01.07.2007 20:57

Góður dagur!


Sólin hefur skinið eins og venjulega nú undanfarið. Allur júnímánuður frábær og nú er kominn júlí. Það var unnið í pallinum í góða veðrinu og heilmikið þokast áfram. Það hefur verið mikið um gestakomur og það er alltaf gaman. Maddý Gísli og Benni komu í gærkvöld og þá höfðu níu manns verið í mat fyrr um kvöldið. Svo á því sést að það er fjör á bæ.
 
En heilsan er ekkert alltof góð. Berkjubólgan..en það smá lagast. Ég varð að gefast upp og fara að sofa áður en M..G..og .B fóru í gærkvöld eða nótt. Hvenær er nótt og hvenær er dagur á þessum tíma. Ekkert of hrifin að vera svona slöpp.

En svo komu Færeyingarnir vinir okkar í heimsókn í dag. Og það var ánægjulegt að fá þau hingað til okkar. Sólrún og Óskar voru með þeim. Og ég átti ístertu sem var vel þegin, held ég í hitanum. Ég hafði áhyggjur af þeim í bráðabrigðastiganum en allt gekk vel. Kirsten bæjarstjóri færði okkur gjöf og þau eru svo indæl færeysku frændurnir okkar. Allavega þau sem ég hef kynnst.

 Týra er orðin þung á sér og ég á von á að það komi hvolpar á næstu dögum. Margir hafa sýnt þeim áhuga fyrirfram en ég veit ekkert hvað verður hvað margir af hvoru kyni og þannig. En þetta verður spennandi þegar þetta verður búið.
Jæja fleira ekki sagt í bili. Góðar stundir.


29.06.2007 21:18

Pallurinn. Nú hamast Gunni og smiðirnir við að setja upp pallinn við Heiðarbæ. Reyndar er þetta ekki bara pallur heldur líka uppgangur í húsið. Og fyrstu spýturnar á dekkinu eru komnar. Ég get pottþétt labbað hér út á morgun ef svona heldur áfram. En það tekur svo sinn tíma að smíða tröppurnar.. En gaman gaman allt að gerast núna.

Reyndar er ég ekkert of hress. Það er að segja ég er oftast andlega hress!! En..ég er slöpp og komin með sýkingu í lungnapípurnar..Bronkítis. Gunni sagði í morgun ..farðu nú að minnka reykingarnar..Ég sem hef aldrei reykt ..En hóstinn var eins og hjá þeim sem reykja mest!! En ég fékk einhver sýklalyf og doktorinn vildi meina að ég yrði góð eftir viku. Og ekki vera í sólinni sagði blessaður maðurinn lyfið getur komið af stað sólbruna.. Ha loksins þegar kemur almennilegt sumar og ég að fá pallinn..jæja. Ég er nú ekki viss um að ég gegni. En eins og er júúú. Jæja nóg af væli.

Gunnar gistir hjá okkur um helgina því Fúsi og Erla eru í útilegu og hann vildi ekki fara með. En það á eftir að sækja hann til að fara í háttinn eða tölvuna! Hann er í Sandgerði hjá vini sínum. Þeir eru að leika sér á hjólum!!  Í dag var hann hér líka og vann eins og forkur strákurinn. Jæja segi ykkur meira næst ..hressari.  .
 
Góðar stundir.

27.06.2007 23:51

Vinir frá Færeyjum..Jæja við vorum að koma úr veislu sem haldin var í Vörðunni til heiðurs vinum okkar frá Vogi vinabæ Sandgerðisbæjar í Færeyjum. Við vorum þar vegna þeirra tengsla sem mynduðust fyrir teimur árum þegar við nokkur úr þáverandi bæjarstjórn heimsóttum þau. Við Ester sem erum ekki í bæjarstjórn nú vorum boðnar ásamt mökum vegna þessa. Það var alveg frábært að hitta þau aftur. Það er eins og maður hitti frænku eða frænda. Sem þau eru jú..Við fórum upp í turn á Vörðunni og sáum auðvitað vel hingað heim. Það var skálað í fyrsta skipti þarna skýjum ofar og það fannst mér gott tilefni.

