10.12.2008 05:03

Sólarkveðjur.


emoticon Hæ öll sömul. Við erum búin að hafa það gott í sólarlandinu Flórida. Þótt það séu að koma jól þá er í kring um 25 stiga hiti þessa dagana..Svo ekki finnst okkur neitt jólalegt! Gísli og Gunni voru að grilla humar áðan og við steiktum fisk við Maddý. Vitum ekkert hvað hann heitir en var hann góður. Við höfum verið mjög nýtin og reynum meira en venjulega að spá í verð og allt þaðemoticon En sem betur fer hefur dollarinn nú lækkað allavega í bili. En þó dýrara sé nú en áður er það samt ennþá ódýrara en á Íslandi. Dísa kom áðan og ætlaði að bjóða okkur út að borða en þá vorum við komin í eldamennskuna. Ææ..Hún er alltaf svo indæl en við finnum annann tíma.

Og svo fara Maddý og Gísli heim á morgun. Við keyrum þau á Sanford flugvöll eftir hádegi. Þangað er tæplega tveggja tíma ferð. Og á fimmtudag ætlum við að skreppa norður til David og Stacey og vera allavega eina nótt. Tíminn verður sko floginn áður en maður veit af því svo förum við heim næsta þriðjudag..Komum að morgni miðvikudags. En ég held svei mér að ég hafi fengið betri helminginn til að slappa eitthvað af. Það hefur ekki gengið of vel undanfarna mánuði vegna sífelldrar hugsunar um vinnu og verkefni í fyrirtækinu. En við höfum verið að ralla svolítið í búðum og skoða og svo bara verið í sólinni..Reyndar ekki Gunni hann flýr inn yfir miðjan daginn með suduku.

En ég læt þetta duga í dag. Það er reyndar kominn nótt heima á Íslandi...Hafið það sem allra best. Sólarkveðjur frá okkur öllum í Epplagötu.emoticon

07.12.2008 23:05

Jacksonville.

emoticon 
Halló öll. Við höfum það gott í sólinni á Florida. Það var að  vísu kaldara í dag en yfir tuttugu stig um miðjan dag og við fórum nú aðeins í sólbað við Maddý. Það er svo fínt í bakgarðinum hjá henni og alveg friður og lokað. Svo fórum við á markaðinn og löbbuðum helling. Það er nú ekki dýrt dótið þar en af misjöfnum gæðum!! Gunni fann samt flottar málningargræjur á spottprís. Það var mikill  fjöldi fólks eins og á Laugavegi í des og örugglega margir að nota þennann verslunarmáta til að kaupa jólagjafirnar. Fleiri blankir en Íslendingar!!

En Dísa kom yfir í gær og líka Nonni og Kathy. Svo það var fjör í bæ. Maddý og Gísli fara heim á miðvikudag og ég reikna með að við förum þá eftir það og kíkjum á David og Stacey. Við erum með jólasveina og kaffitárkaffi handa þeim.
 
Við vonum að allir hafi það gott heima. Það er indælt að sleppa við kælinguna smátíma og vera hér. Þessi hálfi mánuður verður  örugglega fljótur að líða. Nú eru vinirnir (karlarnir okkar) að fara að grilla og við töfrum fram sósu, kartöflur og grænmet á meðan við frænkurnar og vinkonurnar. Já Dísa gaf okkur frábært jólaskraut í gærkvöld sem verður gaman að sýna börnunum.

Ég læt þetta duga í bili..Bið að heilsa öllum og verið nú dugleg að kommenta.
Bestu kveðjur úr Epplagötu frá okkur öllum.
Silla.

04.12.2008 22:27

Miami Beach og Key West!


Hæ öll sömul. Eins og þið vitið mörg erum við í Flórida og við vorum löngu búin að skipuleggja ferð með Maddý og Gísla á suðurhluta Flóridaskagans. Svo nú erum við stödd í Key West sem er syðsti og vestasti oddi skagans. Það hefur verið yndislegt veður og mikil breyting úr frostinu sem var þegar við fórum á þriðjudag. Í gær gistum við á Miami Beach, verðum hér í nótt og svo er hugmyndin að fara í einni lotu heim í Jacksonville.
 
