21.02.2008 17:29

Gott gönguveður.


Eitthvað hefur nú veðrið róast undanfarið. Fínt gönguveður og orðið bjart frameftir öllu. Bræðurnir gistu tvær nætur hjá okkur og svo bara koma þeir seinna þegar vorar meira. Það er nú svona eins og vor í lofti en ekki þorir maður að trúa því, allur mars eftir.

Hrefna vinkona kíkti áðan, brún og sæt! Hún er nýkomin frá Kanarí úr sólinni. Þar voru þau ásamt fjölda veðurbarinna Íslendinga sem höfðu það fínt... Ekki er ég nú mikið hissa þó landinn reyni að komast í sólina eftir þennann æðislega góða vetur...

Já, það eru rúmlega þrettán þúsund manns búnir að kíkja á bloggsíðuna mína frá upphafi. Ég get nú bara verið ánægð með það. Jafnvel þó ég skrifi ekki alltaf margt né merkilegt!! En ég veit af nokkrum föstum lesendum. Þeir eru ekkert endilega að skrifa álit og þurfa þess ekki. Það er gott að vita af 3-4 fjölskyldum vestanhafs og svo börnunum okkar í Danaveldi. Þau geta þá allavega aðeins fylgst með því helsta og hringt ef þau vilja vita meira!!.

En blogg er eitthvað sem maður þarf að bera ábyrgð á sjálfur. Maður þarf að standa og falla með því. Þess vegna vil ég fara frekar hægt í sakirnar. Ég fékk smávegis í magann yfir bloggi fyrrum formanns Samfylkingarinnar 20.02 08. Ekki það að hann eins og aðrir ráða með hvaða orðum þeir koma sínu áliti á prent (skjá). En svolítið fannst mér hann berorður.. ææ...Það er kannski þess vegna sem ég kaus Ingibjörgu Sólrúnu formann síðast.

Annars aftur til D.K. Mér finnst hrikalegt allt fárið í Danmörku. Íkveikjur og eldar um allt og alls ekki bara í Kaupmannahöfn. Ekki veit ég hvað blöðin þar voru að hugsa með því að æsa upp innflytjendur og afkomendur þeirra af muslimskum ættum. Vonandi fer þessu að linna. En það er vandratað meðalhófið. Og allstaðar í heiminum..  

Og kannski er farið að bera á þessu hér heima líka. Allavega sá Bubbi ástæðu til að stofna til tónleika á móti kynþáttafordómum í gærkvöld. Og hann fékk forsætisráðherrann okkar til að syngja með..Frábært hjá Geir Haarde sem er jú hálfur Norðmaður.

En ég ætla að slá botninn í þetta núna í blíðviðrinu og fara út í göngutúr og toga Gunna með....
Kveðja úr sveitinni.
Silla.

Kl.18.50..Jæja nú snjóar bara. Vorið er örugglega bara inni í mér!!
Flettingar í dag: 60
Gestir í dag: 33
Flettingar í gær: 189
Gestir í gær: 55
Samtals flettingar: 101690
Samtals gestir: 20609
Tölur uppfærðar: 26.4.2024 16:11:08