En við fengum Fúsa og Erlu til að ferja okkur heim. Eins og ég hef sagt eftir einn ei aki neinn. Og nú erum við komin í sveitasæluna og það er yndislegt. Engin hávaði bara fuglasöngur og sjávarniður. En það voru uppi hugmyndir um að þau  færeysku komi til okkar í heimsókn og það kemur bara í ljós hvað verður.

Það er komin möl til uppfyllingar og svo fer að koma að því að pallurinn rísi!!
Fleira seinna. Góðar stundir..

26.06.2007 21:33

Sól og sumar.Það er aldeilis að veðurguðirnir reyna að bæta fyrir frostið og leiðindin í vetur. Bara sól dag eftir dag. Í morgun komu Nesmúrsmenn og pússuðu veggina þar sem pallurinn á að koma. Meira gera þeir ekki í bili vegna anna. En þetta dugar í bili svo hægt verði að fara að setja upp pallinn.
 
Það tekur sinn tíma en á meðan skröltum við og Týra upp hænsnastigan úr kjallaranum. Reyndar venst þetta og litli hundurinn kemst upp sjálfur núna. En hennar staður er í kjallaranum. En á næstunni eða eftir mánaðarmót þá eru væntanlegir hvolpar hjá henni..Hvað margir vitum við ekki vonandi bara þrír. Það er nóg fyrir hana greyið. Fyrir einu og hálfu ári átti hún fyrstu afkvæmin og þeir voru fjórir. En hún er nú orðin annsi þung á sér núna.

Við vorum boðin í grill hjá Bjössa í kvöld.. Umm en ég ætlaði reyndar að sleppa allri matseld og hafa snarl en Gunna sérstaklega til mikillar ánægju var Bjössi á grillbuxunum. En svona veður býður upp á að fá sér grill og alles.

Jæja ekki fleira í bili í kollinum. Reynið nú að slaka á og sofið vel í sólinni. (Við þurfum ekki álpappír eins og kaninn þurfti fyrir gluggann)
Kveðja Silla.


p.s nýjar myndir komnar inn í myndaalbúm..

24.06.2007 23:14

Útilíf.Það liggur við að maður fái ofbirtu í augun. Þvílíkt hvað það er búið að vera mikil blíða.
Það er allt orðið svo þurrt en ég hélt maður myndi nú ekki óska eftir rigningu en... Kannski næturregni ha ha !!! Það eru margir sem hafa farið úr bænum. Sigfús og fjölskylda fóru til Akureyrar og Jóhanna og Konný fóru með krakkana í húsdýragarðinn. Linda og fjölskylda voru í Vík í Mýrdal þegar hún talaði við mig og Eiríkur hringdi frá Danmörku í gærkvöld og var glaður með einkanirnar sínar 9-10 heyrðist mér. Svo það er rafmagnsverkfræðin sem tekur við hjá honum strax í ágúst.

Í dag höfum við verið að mestu úti að slétta fyrir torfið og laga heimkeyrsluna til bráðabrigða.
Gísli og Bjössi hjálpuðu okkur helling í gær en á meðan fórum við í brúðkaup í Hafnarfirði. Frænka Gunna, Ásdís Finnsdóttir var að gifta sig Ameríkana.(Ég held að það séu Ameríkanar allt í kring um okkur núna). Brúðurin er líffræðingur í læknisnámi og brúðguminn viðskiptafræðingur. Og þau kynntust í skólanum!! Þau búa í háskólabæ í Missouri.        

Ég setti loksins niður kartöflurnar í dag og það var bara í smáhorn á garðinum. Bjössi hlýtur að eiga meira útsæði og fylla upp. Hann fór í eitthvað ferðalag með fjölskylduna í dag. Maddý og fjölskylda hafa verið hér í sveitinni um helgina og bara fjölmennt hjá þeim. Enda eiga þau sex börn og átta barnabörn svo hópurinn er stór og myndarlegur. Björk Ína með börnin kíkti í dag og líka Árni Snær með soninn. Björk Ína er nr.3 í röðinni og Árni nr.4 af Maddýar hóp.