Við fórum í dag og skoðuðum safn um Hemingway. Húsið hans og söguna á bak við rithöfundinn. Við vorum í kasti yfir einu! Hann átti alltaf fullt af köttum og þeir halda þeim sið og þarna búa nú 49 kettir. Þeir fengu tveir að lúra í hjónarúminu hans þó við mættum ekki snerta rúmstólpann. Ja hérna hér. Svo fórum við og skoðuðum bryggjuhúsahverfi. Ég meina hús á floti eins og bátar. Þar var auðvitað misjafn að sjá allt frá hassstrákum í hálfgerðum  hreysum og svo fín og sæt hjón á ungum aldri eins og við sem voru að elda og hafa það huggulegt. Sumir búnir að setja upp jólaskreytingarnar og þetta verður manni eftir minnilegt svo ekki sé meira  sagt.

Já þetta var nú það sem ég ætlaði að koma á framfæri svona í bili. Það er lélegt símasamband hér. Við erum  reyndar ekki að hringja neitt enn sms koma öfug til baka. Gunna langar að heyra í Fúsa (getur ekki stillt sig um að hugsa til vinnunnar) og besta ráðið er að senda tölvupóst. Það virðist allstaðar vera nettenging enda er ég að blogga til ykkar..

En ég læt þetta duga í bili. Eigið öll góðar stundir, nær og fjær.
Ykkar Silla. 

01.12.2008 20:55

Stutt blogg.

emoticon
Jæja ég ætla aðeins að láta heyra í mér. Var að snúast ýmislegt í dag og kíkti svo til mömmu. Hún er alltaf jafn dugleg í handmenntinni. Svei mér hún slær öllum út. Búin að föndra fyrir litlu börnin og sum þau stærri. Það fer enginn í jólaköttinn í ár.

Svo kíkti ég á tengdamömmu. Hún er nú ekki jafn hress því miður. Hefur verið að berjast við beinþynningu og fleiri krankleika.

En nú fer að styttast í afmælisferðina og ég læt ykkur heyra frá mér ef ég get. Týra verður hjá Benna og Ölla og Vikký hjá Svandísi. Svo verður Linda hér annað slagið og Bjössi og Stafnesbræður með eftirlitið á Heiðarbænum. Hafið það öll sem best og bestu kveðjur.
Ykkar Silla.

28.11.2008 17:27

Þakkargjörð.

emoticon
Heil og sæl..og ekkert væl.
Í Bandaríkjunum er þakkargjörðardagur og hann var í gær. Mummi bekkjarbróðir minn sendi mér póst og var að hjálpa konunni með kalkúninn klukkan níu að morgni. Þetta er siður hjá þeim alveg frá tíð Abrahams Lincon að ég held. 

En í gærkvöld klukkan sjö var samverustund í Safnaðarheimilinu í Sandgerði og um leið fyrirlestur um fjármál. (Ekki veitir af)..En þessi stund var frábær. Þarna voru samankomin um þrjátíu manns og margir komu með mat og allavega góðgæti með sér. Úr varð hlaðborð sem hefði verið sæmandi í hvaða veislu sem væri. Mitt framlag var súpa og brauð. Sr. Björn Sveinn Björnsson byrjaði á hugvekju. Við sungum saman tvo sálma og svo hélt Garðar Björgvinsson fyrirlestur um fjármál. Hann var mjög góður og ekki var tíminn lengi að líða og mikið hlegið þrátt fyrir þrengingar. Klukkan var orðin hálf ellefu þegar ég kom heim í Heiðarbæinn.

Svo það var nokkurskonar þakkargjörðarmáltíð hjá okkur í gær. Og inntakið í þessum sið er jú góður og er ekki ástæða til að þakka bara fyrir að hafa góða heilsu?

En nú er frost úti og hefur verið rok undanfarna daga en er nú að róast hér sunnan heiða allavega. En fyrir norðan og vestan er búin að vera stórhríð og allt ófært. Skólum aflýst víða og auðvitað flugi. Við erum bara heppin að það hefur verið auð jörð hér. 

Læt þetta duga að sinni.
Góðar kveðjur úr Heiðarbæ.
Silla.

25.11.2008 18:27

Jólaljósin.

emoticon
Halló öll. Nú fer að koma að því að kveikja á jólaljósunum. Fyrsti sunnudagur í aðventu er á sunnudaginn næsta. Það verður kveikt á jólatré Sandgerðisbæjar á laugardaginn. Ekki veitir af að lýsa upp skammdegið núna. Ekki síður að lýsa upp í hugum fólks. Ég hef sjaldan fundið fyrir svona mikilli óvissu og áhyggjum hjá fólki og núna.

