10.05.2008 19:59

Ný prinsessa!

 
Halló kæru vinir!!
 
Ég var að eignast nýtt barnabarn.. Hún Linda og hann Jón voru að eignast stúlku. Barnið var 3330 gr að þyngd og 50 cm að lengd. Hún er tólfta barnabarnið okkar og fjórða stelpan. 

En í hádeginu í dag komu Linda Ösp og Hrafntinna dóttir hennar í heimsókn hingað í Heiðarbæinn og þá voru verkirnir farnir að ágerast hjá mínu yngsta barni. Jafnframt mömmunni henni Lindu. Hún fór í framhaldinu í skoðun á Sjúkrahúsið í Keflavík og að fara heim..nei ónei..Og nýja stúlkan kom í heiminn kl.16.30.... 

Við afi og amma erum auðvitað búin að kíkja á hana og hún er æði. Smágerð með svart hár eins og mamma hennar og pabbi. Og stærðin er að mínu mati flott. Barnabörnin mín hafa verið af ýmsum stærðum við fæðingu. Náttúrulega, því ekki eru allir eins!

Þyngd allt frá 6 mörkum sem er hann Helgi Snær elskulegur, að 22 mörkum.. sem er Vilmundur Árni, minn hressi. Svona er þetta...sumir koma á tilsettum tíma. En aðrir flýta sér eins og Helgi sem var 29 vikur í móðurkviði.. Vilmundur var líka 42 vikur í mömmu maga svo það er ekki að undra að stærðin hafi verið mikil..

Já mér finnst við vera STÓRRÍK... þó ekki sé það nú í aurum talið!

En þetta var svona fréttapistill. Gestur frændi fékk fína afmælisgjöf.... Hann er sonur Lillý systir og þrítugur í dag..Getur það verið rétt?
Hafið það sem best.

Tólfföld amma og afi í Heiðarbæ...........

P.s kíkið á síðuna hjá Lindu hér til hægri..Vinkona hennar hún Dísa setti inn nokkrar myndir.

09.05.2008 17:48

Hvítasunnuhelgi.Já nú er Hvítasunnan framundan og oft finnst mér hún merki um sumarkomu. Reyndar er hún snemma þetta árið. Ég man að ég átti oft afmæli í kring um þessa helgi í lok maí. Svo man maður líka eftir frægum ferðalögum um þessa helgi með vosbúð og tilheyrandi. En ég fór reyndar aldrei sjálf. Stefnan var sett frekar á verslunarmannahelgi. Núna finnst mér oft best að vera heima um svona ferðahelgar.

En það hafa margir verið að skrifa um Stafnesmót á síðunni hjá mér. Það væri gaman að halda slíkt í sumar. Það verður samt alltaf svo að það komast ekki allir. En reynslan af svona samkomum hjá okkur í hverfinu er fín. Þá hittist meðal annars fólk sem sést sjaldan og fólk frá flestum bæjunum er mjög skylt. Það voru jú bræður og frændur sem ólu hér upp stóra barnahópa á síðustu öld.

En það er góð hugmynd hjá Konný að setja upp nefnd sem færi í að skoða þetta. Ég held að unga fólkið í dag sé mjög áhugasamt um hverfismót með varðeld og tilheyrandi. Fyrsta mótið var haldið 1990 og var á tveggja ára fresti nokkrum sinnum. Þá var fólk frá öllum bæjunum sem mætti. Mestur var fjöldinn 125 manns.

Þá kom dálítið hlé og Bjössi, Maddý, Gotta og okkar fjölskyldur hittumst svo nokkrum sinnum í Nýlendu. Og fólk tjaldaði á túninu eða kom með tjaldvagna. Og þá komu margir að norðan eins og áður og meira að segja hittist svo á að Erla frænka okkar frá Texas kom einu sinni með son og fjölskyldu. Hún var stödd á landinu gamla góða..