Við skruppum í Glaumbæinn í gærkvöld í smástund og Bjössi og Þórunn Anna líka. Svo þurftum við að elda mat í dag fyrir Litháana sem eru að vinna í húsunum á Ásabraut svo það varð að fara frekar snemma í háttinn. Já svona líða dagarnir dálítið fljótt.. en þegar allir eru frískir og fínir þá þarf ekki að kvarta. Vona að allir hafi komið heilir heim, kannski velt sér upp úr dögg á Jónsmessunni eins og gert var í gamla daga.. Góðar stundir.


22.06.2007 21:09

Vilmundur Árni.


Jæja ,fyrsta gistingin hjá barnabarni í Heiðarbæ! Villi fjörkálfur er sá fyrsti til að gista í nýja húsinu. Og hann vill alls ekki sofa á loftinu. Vill sennilega vera nær okkur. Það á eftir að breytast. Pottþétt þegar fleiri verða í einu. Jóhanna er að vinna á morgun og engin til að passa í fyrramálið. En hann og afi eru að horfa á mynd eða..afi sefur og Vilmundur horfir...Og svo er spennandi að fá sér vatn úr nýja ísskápnum því hann fær þar klaka líka. Strax búin að hella niður..en svona er ömmulífið...

Jæja annars lítið að frétta. Förum í brúðkaup á morgun í Hafnarfirði og svo höldum við áfram jarðvinnunni. Það er komin ný fréttasíða hjá okkur í Sandgerði. Mér líst mjög vel á hana og vona að fólk verði duglegt að senda þeim fréttir úr daglega lífinu. Það er örugglega mikil vinna að vera sívakandi yfir efni í svona síðu. Allavega, hún er vönduð, fer vel af stað og ég óska þessu fólki og þeirra framtaki alls hins besta. Ég er búin að setja hana sem tengil á síðuna mína og endilega skoðið hjá þeim. Hún heitir Lífið í Sandgerði. (245.is)
Nú fer ég að huga að þeim körlunum mínum, svo ég segi bara góða nótt.

22.06.2007 09:17

Rútuferðin í maí....


Hæ allir. Ég átti alltaf eftir að segja ykkur frá rútuferðinni þegar bandaríkjamennirnir voru hjá okkur. Það var mjög gaman og mikill brandari í sjálfu sér. Við lögðum af stað héðan úr Stafneshverfinu að morgni 22.maí kl.8. Ég var búin að tala við Sævar sem á rútur um að fá leigðan 20 manna bíl. Það var allt í góðu en ég sagði honum þó að kannski værum við bara 17. Það væri bara fínt að hans sögn, þá væri nóg pláss. Á síðasta degi vorum við orðin 19 og ég var ekkert að tilkynna það..nóg pláss. En kemur ekki Árni bílstjóri á 17 manna rútu..ææ ekki var hægt að skilja neinn eftir svo Sæsi hafði snarar hendur og reddaði 20 manna rútunni í Sandgerði. Það var sem sagt bíll nr. 2. Í honum vorum við í góðu yfirlæti, fórum alla leið í Jökulsárlón og flestir fóru í siglingu milli jakanna. Þvílík upplifun fyrir útlendingana og svo voru selir á mörgum jakanna sem skemmdi ekki fyrir.

Við ókum svo með stoppum að Lambafelli undir Eyjafjöllum. Þar hefur Þorsteinn Njálsson læknir komið sér upp gistihúsi sem hann flutti frá Hafnarfirði og heitir nú Edinborg. Skemmtilegt framtak hjá honum.Þetta var skátaheimilið í Hafnarfirði og Gunni og margir verið þar viðloðandi sem krakkar. Og ekki skemmdi fyrir að móðurfólk Maddýar sem auðvitað var með bjó á Lambafelli og hún þekkti alla staðhætti. Þarna fór aldeilis vel um okkur og grillað og fl. Næsta morgun fórum við 5 km. til baka að Skógarfossi og svo lá leiðin að Seljalandsfossi þar sem margir fóru á bak við fossinn (ekki ég) og þótti mikið fjör. Bílstjórinn, gamalreyndur kappi sagði okkur allt mögulegt á leiðinni bæði um landið og var þar að auki mikill brandarakarl með góða enskukunnáttu.

