09.01.2008 14:07

Fallegur dagur!Hæ allir!  Maður má ekki alltaf vera of neikvæður í sambandi við veðurfarið. Núna skín sólin úti og það er vægt frost. Ekta óskaveður í janúar. Ég fór nú í Fúsa og sauð ýsu fyrir okkur Gunna. Hann er einn þar í gær og dag. Það er vegna þess að nú er veður til að vinna í Hvalfirði og þar eru hinir. Gunni er í öðru hér heima. Er nokkurskonar reddari eins og kallað var.

En þeir eru búnir að setja járnið á þak skemmunnar og Gunni tók á móti ullinni í gær. En þessi verk bíða ef annað er hægt að gera. Ég tók Vilmund með mér heim og við erum að tölvast núna. Hann er í leik og ég kannski bara í öðruvísi leik..bloggi. En það var foreldraviðtal í skólanum og allir krakkar heima og samkomulagið á Vallargötunni ekki upp á það besta.

En hér erum við eins og ljós við Vilmundur og ég sá að Garðar var að fara til Jenna vinar síns (Inga Sumarliða) svo Ástrós fær smáfrí. Annars ætlar hún að vinna smávegis í Bónus með skólanum. Hún verður bara að passa námið. Mér skilst á mömmu hennar að kennarinn segði í morgun að hún væri með 9,5 í meðaleinkunn. Má ekki tapa þessu niður.

Svo á ég eftir að heyra frá hinum. Held að þeim gangi bara vel. Heyrðum áðan aðeins í Eiríki og Helga Snæ  í Lysabild sem var heima með flensu. En talandi um svoleiðis leiðindi þá hef ég varla sofið síðustu tvær nætur fyrir hósta og einhverju sem er fast ofan í mér eins og alltaf gerist ef ég fæ kvef. En ekkert til að væla yfir og engin hiti.

En ætli ég láti þetta nú ekki duga í bili. Hafið það sem allra allra best.
Kveðja úr Heiðarbæ.
Silla. Clapping Hands 07.01.2008 18:15

Ólíkt!Ólíkar eru fréttirnar sem maður meðtók í dag. Annarsvegar hetjudáð mannsins sem bjargaði í nótt vinkonu sinni og tveim sonum hennar úr eldsvoða. Og lét sjálfur lífið við það.. Hins vegar fréttin frá í gær um manninn við Borgarfjarðarbrúna sem datt og slasaðist og fjöldi fólks ók framhjá án þess að stoppa.

Erum við orðin eitthvað biluð Íslendingar. Af hverju stoppaði ekki fólk? Var það blint eða vildi það ekkert ,,vesen,, Ég gæti trúað að svona gerðist á hraðbrautum erlendis. Eða kannski í miðri stórborg!  En ekki hér hjá okkur.

En við verðum víst að fara að trúa því að við séum bara orðin svona ómanneskjuleg. En þá kom fréttin um manninn sem fórnaði lífinu fyrir aðra. En eldurinn lætur ekki að sér hæða og vonandi verður þetta hræðilega slys og bruninn í vesturbænum til að fólk passi að hafa reykskynjara.

Daginn sem ég flutti í bílskúrinn hjá Bjössa bróður fyrir rúmlega tveim árum kom hann labbandi með tvo reykskynjara og sagði..Hér verður engin nema þetta sé á staðnum. Og reykskynjarar ættu að vera skylda. Og Slökkvilið eða aðrir slíkir færu í hús til eftirlits. Í Heiðarbæ eru fjórir skynjarar.. Maður er aldrei of varkár.

Ég bara varð að bæta við blogg dagsins. Vona að þið fáið ekki leið á mér.
Kveðja Silla.

07.01.2008 15:04

Venjulegur janúar!Komið þið sæl. Nú eru jólin endanlega búin og ég er að taka niður jólaskrautið. Í Ameríku er það nú tekið niður á annan í jólum.  Ég heyrði það hjá Mumma að það er gert bara strax. En við höldum í dótið þar til á þrettándanum og sumir lengur. Það er nú allt í lagi að lofa einu eða tveim ljósum að loga til að lýsa upp skammdegið.