Svo nú er bara að tala saman frænkur, frændur og vinir.. Og netið er bara nokkuð gott til samskipta. Gott hjá Ásu að koma inn í umræðuna. Og svo eru örugglega fleiri sem hafa áhuga. Endilega sendið Konný póst, netfang= konnyhrund@hotmail.com


Ég var að fá bílinn úr viðgerð í dag. Fegin að vera á eigin bíl. Þeir hjá Bílabúð Benna tóku hann í gegn svo hann er eins og nýr segja þeir. Sögðu mér að vera svo ekki að aka utan vega. Hu, það var sko Gunni sem það gerði ekki ég..... Svo er samræmdu prófunum lokið þetta árið og engin var veikur svo þá eru engin sjúkrapróf..Finidó!!!

En ég segi þetta gott í bili.
Kveðja úr Heiðarbæ.
Silla.


06.05.2008 18:02

Vætan..Heil og sæl.. Ekki þurfum við sólgleraugu í dag. Það rignir núna fuglunum til mikillar ánægju. Ég sá einn áðan með þann stærsta maðk sem ég hef séð.. Auðvelt fyrir þá að ná þeim í bleytunni. Og þar sem hefur verið borin á áburður..þar er veisla.

En nú líður að lokum samræmdu prófanna. Það síðasta verður á fimmtudag. Engin hefur verið veikur til þessa og öll eru krakkarnir mjög kurteis og fín. Svo er vonandi að ekki verði nein sjúkrapróf en í fyrra var eitt......En þetta er búin að vera góður tími hjá mér og gaman að endurnýja kynnin af skólastarfinu. 

Ég fékk skilaboð frá Maddý áðan og þau eru að búa sig undir heimferð frá Jackssonville í Flórida. Þar hafa þau hafa verið síðustu fimm vikur í húsinu sínu sem þau eiga með Ölla. Þau koma á fimmtudagsmorgun og það verður gaman að fá þau í sveitina aftur. 

Bjössi er búin að undirbúa að fá gám um næstu helgi þar sem við getum hent ýmsu drasli í sem hefur safnast fyrir. Það verður fínt og margar hendur vinna létt verk......Þá verður hamagangur (á Hóli) í Stafneshverfi..Og ef allir taka til hendi þá verður þetta bara fjör!

En læt þetta duga í bili. Eigið góðar stundir.


Silla.

03.05.2008 13:44

Helgarblogg.


Hæ hæ ..

Ég hef verið löt að blogga undanfarið. Skólinn hefur tekið sinn tíma og svo var saumaklúbbur hjá mér hér í Heiðarbæ í gærkvöld. Það var kátt á hjalla og Gunni grillaði fyrir okkur. Tilbreyting og það er búið að panta að hafa slíkt árlega!

Við erum sex í klúbbnum og hittumst að jafnaði einu sinni hjá hverri yfir veturinn. Sigrún er ekki á landinu núna. Hún er með Alla sínum á Spáni þar sem þau eiga hús. En hún er í netsambandi og við sendum bestu kveðjur yfir til Spáníá..

Ég fékk sms frá Maddý í gær og þau eru stödd hjá David í Atlanta í Georgíu. Flott hjá þeim. En þau koma heim 8. maí n.k. Fínt að koma heim inn í vorið. Góð viðbót við sumarið hjá þeim.

Ég fór að skoða sýningar á fimmtudaginn þann 1. maí. Fór með mömmu og kíkti niður á Listatorg á sýningu hjá Guðmundi Maríussyni. Við skoðuðum líka handavinnusýninguna í Miðhúsum og fengum okkur kaffi og vöfflur.

Ég var að lesa um að Ellert ljósmyndari Víkurfrétta hafi fengið þreföld fyrstu verðlaun í ljósmyndasamkeppni í París. Flottur!! Hann er mjög næmur og góður ljósmyndari. Flottar myndirnar hans. Linkur hjá mér (til hægri) þar sem hægt er að skoða margt.
En ég læt þetta duga í bili og eigið góða helgi.

Silla.

30.04.2008 21:59

Samræmd próf.


Sælt veri fólkið.