En nú byrjaði ballið. Á miðri leið að Hvolsvelli byrjaði rútugreyið að væla í orðsins fyllstu merkingu. Sennilega orðin leið á okkur ha ha. En við komumst á Hvolsvöll og STOPP. Biluð... Þá var kl. 12 á hádegi svo við fórum bara í sjoppuna og fólk fékk sér snarl. Labbaði um í góða veðrinu sem hafði sem betur fer fylgt okkur alla ferðina með smá ívafi. En Sæsi hafði nóg að gera að reyna að redda okkur og kl. 2. kom svo skólarúta sem var að enda við að fara með börnin heim úr skólanum. Rúta nr. 3..Sá bílstjóri fór með okkur þennan hefðbundna hring Geysir, Gullfoss, Laugarvatn og Þingvellir.
 
Svo voru Gunni og Maddý búin að panta fyrir hópinn mat í Fjöruborðinu á Stokkseyri. Það var sérstök upplifun fyrir flesta. Borða humar og brjóta sjálf. Þetta var góð stund og svo var rúta frá Sæsa mætt til að koma okkur heim. Rúta nr.4 !!! Og hún var að minnsta kosti 40 manna og mikið hlegið á heimleið og sungið. Við gerðum stuttan stans við Hafið bláa og þar fóru gestirnir okkar niður í fjöru til að skoða svartan sand! Ja hér.Við sem höfum hann allstaðar.. 

Nú gekk allt eins og í sögu Maddý og Gísla skilað í Reykjavík og svo átti að skila Konný og co í Sandgerði. Þegar hún var farin inn kl. orðin 23.30 viti menn rútan komst ekki í afturábakgír. Við lágum í hláturskasti aftur í en einhvernvegin tókst að láta hana komast frá staðnum og hingað út á Stafnes. Farangur tekinn úr bílnum og svo fór bílstjórinn út á endastöð við V. Stafnes.. En nei hann gat ekki bakkað!!!! Og karlmennirnir í hópnum tóku sig þá til og ýttu henni.. ekki djók.
 
Og ég hitti bílstjórann daginn eftir og það var ekkert að bílnum.. Hvað.. var einhver að stríða okkur? Vorum við ekki búin að hlægja nóg? En þetta var frábær ferð kannski ekki fyrir aumingja Sævar að lenda í þessu en svona er að vera með rekstur.. Og þessi ferð gengur síðan undir nafninu the best, The four bus trip.
 Mig langaði bara leyfa ykkur að deila þessari skemmtun með mér. Kveðja Silla.20.06.2007 19:40

Grafan á fullu.


Það er reyndar Gunni sem er búin að vera á fullu eftir hádegi á litlu gröfunni. Hann var að jafna úr moldarhaugnum sem myndaðist þegar grafið var fyrir húsinu. Bjössi er í fríi og var allan tímann með honum á traktornum með aftanívagninn Masa. Svo það er búið að vera nóg að gera sem endranær. Svo er næst að slétta betur, tyrfa og laga garðana smátt og smátt.

Það er nú ekki hægt að kvarta yfir veðurguðunum núna. Blíða dag eftir dag. Á morgun er jú lengstur sólargangur. Linda Jón og Hrafntinna eru öll lasin en vonandi smitast ekki fleiri. Konný hjálpaði mér í morgun með síðasta dótið úr skúrnum og nú er Elín farin að koma sér fyrir. En það á nú eftir að taka tíma að taka upp úr þessum kössum mínum og ég ætla hreint ekkert að flýta mér.

Eins og ég hef minnst á eigum við gamla settið 40 ára brúðkaupsafmæli 9.september og ég gerði mér lítið fyrir og keypti far til USA. Flogið verður einmitt þann 9.sept. Daginn eftir að Linda og Jón gifta sig. Við verðum á ferðinni eitthvað meðal vina og ættingja en fáum svo lánað litla húsið hennar Maddý og co. í Jacksonville í Florida. Guðjón Gumma og börnin voru einmitt að fara þangað í dag. Svo það verður nóg að gera hjá Dísu frænku og fjölskyldu við að fá ættingjana í heimsókn. Þau búa í sömu götu. Appleton street.