En allt gengur þetta nú einhvernveginn. Og gott að hugsa til jólanna og hvað það gerir okkur gott að gleðja aðra. Og þá er ég ekki að tala bara um gjafir. Ég er að tala um meiri samskipti og að taka utan um hvert annað. Sem við eigum auðvitað alltaf að vera dugleg við.

Það er öruggt að jólagjafir verða ekki dýrar um þessi jól enda ekki þörf á því. Á okkar heimilum hafa aldrei verið gefnar dýrar gjafir. En þær verða kannski enn minni í krónum talið nú. En kerti og spil í gamla daga , kannski ein bók og eitthvað smá fatakyns gladdi og lýsti jafn vel upp hugann og aðrar dýrari gjafir gera í dag.

En þetta var svona smá hugleiðing um verðmæti. Þau verða nefnilega ekki mæld í aurum. En það er búið að vera nóg að gera í Fúsa ehf og jafnvel von á verkefni núna strax á eftir því sem er að ljúka. Það er frábært ef af verður því alltaf þarf að vera að huga að verkefnum. Vonum að það gangi allt upp.

En ég hef þetta ekki lengra og bestu kveðjur til ykkar nær og fjær.
Silla.

21.11.2008 18:21

Vélarvana bátur.


Sæl verið þið öll. Nei ég er ekki að tala um þjóðarskútuna. En ég horfði í gær á rétt fyrir myrkur 180 tonna bát veltast um vélarvana hér fyrir sunnan okkur. Reyndar var sagt að hann væri út af Sandvík á Reykjanesi og það getur alveg passað því þetta var suður af Stafnesi..(veit ekki hvað langt)..Svo kom skari af bátum á svæðið og inn í myrkrið var allt uppljómað. Svo þetta fór allt vel. En svo skrítið sem það var átti þessi bátur í vandræðum með vélina annan daginn í röð. Segir kannski að einhverjir séu að verða blankir eða hvað..

En að öðru. Þessa daga eru Fúsamenn að vinna í Hvalfirði og munu gera það sleitulaust allavega fram á þriðjudag. Þeir eru þar að vinna við tanka hjá Skeljungi. Í gær kom Gunni ekki heim fyrr en klukkan tíu.. Auðvitað dauðþreyttur og lurkum laminn. Ég er alltaf að reyna að segja honum að hann sé ekki lengur tvítugur heldur sextugur!! En þeir eru aðeins þrír og þurfa allar hendur. Ég slepp við þessvegna að elda fyrir þá þessa daga. Held að þeir séu á einhverju sjoppufæði þarna uppfrá. En það styttist í afmælisferðina og gott að geta hvílt sig þá í öðru umhverfi (og helst ekki með síma)

Í dag fór ég í búðarferð með mömmu og tengdó. Það gekk bara ágætlega. En þegar ég kom hér heim sá ég að buddan hennar tengdamömmu lá í framsætinu með lyklunum að íbúðinni og ýmsu. Ég hringdi í mömmu og hún komst að því að sú gamla sæti í næstu íbúð leitandi að lyklunum.. Jæja ég fór í hvelli og hún komst til síns heima. Sagðist aldrei ætla að læsa meir!

En nú fer að líða að fréttum og ég ætla að láta þetta duga í bili.
Góðar kveðjur úr Heiðarbæ. 

17.11.2008 22:35

Hvalsnessókn.


 Stutt kvöldblogg!
 
Var áðan á aðalsafnaðarnefndarfundi..Vá langt orð. En þetta var tveggja tíma fundur og bara fínn. Ekki margt fólk en fínn samt. Það er margt um að vera í safnaðarstarfinu nú um þessar mundir. Það veitir ekki af að létta fólki áhyggjurnar með samverustundum og fleiru. Kirkjan og bæjarfélagið eru með fundaröð um allavega efni tengt ástandinu og á fimmtudaginn 27.nóvember verður fundur um fjármál og hugmyndin er að hafa eitthvað að borða...súpu og fleira.

En annars er allt ágætt að frétta. Það styttist í afmælisferðina og ég vona að það verði hvíld frá argaþrasinu. Ég fer í sjúkraþjálfun í fyrramálið kl.9.30 og ætla þessvegna ekki að blogga meira núna. Koma mér í háttinn svo það verði tími fyrir kaffisopa og lesa fréttir áður en ég fer. Það er nú reyndar netlestur...

