09.05.2008 17:48

Hvítasunnuhelgi.



Já nú er Hvítasunnan framundan og oft finnst mér hún merki um sumarkomu. Reyndar er hún snemma þetta árið. Ég man að ég átti oft afmæli í kring um þessa helgi í lok maí. Svo man maður líka eftir frægum ferðalögum um þessa helgi með vosbúð og tilheyrandi. En ég fór reyndar aldrei sjálf. Stefnan var sett frekar á verslunarmannahelgi. Núna finnst mér oft best að vera heima um svona ferðahelgar.

En það hafa margir verið að skrifa um Stafnesmót á síðunni hjá mér. Það væri gaman að halda slíkt í sumar. Það verður samt alltaf svo að það komast ekki allir. En reynslan af svona samkomum hjá okkur í hverfinu er fín. Þá hittist meðal annars fólk sem sést sjaldan og fólk frá flestum bæjunum er mjög skylt. Það voru jú bræður og frændur sem ólu hér upp stóra barnahópa á síðustu öld.

En það er góð hugmynd hjá Konný að setja upp nefnd sem færi í að skoða þetta. Ég held að unga fólkið í dag sé mjög áhugasamt um hverfismót með varðeld og tilheyrandi. Fyrsta mótið var haldið 1990 og var á tveggja ára fresti nokkrum sinnum. Þá var fólk frá öllum bæjunum sem mætti. Mestur var fjöldinn 125 manns.

Þá kom dálítið hlé og Bjössi, Maddý, Gotta og okkar fjölskyldur hittumst svo nokkrum sinnum í Nýlendu. Og fólk tjaldaði á túninu eða kom með tjaldvagna. Og þá komu margir að norðan eins og áður og meira að segja hittist svo á að Erla frænka okkar frá Texas kom einu sinni með son og fjölskyldu. Hún var stödd á landinu gamla góða..

Svo nú er bara að tala saman frænkur, frændur og vinir.. Og netið er bara nokkuð gott til samskipta. Gott hjá Ásu að koma inn í umræðuna. Og svo eru örugglega fleiri sem hafa áhuga. Endilega sendið Konný póst, netfang= konnyhrund@hotmail.com


Ég var að fá bílinn úr viðgerð í dag. Fegin að vera á eigin bíl. Þeir hjá Bílabúð Benna tóku hann í gegn svo hann er eins og nýr segja þeir. Sögðu mér að vera svo ekki að aka utan vega. Hu, það var sko Gunni sem það gerði ekki ég..... Svo er samræmdu prófunum lokið þetta árið og engin var veikur svo þá eru engin sjúkrapróf..Finidó!!!

En ég segi þetta gott í bili.
Kveðja úr Heiðarbæ.
Silla.


Flettingar í dag: 37
Gestir í dag: 20
Flettingar í gær: 189
Gestir í gær: 55
Samtals flettingar: 101667
Samtals gestir: 20596
Tölur uppfærðar: 26.4.2024 07:21:13