Jæja ég ætla að láta þetta duga...verið þið nú dugleg að kvitta.. einhverjir eru að kikka inn á síðuna. Hafið það nú sem best.

18.06.2007 20:12

Úr litla húsinu....


Það er ótrúlegt hvað maður getur safnað að sér alls konar dóti. Ég var tvo tíma í skúrnum að tína saman, henda og hirða og svo ætla ég með rest í Rauða krossinn og gefa. Ég á eftir að koma afganginum hingað í Heiðarbæinn og ganga svo frá. Elín dóttir Bjössa ætlar að vera tímabundið í skúrnum. Hún er húsnæðislaus og er hjá pabba sínum núna. Hún getur alveg verið þarna með krakkana því það eru bara nokkrir metrar inn í hús ef eitthvað fer úrskeiðis.
Hún kannski finnur sér húsnæði fyrir veturinn.

Á morgun ætlar Konný að hjálpa mér í þessu og svo ætla ég líka að setja niður kartöflur eins og í gamla daga. Bara smá, til að fá splunkunýjar í haust. Núna er fuglasöngur og gott veður og ég nýt þess að hlusta um leið og ég pikka þetta.
 
Og mamma er búin að fá sér tölvu! Hún er bara einstök. Hún er nú bara 81 árs. Fyrst lærði hún á gemsan og sendir okkur börnunum skilaboð þegar hún þarf.
Svo við sögðum að fyrst hún gæti það gæti hún lært á tölvu. Og viti menn, hún er í miklum framförum og les nú bloggin okkar systkyna og ýmislegt. Það er mjög gott fyrir hana því hún er mikið heyrnarskert þótt hún sé með fullkomin heyrnartæki. Linda hefur verið að segja henni til. Svo er hún bara svo sjálfstæð að hún lærir smátt og smátt. Svo málar hún saumar og perlar þess á milli því hún hefur svo góða sjón. Ég á ótrúlega mömmu.

 Við sóttum þau mömmu tengdamömmu og tengdapabba á laugardag til að sýna þeim Heiðarbæinn og ég sá ekki betur en þeim líkaði vel. Reyndar þorði tengdamamma ekki upp á loft en hún fer næst þegar handriðið verður komið. Jæja nóg blaður í bili..
Líði ykkur sem best.

 

17.06.2007 17:51

Þjóðhátíðarræða...


Jæja ég ætlaði að vera hætt öllu stússi í sambandi við bæjarmálin. En ekki hvað! Ræðumaðurinn forfallaðist á síðustu stundu og ég fékk upphringingu seinnipartinn í gær og gæti ég bjargað?.. Þjóðhátíðarnefnd í öngum sínum og ég kann ekki að segja nei. Ekki þegar mér finnst ég geta gert eitthvað gagn. Svoooooo ég var að koma heim og ég held að ég hafi sloppið fyrir horn. Ég var sjálf bara ánægð með það sem ég sagði og vona bara að það hafi komist til skila. Ég set hana kannski á netið með myndaalbúmunum næstu daga.

Annars var allt of fátt. Fólk virðist ekki taka þjóðhátíðardaginn eins hátíðlega og hér áður.
Athöfnin var í Vörðunni og á öðrum tíma en áður var.

En það hefur verið gestkvæmt í Heiðarbæ í dag og í gær. Gumma og börn komu í gærdag og Hrefna og Viðar í gærkvöld og þau voru teymd upp í koníakstofu. Svo þurftum við að sækja menn í flug kl. þrjú í nótt svo eftir það settist ég niður við að koma saman einhverju til að þylja upp í dag. Svo núna rétt áðan kom Lilja Karls og Steinar mágur hennar að kíkja á húsið. Gott að fá hana í heimsókn því það hefur verið alltof lítið samband hjá okkur síðustu ár. Náðum saman í hittifyrra eftir nokkurra ára, ja aðskilnað. En svona er lífið.

