03.02.2008 15:17

Frænka fær nafn.

 Heil og sæl. Litla frænkan mín á Húsavík sem fæddist um síðustu jól var skírð í gær. Hún er frumburður Huldar yngstu dóttur Möggu systir. En Margrét lést 2005. Og mér hlýnaði um hjartarætur þegar ég heyrði að hún hefði fengið nafnið Margrét Sif. Hlakka mikið til að sjá stúlkuna. Reyndar eru myndir af henni á heimasíðunni hjá Huld.

Það eru búin að vera rólegheit hjá okkur síðan við komum úr ferðalaginu og það er fínt því við erum svona hálflöt. Við fórum reyndar í gærmorgun á K-listafund og það var fínn fundur. Gott fyrir okkur sem erum hætt í framlínunni að fá að fylgjast vel með gangi mála í bæjarfélaginu. Við ætlum að hittast aftur 8.mars.

Stelpurnar Jóhanna, Konný og Linda ásamt hluta af barnahópnum eru búnar að kíkja. Það er alltaf gaman að fá þau í heimsókn. Svo verður einhver hluti þeirra hér í mat í kvöld.

Vikký kom heim rétt eftir að ég skrifaði síðast og hún hafði það svo gott að hún hefur verið þar eins og prinsessa. Svo komu Benni og Týra labbandi og þar hefur líka farið vel um hana. Benni sagði að hún hefði fundið að við værum komin heim. Dýrin finna ýmislegt á sér.

Já voffarnir eru hluti af heimilinu hér. En ég hef samt vanið þær á að sofa í kjallaranum og þær sætta sig við það. Svolítið pirraðar fyrst en allt í fína núorðið. Þar eru þær líka ef við skreppum aðeins frá..

En aftur að ferðinni. Ég er enn með hugann við hana. Svo mikil tilbreyting sem hún var. Fúsi, Erla Jóna, David og Stacey fóru á Garth Brooks tónleika eitt kvöldið. Það er kántrýtónlist sem hann flytur. Ég hefði alveg getað hugsað mér að fara en við elstu í hópnum tókum ákvörðun um að vera heima. Þau fjögur skemmtu sér konunglega.

En nú eru feðgarnir og Erla að vinna úr sýningunni. Fara yfir og skoða ýmsar upplýsingar sem þau eru með. Ég lofaði Ástu frænku að skrifa henni senda henni helling af myndum og ég ætla ekki að draga það of lengi. Hún er ekki tölvuvædd eins og jafnaldra hennar (MAMMA). Það er ekki hægt að ætlast til að allir séu það á þessum aldri. En hress er hún og gæti verið miklu yngri en hún er.

 Bára hringdi í gær og var þá búin að fara inn á síðuna og var að láta heyra frá sér. Hún ætlar að senda frænda sínum gamlar góðar myndir.. En ætli að það sé ekki best að hætta þessu bulli og fara að gera eitthvað af viti. Alltaf hef ég eitthvað til að dunda við! 
Hafið það sem best.
Silla.

Flettingar í dag: 15
Gestir í dag: 8
Flettingar í gær: 44
Gestir í gær: 18
Samtals flettingar: 107452
Samtals gestir: 23088
Tölur uppfærðar: 20.5.2024 04:51:40