13.06.2009 13:58

Hundahótelið..The dogs Inn.

Hæ hæ.

Já það er fjör í Heiðarbæ. Ég er að passa Carlos Carmen og Pedró fyrir Svandísi og Brúnó fyrir Jóhönnu. Svo eru auðvitað Týra og Vikký. Sex geltandi smáhundar..Ykkur líst varla á það. En það er nú ekki þannig að þeir gelti látlaust. Þeir eru voða góðir greyin oftast. En nú er mannmargt í Stafneshverfi og þrír hundar með Glaumbæjarfólki. Það æsir ekki lítið upp hópinn. Þeir eru reyndar miklu stærri og gætu gleypt litlu vargana en eru hinir blíðustu og leyfa þeim bara að gelta.

En það er törn núna í Fúsa og ég var að elda fyrir þá í gær og dag. Þeir eru að sandblása tank í Helguvík fyrir Olíudreifingu. Mikið álag þar á bæ.

Það hefur haldið áfram sama blíðan og ég þorði ekki annað en taka fram slöngu til að vökva þessar fáu plöntur mínar. En það virðist eitthvað minni sól núna og hellirigndi í Keflavík áðan. Dettur svona niður hér og þar. Í gær sátum við Linda úti á palli með handavinnu. Ég var að rekja upp og minnka fyrir hana kjól.

Konný er í dag í Krepputorgi..Það er svona lítið kolaport eða þannig. Okkur datt í hug að setja upp svona í einni ónotuðu íbúðinni á Ásabrautinni. Allavega dót, föt og munir. En það var mikið kíkt fyrstu dagana tvo og svo lítið meir. Það er spurning hvað er hægt að vera mikið yfir þessu. Núna er aðeins opið 3-5 laugardaga og sunnudaga.

En ég læt þetta duga í bili.
Góðar stundir.

09.06.2009 15:03

Bloggleti.


Sæl öll. 

Mikið að ég drattast til að blogga smávegis. Svo nú þegar ég loksins ætla að skrifa eitthvað virðist 123.is vefurinn allverulega hægfara. Eitthvað að hjá þeim. En ég reyni...

Ég hef verið að dunda mér útivið og ekki verið eins við tölvuna. En það er búin að vera veðurblíða að mestu í 2-3 vikur. Er að bera á húsið og pallinn en bara smátt og smátt. Gott að vera útivið og njóta veðursins. Reyndar er við það að súlda núna. Svo setti ég niður nokkrar kartöflur eins og í fyrra til að fá nýjar með ýsunni í haust. Í fyrrahaust fór ég bara jafnóðum í garðinn eftir því sem vantaði í pottinn! Þetta er eitt af því sem er notalegt við að vera í sveitinni!

En ég þarf að fara að reyta arfa einhvernja næstu daga. Reyndar ekki stórt svæði. Hringtorgið mitt sem ég kalla. Bjuggum það til í fyrra uppi við afleggjarann.

Um hvítasunnuna átti ég afmæli sem er nú ekkert merkilegt. En Erla Jóna og Sigfús gáfu okkur tvær nætur á Grand hótel og það var frábært. Takk mín kæru fyrir það! Það var nú ekki síður Gunni sem hafði gott af tilbreytingunni. Þeir hafa unnið mikið undanfarið. Og já gott að hafa vinnu og er á meðan er eins og ég segi. Við fórum í bíó og út að borða. Svo kíktum við til Ásbjargar og Óskars sem við höfum ekki gert saman í áratugi. Það var mjög gaman og mikið spjallað.

En nú ætla ég að stoppa. Er að fara með mömmu á læknavaktina. Hún fór í þessa speglun fyrir bráðum hálfum mánuði en er ennþá svo slöpp. Suma daga sæmileg en aðra bara mjög óhress. Svo við ætlum að drífa okkur í Keflavík núna.

Bið að heilsa ykkur öllum.
Ykkar Silla.