Það verður lítið úr verki í dag. Við gamla settið bara lúið. En ég sé að frænka mín og hennar ektamaki eru á fullu í Glaumbæ. Þau eru að slá og stússa. Dugleg..Svona er það í sveitinni maður sér sko hverjir nenna að vinna ha ha ..En ekki meir um það...læt heyra frá mér fyrr en seinna

15.06.2007 18:41

Í sambandi á ný...


Nú er síminn kominn í Heiðarbæ og þar með nettengingin. Og það liðu nákvæmlega fjórar vikur frá því við fluttum og þar til tókst að fá símakarlana blessaða til okkar..En hvað um það þetta er komið og ég sit með fartölvuna mína og blogga í fyrsta skipti í nýja húsinu okkar!!!!! Við fórum í gær í stangarveiði með góðum félugum úr VSFK og öðrum úr Starfsgreinasambandinu og það var meiriháttar gaman.Það var verið að stilla saman strengi fyrir samningaár framundan. Fórum svo öll og borðuðum fisk á Flösinni út í Garði. Það var flott og ég hef ekki áður komið þangað. Frábært hjá Garðmönnum.

En það gengur á ýmsu í Sandgerði þessa dagana og vinur minn Óskar fer ekki varhluta af því. En af því sem ég hef heyrt er ég ánægð með þessar ákvarðanir í bæjarstjórn og vona að þær verði bæjarfélaginu til góðs þegar fram líða stundir. En það er erfitt að taka erfiðar ákvarðanir þá fyrst reynir á. Og svo öruggt að ekki verða allir sammála eðli sínu samkvæmt. En ef fólk vinnur eftir sinni bestu samvisku sem ég veit að hefur verið gert þá skilar það sér að endingu.

Við höfum heyrt frá fólkinu í USA og það er í skýjunum með brúðkaupið og allt stússið. Og okkar frekar kalda Ísland heillaði þau sem ekki höfðu komið áður upp úr skónum. Ég þarf endilega að segja ykkur meira frá þessum tíma seinna. Það gerðist ýmislegt og aðalferðin kallast the four bus trip la la la. Jæja ég læt þetta duga í bili og er í sambandi...

08.06.2007 13:17

Sambandsleysi í bili...

 Jæja þegar ég ætlaði loks að fara að gefa mér tíma til að skrifa þá hef ég ekkert netsamband nema planta mér niður hjá einhverjum öðrum. Nú sit ég við tölvuna í Fúsa ehf strákarnir búnir að borða yfir sig og ég á leið heim í Heiðarbæinn. Af nógu er að taka í flutningsmálunum. Ég er smátt og smátt að fara með dótið mitt þangað. Síminn er ekki að standa sig og ég fæ tengingu í fyrsta lagi eftir helgi. Jæja maður er komin á þann aldur að temja sér þolinmæði.Reyndar held ég að ég hafi alltaf haft hana að hluta.

Við eigum eftir að mála svefnherbergið í nýja húsinu og smávegis annað. Allar vélar komnar í samband og það er að verða tómlegt í bílskúrnum hjá Bjössa bró. En það er samt þó nokkuð eftir. Vona að við förum langt með það um helgina.
Svo er búið að taka alla palla utan af húsinu og þangað til veröndin og útitröppurnar koma höfum við bráðabrigðastiga upp úr kjallaranum. Hann er nú þannig að aumingja Týra þorir hvorki upp né niður..greyið.

Konný er með myndir frá brúðkaupi David og Stacey og fleiru og ætlar að setja nokkrar inn hjá mér. Gunni tók sig glettilega vel út við að leiða Stacey inn kirkjugólfið enda í æfingu... Og næst er það yngsta dóttirin sem giftir sig á afmælisdag pabba síns þann 8. sept. n.k. Og svo eigum við gamla settið brúðkaupsafmæli daginn eftir þann 9. (40 ára).

Segi þetta gott í bili elskurnar...

04.06.2007 17:06

Loksins mætt í bloggið!!


Hæ öllsömul. Nú eru allir gestirnir farnir af landi brott. Allt gekk ofurvel held ég. En ég ætla að gefa mér betri tíma í að segja frá öllu fjörinu, ferðalögum giftingunni og fleiru. Samtals komu nítján gestir að utan. Fyrstu komu 18. maí og síðustu fóru 3.júní. Svo það verður bara framhaldssaga næstu vikur. Og það er komin sturta í Heiðarbæinn jibbý.. Allt kemur þetta. Ég var bara að láta vita að ég væri í fullu fjöri þrátt fyrir aldur og fyrri störf...