Hafið það gott nær og fjær.
Kveðja úr Heiðarbæ.


14.11.2008 22:39

Föstudagur.

emoticon
Gott kvöld. Þá er aftur komin helgi. Tíminn flýgur. Ég var að elda fyrir karlana mína í Fúsa eins og flesta daga síðustu vikur. Svo kom Bjössi aðeins við og hann fékk afganga af kubbasteik. Síminn var bilaður og Veðurstofan hafði samband við hann vegna tölvunnar (eða jarðskjálftamælinum) sem dettur út eins og netið. Það er nefnilega það.emoticon.Fyrir ykkur sem vitið ekki er jarðskjálftamælir hér rétt fyrir ofan húsið. Síminn eða Lína eins og það heitir var óvenju fljótur að koma símastrengnum í lag. Síðast tók það marga daga. Það var eins gott því ef ég hef ekki tölvuna finnst mér mikið vanta. Les fréttirnar og skoða bloggið. Maður getur vanið sig á margt!

Lilla vinkona var að fara heim rétt áðan. Hún kom eftir vinnu og var í mat hjá okkur. Svo vorum við búnar að sitja og spjalla í yfir þrjá klukkutíma. Ég labbaði með henni niður að bíl og tók voffana í leiðinni í svefnplássið. Þeir sofa alltaf í kjallaranum og eru held ég bara sáttir við það. Það er komin smá snjóföl og aðeins tekið að hvessa en annars er þetta bara fínt haustveður sem við höfum haft undanfarið. Það hefur verið frekar milt.

En ég er að hugsa um að fara bara snemma að sofa þetta föstudagskvöld. Núna er klukkan bara sex í Epplagötu (ellefu hér) og sennilega bara aðeins tekið að skyggja..Ekki rétt Epplagötugengi? Annars var ég í sms við Maddý í dag og þar er allt í góðu.

Og ég ætla ekki að minnast á k-fréttir nóg af þeim á öðrum síðum. Hafið það sem best um helgina, hugsið vel um hvort annað , góða nótt og sofið rótt.
Kveðja úr Heiðarbæ.
Silla.emoticon

 

09.11.2008 21:25

Ísland í dag.

emoticon
Hæ hæ. Það gengur mikið á hjá okkur Íslendingum. Á hverjum degi fáum við fréttir af allavega spillingu eða ráðleysi. Já ráðleysið og dáðleysið virðist algjört og litlar upplýsingar sem við fólkið sem byggir þetta land fær. Ég held að þetta sé alltaf að versna. En þrátt fyrir það verðum við að halda ró okkar enda lítið að gera annað en vona það besta. Og vera góð hvort við annað.

Við erum komin áratugi aftur í tímann og gjaldeyrisflæði milli landa er í molum. Fyrirtæki með fiskútflutning fá ekki peninga fyrir afurðir sem það hefur sent út. Verst hefur þetta verið í viðskiptum við Bretland. En svo er gjaldeyrir líka skammtaður. Ef fólk eins og við sem fyrir löngu höfum borgað ferð (afmælisgjöfin) ja þá þurfum við að sýna farseðil til að fá fimmtíu þúsund! Í dollurum nú ca 380.emoticon Í dönskum krónum 2.300 kr. Það er svo sem gott að reyna að spara þá daga sem fólk er erlendis EN! Og að nota kretitkort er auðvitað ávísun á eitthvað óþekkt. Við höfum áhyggjur af námsfjölskyldunni í Danmörku en vonum það besta. En við höfum verið í sambandi við þau undanfarið og einhvernveginn blessast þetta..

En um helgina voru næturgestir í Heiðarbæ og nóg að gera. Linda kom og gisti aðfaranótt laugardags. Jón vildi endilega að hún tæki smá frí. Júlía Linda er búin að vera erfið um nætur og það var æðislegt fyrir mömmuna að fá að sofa heila nótt og hvíla sig. Svo sl.nótt gistu bræðurnir Garðar Ingi og Vilmundur Árni ásamt Jóhanni Sveinbirni frænda sínum. Alltaf fjör að gista í sveitinni.

Í dag fór ég svo og náði í mömmu og við kíktum við hjá Sigga Eiríks í Norðurkoti. Þar vorum við boðnar í kaffi og spjall! Svo fór mamma til Bjössa og svo komu þau í mat í Heiðarbæ. Lambalifur úr Bónus og kartöflur úr Nýlendugörðum. Umm..nammi.