21.05.2009 10:16

Sumar og sól

Halló.
Nú má segja að sumarið sé komið. Það hefur verið blíða undanfarna daga. Ég hef getað verið mest heima og dundað mér úti. Þurfti að laga aðeins hleðslurnar í grjótgörðunum. Það kom t.d stórt skarð í vegginn hér fyrir austan húsið í einu kolbrjáluðu veðri í vetur. Ég hafði reyndar verið að laga hann í fyrra. Það er alveg víst að hann hefur ekki verið eins vel gerður eins og hjá körlunum í gamla daga. En nú tollir hann vonandi. Svo hefur verið næði til að klippa og snyrta þessar fáu plöntur mínar sem koma bara nokkuð vel út eftir veturinn..

Svo er þessi dýrðlegi fuglasöngur af öllum gerðum hér. Bara yndislegt. Reyndar er ég ekki sátt við Starraparið sem við rákum í burtu fyrr í vor.. Þau eru þrjóskari en ég veit ekki hvað. Koma aftur og aftur með gras og dót til að gera hreiður í þakkantinum. Þó dettur það niður jafnóðum því við tókum spýtuna burtu sem þau höfðu til stuðnings. Svo í haust þurfum við að ganga endanlega frá þessu. Held ég verði að smíða fyrir þau fuglahús fyrir næsta ár.

En Bjössi er svo duglegur að taka myndir og setja á síðuna, svo ef ykkur langar að sjá stemminguna hér á vordögum þá kíkið bara hjá honum. Tengill hér til hægri.

Mamma hefur verið hálf slöpp undanfarið. Líklega hefur hún fengið einhverja flensu sem henni gengur illa að ná úr sér. En hún á samt að fara í skoðun í næstu viku..(speglun)..Það verður vonandi allt í góðu, hún er svo jákvæð og ég held fólk fari nú ansi langt á því.

En það er nóg að gera í Fúsa. Gunni og Fúsi eru að vinna núna og helmingur af strákunum. Ég ætla að leysa Erlu og Hörpu af á laugardag í matseldinni. Þá verður hinn helmingurinn í fríi. Það er nú bara ekki hægt annað en að þau fái smá pásu. Ég er búin að fá fínt frí úr eldamennskunni.

En læt þetta duga í bili.
Góðar stundir.
Silla.

09.05.2009 12:06

Vorið.


Góðan dag.
Nú er komið vor samkvæmt tímatali. En undanfarna daga hefur verið frekar kalt og vindasamt. Enda svo mikið að það snjóar og skefur víða um land. Við höfum sloppið við snjóinn en norðangarrinn er ekki beint heppilegur til að vera eða gera eitthvað úti.

Í þessari viku fór ég í tvær útfarir!  Frænka mín og vinkona mömmu Guðríður var jörðuð á fimmtudag. Hún var nú orðin háöldruð blessunin. Og í gær var Helgi Jökulsson jarðaður. Hann var stjúpfaðir Lilju Kristínar tengdadóttur okkar og kom inn í hennar líf þegar hún var tíu ára. Hann lést á Líknardeildinni tæplega 65 ára. Hann var mikill afi barna Lilju og Eiríks og þar er mikill söknuður. Eiríkur kom heim frá DK og Lilja frestaði brottför. Hún átti pantað far morguninn sem hann dó þann 30.apríl sl. En þau fóru svo í morgun eldsnemma og eru komin heim til Danmerkur. Eru núna á leiðinni í bílnum til Lysabild. Eiríkur kom á honum til Köben á fimmtudaginn.

Lilja Kristín er búin að vera hér á landi síðan í byrjun febrúar þegar hún kom til að leysa prestinn okkar sr. Björn Svein af í fríi hans. Þessi tími sýnist mér hafi verið annasamur hjá henni. Fermingar og skírnir. Mikið um jarðarfarir og erfið minningarathöfn. Svo eru þannig tímar núna að starf prests verður enn viðameira á margan hátt. Svo inn á milli var hún við sjúkrabeð Helga og móður sinni til halds og trausts. En nú bíða krakkarnir spenntir eftir þeim. Voru í umsjón nágrannakonu þessa tvo sólarhringa sem Eiríkur var í hér.