Nú er lokið tveimur prófum í Samræmdu prófunum. Allt hefur gengið vel hjá okkur og unglingarnir eru til mikils sóma. Þau eru stillt og prúð og reyna eftir bestu getu að leysa verkefnin sín. Ég vona að það hafi tekist vel hjá þeim blessuðum. Núna erum við með prófin í Samkomuhúsinu annað árið í röð. Það þykir heppnast mjög vel og þar er það næði sem þarf að vera til staðar.

En ef frumvarp menntamálaráðherra um breytingar á grunnskólalögum nær fram að ganga verða ekki fleiri próf með þessu sniði. Þar er talað um nokkurskonar könnunarpróf sem verða haldin bæði haust og vor. Þau myndu þá byrja á næsta ári.

Og mér finnst mjög líklegt að það þurfi alltaf að vera einhver próf til að reyna getu nemenda einhverstaðar í ferlinu. En samræmdu prófin eins og þau eru núna setja skorður á ferð krakkanna um skólastigið. Það þurfti t.d 7.8 í meðaleinkunn á síðasta ári til að komast í Verslunarskólann. Líklega er það svipað í MR.

Svo sennilega eru sum undir smá pressu ef þau ætla í einhverja tiltekna skóla. En það góða við nám í dag er að alltaf er samt hægt að byrja upp á nýtt jafnvel þó nemendur hætti tímabundið. Það var ekki eins auðvelt hér áður eða.....

Veðrið hjá okkur ( Maddý, Dísa og co) er búið að vera þvílíkt vindasamt. Bílar og fellihýsi fjúkandi á Kjalarnesi. Mold og sandrok hér syðra og snjókoma hjá systrum mínum á norðurlandinu. Sem sagt er ekki hundi út sigandi og eiginlega bara gluggasólarveður.

Garðar Ingi er hjá okkur núna. Þeir eru að horfa á spennumynd Gunni og hann.. ... Hundarnir eru farnir að sofa niðri í kjallara og rólegt í Heiðarbæ. Frí á morgun 1.maí og við ætlum að hafa það notalegt núna með vindinn fyrir utan gluggann!

Baráttukveðjur í tilefni morgundagsins!
Silla. 


28.04.2008 21:16

Captivan mín.


Sæl öll. 
Bíllinn minn er á verkstæði!
Gunni fékk hann lánaðan þegar hann var að leita að Brúnó um daginn. Og hann keyrði yfir stóran stein. Ekki varð ég vör við að eitthvað væri að fyrr en nú um helgina. Þá tók ég eftir að litlir olíublettir voru allstaðar þar sem ég var á Captivunni minn. Æiiii, ég linnti ekki látum fyrr en Gunni og Fúsi höfðu kíkt undir gripinn í morgun og sáu að eitthvað rör var næstum í sundur ....

Og ég fór í umboðið eða réttara sagt verkstæði þess og bað þá kíkja á þetta. Já starfsmaður kíkti á dæmið og sagði ..Þú ferð sko ekki fet á bílnum!!...... Ha...já já sagði ég..Þetta var eins og að koma á bílagjörgæslu.Og hvað átti ég svo sem að gera bíllaus... hm...... En þeir hjá Bílabúð Benna eru frábærir . Lánuðu mér bíl og sögðu að þetta væri allt í góðu lagi. Og nú er ekki því að dreifa að þetta flokkaðist undir einhverja ábyrgð. Þetta finnst mér sýna lipurð í viðskiptum sem ber að þakka.

Mér finnst þetta vera punkturinn yfir iið hjá þeim. Þegar ég hef farið með bílana mína í skoðun hjá þeim er alltaf sjálfsagt að lána bíl. Þetta er sko ekki gert í öllum umboðum. Sama sagan er hjá Sissa sem selur bíla fyrir þá í Reykjanesbæ. Alltaf mjög lipur þjónusta og lánar bíl ef eitthvað er gert þar. Ég held að það margborgi sig hjá bílasölum og tengdri starfsemi að sýna svona lipurð..