En annað hef ég ekki í kollinum í bili annað en bara blíðuveður marga síðustu daga.
Kveðjur til ykkar allra.
Silla.emoticon

04.11.2008 19:10

Helst í fréttum!


Komið þið sæl.emoticon
Það er nú ekkert helst í fréttum. Ég var bara að gera ykkur forvitin. Í dag var ég að elda fyrir Fúsana mína og einnig í gær. Nú eru þeir komnir að mestu heim og búnir uppi í Búrfelli. Svo þá er ég komin í gírinn í að finna eitthvað handa þeim í gogginn. 

Ég var líka að passa fyrir Lindu í dag. Og Júlía litla brosti og hló. Mér skilst samt að hún sé ekki eins brosmild um nætur núna. Hún er líklega að taka tennur blessunin. Svo var Fluga að leika sér við okkur og Júlía fékk hiksta af hlátri..Fluga er labradorhundur Jóns og Lindu.

Við Konný skruppum í VSFK og spurðum um réttindi fólks í uppsögnum..Og það var sem mig grunaði..Það er ólögmætt að segja upp ófrískri konu nema að um hópuppsögn sé um að ræða. Það var ekki í þessu tilfelli og reyndar var hún með lengstan starfsaldur af þeim þrem sem vinna saman þarna. En nú er Konný orðin svo sár að ég veit ekki hvað hún gerir. Hættir líklega um leið og núverandi uppsögn tekur gildi. Reynir að gera gott úr hlutunum.

En annars er allt gott að frétta. Reyndar utan vandræðaástandsins í efnahagsmálum sem er bara mannskemmandi að blogga um. Alltaf eitthvað nýtt í fréttum á hverjum degi, annað en einhverjar aðgerðir sem stjórnvöld virðast ekki hafa mikið af...Því miður. Það er slæmt að ekkert eða lítið sé að gerast til styrkingar í þessum þrengingum.

En ég frétti að David og Stacey hafi komið í heimsókn í Epplagötu og það hafi verið fjör á bæ. Það styttist í að afmælisbarnið fari í heimsókn (ég fæ að fljóta með) þangað og þá verður aftur fjöremoticon ...En nú eru þau í miðjum forsetakosningum. Ekki fá þau að kjósa. En Dísa og co reyndar. Það hlýtur að vera spennandi að fylgjast með þarna úti. Það er eins og þetta sé okkar annað föðurland svo mikið sem við erum búin að vera í USA..En nei við verðum að treysta því að það verði lífvænlegt á Íslandi í framtíðinni þrátt fyrir allt.

Að lokum ..Bestu kveðjur til ykkar úr Heiðarbæ..emoticon


31.10.2008 22:16

Atvinna.

emoticon
Góða kvöldið öll sömul bæði nær og fjær.

Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur. Gamalt og gott máltæki sem á við um svo marga hluti. Og núna þegar fólk missir atvinnuna í þúsundatali eru örugglega margir sem hugsa eitthvað í þessa áttina. Um þessi mánaðarmót veit ég um tvær mjög nákomnar mér sem hafa fengið uppsagnarbréf. 

Ég heimsótti þær báðar í dag. Önnur er Lilla vinkona og hin er Konný dóttir mín. Lilla er svo heppin að eiga þriggja mánaða uppsagnarfrest og í apótekinu var einnig annari sagt upp sem hafði unnið stutt. Þar var farið eftir starfsaldri. En Konný sem er búin að vinna tæpt ár á Vitanum á bara mánuð í uppsagnarfrest. Það er þeim mun erfiðara að kyngja því hjá henni að hún átti aðeins einn mánuð annann eftir í vinnu fram að því að hún hætti vegna þess að hún er ófrísk. Þetta skerðir að líkindum fæðingarorlofið hennar fyrir utan allt annað. Maður veltir fyrir sér siðfræði nú um stundir. En ekki orð um það meir.

En svo verðum við líka að líta á að þó erfitt sé að missa vinnu þá er ýmislegt svo miklu verra. Bára frænka hans Gunna var að missa dóttur sína hana Lindu. Hún var 49 ára og það er mikil sorg hjá gömlu konunni að sjá á eftir dóttur sinni sem var reyndar fyrirvinnan á heimilinu. Bróðir hennar Donald er atvinnulaus. Þau bjuggu þrjú saman og það eru myndir af þeim í albúminu mínu frá því við fórum til LA í janúar s.l.