En annars gengur allt sinn vanagang. Nóg að gera í Fúsa ehf og það er ekki hægt að biðja um meira en það að hafa vinnu. Þeir eru meðal annars með þriggja mánaða verk hjá Olíudreifingu í Helguvík. Erla hefur séð um matinn undanfarið en við þurfum örugglega að skiptast á því það er unnið flesta daga. Núna eru átta manns að vinna hjá þeim. 

Svo er afmæliskaffi hjá litlu Júlíu Lindu í dag. Hún verður eins árs á morgun.
Læt þetta duga í bili.
Góðar stundir.
Ykkar Silla.29.04.2009 16:40

Þetta gengur ekki.


Sæl öll kæru vinir.

Þetta gengur ekki lengur. Þessi bloggleti! En nú ætla ég að setja niður nokkrar setningar.
 
Bangsi hans Bjössa er ekki fundinn þrátt fyrir mikla leit og eftirgrennslan. Við vitum ekki hvað hefur komið fyrir hann. En það verður að sætta sig við þetta. Verst fyrir krakkana sem voru mjög hrifin af honum. En svona er staðan. 

En nú er að vora. Um helgina og á mánudag var sumarblíða en síðan er reyndar búið að rigna með roki. En það var flott að fara út og taka smá vorhreingerningu í kring um húsið. Við eyðilögðum tilhugalífið fyrir starrapari sem var að búa sér til hreiður hjá okkur í þakskegginu, Uss, þau voru rétt að byrja en eru nú flögrandi að leita að öðrum stað. Starra fylgir lús og það er bara ekki í myndinni að leyfa þeim að fá lögheimili í Heiðarbæ. Ætli það sé ekki best að búa til fuglahús í garðinum. Veit nú ekki hvort það kemur að gagni þetta vorið.

Lilja er að fara út til Danmerkur. Hennar afleysing er búin núna um mánaðarmótin. En fósturpabbi hennar er fárveikur og það er óvíst hvenær hún fer. En áætlunin var nú í vikunni. Svo það skýrist bráðlega. Þau verða örugglega fegin sem bíða heima í Lysabild, Eiríkur og börnin.

En Maddý og Gísli koma heim frá Flórida á morgun. Þau eru búin að vera í húsinu sínu í Jacksonville í nokkrar vikur. Frábært fyrir Dísu að hafa þau rétt hjá sér svona lengi. 

En þetta læt ég duga í bili. Bestu kveðjur og hafið það gott.
Ykkar Silla.
17.04.2009 18:37

Bangsi horfinn!

emoticon
Komið þið sæl. 
Bangsi hundurinn hans Bjössa er týndur. Hann hefur ekki sést í þrjá sólarhringa. Allt getur verið í lagi með hann EN þetta er orðinn dálítið langur tími. Við erum búin að vera að kíkja eftir honum og Bjössi búin að athuga í húsum og skúrum ef hann skyldi hafa lokast inni.

Það gerðis einmitt í fyrra. Þá hafði hann smeygt sér inn meðan einhver kom á V-Stafnes og laumaði sér upp í sófa þar. Svo var auðvitað lokað og farið en vinurinn lokaður inni.

Svo við biðjum ykkur sem sjáið svartan hund sem þið þekkið ekki að láta Bjössa eða mig vita. Hann er af Labradorkyni en aðeins minni en þeir hreinræktuðu.

Síminn hjá Bjössa er 423-7600 og 8937281 og hjá mér 8957674. Myndir á síðunni hjá Bjössa, linkur hér til hægri.

Kveðja til ykkar..
Silla.

12.04.2009 20:39

Pínulítið Páskablogg.


Hæ öll sömul.

Hér er allt gott að frétta. Við vorum með matargesti í kvöld og það var fjör á bæ. Ömmurnar, mamma og Jóhanna, Jóhanna yngri með krakkana og Konný og Hannes með Róbert Óla. Aðrir voru út og suður um þessa páskahelgi. Konný og fjölskylda voru í Húsafelli en komu til að vera við skírn hjá Maríu vinkonu þeirra. Hinir stubbarnir þeirra urðu eftir í bústaðnum hjá ömmu sinni og afa. Linda er í Stykkishólmi með stórfjölskyldu Jóns og Sigfús og Erla í Skagafirði með Árna og Hörpu.

