16.10.2008 21:16

Vegamæling.

emoticon
Já nú er það mál málanna. Vegamæling. Nú er nýi Ósabotnavegurinn orðinn vel ökufær og ég fer hann næstum daglega. Og í dag datt mér í hug að mæla hann í kílómetrum eða þannig. Og í dag fór ég sem leið lá inn í Bónus og þar var staðan 14,5 km. Svo ók ég eftir Hafnargötunni og kom við þar við í búð. Þar næst upp Aðalgötu og heimleiðis. Þegar ég kom heim var ég búin að keyra 35 km. Sem segir mér að ef ég hefði eingöngu farið í Bónus og nærliggjandi búðir hefði ég aðeins ekið tæpa 30 km í stað 35. Svo þetta er sannarlega ávinningur fyrir okkur í dreifbýlinu Stafneshverfi. Og ekki síst ef við ætlum að fara á höfuðborgarsvæðið.

En að öðru. Þjóðin og við öll erum í losti. Við erum reið þessum ofurhugum sem yfirveðsettu okkur Íslendinga og við erum ÖSKUREIÐ Bretum.. Reyndar aðeins forsætisráðherranum Gordon Brown og hans fylgifiskum. Við erum ekki reið bresku þjóðinni. Hún hefur ekkert til saka unnið frekar en við almenningur á Íslandi.

En við verðum að halda sjó. Öll sem eitt. Fjölskyldur standa nú saman..Fyrirtæki sem útvega atvinnuna eru í hættu og við verðum að taka móralskan þátt í því. Ef við höfum ekki atvinnu þá er ekki gott í efni. Ég er stjórnarmaður í verkalýðsfélagi og þar erum við að reyna að finna einhverja útgönguleið. En elsku vinir tökum utan um hvert annað í þessum þrengingum sem yfir okkur dynja.

En að svo sögðu óska ég ykkur góðrar stundar og sofið sem best Elskulegu vinir.
Kveðja úr Heiðarbæ.
Ykkar Silla.emoticon

13.10.2008 14:45

Í vikubyrjun.


emoticon Heil og sæl. Sumir eru að skamma mig fyrir að nenna ekki að blogga nóg. En ég er hér og heil á húfi. En undanfarnir dagar hafa liðið dulítið hratt og hafa verið hálf óraunverulegir. Endalausar ekkifréttir af kreppu og aðgerðum og aðgerðarleysi. Ég var stórhneyksluð þegar Bretar tóku Kaupþing banka með hryðjuverkalögum. Skamm á Bretavarginn.

En í Danmörku gengur Eiríki og fjölskyldu illa að fá pening út fyrir mat og öðrum nauðsynjum. Vona að það hafi lagast í dag. En um helgina náðu þau að kaupa mat á kretitkortið. Einhvern veginn hefst þetta allt vonandi. Um annað er bara ekki að ræða.

En talandi um mat þá bauð Bjössi og Ísar okkur í mat í fyrrakvöld. Þar var fínasta ungnautakjöt á borðum. Ölli og Benni voru mættir líka. Auk þeirra voru þar Elín og börn. Í gærkvöldi var svo stór hluti af fjölskyldunni hér hjá okkur. Það voru tíu sem komu í lambalæri og lundir, ís og nammi. Svo ekki vorum við svöng þessa helgina.

En tengdamamma er ekki hress. Hún er komin af spítalanum og ekkert er hægt að gera fyrir hana annað en að hún tekur verkjalyf. Svo það er ekki gott ástand þar. Í fyrradag fór ég með mömmu smá rúnt og við fórum nýja veginn. Ósabotnaveginn. Stoppuðum svo dálítið hér í Heiðarbænum og kíktum við í kirkjugarðinum á leiðinni til baka til Sandgerðis.

En að öðru leiti er allt fínt að frétta. Nóg að gera í Fúsa og allt gengur sinn vana gang.

Bestu kveðjur inn í vikuna.
Ykkar Silla.emoticon

 


08.10.2008 15:16

Jæja.

emoticon
 Jæja það er nú lítið hægt að segja eins og staðan er á Íslandi í dag. Allavega ekki hægt að skrifa of mikið um það sem allir eru að hugsa um eða er í undirmeðvitundinni. KREPPA.

Svo það er bara að snúa sér að daglegu lífi og vona að landsfeðurnir fari að ná tökum á málum. Linda kom í morgun og var að hjálpa mér. Annars er ég orðin svo góð í hnénu að það er ekki til mikilla trafala. Ég er meira að segja byrjuð í rópjóga hjá Guðrúnu Gunnars. Einu sinni bar ég hana á háhesti en það er nú orðið langt síðan. Hún er barnabarn Guðrúnar og Guðmundar í Bala.

En tengdamamma er á spítala. Hún var með mjög slæman bakverk og var mynduð og þá kom í ljós að hún var með þrjú brot á hryggnum. Svo var farið að skoða þetta nánar og hún er með svona rosalega beinþynningu. Vissi reyndar fyrir að hún væri með hana. En hún fær svo mikil hóstaköst og hjúkrunarfræðingurinn telur að það hafi valdið sprungunum. Hún reykir mikið vægt til orða tekið. Svo hún fær lyf í æð til að reyna að hefta þynninguna. Sennilega fær hún að koma heim í kvöld.

En Fúsamenn eru uppi í Búrfelli og ég veit ekki hvort Gunni kemur heim í kvöld. Þar eru þeir vonandi á endasprettinum. Þeir vinna myrkranna á milli og allar helgar ef viðrar vel. 