En við verðum að sætta okkur við að nú er kominn venjulegur janúar. Ég var að elda fyrir strákana í Fúsa og fór svo með Ástrósu til tannlæknis. Það þurfti ekkert að gera við heldur stafaði verkurinn af kvefi!  En talandi um hana Ástrósu þá var hún hæst í ensku í bekknum og há í stærðfræði og fær að taka samræmdu prófin í þeim fögum í vor með tíunda bekknum. Hún er í níunda bekk.
 
Þau fá að gera þetta ef þau eru með yfir níu held ég. Ég er búin að sitja yfir krökkunum sl. tvö ár en ég er ekki viss um hvort þessum prófum verði hætt á næsta ári. Einhverjar breytingar eru í gangi. En það er um að gera fyrir þau sem eru áhugasöm að taka svona próf og sjá hvar þau standa.

Svo er hún komin í Ungliðasveit Björgunarsveitarinnar og segist fíla það í botn. Það hafa nefnilega ekki allir áhuga á íþróttum og gott að geta tekið þátt í öðru uppbyggjandi. Hún sagði mér að hún hefði hjálpað til að festa bát.. Þetta gefur krökkunum svo mikið að fá að taka þátt. Annars er hún líka dugleg að hjálpa mömmu sinni sem vinnur mikið en við höfum reynt að ofgera henni ekki í þeim þættinum.

Jæja nú er Ástrós búin að fá umfjöllun!!! Hvert af barnabörnunum verður næst? Kannski Hljómsveitargæinn minn? Eða einhver þeirra sem búa í Danaveldi? En núna er líklega best að halda áfram við að tína niður jóladótið. Líði ykkur sem best.
Ykkar Silla.05.01.2008 19:47

ELG og Stafnesbrenna.


Sæl öll. Ég fór á ljósmyndasýningu í Salthúsinu í Grindavík í dag. Ekkert smá flottar myndir. Það var vinur minn Ellert Grétarsson sem var að sýna hluta af myndum sem hann hefur tekið sl. þrjú ár. Ég er með tengil á siðunni minni ef þið hafið áhuga á að skoða myndir eftir hann.

Reyndar eru ekki allar myndir sem voru á sýningunni þar en sumar þó. Mér finnst hann hljóti að vera orðinn fremstur meðal ljósmyndara í náttúrulífsmyndum á landinu og þótt víðar væri leitað. Ég á tvær myndir eftir hann á veggjunum hér í Heiðarbæ. Ef veggjaplássið væri meira er aldrei að vita hvort ég hefði freistast!! Þetta var sölusýning og mjög mikið fjölmenni.

En við hér í Stafneshverfinu höfum haft þann sið að kveikja í brennu um þrettándann. Það er ekki síst Maddý sem hefur verið driffjöðurin í því. Og líka Bjössi. Við bara fórum til að horfa og hitta fólkið. Þeir kveiktu kl. fimm og það var fínt veður..trúið þið því? Bara hægur vindur af norðri og góðar aðstæður til brennuhalds.

Ég held að við höfum verið vel yfir tuttugu manns þarna að horfa með blys og skjóta upp flugeldum. Bjössi var á staðnum með einhverjum af sínum mannskap og myndavélina. Svo það er öruggt að ef þið kíkið inn á síðuna hans þá sjáið þið einhverjar grýlumyndir!!
Er ekki Grýla að fara til fjalla um þessar mundir..

Hadda mamma hennar Hrefnu var jörðuð í gær. Þvílíkt hvað þau gerðu þetta vel systkinin. Og við erfidrykkjuna var spiluð harmonikutónlist. Hún hafði yndi af tónlist og mér finnst að fleiri mættu taka þetta sér til eftirbreytni. Ekkert vol og víl!

Það var gestkvæmt í gærkvöld í Heiðarbænum. Við vorum með þá bræður Vilmund og Garðar ásamt Brúnó hjá okkur fram eftir kvöldi og svo komu Hilmar og Gugga með barnahópinn sinn í heimsókn. Með þeim var nýja mamma hans Snata sem nú heitir Bassi og auðvitað prinsinn sjálfur líka. Held bara að hann hafi þekkt mig. Ætlaði allavega að éta mig. Honum líður greinilega vel hjá nýju fóstrunni sem heitir Elisabet Mary og er dóttir hennar Anfri. Og hún er konan hans Ebba.