Svo er Eiríkur grasekkill í Lysabild með börnin. Vona að það gangi bærilega.

Það hefur verið annasamt hjá Lilju Kristínu. Held að það sé komið hlé núna smávegis en hún fór í Rvík til mömmu sinnar. Helgi fósturpabbi hennar er mikið veikur og er á líknardeild. Svo það er alltaf eitthvað að slást við. Vona að hún fái frí á morgun. En í hennar starfi er sumt ekki vitað fyrir.

Við höfum tekið því rólega en Gunni hefur samt verið að dútla í íbúðinni á Ásabrautinni. Hinir vinnumennirnir í Fúsa eru í fríi en svo byrjar törnin eftir páska.

Ég læt þetta bara duga. Hafið það gott og gleðilega Páska-rest.
Silla.


05.04.2009 18:35

Skírn Róberts Óla.


Sæl öll. 

Það var bjartur og góður skírnardagurinn í dag. Vor í lofti og lóusöngur. Yngsti meðlimur fjölskyldunnar var skírður í Hvalsneskirkju. Róbert Óli var ausinn vatni og var hinn værasti. Þetta var mjög góð stund. Fjölskylduvæn í öllum skilningi. Litlu krakkarnir mátuðu gráturnar, hoppuðu og kíktu meira að segja upp í prédikunarstólinn..Þau voru nú reyndar snarlega tekin niður. Allt var þetta fyrir athöfn sem sr. Lilja Kristín fór fallega með. Leyfið börnunum að koma til mín og bannið þeim það eigi því þeirra er Guðsríkið. Svo skemmdi það ekki fyrir að presturinn er tengdadóttir mín..Sigfús elsta barnið vanur úr kórnum enda sungum við hvert með okkar röddu með þeirra stuðningi..

Svo var brunað í Sandgerði í kaffi og tertur og ég gæti trúað að við höfum verið milli 40 og 50 samankomin í Lækjarmótum 9. Meðal gesta voru þrjár langömmur skírnarbarnssins. Mamma það er Jóna Arnbjörns og ömmur Hannesar Anna Sveinbjörns ljósmóðir og Sigga móðuramma hans. Jóhanna mamma Gunna er fjórða langamman en hún treysti sér ekki í veisluna. Þannig að hann á margar ömmur og lengri ömmur litli snáðinn!

Við kíktum aðeins upp á Ásabraut 35 en þar er verið að klára íbúð sem Fúsi ehf á og Jóhanna mun kaupa. Hennar íbúð á Vallargötunni verður tekin upp í. Þetta verður mikill munur fyrir fjölskylduna og allir fá sitt eigið herbergi. Ég gæti trúað að hún gæti flutt eftir 2-3 vikur ef ekkert kemur upp á. Þetta má segja að séu öðruvísi kreppufréttir en hafa verið undanfarið. Við verðum víst að halda áfram þó á móti blási. Jóhanna er vel sett atvinnulega séð og dugleg að bjarga sér. Það finnst mér reyndar krakkarnir mínir vera öll með tölu. En þetta er ekki hlutlaust mat, að sjálfsögðu.

Mummi kom í gær en þá var Gunni að fara í boð hjá Degi og tók hann með sér. Dagur er með þeim í Fúsa ehf og hann var að smíða sér ný fjárhús. Jú það er búskapur ennþá í þessu bæjarfélagi. Við kíktum á búfénaðinn hjá honum í dag á leiðinni heim. Gaman að þessu..Meeee.. 

En ætli sé ekki best að hætta í bili. Það eru komnar fréttir á Rúv og þó ég sé að reyna að hlusta minna, lesa og horfa þá sleppir maður ekki öllu. Held reyndar að ég sé fréttafíkill..Og það er ekkert gott í þessu árferði. Svo meðvitað fer maður út í vorið og minnkar fréttaneysluna.
Bestu kveðjur öll nær og fjær.
Ykkar Silla.


29.03.2009 11:33

Veðrátta og fermingar.


Halló öll sömulemoticon .
Ég ætla að pikka niður nokkrar línur. Þetta sígilda efni veðrið er eitt. Maður veit aldrei hvort það er sól og blíða eða snjóhret þegar maður fer á fætur. Núna er flott veður í gær var snjómugga, síðan hlánaði og svo spáir frosti og roki...Úps.