Svo nú er mér borgið í bílamálum. Ek um á súkku = Grand Vitara..En þvílíkt hvað þessi jeppi er mjór!  Og í fyrramálið klukkan átta á ég að vera mætt í Grunnskólanum í Sandgerði til að gæta þess að samræmdu prófin fari fram eins og lög og reglur segja til um. Það eru örugglega sumir kvíðnari á þessari stundu en ég.En yfir þrjátíu nemendur þreyta nú próf hér. Tvö eru barnabörnin mín..Gunnar Borgþór Sigfússon (alnafni afa síns) sem er í tíunda bekk (16 ára) og Ástrós Anna Vilhjálmsdóttir (15 ára) sem tekur tvö próf þó hún raunar þurfi þess ekki fyrr en næsta vor. Hún er í níunda bekk.

En nú læt ég staðar numið í bili.
Vorkveðjur til ykkar allra.
Silla.


26.04.2008 16:13

Blogg....

 
Komið þið sæl!

Nú er talað um að allt sé vitlaust í bloggheimum út af hinu og öðru málinu. Kona sagði upp starfi sínu vegna umræðu á bloggi! Allavega meðal annars. Hún heyrðist í beinni útsendingu vera að tala um að skipuleggja eitthvað sem ekki þótti við hæfi í sambandi við aðgerðir vörubílstjóra. Hm. Allt varð vitlaust á netinu hjá bloggverjum.. Svo það er að einhverju leiti farið að taka mark á bloggi. Annars sýnist mér margir ættu að segja upp frekar en hún miðað við þessar sakir.

Svo er bloggið æði misjafnt, auðvitað. Sumir blogga af því þeim finnst gaman að tjá sig. Einnig til að leggja eitthvað til málanna almennt. Aðrir skrifa til að reyna að klekkja á og tala niður fólk. Sumir skrifa nafnlaust sem er það versta að mínu mati. Eins og ég hef sagt áður finnst mér lágmarkskrafa að fólk skrifi undir nafni. Að öðrum kosti á maður ekki að taka mark á bloggskrifum.

En bloggið mitt er orðið rúmlega ársgamalt. Og gestur nr. 17.000 mun sennilega kíkja hér við á morgun....... Mér finnst það bara gott... Ég veit vel að þið ágætu vinir mínir kíkið oft og að þetta eru ekki svona margir.. En samt flott... Gaman að fá ykkur í heimsókn á Heiðarbæjarsíðuna mína. Svo er ágætt fyrir ættingja og vini erlendis að fylgjast með því helsta sem gerist hér um slóðir. Bestu kveðjur til Eiríks og fjölskyldu í Lisabild í Danmörku, til Báru og Ástu og allra í Los Angeles, Dísu, Maddý og co í Jacksoneville, til David og Staycy í Atlanta, Monte og fjölskyldu í Milwaukee, Mumma og co í Seattle og til ykkar allra sem lítið við hér...Endilega skrifið í athugasemdir svo ég viti af ykkur gæskurnar..

Vilmundur Árni gisti hér tvær síðustu nætur. Mamma hans, Jóhanna er lasin. Hún er undirlögð af vöðvabólgu sem leiðir upp í höfuð. Það er ekki gott og hún er örugglega búin að ofkeyra sig í vinnunni. Svo er þó nokkuð stórt mál að vera ein með þrjú börn þó pabbar þeirra báðir séu duglegir að hjálpa eins og núna. Og síðustu nótt gisti Jóhann Sveinbjörn líka hjá okkur. Mikið sport að gista í sveitinniog leika sér við vin og frænda hér í grjótinu. Þeir klifruðu upp á Heiðarvörðu og voru að leita að fjársjóði..

Nóg að svo stöddu..Bestu kveðjur!

Silla.
 

24.04.2008 14:45

Fyrsti dagur sumars.Þá er veturinn liðinn samkvæmt dagatalinu. Kominn sumardagurinn fyrsti. Gömul þjóðtrú segir að ef frjósi saman vetur og sumar verði sumarið gott. Jæja..þá verður það bara gott í uppsveitum Eyjafjarðar (þar var lítilsháttar frost) því allstaðar á landinu er búinn að vera hiti og á mörgum stöðum verið í tveggja stafa tölu.