Þegar þau voru nýfarin komu nágrannahjónin Maddý og Gísli úr Glaumbæ. Við sátum og spjölluðum fram eftir nóttu. Sumir sifjaðir í morgun..ææ en Gunni fór í vinnu um hádegi.

Á eftir ætlum við upp á loft og horfa á brennuna og flugeldasýninguna í Sandgerði. Hlýtur að sjást vel héðan í svona veðri. Gæti verið gaman að sjá þetta frá okkar sjónarhorni hérna. Hafið það sem allra best á þrettándanum sem og alltaf.
Bestu kveðjur Silla.03.01.2008 18:04

Neytendasljóir Íslendingar.Ég var að hlusta á útvarpið í dag og heyrði í fréttunum sagt frá doktorsritgerð í markaðsfræði. Það var Valdimar Sigurðsson adjunkt við Háskólann í Reykjavík sem varði ritgerðina. Það var viðtal við hann og ég varð smá hugsi.
 
Hann segir að verð og verðlækkanir hafi ekki áhrif á sölu á vissum tilteknum vörum sem hann rannsakaði..Meira að segja í sumum tilfellum hafi það slæm áhrif að lækka t.d hársnyrtivörur.. Hann segir Íslendinga skera sig úr á þessu sviði. Og aðspurður tók hann undir það að við værum neytendasljó þjóð Íslendingar.

Þá vitum við það. Og kannski vissum við það. Íslendingar kunna ekki að standa saman til að mótmæla verðhækkunum. Eins og tildæmis bensíni og olíu hvað þá aðalnauðsynjununum matvörunni. Í löndunum í kring um okkur heyrum við af fólki sem fer bara í stræk og hundsar vöruna. En maður spyr sjálfan sig. Getum við hætt að kaupa t.d  mat og eldsneyti?

En það er aðeins annars eðlis og alvarlegra ef það er rétt að við bara kaupum og lítum ekki á verðið. Ég gæti trúað að þetta hafi ágerst með tímanum hjá okkur. Það verða allir að vinna svo mikið og eru á hlaupum við að versla. En eitthvað hlýtur þetta að vera misjafnt. Fólk myndi ekki flykkjast í lágvöruverslanirnar og bera saman við hinar ef þetta væri algilt.

Ég sjálf hef meiri tíma en oft áður og kíki oftast (ææ) á verðið. En í gamla daga þegar ég var heimavinnandi með fullt hús af krökkum, þá held ég að ég hafi verið best vakandi. Og þurfti að vera það. En þetta er umhugsunarefni og ætti að hvetja okkur til að staldra við.
Kaupa kaupa..Mér varð hugsað til okkar hjúanna sem létu ekki nægja eitt skrifborð á dögunum. Þau urðu að vera tvö.

En ég er með bók á náttborðinu, Sögur úr Síðunni eftir Böðvar Guðmundsson og þar er talað um hversu miklu við söfnum að okkur um ævina og hvað það skilur lítið eftir. Það er svo kannski annað mál og þó, þessi höfundur er mjög góður. Skrifaði líka bækurnar Híbýli vindanna (Ísland) og Lífsins tré. Frábærar bækur um Vesturfarana á nítjándu öld.

Nóg af svona þönkum í bili. Allt annars gott að frétta úr Heiðarbænum. Vindur úti....
Hafið það gott öllsömul.
Ykkar Silla.

01.01.2008 15:04

Gleðilegt nýtt ár 2008.


Gleðilegt ár gæskurnar mínar!! Við skulum vona að árið verði okkur öllum gott og slysalaust. Heilsan verði eins og best verður á kosið. En vissulega hafa allir við eitthvað að bjástra. En að vinna þá fram úr því er nákvæmlega listin við að lifa.

Í gærkvöld fórum við í mat í Miðtún 6 eins og ráðgert var. Alveg einstaklega góður matur. Svo voru þau með uppáhaldið mitt í forrétt..umm humar. Vorum komin heim fyrir Skaupið og horfðum svo á sjónvarpið frameftir. Eins og ég hef sagt höfum við snúið svolítið upp á sólarhringinn. En nú er engin miskunn..hversdagsleikinn tekur við á morgun. Og það er bara ágætt..
 
Og vona ég að veðrið verði betra á næstu mánuðum en þeim síðustu. Ég lofaði sjálfri mér m.a að fara í fleiri gönguferðir. En sumir segja að ekki að eigi að ákveða eitthvað svona nákvæmlega á áramótum. En er það nokkuð verri tími en hver annar?