En hvað um það. Nú eru fermingar víða og t.d í Reykjanesbæ. Vona að veðrið haldist gott þar til börnin komast í hús. Nú er Anita Ósk að fermast. Hún er dóttir Guðbjargar og stjúpdóttir Hilmars Braga. Við komumst ekki í ferminguna hennar en sendum henni og foreldrunum bestu kveðjur. Svo er nú ekkert of auðvelt að fá Gunna í veislur. Hann versnar með aldrinum!emoticon 

Fermingarnar hjá sr. Lilju okkar í Garði og Sandgerði verða ekki fyrr en eftir mánuð. En svo er ætlunin að bræðurnir Þorsteinn Grétar og Helgi Snær fermist í júlí. Annar ári seinna en venja er, hinn ári fyrr. Ágætt held ég því staðan er svo ólík þar sem þau búa í Danmörku. Þá er ekki verið að fylgja sérstökum árgöngum eins og oft er hér.

Nú er sunnudagur og Linda ætlar að koma með dæturnar og Flugu á eftir. Í gær kíkti ég á yngsta barnabarnið Róbert Óla. Sá stækkar. Hann rifnar út eins og maður segir. Það á að skíra hann næsta sunnudag 5.apríl. Sem sagt eftir viku. Alltaf nóg að hugsa um.emoticon

Ég sá í gær að Björk Ína og fjölskylda voru mætt í Glaumbæ. Flott hjá þeim að kíkja í sveitina. Einhverjir voru svo komnir á fjórhjólið og það var greinilega fjör á bæ.

En ég læt þetta duga að sinni.
Látið nú heyra frá ykkur þarna í Flórida!
Kveðjur til allra.
Ykkar Silla.


24.03.2009 18:18

Hitt og þetta.


Góðan dag.

Nú er daginn farið að lengja. Orðið bjart fram til klukkan átta. Það hefur verið allavega veður. Ég hélt fyrir helgi að það væri komið sumar en svo kólnar og hlýnar til skiptist. Svo tók ég hjólið út og þá hafði vindurinn farið úr dekkinu yfir veturinn. Það er svo gott að hjóla hér í friðsældinni á Stafnesinu. Aðeins verra ef blæs mikið!

Ég var að breyta aðeins kjól fyrir Ástrósu. Hún er að fara á árshátíð Grunnskólans sem verður á fimmtudag. Vona að hún skemmti sér vel. Hún er nú í tíunda bekk. Síðasta árinu í skólanum í Sandgerði. Skrítið hvað sum barnabörnin eru orðin fullorðin! Svo stækka ört þau yngstu. Þarf að fara að kíkja á Róbert Óla en hef svolítið verið að passa Júlíu Lindu. Þau eru yngst af 13 barnabörnum.

Á morgun fer ég á ASÍ fund. Aukafund sem stendur örugglega til klukkan fimm. Hvað sem nú kemur út úr því. Það eru erfið þau málin núna.Vonandi fer þetta að lagast.

Nú eru Maddý og Gísli farin í húsið sitt í Jax í Flórida. Sennilega bara að koma þangað þessa stundina. Við sendum kveðjur yfir og til Dísu og co. Líka til David og Stacey.

En ég læt þetta duga í dag.
Bestu kveðjur til ykkar.
Silla.

18.03.2009 13:29

Barnagæsla

emoticon
Jæja ..Nú sit ég hjá Lindu og passa Júlíú ..Hún er reyndar steinsofandi úti í vagni. Áðan var ég í Fúsa ehf og eldaði kjötsúpu. Svei mér þá mér ennþá heitt eftir að hafa staðið yfir pottunum. Svo kl.15.00 kemur Lilja og ég sæki hana upp í flugstöð. Svo mér leggst alltaf eitthvað til.

Í gærkvöld var ég á fundi í verkalýðsfélaginu. Það var langur fundur og margt rætt. Mikill urgur í fólki yfir því sem Hb. Grandi ákvað. Það er að greiða sér arð en launagreiðslum verkaólksins haði verið frestað og þetta er algjörlega siðlaust. Þeir fara verkalýðsforingjarnir á fund í dag með fulltrúum stórnmálalokkanna og fleirum. Þar verður rætt um framhaldið.