Kveðjur til ykkar sem eruð ekki hætt að nenna að kíkja á síðuna
Silla, komin á sjötugsaldur,,ha nei bara 47!!!

19.05.2007 11:02

Brúðarparið mætt..


Jæja þau eru mætt David og Stacey og í fyrramálið koma svo átta í viðbót. Svo mæta þrjú seinna í vikunni. Það var fjör hjá okkur í gærkvöldi og grillað í Glaumbæ. Maddý og Gísli komu í heimsókn heim til sín til að hitta þau D og S og Jóhanna mætti á svæðið. Já svo fórum við og fengum harðfisk hjá Gísla og röltum svo í Heiðarbæinn og sátum þar dágóða stund og nutum útsýnis og góðra veiga úr efri stofu. Hún hefur nú fengið nafnið koníakstofa..Það var reyndar ekki á boðstólnum núna. Það bíður betri tíma.


Ég er í fríi frá kokkeríinu og við sendum Litháana á Kentucy. Þeir eru að vinna í Heiðarbæ og Jón og pabbi hans eru að flísaleggja. Þær skvísur dætur mína ætla í Reykjavík með Stacey meðal annars að skoða brúðartertur og ég fer að passa Hrafntinnu eftir mat.Jæja þetta verður bara létt og laggott núna og sennilega ekki mikill tími fyrir blogg á næstu dögum.
Svo látið ykkur líða vel.
 17.05.2007 10:14

Nú fer þetta að smella...


Jæja nú fer þetta að smella á hjá okkur með Heiðarbæinn. Ég er svo þrjósk að ég ætla að flytja í maí og dagurinn er í dag. Uppstigningardagur.. ekki er nú alveg allt klárt en samt nóg til þess að ég ætla að sofa í nótt í Heiðarbæ. Og ég ætla að leyfa Gunna að lúlla hjá mér. Annars verðum við fyrst uppi á lofti í nokkra daga og flytjum okkur svo í réttu staðina smátt og smátt. Og ef eitthvað vantar er bara að skjótast í hina áttina við það sem við höfum verið að gera undanfarið. Bílskúrinn er alltaf til staðar og þetta gerist bara smátt og smátt. En prinsippinu skal náð. Flytja á aldrinum fimmtíu og eitthvað. Ég meina 29 m...þið skiljið..

Já kosningarnar fóru ekki alveg eins og ég vildi..Ég vildi fá Guðnýju Hrund á Alþingi. En koma tímar og koma ráð. Og hún er þó varaþingmaður. Og nóg um það í bili. Búið og gert...Já það er rétt hjá Erlu Jónu. Ég vil ekkert vera að skrifa of mikið um pólitík, það eru nógu margir um það. Og líka rétt hjá Konný að áhuginn er fyrir hendi en ég hef bara ákveðið að vera ekki með hann hér á þessum léttu eða blönduðu nótum mínum. Það er af svo mörgu að taka. Sjáið bara hvernig fór fyrir Birni Bjarna.. Alltaf að blogga um pólítík og er svo bara strikaður út karlanginnnnnn.


Jæja nú koma David og Stacey í fyrramálið og þá byrjar það vers. Það verður nóg að gera hjá okkur stórfjölskyldunni á næsu tveim vikum í brúðkaupsstandi og slíku. Á sunnudagsmorgun koma amk tíu manns í viðbót frá USA. Já og Dúna ég er með boðskort handa þér en ég ætla að geyma það þar til þú kemur suður. Jæja þó það sé helgidagur eru allir að vinna og ég sit hér í tölvunni í Fúsa og þarf að fara að huga að matnum í vinnudýrin mín..
Hafið það öll sem best elskurnar

Flettingar í dag: 73
Gestir í dag: 15
Flettingar í gær: 74
Gestir í gær: 32
Samtals flettingar: 124468
Samtals gestir: 26578
Tölur uppfærðar: 21.7.2024 05:19:37