En nú er ég aftur komin í eldhúsmálin. Mamma og tengdaforeldrar mínir ásamt Jóhönnu og börnum verða í mat í kvöld. Svo við verðum þá níu. Það er nú bara frekar fátt..Hm við vorum lengst af níu í fjölskyldunni í Nýlendu þegar ég var að alast upp.

Ég ætla að hafa þetta stutt og segi bara enn og aftur. Gleðilegt ár.
Silla.

30.12.2007 17:30

Árið 2007 senn á enda.Heil og sæl. Nú er árið senn á enda. Næst síðasti dagurinn í dag. Þetta er búið að vera viðburðaríkt ár hjá okkur. Flutt í Heiðarbæ, yngsta barnið hún Linda gifti sig, David og Stacey giftu sig líka í Hvalsneskirkju, við gömlu áttum 40 ára brúðkaupsafmæli, ég komin á ææ sjötugsaldurinn. Skrítið, finnst ykkur það ekki líka? Ha ha.

Svo fórum við í lengra ferðalag en við höfum áður farið. Allt til Kanada og niður til Flórida. Svo ekki þurfum við að kvarta yfir tilbreytingarsnauðu ári. Aldeilis ekki. Þetta hefur að flestu leyti verið gott ár. En alltaf um áramót hugsar maður bæði aftur og ekki síst fram á við. Því vissulega má margt bæta.

Við skelltum okkur á hjónaball í gærkvöld. Fórum fyrst til Sólrúnar og Óskars og síðan saman upp í Samkomuhús. Maður var nú svolítið að spá í því fyrirfram hvort við værum ekki eins og öldungar í hópnum. En þetta var fólk á öllum aldri eins og best er á kosið og fullt hús. Við gengum í hjónaklúbbinn árið sem hann var stofnaður. Ég held 1973.

Maður hitta þarna marga sem maður hafði ekki séð lengi. Það var sko reglulegt fjör. Ég hef kannski innbyrgt fullmikinn vökva. Var örlítið þreytt í dag!! Allavega finnst mér nóg komið að sinni! En þetta var gaman og Bjössi bróðir skutlaði okkur heim tímanlega. Ég talaði við Gullu og Ævar. Þau ætla að taka smá pakka fyrir mig til Mumma. Bara svona að gamni. Þau eru að fara út til hans í Sívætlu 10.janúar.

Annað kvöld, Gamlárskvöld ætlum við að vera í mat hjá Fúsa og Erlu Jónu. En mig langar að vera komin heim fyrir Skaupið því nú sjáum við loks vel alla sjónvarpsdagskrána. En það er nú notalegt að þurfa ekki að elda..og vera með allavega hluta af fjölskyldunni síðasta kvöld ársins.

En ég ætla að enda bloggið mitt þetta árið núna og vitna í bók sem ég fékk í jólagjöf. Þar er vitnað í marga fræga húmorista frá ýmsum tímum. Winston Churchill sagði..Svartsýnismenn sjá vandamál í hverju tækifæri... Bjartsýnismenn sjá tækifæri í hverju vandamáli. Er þetta ekki bara fínt inn í nýja árið. Og endilega verum bjartsýn.

Gleðilegt nýtt ár og kærar þakkir til ykkar sem nennt hafið að kíkja á skrifin mín.
Silla í Heiðarbæ.

27.12.2007 12:48

Jólarest.


Nú eru blessuð jólin liðin.
En eftir smá hlé kemur önnur helgi og svo áramótin. Einhverjir fá ágæt frí nú í skammdeginu. Hjá okkur hér í Heiðarbænum var notalegt. Við fórum í messu kl. sex á aðfangadag. Ég hef aldrei gert það áður. Fór oft í kirkju á jóladag en einhvernvegin var maður fastur í þeim sið að borða hátíðamatinn kl. sex á aðfangadagskvöld.

 En þetta var hátíðleg stund og ég get sko vel hugsað mér að gera þetta að venju. Engin börn heima að bíða eftir pökkum. Krakkarnir okkar vilja öll vera heima hjá sér það kvöld. Ég er búin að liggja í bókum og bíómyndum yfir hátíðirnar. Í gærkvöld vorum við með hátt í tuttugu manns í mat og það gekk allt vel. Fyrsta sinn sem svo margir borða í einu í nýja húsinu. (Reyndar var haldið upp á afmæli Vilmundar í ágúst). Eftir að vera búin að ganga frá því mesta (og jafna mig)....fór ég að lesa aftur og las til tvö í nótt. 