Svo er Gunni Þór frændi Gunna búinn að standa í ströngu eða réttara sagt konan hans hún Stína. Hún fékk einhverskonar heilaæxli (sjaldgæfan sjúkdóm) og hún þurfti að fara út til Stokkhólms í mikla aðgerð. Hún er nú komin heim eftir um það bil tvær vikur úti og liggur á spítala hér heima í einangrun eftir því sem Gunni sagði okkur. Gangi þeim allt í haginn en aðgerðin gekk að vonum.

Svo peningar og peningaleysi..þar með talið atvinnumissir er ekki verst þó vont sé. Alltaf getum við og verðum að sjá ljósið. Annað er ekki til umræðu. Við vorum að tala við Eirík rétt í þessu sem berst við blankheitin eins og aðrir fjölskyldumenn í námi erlendis.

Svo að lokum sendi ég ykkur öllum bestu kveðjur hvar sem þið eruð á jarðarkringlunni. Í Flórida ....í Los Angeles.... í Danmörku....á Spáni..... (S og A).... á Norðurlandinu og bara alls staðar elskurnar.
Góða nótt.emoticon.
Ykkar Silla.

29.10.2008 11:08

Úr landi.

emoticon
Hæ hæ og góðan dag. Nei ég er ekki flúin úr landi..nei nei. En Maddý og Gísli eru farin af landi brott. Þau eru heldur ekki flúin. Eru bara farin til Flórida í húsið sitt í Epplagötu í Jacksonville. Þau fóru í gær og ég hefði alveg getað hugsað mér að vera samfó.

Reyndar fékk nú Gunni ferð þangað (fyrir okkur bæði og heim aftur) í afmælisgjöf í síðasta mánuði (60 ára) svo það gæti vænkast hagurinn eitthvað. Það væri nú ekki amalegt að kíkja í Epplagötuna og hitta svo Dísu og krakkana og David og Stacey sem örugglega munu kíkja niðureftir. Það er sex tíma keyrsla frá þeim í Atlanta til Jacks. 

En þetta kemur allt í ljós. Vonandi fer gengið að verða stöðugra. Þetta ástand hjá okkur er skelfilegt. Vextir Seðlabankans komnir í 18% og hvað gerist næst. En mikið þótti mér vænt um að heyra að Færeyingar vinir okkar ætluðu að leggjast á árarnar með okkur. Ég gleymi aldrei aðstoðinni frá þeim í Vestmannaeyjagosinu 1973. Vonandi getum við einhverntímann rétt þeim hjálparhönd. Þeir hafa alltaf verið vinir okkar. En stundum hefur mér fundist Íslendingar sýna þeim tómlæti. Og margir hafa aldrei farið til Færeyja þó þeir hafi kannski farið alla leið til Ásralíu eða til annarra fjarlægra landa.

Það er verið að segja upp fólki atvinnunni til hægri og vinstri. Líka hér í Sandgerði. Það er allt betra en atvinnuleysi..Vona að börnin mín komist í gegn um þessa lægð ..Og það þýðir ekkert annað fyrir okkur en vera bjartsýn...

En brosum nú og knúsum hvort annað.
Kveðja úr Heiðarbæ.


25.10.2008 10:18

Vetrarbyrjun.

emoticon
Heil og sæl. Þá er vetur konungur genginn í garð samkvæmt dagatalinu. Og ekki hefur verið skortur á fréttum af veðri. Ófært í flugi um landið og fleira. Í fyrrakvöld urðu flugvélar að lenda á Egilstöðum í stað Sandgerðisflugvallar!! En veðrið í fyrrinótt fór fram hjá mér því ég gisti í Reykjavík og þar virtist ekki vera neitt að veðri..En í þessum stóru húsum finnst nú líklega minna fyrir veðri. Allavega finnum við vel fyrir veðrinu hér í Heiðarbæ. En það er nú stundum bara notalegt í hófi. En í dag er bara blíða..

Ég var í bænum eins og ég sagði á ársfundi Alþýðusambands Íslands. Þessi fundur var nú haldinn í skugga bágrar efnahagsstöðu landsins okkar því miður. Og auðvitað sást það á fólki. Þó var reynt að halda uppi smá glensi inn á milli. En aðaláherslan var á að gæta þess að þeir sem minnst mega sín yrðu aðstoðaðir eins og í sambandi við húsnæðislán og fleira í þeim dúr.