En ég hef svo sem ekki margt fleira að segja í bili. Þarf að laga þetta seinna í dag því það vantar í tölvuna hennar Lindu einn staf..Sést alveg hver hann er. Bæti við í kvöld.
Bestu kveðjur.
Silla.

Jæja klukkan orðin hálf fimm og búin að sækja Lilju Kristínu. Líka búin að bæta effinu í fyrri hlutann..Linda missti gos yfir tölvuna sína fyrir nokkrum vikum og það má þakka fyrir að þetta sé það eina sem er að. Litla ljósið hún Júlía svaf nú bara í þrjú korter. Sennilega eru tennurnar að angra hana en þær eru að þyrpast upp. emoticon


Tengdó lenti inn á spítala í gær og við héldum að hún ætti að vera tvo daga. En hún geystist út í morgun og þurfti svo að fara aftur kl. tvö. Auðvitað átti hún að vera lengur en hún gegnir ekki. Gunni þurfti því að sækja hana og fara með hana aftur. Ódrjúgur tíminn hans í dag.

En svona er nú þetta daglega líf og ekkert svo sem yfir að kvarta. Gunni er farin að sofa með vél vegna kæfisvefnsins. Það gengur þokkalega en kvefið hefur truflað.emoticon

Aftur kveðjur og knús úr Heiðarbæ.

12.03.2009 14:49

Tíminn flýgur.


Ótrúlegt hvað tíminn er fljótur að líða. Þann 9.mars var eitt ár frá því tengdapabbi kvaddi. En svona er víst lífið. En að öðru. Ég fór á Héraðsfund Kjalarnesprófastsdæmis í gær. Þar var margt um manninn og gaman að hitta þetta fólk allt saman. Ég fór með Reyni og Lilju. En aðalsafnaðarfulltrúinn er Kalli Ottesen en hann fótbrotnaði um daginn og var ekki á bætandi hjá honum. Hann hefur átt við meiðsli að stríða í hné um lengri tíma. En ég er í sóknarnefndinni og fór í staðinn.

Fundurinn núna var í Hafnarfirði. Við byrjuðum á helgistund í Hafnarfjarðarkirkju kl. sex og fluttum okkur svo yfir í Safnaðarheimilið. Strandhamar held ég það heiti. Við vorum ekki komin heim fyrr en um klukkan ellefu..Við Lilja sluppum við að keyra því Reynir fór á bílnum sínum.

Í morgun tók svo við eldabuskustarfið hjá vinnudýrunum mínum. Þeir eru nú reyndar aðeins þrír núna. En þeir vinna hörðum höndum og heimta mat sinn og engar refjar!!

Eftir mat fórum við Hrefna í kaffisopa til Siggu Þórhalls. Við höfum ekki farið lengi en vorum oft í kaffi þegar við unnum allar saman í Flugstöðinni. Það er alltaf gaman að kíkja til Siggu. Alltaf svo hress. Þó ýmislegt hafi gengið á hjá henni í veikindum undanfarið er hún alveg einstök. Ef allir væru eins og hún væri ekkert væl og víl. Svo sáum við nýjasta barnabarnið hennar sem er aðeins tveggja vikna gamalt. Hún á orðið átta barnabörn. Næstum eins rík og ég!!

En þetta var svona blogg um hitt og þetta. Bara láta ykkur vita af mér. Ef þið farið inn á síðuna hans Bjössa sjáið þið skemmtilegar gamlar myndir. Hann er svo duglegur í þessu.
Bestu kveðjur úr Heiðarbæ.
Silla. 