Var með svo spennandi bók að ég gat ekki hætt. Hún heitir... Hvar eru börnin? Var fyrst gefin út á íslensku 1985 og er eftir Mary Higgins Clark. Hin bókin sem ég var að lesa er Útkall. Segir sögu björgunar sjóliðanna á Trinton og Wilson Muuga málinu. Ótrúlegt að lesa um þessar hetjur sem við eigum á þyrlunum. Líka ótrúlega seiglu Dananna sem komust af. Og undarlegt að hugsa til þess hvað þetta allt gerðist nærri okkur hér..

Já maður er eiginlega búin að snúa við sólarhringnum. Það þarf nú að fara að vinda eitthvað af því dæmi. Gunni er miklu hressari og hefur náð að hvíla sig og dofinn er minni. Svo vonandi er þetta að fara. En það eiga samt eftir að koma niðurstöður úr rannsóknum.
 
Dúna systir og Þröstur voru hér í gærkvöld. Mamma hans dó á jóladag og það eru tveir mánuðir síðan pabbi hans lést. Það er ekki alltaf langt á milli hjóna. Stundum svolítið sérstakt. Það liðu aðeins 40 dagar á milli andláts foreldra Gísla hennar Maddý (Möggulóu).

Læt þetta duga í jólarest.
Hafið það sem best.
Silla.

P.s.  Lítil dama fædd hjá Huld frænku á Húsavík!!


24.12.2007 00:38

GLEÐILEG JÓL!


Gleðileg jól, gott og farsælt komandi ár til ykkar allra lesenda síðunnar 123.is/heiðarbær og annarra!!
Nú var Heiðarbæjarkellan að ljúka við að skúra og sjóða hangikjötið..umm ætla að smakka. Enn og aftur líði ykkur sem best!
Jólakveðja..Silla og Gunni.

22.12.2007 21:40

Jólaljósin lýsa..

Sæl öll.

Nú eru jólin, hátíð frelsarans að svífa inn til okkar mannanna barna. Allir eða flestir hlakka til jólanna. Það eru þó ekki allir jafnir. Víst eru þeir það fyrir augum Guðs en í veraldlegum skilningi ekki! Sumir eru bara hreint á götunni. Alveg sama hvað hver segir um ástæður þessa þá er það þannig.

Og þó fólk sé ekki á götunni þá eiga margir erfitt. Og það er örugglega sárara um jólin en endranær að skýra út fyrir börnunum að kaupið sé ekki nógu hátt til að kaupa og kaupa!!! En hvað erum við að kaupa svona mikið Íslendingar? Er ekki nær að reyna að eyða smá stund með elstu og eða yngstu meðlimunum frekar en sitja föst í umferðinni sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu í leit að einhverju til að kaupa..

Og svo er miklu betra að versla bara á Suðurnesjum. Sparar tíma og þar með höfum við meiri tíma aflögu í alvörumálin SAMVERUNA. Það hefði afmælisbarnið viljað. Allir hljóta að vita að við erum að halda upp á afmæli HANS Jesú Krists. En það eru ekki allir sammála um dagsetninguna sem mér finnst algjört aukaatriði. Við erum að fagna lífi frelsarans og fæðingu.

Nú er ég orðin svolítið háfleyg. Dúna syss myndi segja að það væri af því ég væri komin í sóknarnefnd.. Nei en ég var bara ekkert að hugsa um það. Kannski kemur að því að ég fari að prédika yfir ykkur elskurnar (bara djók). En hér gistir Vilmundur Árni í nótt. Hann ætlar að sofa á milli ömmu og afa. Og hlakkar til..

 Mamma hans vinnur í Bónus myrknanna á milli núna. Ein af þeim sem ekki hefur of mikið til að moða úr en með vinnusemi og hjálp gengur það upp. Og dóttirin Ástrós er perla. Aðeins 14 ára og dugleg í skóla. Er með með þeim hæstu í einkunnum og er dugleg að hjálpa til á heimilinu.. Ömmustelpa!!!