Yfirskrift fundarins var ákveðin fyrir mörgum mánuðum og var Áfram Ísland fyrir unga fólkið og framtíðina. Ekki átti það síður við núna þó að efnahagsmálin væru fyrirferðarmest. Svo var kosinn nýr forsti sambandsins. Gylfi Arnbjörnsson er nýr forseti og var Grétar Þorsteinsson kvaddur eftir tólf ára setu. Grétar er mjög ljúfur maður og hefur staðið sig vel, þó ekki hafi farið fyrir miklum hávaða hjá honum. Reyndar er hann frændi minn og við höfum verið að spjalla saman um ættina okkar Lækjabotnaætt.

Ég hitti eins og oft áður mág minn Eið Stefánsson á fundinum. Einnig Konráð bróðurson Gunna. Ekki veit ég hvort þeir hafi komist heim vegna veðurs fyrir norðan og austan. En ég hef heyrt að það viðri illa þar í bili.

En í dag ætlar að vera hjá mér Vilmundur Árni. Mamma hans er að vinna og löng helgi hjá honum. Veit ekki um Garðar Inga hvort hann kemur líka eða verður heima hjá systir sinni eða fer til frænku sinnar eða ömmu í Sandgerði. Auðvitað vill hann eyða frítímanum í nágrenni við vini sína svo það kemur í ljós í dag.

En ég læt þetta duga í bili. Góðar kveðjur úr Heiðarbæ.
Silla.


21.10.2008 20:51

Innlit vina.

emoticon
Hæ öll! 
Þessir dagar undanfarið hafa verið óraunverulegir svo ekki sé meira sagt. En þar með er ekki sagt að við séum fallin í einhverja sorg Íslendingar..NEI..NEI..NEI.. Við gefumst ekki upp þó á móti blási. Og þvílíkt hvað það yljaði mér um hjartarætur að heyra í vinum frá Færeyjum í útvarpinu í dag.

Og ég sem bæjarfulltrúi Sandgerðisbæjar í tólf ár (1994-2006 ) er furðu og skelfingu lostin. Hef áhyggjur af málunum. Ég hugsa um innstæður Sandgerðisbæjar í Sparisjóðnum og fleira..Þið vitið það sem að lesið bloggið mitt hér að ég tala yfirleitt lítið um mitt bæjarfulltrúatímabil. Kannski meðvitað og kannski ómeðvitað. 

Ekki þannig að þeir tímar hafi verið slæmir. Aldeilis ekki. Þetta eru held ég bestu tímar ævi minnar fyrir utan fjölskyldulífið sem allir hljóta að sjá að eru bestu stundirnar. Ég hef það á tilfinningunni að ég hafi gert góða hluti fyrir Sandgerðisbæ og yfir því er ég glöð. Ég held ég hafi þar (í þessu samfélagi bæjarstjórnar) einnig eignast mína allra bestu vini. Auðvitað eru ekki æskuvinir mínir þar meðtaldir eins og Maddý og Gísli, Sigrún og Alli, Mummi G. Hulda Kristjáns og fleiri. 

Þessir vinir úr bæjarvinnunni verða hér ekki upp taldir. En þeir vita það þessar elskur við hverja er átt. Og ég vil hér þakka þeim fyrir virkilega góða vináttu.

En það sem ég ætlaði að tala um sérstaklega er innlit á bloggið mitt. Sumir ..flestir skrifa í athugasemdir (comment). En nokkrir skrifa í Gestabókina. Og þar hafa skrifað margir sem ég hef ekki hitt lengi. Þóra Kjartans..Sigrún. Sibba..Svandís..Lillý..Guðbjörg..Sævar..og öll þið elsku vinir sem væri of langt mál að telja upp. En mig langar samt að nefna það að það gladdi mig mikið að fá kveðju frá minni gömlu og góðu vinkonu Hönnu Þóru sem ég fékk í gær. 

En að endingu vil ég segja: Lifið heil og takið utan um hvert annað..Það er alltaf jafn áríðandi.
Bestu kveðjur úr Heiðarbænum.
Silla. 
Flettingar í dag: 81
Gestir í dag: 28
Flettingar í gær: 1914
Gestir í gær: 1077
Samtals flettingar: 105172
Samtals gestir: 22428
Tölur uppfærðar: 9.5.2024 09:26:25