06.02.2008 20:44

Reykjavík, ó Reykjavík!!



Við Ástrós fórum í bæinn í dag. Hún þurfti að fara til læknis vegna ofnæmis sem hún er með. Það gekk nú allt vel. En mikið er ég alltaf fegin þegar ég kem aftur til baka úr þessum bæjarferðum. Ég tók tímann og ég var lengur að keyra í gegn um Hafnarfjörð og inn í Lágmúla heldur en alla leið að heiman.

Umferðin er svo þung á þessum kafla og ekki bætir svona snjóþæfingur eða hvað er hægt að kalla þessa færð sem er ekki ófærð en leiðinleg. Svo alltaf er gott að koma heim. Ég var reyndar á stjórnarfundi í VFSK í kvöld milli sex og átta.

Ég hringdi í Hitaveituna í morgun út af ljósastaurnum hjá Bjössa. Hann var reyndar líka búin að tala við þá áður. Staurinn hefur látið ófriðlega undanfarið eða réttara sagt ljósið á honum. Logaði kannski í tíu mínútur og slökkti á sér í fleiri klukkutíma eða jafnvel daga. En ég varð nú bara aldeilis hissa þegar þeir mættu tveim tímum seinna og voru þarna dágóða stund að baksa við staurinn.

Svo ætlaði Týra alveg að ærast (verja húsið fyrir þessu ferlíki, körfubílnum) þegar þessir tveir ókunnugu menn komu hingað til mín og fóru að spyrja mig um þetta og vildu að ég léti þá vita ef ekkert lagaðist. Vildu greinilega gera það sem þeir gætu. Sá eldri sagði að þetta nýja dót (perurnar) væru aldrei til friðs ef eitthvað væri að veðri.

Svo þarna stóð þjónustan sig nokkuð vel og enn logar ljósgreyið!! En það er nú eftir að sjá hvernig það verður eftir rokið sem spáð er í nótt!!

En ekki fleira í bili. Kveðja úr Heiðarbæ.
Flettingar í dag: 1409
Gestir í dag: 984
Flettingar í gær: 139
Gestir í gær: 95
Samtals flettingar: 104586
Samtals gestir: 22307
Tölur uppfærðar: 8.5.2024 05:02:58