17.12.2008 19:40

Ævintýralegt flug.


Komið þið sæl nær og fjær.
Við erum komin heim í Heiðarbæinn á ný eftir gott sumarfrí. Þetta var sko sannarlega sumarfríið hans Gunna því í íslenska sumrinu síðastliðna var svo mikið að gera að það var unnið flestar helgar. En hitinn úti í Flórida var eins og best gerist hér að sumri.

Ég hef nú sagt ykkur undan og ofan af fríinu og allt tekur enda. Nú komum við heim í Jólasnjóinn sem ég hef heyrt að gæti verið farinn fyrir jól. En alltaf er nú fallegt að fá hvít jól.

En heimferðin í nótt gekk nú svona allavega. Við brunuðum í loftið í Sanford Orlando í Bryndísi þeirra hjá Icelandair klukkan sex að staðartíma. En þegar við vorum komin svona hálfa leið í fyrirfram ákveðna hæð þá hægði mín bara á sér. Flugstjórinn tilkynnti erfiðleika við hjólabúnað sem virtist ekki fara alla leið upp. Hann sagði því að við myndum snúa við og lenda í Sanford þar sem farið yrði yfir málið! En til þess kom ekki og þeir komu þessu í lag en við höfðum þá tafist um meira en hálftíma. Flugstjórinn tilkynnti okkur að við værum birg af eldsneyti svo við værum því bara til í flugið heim.

En eftir tæplega þriggja tíma flug kom hann aftur í kallkerfið og sagði að vegna veðurskilyrða í Keflavík yrðum við að taka aukaeldsneyti og lenda í Boston til að taka það. Þar var rúmlega klukkutíma stopp. Mikið er ég fegin að við Íslendingar höfum svona agað og gott flugfólk. (Vona að kreppan breyti því ekki.) Því reyndin varð sú að þegar við komum hér yfir heima þurftum við að hringsóla þó nokkra stund áður en vélin gat lent. Moksturstækin höfðu ekki undan að hreinsa brautirnar. En við lentum hér heil á húfi um tveim klukkutímum á eftir áætlun.

Svo við vorum nokkuð lúin og stungum okkur í rúmið klukkan níu og lúrðum til rúmlega hálf tvö. Alltaf gott að koma heim. Búin að sækja Týru til Benna og Ölla og Vikký er komin heim líka. En Gunni er sko farinn að vinna við að laga eitthvað í Fúsa ehf sem þurfti að logsjóða.

Og ég sendi ykkur öllum mínar bestu kveðjur. Ekki síst til Dísu og co í Epplagötunni.
Silla í Heiðarbæ.
Flettingar í dag: 20
Gestir í dag: 5
Flettingar í gær: 84
Gestir í gær: 49
Samtals flettingar: 101734
Samtals gestir: 20630
Tölur uppfærðar: 27.4.2024 01:48:18