Garðar Ingi er í góðu yfirlæti hjá Diddu og þvílíkt hvað þessi fjölskylda reynist Jóhönnu vel. Þau eru í einu orði sagt frábær!
En nú er kominn tími til að hætta þessu pikki og ég vona að ykkur gangi vel að pakka inn!

Bestu jólakveðjur!

                                                                                                                        

20.12.2007 21:13

Umferð og skammdegi.


Nú er ég í tölvunni hans Gunna..sem er svo miklu fullkomnari en mín litla fartalva. En það stjórnar ekki skrifunum. Nei það mun alltaf mannshugurinn gera. Hér við hliðina á mér er Vilmundur Árni sex ára í tölvuleik. Kappinn vinur minn. Við erum að passa hann núna og hann er svoooo góður!

Já þetta er tölvuherbergið okkar!  Ég held satt að segja að það sé komið til að vera aðalherbergi hússins, þó það sé ekki stórt. Það eru flestir tölvuvæddir og msn er heimur sumra. Ég hef verið á msn og það er bara gaman. Nokkurskonar símasamband eða þannig. Var oft á þessu í Miðtúninu.

En dagurinn í dag var svona kannski dæmigerður eða þannig. Við mamma fórum af stað úr Sandgerði um ellefu og hún átti tíma hjá lækni rúmlega eitt. Það gekk nú eftir áætlun og svo var ég búin að mæla mér mót í millitíðinni við Grétu mömmu Lilju tengdadóttur og það gekk vel..Jólapakkar og fleira fóru á milli bíla.

Síðan skruppum við upp í Breiðholt með pakka fyrir Eyju. Það gekk vel að lokum og svo fórum við í kaffi til Maddý og Gísla í Heiðarásnum. Næst fórum við í Bónus og Rúmfatalagerinn og mér fannst mjög gott að fara heim á leið eftir alla þessa mannmergð. Og ég sem er vön í útlandinu! Já og samt eru fjórir dagar til jóla!!

Svo lá leiðin í Keflavík í apótek og fleira. Á eftir var mömmu komið til síns heima í Miðhúsum. Síðan sótti ég Vilmund. Þá var kukkan orðin rúmlega sex. En Jóhanna mamma hans og Konný eru að klára jólainnkaupin og svo verður hann sóttur eftir það. 

Hann hefur áhyggjur af því að jólasveinninn finni hann ekki!! En ef hann sofnar hér hjá ömmu og afa þá held ég að sveinki finni hann bara. Sko ef hann hefur verið stilltur í dag.. Hann er það hér..ljúfur og góður.

Bráðum koma blessuð jólin 
börnin fara að hlakka til.

Og kannski fleiri ! Bestu kveðjur Silla.

19.12.2007 23:08

Ár frá strandi Wilson Muuga.


Já það var ár í morgun frá strandi Wilsons Muuga eða Villa eins og við kölluðum hann. Og það hefði verið allt bara sæmilegt að segja um þennann atburð ef ekki hefði það sorglega gerst að einn sjóliði af Triton danska varðskipinu hefði látið lífið.

Það gekk eins og í lygasögu um miðjan apríl að koma honum burtu og við sáum ekki eftir honum! Ónei.. Hann blasti við út um stofugluggann hér í Heiðarbæ þegar við vorum að sparsla og vinna. En við fluttum inn mánuði seinna og þá var vinurinn farinn.

Þegar þetta gerðist í fyrra var ég að hlusta á áttafréttirnar og Gunni frekar seinn, var að fara í vinnuna. Þá var sagt að skip væri strandað sunnan við Sandgerði. Ég sagði við Gunna ..láttu mig vita hvar þetta er. Vegna þess að fyrir sunnan Sandgerði er svolítið teygjanlegt!

Hann hringdi eftir eina mínútu og sagði ..þetta er bara hér hjá Bala. Reyndar frá okkur séð var þetta rétt hjá okkur. En strandstaðurinn var reyndar innan marka Hvalsneshverfis í sirka eins kílómetra fjarlægð í beinni línu.

Ég skellti mér úr skúrnum (Bjössahúsi) til Benna og Ölla í kaffi og þar fylgdumst við frændsystkynin með atburðunum. Fyrst var skipið með fullum ljósum en síðan slökknuðu þau. Já það var átakanlegt með sjóliðann danska. Þegar birti ef hægt er að kalla birtu á þessum tíma sáum við skipið betur.