Ég var að kíkja á hita og kuldamet þessa dags á vef Veðurstofunnar. Frá því mælingar hófust 1949 hefur hiti mælst hæstur 13,5 st. í Rvík árið 1998. En á landinu öllu 19,8 st. á Akureyri árið 1976. Tíu sinnum hefur mælst yfir 10 st. hiti í Rvík....Kaldast var 1949 í Rvík frost 8,9 st. og kaldast á landinu hefur orðið þennann dag norður í Miðfirði 18.2 st. frost árið 1988. Svo núna er greinilega frekar hlýtt.

En það mun líklega ekki standa lengi því spáin hljóðar upp á kólnandi veður. Það snýst í norðanáttir um helgina. En þá verður oft líka bjartara hér syðra. Vonandi eiga ekki nein alvöruhret eftir að koma. Ekki miðað við vorboðana, lóuna og kjóann...... Og svo er krían komin til landsins. Vinkonan sást á þrem stöðum í dag... Mér skilst að hún sé búin að fljúga fimmtán þúsund kílómetra til að komast til okkar...

Hér er allt í góðum gír. Gott veður og allir að vinna í Fúsa. Reyndar er vindasamt og ekki hægt að bera á fúavörn eins og ég ætlaði. Ekki í bili en stendur vonandi til bóta. 

Þetta læt ég duga í dag. Gleðilegt sumar til ykkar allra.
Kveðja úr Heiðarbæ.
Silla.


22.04.2008 14:36

Curves.
Ég var að koma úr leikfimi.. Einhvern tíman í fyrra heyrði ég fyrst um þessa líkamsrækt. Nafnið á henni er Curves og er út um allann heim. Ég er búin að fara þrisvar og líst bara vel á þetta. Góð blanda af góðri æfingu. Ég hætti í sjúkraþjálfun og get alveg tekið þátt í svona. Það góða við þetta að það er hægt að fara á öllum tímum.

En ég kokkaði fyrir okkur þrjú í hádeginu og hinir eru í Örfirisey. Gunni og Erla eru að taka allt í gegn og henda drasli sem aldrei verður notað. Þau eru góð í því saman enda bæði í meyjarmerkinu. Erla er sko duglega að finna hverju má henda.

En í gær fór ég með tengdamömmu til nuddara í Grindavík. Hún er svo slæm í bakinu núna. Ekki gaman að gera við því. Hún er örugglega með beinþynningu. Meðan hún var í nuddi fór ég í heimsókn til Svenna og Ingu í kaffi. Það var gaman. Þau eru alltaf svo hress hjónin. Margt spjallað þar m.a um gömlu dagana. Svenni var besti vinur tengdapabba og var margt að rifja upp frá liðinni tíð.

Og það er nóg að gera hjá Maddý og co í Epplastræti í Jacks í Flórida. Þau eru að smíða..Bubbi byggir þar núna! Bestu kveðjur yfir hafið! Og auðvitað eru þau þar í sól og sælu.
 
En það styttist í að ég fari að vinna í samræmdu prófunum. Þau byrja eftir viku. Það verður gaman að koma aðeins inn í skólasamfélagið eins og síðustu ár. Það er mjög fróðlegt að taka þátt í því að hluta.

Þar til næst.... Látið ykkur líða vel.
Bestu kveðjur úr Heiðarbæ.
Silla.

19.04.2008 17:20

Litlu lömbin.

      
Komið þið sæl.

Maður býr nú ekki í sveit fyrir ekki neitt eða hvað? Eru bara ekki komin tvö lömb hjá Bjössa. Ég hélt ég sæi ofsjónir og var að spá í hvort Ísar væri með hunda eða lömb á eftir sér í gær. Jú mikið rétt og svo voru þeir feðgar mjög sveitalegir og voru að bera áburð á túnin. Það eru líka tveir kálfar í húsi hjá þeim. Þið getið skoðað myndir af þeim á síðunni hjá Bjössa. Hann er svo duglegur að taka myndir...