07.03.2009 14:17

Blogg í tvö ár.

emoticon
Góðan dag.
Nú eru rúm tvö ár síðan ég byrjaði að skrifa svona þankabrot á 123.is/ heidarbaer. Það var Konný sem kom mér til að prufa og það er bara gaman að þessu. Ég fór aðeins yfir þetta og það geta allir. Þetta er allt hér til hægri á síðunni.Stundum hef ég bloggað mikið stundum löt og þá fer það niður í 5-7 skipti í mánuði. Það finnst frændfólki og vinum of lítið og segja að hér sé hægt að fylgjast með hvað er í gangi. Þetta á nú frekar við þá í fjölskyldunni sem búa erlendis. En mér fannst sjálfri bara gaman að fara svona rúnt yfir það sem ég hef skrafað um frá því síðla febrúar 2007. Já ýmislegt sem kom upp í hugann við upprifjunina. Og líka hægt að brosa yfir þessu.

Það var til dæmis ein færslan sumarið 2007 sem ég sagði frá belgiskum ferðalöngum sem ég leyfði að tjalda í görðunum hjá mér og gaf þeim svo kaffi og te um morguninn. Í byrjun árs 2007 snýst líka mikið hjá mér um Wilson Muuga nokkurn. Og svo var ég dugleg að blogga í ferðinni sem við fórum með Maddý og Gísla um Bandaríkin og Kanada í brúðkaupsafmælinu okkar. Já það er bara gaman að rifja upp og þetta er svona í ætt við dagbók..emoticon

En í dag er bjart og fallegt veður. Það hefur verið undanfarna daga. Ég tók æði áðan með tuskuna. Sólin var farin að segja mér til syndanna!! Gunni er að vinna í íbúðinni sem er verið að standsetja fyrir Jóhönnu. En hann er bara að þessu núna svona í laugardagsfríi. Það hefur minnkað í bili vinnan í Fúsa ehf en samt er nóg að gera virka daga. Þessi tími hefur nú alltaf verið rólegastur því sandblástur fer aðallega fram að sumrinu. Þeir vonast eftir stærri verkefnum sem komi með vorinu. En svo spilar þetta ástand eitthvað inn í dæmið.

Ég læt þetta duga í dag. Hafið það sem best um helgina og alltaf.
Ykkar Silla.emoticon

02.03.2009 20:16

Ýmislegt-allt og ekkert.

Sæl verið þið. 
Ýmislegt gengur á í þjóðfélaginu. Eins og alltaf. Sandgerði var neikvætt í fréttunum í dag. Enda er það svo hjá fréttamiðlum að neikvæðar fréttir reynast eiga meira upp á pallborðið en þær mörgu góðu. Og það sem var í umræðunni var skelfileg árás tveggja unglinga á skólabróðir sinn. Það var reynt að gera út á að hann væri Pólverji (það er fórnarlambið) en að mínu áliti er hann Íslendingur. Hann er fæddur á Íslandi á íslenskan föður og hefur alla sína skólatíð gengið í skóla í Sandgerði..Svo það að reyna að finna út úr þessu kynþáttamisrétti skil ég ekki. En það er kannski önnur saga sem ég hætti mér ekki inn á..

Ég fékk áfall þegar ég heyrði þetta um árásina. Enda á ég fjóra ömmustráka í þessum skóla. Og mér finnst þessi skóli til fyrirmyndar. En MBL.is tók viðtal við skólastjórann og það var ekki beint vel heppnað. Ég þekki Fanneyju og veit fyrir hvað hún stendur. Frábær skólastjórnandi sem ég veit að tók á þessu með miklum myndugleika. Gekk í kennslustofur og talaði við nemendur og fordæmdi verknaðinn.

En hún hefur ekki frekar en margir staðið í sviðsljósi fjölmiðla og það tók greinilega á. Erfitt og hvað ég skil hana. Ég fór í tíma aftur til ársins 2000. Þá var ég formaður Bæjarráðs í Sandgerði. HB á Akranesi áður Sandgerði hafði svikið okkur (ég segi svikið) og ég var til svara í sumarfríi Bæjarstjórnar. Ég svaraði spurningum fréttamanns RÚV eftir bestu getu og fannst ég hafa ýmislegt sagt. Á leiðinni norður í brúðkaup Dúnu systir heyrði ég þetta í útvarpinu og var ekki sátt. Allt var tekið úr samhengi. Og það sem ég vildi mest koma á framfæri var ekki þarna. Sólrún tók þetta upp og bauð mér að sjá en ég hafði aldrei geð í mér til að skoða viðtalið.