Já það er búið að skrifa, sjónvarpa og segja svo mikið frá þessu öllu að það er ekki neinu við að bæta hér. En ef þið viljið skoða myndir frá þessum tíma þá tók Bjössi bróðir(linkur til hægri) mikið af myndum á þessum tíma og ég svo seinna þegar hann var dregin út.(kominn með bloggið)

En að öðru..Ég var á safnaðarfundi Hvalsnessóknar í kvöld. Þar var ég kosinn nýr fulltrúi í stjórn ásamt Karli Ottesen. Mig hlakkar til að takast á við þessi verkefni þó svo að maður viti ekki mikið um þessi störf enn sem komið er. En ef viljinn er fyrir hendi þá tekst þetta örugglega. Það eru sjö manns í stjórn.

Læt þetta duga sem aðventuinnlegg í bili.
Kveðja Silla.

18.12.2007 20:19

Tölvuherbergið!


Jæja, heil og sæl.. Í Heiðarbænum okkar er tölvuherbergi..auðvitað, ég sem er alltaf að blogga!  En við vorum ekki raunverulega búin að búa það vel út fyrr en í dag. Við fórum í Ikea í gær í vitlausu veðri að kaupa skrifborð..En ekki eitt heldur tvö. Já..já..........

Ég sagði við Frikka svila minn sem var að aðstoða okkur við uppsetninguna að þetta væri eins og með gömlu hjónin sem vildu sofa í sitt hvoru rúminu. Bara tvö skrifborð i staðinn. Og þá læddi hann út úr sér..Já af því það er bara pláss fyrir eitt hjónarúm hjá ykkur! Hm.
En þetta er frábært. Gunni með heyrnartækin í einhverjum tölvuleik..  Æ.. æ tvisvar verður gamall maður barn....En þetta er það sem honum finnst afslappandi og því ætti ég að vera að væla yfir því!

En annars er allt gott að frétta og lífið gengur sinn vanagang. Ég fór í pósthúsið með kort fyrir mömmu og nokkur fyrir okkur sem eiga að fara út á landsbyggðina. Annars eru flestir þar tölvuvæddir ..en þetta er gamall vani líklega, hjá mér.

Á morgun ætla ég að vera eitthvað með Vilmund Árna. Jóhanna mamma hans vinnur sem aldrei meir nú fyrir jólahátíðina og komið frí í skólanum. Á fimmtudag fer ég með mömmu til læknis í árlega skoðun.

Svo þið sjáið að ég sit ekki alveg auðum höndum..ónei aldeilis ekki. Frekar finnst mér að það vanti tíma í sólarhringinn, allavega stundum.
Já svo á elsta barnið mitt afmæli í dag. Fúsi orðinn 39...En elskurnar mínar bestu kveðjur í jólaönnunum.
Silla.

16.12.2007 15:35

Afmæli hjá Arnari Smára.


Arnar Smári Hannesson varð tveggja ára í gær. Hann er næstyngstur barnabarnanna. Yngst er maddama Hrafntinna Jónsdóttir. En hún er svona rétt á hælunum á honum verður tveggja ára 27.janúar. Og hún er að fá systir eða bróðir í maí n.k. Og Arnar Smári var hress á afmælisdaginn sinn. Hann er svo mikið krútt strákurinn, rauðhærður með krullur!

Sniðugt hvernig þetta tvinnast saman. Ég meina ættir. Hannes pabbi hans er barnabarn Hannesar heitins á símstöðinni og Önnu ljósu sem tók á móti helmingi af okkur systkyninum og svo Jóhönnu minni sem var með síðustu ljósubörnunum hennar. Og eldri strákurinn þeirra Konný og Hannesar heitir Jóhann Sveinbjörn í höfuðið á pabba Hannesar sem drukknaði þegar Hannes var um sjö ára. En svona er þetta líf.

Nú erum við komin í jólaskapið gamla settið. Búin að vera að greiða úr seríum og taka upp jólaskraut sem hefur flest ekki verið notað síðan í Miðtúninu jólin 2004. Það var takmarkað sem við höfðum pláss fyrir í Bjössahúsi (skúrnum). Og svo komu Fúsi, Erla Jóna og Ágúst í gærkvöld og Fúsi tengdi fyrir mig græjurnar!! Já og það hafa sko verið spiluð jólalög í dag.