Og bræðurnir Jóhann Sveinbjörn og Arnar Smári komu í morgun ásamt mömmu sinni henni Konný. Þeir löbbuðu yfir til að skoða lömbin. Það var mikið sport og Arnar sagði me.. me.. þegar þeir komu aftur heim. Heilmikið ævintýri fyrir litla karla. Svo er Bjössi núna að keyra mold yfir grjót sem er hér hjá okkur í lóðinni. Svo þið sjáið að það er nóg að gera í blíðunni hér í Stafneshverfinu..

En annars er allt gott að frétta. Lilla vinkona kom í gærkvöld og gisti. Við skröfuðum saman til kl. eitt eftir miðnætti. Og svo fórum við í sund í dag vinkonurnar. Þar hittum við m.a Björk Ara sem ég hef ekki hitt lengi. Það var svo margt að spjalla að tíminn flaug. Við höfðum svo mikið að segja hvor annari, við Björk .......

En Gugga og fjölskylda ætla að kíkja á eftir með Snata sem nú heitir Bassi. Það verður örugglega fjör og mikið hundalíf á bæ hér þegar þau bæta honum í hópinn sem fyrir er. Hér er Brúnó auk heimilishundanna Týru og Vikký.

Við heyrðum frá Epplagötugenginu í gærkvöldi. Þau voru að steypa stétt og grunn undir skúr og voru að vonum ánægð með dagsverkið.

En ætli ég láti þetta ekki duga í dag. Lifið heil.
Silla....17.04.2008 12:55

Vorvindar.


Hæ hæ. 
Byrjaði ekki vísan svona: Vorvindar glaðir glettnir og hraðir..
                                          geysast um löndin rétt eins og börn!

Það má nú segja að þeir geysist núna. Komin fínasti vorhiti og hávaðarok. En það á víst að lægja með kvöldinu. Fúsa karlar eru að blása og mála í Örfirisey og gengur bara vel. Það er gott að fá loks almennilegt veður og vindurinn stendur af landi svo það kemur ekki að sök að ráði. En Gunni er í Sandgerði í viðgerðum og smíðum.

Ég fer á aðalfund lífeyrissjóðsins Festu í kvöld með Verkalýðsfélaginu. Fundurinn er á Selfossi og það þarf að fara tímanlega af stað. Það er alltaf eitthvað við að vera og nóg að gera hjá mér þó kaupið sé lágt.....

En vonandi fer að lagast tónninn í ráðamönnum þjóðarinnar. Mér finnst ganga út í öfgar þetta niðurrifstal sem verið hefur undanfarið. Það bætir ekki um fyrir neinum og ættu þeir frekar að leita leiða til að telja hug í landsmenn. Það hlýtur að vera betra fyrir alla!

En Brúnó hundur verður hjá okkur um helgina. Hann fór í aðgerð í morgun og verður eitthvað aumur næstu daga. Svo þá er gott að vera í sveitinni. Það er vinnuhelgi hjá Jóhönnu og börnin í föðurhúsum..

En ég fer að hætta þessu snakki og bestu kveðjur til ykkar!!
Silla.


 

14.04.2008 20:34

Farfuglarnir.Jæja gott fólk. Nú eru farfuglarnir farnir að mæta í hópum. Ég var dálítið úti við í dag og það er gaman að heyra í þeim....... Það virðist ekki fæla þá frá að syngja að enn sé snjór í skuggum og lautum. En þeirra vegna og okkar líka vona ég að spá veðurfræðinganna rætist og það fari nú að hlýna!

Ég var að laga til í góða veðrinu. Raða spýtum og steinast eins og ég kalla það þegar ég er að laga einn og einn stein í hleðslunum. Það var mikil blíða í dag en hitastigið lágt nema í sólinni. Eldhússtörfin tóku smátíma en helmingur af Fúsa ehf er í Reykjavík að störfum.

Brúnó er að jafna sig eftir flakkið fræga og fór heim til sín í gærkvöld. En alltaf eru nokkrir að koma í heimsókn til að hitta ferfætlingana. Pottþétt hafa þau meira aðdráttarafl en við hjá sumum aldurshópum....

