bónus með skólanum. Hún verður bara að passa námið. Mér skilst á mömmu hennar að kennarinn segði í morgun að hún væri með 9,5 í meðaleinkunn. Má ekki tapa þessu niður.

    Svo á ég eftir að heyra frá hinum. Held að þeim gangi bara vel. Heyrðum áðan aðeins í Eiríki og Helga Snæ  í Lysabild sem var heima með flensu. En talandi um svoleiðis leiðindi þá hef ég varla sofið síðustu tvær nætur fyrir hósta og einhverju sem er fast ofan í mér eins og alltaf gerist ef ég fæ kvef. En ekkert til að væla yfir og engin hiti.

    En ætli ég láti þetta nú ekki duga í bili. Hafið það sem allra allra best.
    Kveðja úr Heiðarbæ.
    Silla.



     Clapping Hands 



    07.01.2008 18:15

    Ólíkt!



    Ólíkar eru fréttirnar sem maður meðtók í dag. Annarsvegar hetjudáð mannsins sem bjargaði í nótt vinkonu sinni og tveim sonum hennar úr eldsvoða. Og lét sjálfur lífið við það.. Hins vegar fréttin frá í gær um manninn við Borgarfjarðarbrúna sem datt og slasaðist og fjöldi fólks ók framhjá án þess að stoppa.

    Erum við orðin eitthvað biluð Íslendingar. Af hverju stoppaði ekki fólk? Var það blint eða vildi það ekkert ,,vesen,, Ég gæti trúað að svona gerðist á hraðbrautum erlendis. Eða kannski í miðri stórborg!  En ekki hér hjá okkur.

    En við verðum víst að fara að trúa því að við séum bara orðin svona ómanneskjuleg. En þá kom fréttin um manninn sem fórnaði lífinu fyrir aðra. En eldurinn lætur ekki að sér hæða og vonandi verður þetta hræðilega slys og bruninn í vesturbænum til að fólk passi að hafa reykskynjara.

    Daginn sem ég flutti í bílskúrinn hjá Bjössa bróður fyrir rúmlega tveim árum kom hann labbandi með tvo reykskynjara og sagði..Hér verður engin nema þetta sé á staðnum. Og reykskynjarar ættu að vera skylda. Og Slökkvilið eða aðrir slíkir færu í hús til eftirlits. Í Heiðarbæ eru fjórir skynjarar.. Maður er aldrei of varkár.

    Ég bara varð að bæta við blogg dagsins. Vona að þið fáið ekki leið á mér.
    Kveðja Silla.

    Flettingar í dag: 78
    Gestir í dag: 45
    Flettingar í gær: 189
    Gestir í gær: 55
    Samtals flettingar: 101708
    Samtals gestir: 20621
    Tölur uppfærðar: 26.4.2024 22:21:47