Svona er lífið, skin og skúrir. Ég vona og veit að Fanney tekur á þessu ásamt starfsfólki sínu. Ég vona að þessi ósköp verði nemendum víti til varnaðar.

En að okkur í Heiðarbæ. Við sitjum nú hérna ég og Lilja í sitthvorri tölvunni. Hún á Facebook að tala við þau í Dk. Það eru þar fjölskyldumeðlimir sem vilja heyra í henni.

En bestu kveðjur til ykkar allra.
Silla.

25.02.2009 17:16

Jarðarför Kristínar.


Góðan daginn.
Nú vorum við að koma úr jarðarför Kristínar Sigurðardóttur. Útförin fór fram frá Fríkirkjunni í Hafnarfirði og jarðsett var í Hafnarfjarðarkirkjugarði. Sorglega ung var hún blessunin til að yfirgefa þetta líf. Hún var rétt rúmlega 57 ára. Það er ekki hár aldur en engin veit víst hvenær kallið kemur. Og ekki spyr skaparinn um aldur.

Við vorum búin að þekkja hana síðan hún kom inn í stórfjölskyldu Gunna, ætt Borgþórs og Guðrúnar. Gunnar Þór og Gunni eru systkinasynir. Hún og Gunnar Þór giftu sig árið 1974. Eina barnið þeirra Júlíús var fæddur eins og Jóhanna okkar vorið 1975. Við höfum verið samferða gegnum lífið með mismiklum samgangi þó oftast hafi verið stutt milli símtala eða heimsókna.

Síðast komu þau hingað í Heiðarbæinn rúmum mánuði áður en hún veiktist hastarlega í október sl. Við kíktum til hennar á Grensásdeildina í janúar og ég held að við höfum þá endanlega áttað okkur á hversu alvarlegt þetta var. Blessuð sé minning Stínu og megi Guð styðja Gunna okkar og fjölskylduna. Soninn Júlíus, tengdadóttirina og ömmustrákana tvo.

En þó svona dagar séu sorglegir eiga þeir alltaf einhverjar bjartar hliðar. Fleiri hundruð manns vottuðu Stínu virðingu sína og þar hittum við stórfjölskylduna. Alltof slitrótt samband hefur verið hjá okkur og það eru margir sem vilja laga það. Í um tuttugu ár frá 1981 og fram til aldamóta fór hópur systkinabarna, barnabarna Borgþórs og Guðrúnar með fjölskyldur sínar á hverju ári í útilegu. Og fyrstu árin var líka komið saman að vetri. Það voru meira að segja formleg samtök um þessar hátíðir. Félag kátra frændsystkina hét hópurinn. FKF og ekki létu Gunni og Stína sitt eftir liggja. Þau útbjuggu til dæmis fána með einkennisstöfunum. Ég held að þau hafi ásamt Bogga Sigurjóns átt stóran þátt í hvað þessi hópur hélt lengi saman.

Og undanfarið hafa mínir krakkar oft verið að tala um að byrja upp á nýtt. Og þá myndu það verða þau af yngri kynslóðinni sem ættu að vekja upp sínar góðu minningar og byrja! Það væri frábært að gera það í nafni vinkonu okkar sem nú kvaddi.

En Linda og Konný komust ekki í dag.. Konný er nýkomin heim með litla prinsinn og Linda er ein með stelpurnar því Jón er við vinnu í Húsafelli. En Fúsi og Erla sem og Jóhanna komust. Eiríkur í Danmörku svo ekki átti hann heimangegnt. Ég held að það gangi bara vel hjá honum í fjarbúðinni. Þau eru öll á sama tíma í skóla hann og krakkarnir. En Lilja býr hjá okkur á loftinu í Heiðarbæ og hefur mikið að gera í prestsembættinu.

En hér læt ég staðar numið. Bestu kveðjur vinir, hvar sem þið eruð.
Ykkar Silla. 
Flettingar í dag: 105
Gestir í dag: 17
Flettingar í gær: 74
Gestir í gær: 32
Samtals flettingar: 124500
Samtals gestir: 26580
Tölur uppfærðar: 21.7.2024 05:40:37