12.02.2008 10:36

Erfiðir samningar..



Sæl öll ..Það verða örugglega erfiðir kjarasamningarnir framundan. Ég var í gærkvöldi á fundi þar sem lögð voru fram drög frá SA. Verkafólk er orðið leitt á því að draga vagninn. Þ.e.a.s vera alltaf fremst í röð kjarasamninga. Þurfa að taka tillit til verðbólgu sem jú allir vilja hafa sem lægsta.

En svo segir fólk og örugglega réttilega ..Þegar búið er að semja við þá lægstlaunuðu þá koma hinir og skríða upp bakið á okkur!! Svo er ástandið í peningamálum ekki til að bæta þetta. Ætli það sé planað fyrirfram að hafa erfiðasta ferlið þegar kemur að kjarasamningum láglaunafólks? Segi nú svona!!

Þetta verður erfitt..annaðhvort semst á næstu dögum eða slitnar upp úr þessu. En inni í þessum drögum eru samt mörg nokkuð góð atriði en það er ekki því að heilsa með launin sjálf. En það var rangur fréttaflutningur um þetta í gær að þessu hafi verið hafnað. Það er verið að fara yfir fyrstu raunverulegu tillögur frá SA.

Og fréttir! Ekki hefur þær vantað. Þetta er skelfilegt í Reykjavík. Horfa á í beinni borgarfulltrúana læðast frá fréttamönnum til að komast hjá viðtölum eða hvað?..Þeir hafa fáir verið til viðræðna síðustu daga heldur. Það þarf örugglega að endurskoða upplýsingaþátt sveitarstjórnarlaga. Þá væri ekki fjölmiðlafárið svona algjört.

Ég var nokkur ár í fulltrúaráði Sambands Íslenskra Sveitarfélaga.  Þá var Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson formaður þar. Ef ég væri göldrótt kæmi ég honum þangað aftur. Þá hefði hann klárað ferili sinn með glæsibrag. Hann var góður þar og vinsæll. Alltaf tilbúinn að sætta fólk í ólíkum fylkingum. Og er örugglega hinn besti maður. En þetta í borginni er að fara með hann. Hann hefði átt að segja af sér að mínu áliti. Þetta versnar bara hjá honum.

En að öðru. Maddý og Gísli eru í Glaumbæ. Við kíktum á þau í fyrrakvöld. Þá var bóndinn þar farinn að hressast af flensunni. Þau ætla að vera hér fram eftir vikunni. Nú eru þau bæði hætt að vinna í svona reglulegri vinnu. En ég að held ég þekki ekki vinnusamara fólk. Svo þau eru ekki í neinum vandræðum. Alltaf nóg að gera. Alltaf hægt að laga einn og einn bíl og sauma eitt og eitt teppi..

Í gærkvöld fórst lítil flugvél hér vestur frá okkur. Hún fannst ekki og enn er verið að leita.  Þetta er vél með einum manni..Sennilega vél sem var verið að ferja milli landa. Það er alltaf sorglegt þegar svona fer. En ætli ég láti ekki staðar numið hér. Mínar bestu kveðjur..Ykkar Silla

Flettingar í dag: 41
Gestir í dag: 22
Flettingar í gær: 189
Gestir í gær: 55
Samtals flettingar: 101671
Samtals gestir: 20598
Tölur uppfærðar: 26.4.2024 09:20:36