Ég kíki stundum á bloggheima hjá vísir.is og mbl.is. Einn er hagyrðingur á vísir.is sem kallar sig hallkri. Mér finnst hann skemmtilegur. Ég ætla að taka tvær góðar nýlegar stökur og leyfa ykkur að brosa út í annað.

Ríkisstjórnin ræður sér sjálf.
Raun er að fást við landann.
Stödd er nú út í heimi hálf.
Heldur mun forðast vandann.....og

Fari Guð að góðum ráðum
og geri eins og biðja menn.
Kemur vorið kannski bráðum
þó kuldatíðin ríki enn.

Ég ætla að hafa þetta stutt í kvöld! Bara láta ykkur vita aðeins af mér.
Eigið góðar stundir.
Kveðja Silla.

12.04.2008 17:30

Borið á Heiðarbæinn.Já við vorum að bera fúavörn á Heiðarbæinn. Sumum finnst kannski við vera snemma í svoleiðis vorverkum.... EN við komumst ekki yfir að bera á austurhliðina í haust. Svo nú í sólinni og hitanum um miðjan daginn bárum við á allt húsið..Bravó. Svo förum við aðra umferð seinna í sumar. Þetta er hin besta líkamsrækt og við erum sko lurkum lamin!!

En við erum með Brúnó strokuhund hjá okkur og þeir hlaupa hundarnir um allar koppagrundir. Ég var hálfhrædd við að sleppa honum vegna þess sem kom fyrir en hann er hér heimavanur og fer með Týru mömmu og Vikký um allt.

Jóhanna þurfti að fara að vinna óvænt. Verslunarstjórinn Snorri var veikur og þá er hennar að bera ábyrgðina með honum sem aðstoðarverslunarstjóri. En þetta er ekki gaman fyrir hana og krakkana því auðvitað vilja þau hafa mömmu heima. En Garðar Ingi stóð sig vel og passaði litla bróðir þar til Konný tók við.

Ég fékk fréttir frá Maddý og co í Epplastræti í Jacksonville í Flórida. Allir þar í góðum gír og búin að gera upp þvottahúsið. Þau mættu nú senda smá hita hér yfir. Því þó gott hafi verið um miðjan daginn þá er snjór í öllum lautum.

Umferðin hér er að aukast með vorinu. Rútur og fólksbílar á nokkurra mínúta fresti yfir hádaginn. Sumir vinka mér þegar ég er úti við og ég veit ekkert hvort ég þekki fólkið! Ég veifa sko bara á móti.

En ætli ég hætti ekki þessu snakki. Látið ykkur líða vel um helgina sem og alltaf! Kveðjur úr Heiðarbænum.
Silla.
10.04.2008 20:25

Óperan og lífið.


Sæl verið þið ágætu blogglesendur mínir.
Við hjónin fórum á óperusýningu í gærkvöld. Já óperusýningu!!! Ég hef aðeins einu sinni á ævinni áður farið á slíka sýningu. Og hún kom á óvart þessi. Hún heitir COSI FAN TUTTE og er eftir Mozart. 

Hún var ekki í hávegum höfð í Evrópu á 18 öld. Sagt var að verkið þætti ekki siðsamt! En síðar varð það eitt af vinsælustu verkum Mozarts. Okkur var boðið af Stefaníu sem er viðskiptafulltrúi Glitnis í Reykjanesbæ en bankinn er styrktaraðili verksins.

Og við í Heiðarbæ settumst út á pallinn með kaffið eftir kvöldmatinn í kvöld. Trúið þið því? Það er þvílík veðurblíða í dag. En öllum að óvörum...... vaknaði fólk við 30 cm snjó í gærmorgun. En hann er allur að hverfa vegna þess að sólin elskuleg hefur látið sjá sig báða dagana. Sólin bræðir allt! Vildum gjarnan hafa meira af henni.

