25.02.2009 17:16

Jarðarför Kristínar.


Góðan daginn.
Nú vorum við að koma úr jarðarför Kristínar Sigurðardóttur. Útförin fór fram frá Fríkirkjunni í Hafnarfirði og jarðsett var í Hafnarfjarðarkirkjugarði. Sorglega ung var hún blessunin til að yfirgefa þetta líf. Hún var rétt rúmlega 57 ára. Það er ekki hár aldur en engin veit víst hvenær kallið kemur. Og ekki spyr skaparinn um aldur.

Við vorum búin að þekkja hana síðan hún kom inn í stórfjölskyldu Gunna, ætt Borgþórs og Guðrúnar. Gunnar Þór og Gunni eru systkinasynir. Hún og Gunnar Þór giftu sig árið 1974. Eina barnið þeirra Júlíús var fæddur eins og Jóhanna okkar vorið 1975. Við höfum verið samferða gegnum lífið með mismiklum samgangi þó oftast hafi verið stutt milli símtala eða heimsókna.

Síðast komu þau hingað í Heiðarbæinn rúmum mánuði áður en hún veiktist hastarlega í október sl. Við kíktum til hennar á Grensásdeildina í janúar og ég held að við höfum þá endanlega áttað okkur á hversu alvarlegt þetta var. Blessuð sé minning Stínu og megi Guð styðja Gunna okkar og fjölskylduna. Soninn Júlíus, tengdadóttirina og ömmustrákana tvo.

En þó svona dagar séu sorglegir eiga þeir alltaf einhverjar bjartar hliðar. Fleiri hundruð manns vottuðu Stínu virðingu sína og þar hittum við stórfjölskylduna. Alltof slitrótt samband hefur verið hjá okkur og það eru margir sem vilja laga það. Í um tuttugu ár frá 1981 og fram til aldamóta fór hópur systkinabarna, barnabarna Borgþórs og Guðrúnar með fjölskyldur sínar á hverju ári í útilegu. Og fyrstu árin var líka komið saman að vetri. Það voru meira að segja formleg samtök um þessar hátíðir. Félag kátra frændsystkina hét hópurinn. FKF og ekki létu Gunni og Stína sitt eftir liggja. Þau útbjuggu til dæmis fána með einkennisstöfunum. Ég held að þau hafi ásamt Bogga Sigurjóns átt stóran þátt í hvað þessi hópur hélt lengi saman.

Og undanfarið hafa mínir krakkar oft verið að tala um að byrja upp á nýtt. Og þá myndu það verða þau af yngri kynslóðinni sem ættu að vekja upp sínar góðu minningar og byrja! Það væri frábært að gera það í nafni vinkonu okkar sem nú kvaddi.

En Linda og Konný komust ekki í dag.. Konný er nýkomin heim með litla prinsinn og Linda er ein með stelpurnar því Jón er við vinnu í Húsafelli. En Fúsi og Erla sem og Jóhanna komust. Eiríkur í Danmörku svo ekki átti hann heimangegnt. Ég held að það gangi bara vel hjá honum í fjarbúðinni. Þau eru öll á sama tíma í skóla hann og krakkarnir. En Lilja býr hjá okkur á loftinu í Heiðarbæ og hefur mikið að gera í prestsembættinu.

En hér læt ég staðar numið. Bestu kveðjur vinir, hvar sem þið eruð.
Ykkar Silla. 
Flettingar í dag: 74
Gestir í dag: 41
Flettingar í gær: 189
Gestir í gær: 55
Samtals flettingar: 101704
Samtals gestir: 20617
Tölur uppfærðar: 26.4.2024 21:24:07