Já og jólakortaflóðið!! Ég ætla að senda takmarkað af kortum núna. Er búin að senda jólakveðjurnar í útvarpið. Það verður bara að hafa það ef fólk heyrir þær ekki. Fyrir mig  persónulega er frábært að hafa þessar lesnu jólakveðjur. Eitthvað tengt hefðum.. Mér finnst jólin vera að koma þegar ég elda hangikjötið laga til og hlusta á kveðjurnar. En ég er nú hálf skrítin . Svo ætla ég að nota netið og senda sumum í gegn um tölvuna mína.

Jæja, læt þetta duga af jólahugleiðinum, afmælum og fleiru góðu. Látið ykkur líða vel.
Kv. Silla.

14.12.2007 11:03

Hitt og þetta.


Það er nú bara klisja ef ég tala enn um veðrið. En? Hvað er í gangi með þessi óveður. Dúna systir segir að við eigum að flytja á Kópasker. Þar sé alltaf logn nema þegar hvessir  Já ég get trúað því. Við höfum oft reynt að segja þetta á Suðurnesjum en fólk vill ekki trúa okkur..ææ. .Af hverju ekki. Annars held ég að þó að snjói vel stundum á þau fyrir norðan þá fái þau ekki svona lægðasúpur. Þær koma víst oftast upp að suður og vesturströndinni.

En að öðru. Siggi Jóns (linkur til hægri á síðunni minni) var að tala um á blogginu sínu um m.a konuna sem var sett í fangelsi af því hún var ekki með Visa. Vegabréf sem hún hefði þurft af því hún hafði dvalið lengur í BNA fyrir 12 árum en hún hafði ráðgert. Þörf umræða hjá Sigga. Og mér skilst að hundruð Íslendinga hafi skrifað comment á bloggsíðu konunnar um málið.

Þetta þarna úti er náttúrulega bara klikkað. Ég veit ekki hvað er að hjá þeim. Fyrst þegar við vorum að ferðast þangað virkaði þetta jú kannski strangt, vel skoðað og slíkt ok. En núna er viðmótið allt annað og ég vil segja kuldalegt. Held ekki að þessir ungu fjölskyldumenn séu slæmir menn. En þeim hlýtur að vera sagt að vera ógnandi og hranalegir. Jafnvel öskrandi í Hitlersstíl! Við erum alltaf dauðfegin þegar við erum komin í gegn.

Kannski vilja Bandaríkjamenn bara alls ekki ferðamenn inn í landið. Það er þó mótsögn í því. Allir þessir skemmtigarðar sem eiga að laða að fólk alls staðar úr heiminum. En þetta viðmót sem ég var að tala um á bara við þessa aðila sem taka á móti okkur við komuna til landsins. Hinn almenni borgari er kurteisin uppmáluð. Og allt fólkið okkar, frændfólk og vinir eru æðisleg.. Heyrið það Dísa, Nonni ,Kathy og öll hin!! En the Immigration er eitthvað sem þeir verða að laga. 

Í haust fórum við yfir landamærin til Kanada og þar voru verðir laganna hinir ljúfustu. Ekki fyrirfram ákveðnir í að við værum ótínt glæpalið eða þannig. Og allt gekk smurt fyrir sig. Ég tala nú ekki um frændur okkar Dani. Miðað við allt þarna í BNA eru þeir bara ligeglad og brosa framan í okkur eins og við séum svona venjulegar manneskjur. Já ættum við bara að brosa að þessu þarna í BNA? Nei það er ekki hægt. Og ég vona svo sannarlega að konan verði beðin afsökunar.

En þetta er nú að verða svolítið langt. En eitt, Gunni var sendur á LSH í aðra rannsókn í gær og á að fara í fleiri eftir helgi. Svo kannski fari eitthvað að skýrast í þessu dofa -þreytumáli. Læt staðar numið eftir þennan reiðilestur með meiru.
Bestu kveðjur.
Flettingar í dag: 105
Gestir í dag: 17
Flettingar í gær: 74
Gestir í gær: 32
Samtals flettingar: 124500
Samtals gestir: 26580
Tölur uppfærðar: 21.7.2024 05:40:37