Og fréttir af Brúnó! Hann var mjög órólegur fyrstu nóttina heima..Hvert hljóð angraði hann..En nú er hann að komast í eðlilegt ástand og það er pottþétt að krakkarnir á Vallargötu 14 passa að hann fari ekki á flakk aftur.

En Fúsi og co eru þessa dagana í vinnu í Reykjavík. Nánar tiltekið í Örfirisey. Það er verk sem þarf að ljúka áður en hafist verður handa í Búrfellsvirkjun. Og svo er nóg að gera heima. Gunni og Erla Jóna vinna hörðum höndum í nýja og endurnýjaða húsinu. Og það er verið að brjóta niður veggi og byggja upp.

En við erum orðin smá lúin Heiðarbæjarhjónin. Eftir langa leit að Brúnó, gestagang og leikhúsferð ætlum við að fara snemma í háttinn í kvöld....En göngutúrinn var á sínum stað í dag. Útiloftið var frábært. Við mættum Benna og Týra ætlaði að gleypa hann. En svo að endingu...hafið það sem best!

Kveðja úr Heiðarbæ.

08.04.2008 20:01

Frábært fólk!

Það er gott til þess að vita hvað margt fólk í kring um mann er frábært og hugulsamt! Eins og þetta ferli með hundinn Brúnó sýnir. Að týna dýri er ekki skemmtileg reynsla. Og fjölskyldan á Vallargötu 14 og við öll vorum eyðilögð. Fjölskyldan öll að leita flestum stundum og um nætur líka. En það yljar um hjartarætur að finna að fólk er að hjálpa.

En um níuleytið í morgun hringdi öryggisvörður í mig og sagði..við vorum að reyna að ná hundinum þínum en hann slapp. Þá voru þeir staddir við stóra flugskýli Kanans (sem var) og ekki á þeim stað sem búrið var sem honum var ætlað að rata í. Það var sett upp með aðstoð Stebba hundaeftirlitsmanns. En á því svæði hafði hann jú oftast sést og síðast sá flugvirki að nafni Jónas hann þar á planinu.

Svo hann var sem sagt kominn inn á nýja Háskólasvæðið Keilir. Hann hefur kannski frekar viljað verða læknir en flugvirki ..En við fórum með Týru með okkur uppeftir og leituðum allstaðar. Meira að segja strákar sem áttu lausan tíma í Fjölbraut hringdu og buðu hjálp. En ekki fundum við gripinn og fórum heim um hádegi.

En Gunni átti lausan smá tíma eftir mat og fór aftur og víkkaði leitarsvæðið yfir í athafnasvæði Íslenskra Aðalverktaka þar sem hann er jú kunnugur. Eftir klukkutíma var hann við að gefast upp og lét Jóhönnu vita. Hún vinnur skammt frá eða í Bónus. Hann hafði ekki fyrr sleppt símanum þegar hann sá vininn standa uppi á hól að kíkja yfir. Og þá sleppti hann Týru mömmu sem hljóp í áttina til hans.

En á sama tíma hafði Jóhanna fengið smáfrí og kom þar að! Hún fór sér hægt og kallaði á Brúnó sem snarstoppaði..MAMMA kallaði! En þessi tegund hunda sér illa þó þeir heyri mjög vel svo hún læddist að honum. Girðing á milli þeirra stoppaði hann því hann var að ærast úr gleði þegar hann SÁ Jóhönnu. Og þar með var fjögurra daga útlegð lokið því það þurfti bara að lyfta aðeins girðingunni!

Við fjölskyldan viljum þakka öllu þessu góða fólki sem aðstoðaði við leitina að Brúnó blessuðum. Selma og Smári á 245.is, Hilmar Bragi á V.f og fjölskylda, björgunarsveitarungliðar, skólabörn og þið öll hin sem með leit og ábendingum sýnduð einstaka hugulsemi. TAKK.

Kveðja úr Heiðarbæ.
Silla.  

 
Flettingar í dag: 193
Gestir í dag: 17
Flettingar í gær: 74
Gestir í gær: 32
Samtals flettingar: 124588
Samtals gestir: 26580
Tölur uppfærðar: 21.7.2024 06:44:21