Í fyrrakvöld fór ég á kaffi Duus og hitti nokkrar bloggvinkonur af moggablogginu mínu. Það var mjög gaman og þrjár þeirra hafði ég ekki séð. Allavega ekki hitt þær. En við vorum sjö og tvær ungar dætur Dóru Birgis. Þær sá ég einhverntímann þegar þær voru litlar því Dóra og Milla mamma hennar bjuggu í Sandgerði í tugi ára.

Jæja nú styttist í jógatímann og svo þarf ég sennilega að ná í tengdó.
Hafið það sem best,
Ykkar Silla.

05.10.2008 17:16

Sunnudagsblogg.


emoticonEnn á ný er farið að blása. Búið að vera rigning og rok síðan um hádegi. En ég var að tala við Gunna sem er uppi í Búrfelli og þar er stafalogn og blíða. Þar eru þeir að mála og það væri flott að rigningin næði ekki til þeirra strax. Svo er að taka saman og ég á von á honum seint í kvöld.

Ég ætla að elda handa okkur og Jóhönnu fjölskyldu í leiðinni. Hún er búin að vera á útopnuðu alla helgina í Bónus. Ástrós er að vinna þar í dag líka. Það er líkt og jólin séu að koma, þvílík er traffíkin. Það er greinilega órói í fólki og sumir eru að setja kisturnar sínar í samband sem hafa ekki verið notaðar í nokkur ár. Fólk er að taka slátur og ýmislegt að gera sem kallast góð búmennska. Ef það verða einu afleiðingar þessarar kreppu er ég ánægð. Það þarf auðvitað að sýna aðhald og gleyma ekki gömlum gildum. Vona bara að forráðamenn þjóðarinnar nái að rétta skútuna við..

En ég skrapp í Sandgerði áðan og náði í Brúnó. Greyið var einn heima og var virkilega glaður að fá að koma með mér í hundafélagsskapinn! emoticonÍ gærdag passaði ég Hrafntinnu og fór svo líka í skírnarveislu hjá Sirrý..Réttara sagt hjá Konna hennar. Og barnið fékk nafnið Guðmundur Atli. Flottur strákur. 

Nú er verið að leggja lokahönd á vinnu við Ósabotnaveginn. Það er frábært. Ég fór hann í fyrradag og það er búið að leggja á hann möl sem á svo að keyrast niður í tjörulagið sem er undir. Vonandi verður einhver umferð um hann í vetur en ég sá að þeir völtuðu hann nú samt svo þetta er nokkuð þétt. Þvílík samgöngubót bæði fyrir okkur hér og fyrir alla sem vilja aka smá hring: Sandgerði-Stafnes-Ósabotnar-Reykjanesbær-Garður. Flottur hringur á Sunnudegi. Hægt að stækka hann út á Reykjanes. Það má að miklu leyti þakka bæjarstjórn Sandgerðisbæjar fyrir að þetta er orðið að veruleika, vegna flýtifjármagns sem þeir settu í veginn.emoticon

En að endingu..líði ykkur sem best.
Kveðjur úr Heiðarbæ.

01.10.2008 15:14

Slæmt ástand.


emoticon
Sæl öll nær og fjær.
Það eru ekki góðir tímar í efnahagsmálum þessa dagana. Þau mál hafa reyndar verið á niðurleið allt árið. Maður heldur hvern dag að nú sé botninum náð en svo versnar bara ástandið. En auðvitað verðum við að vera bjartsýn og ekki bætir það fyrir okkur að vera með bölsýni.

Síðasta stórfréttin var yfirtaka ríkisins á 75% hlut í Glitni (á undirverði að ég held). Hef reyndar ekki mikið vit á þessu en mér hefur heyrst í fréttum að erlendis komi seðlabankar til aðstoðar en yfirtaki ekki banka nema þeir séu eigna og allslausir. Það virðist ekki eiga við um bankann minn, Glitni!

En svona er staðan og um allt þjóðfélagið skynjar maður hálfgerðan ótta. En eins og ég sagði þá má ekki láta þetta draga sig niður í einhverja lægð. Við þingsetningu áðan ræddi forsetinn um að við Íslendingar hefðum staðið frammi fyrir mun verri málum í sjálfstæðissögunni.

Jæja ekki meir um þetta. Í fyrrakvöld fór ég út í kirkju og hitti þar félaga mína úr sóknarnefnd og meðhjálparana nýju Sólrúnu og Díu. Við vorum þar í dágóða stund að pússa koparljósakrónur og kertastjaka.Við vorum bara nokkuð sátt við árangurinn. En við söfnuður Hvalsneskirkju þurfum að fara að huga að viðgerðum í kirkjunni og það hefur verið rætt á fundum okkar.

Gulla frá Hvalsnesi er látin og hún hefur alla tíð sýnt kirkjunni mikla rækt og það var vel við hæfi að pússa dálítið áður en hún verður jarðsungin á laugardag.

Ég segi þetta gott í bili..Horfum með birtu fram á veginn.
Ykkar Silla.emoticon

27.09.2008 11:51

Helgarblogg.



Heil og sæl.emoticon  
Ég er nú hálflöt við bloggið þessa dagana. Les samt allar fréttir í mig á netsíðunum. En svo er það stundum að manni finnst ekkert nýtt í fréttum..Endalaus rulla um efnahagsvandann sem er bara niðurdrepandi að lesa. Skil ekki ráðamenn landsins í sambandi við að gera lítið sem ekkert í að spyrna við fótum í þessu.

En að öðru. Á morgun ætlar Konný að halda upp á afmælið hans Jóhanns sem varð sex ára 25. september. Á morgun er líka afmælisdagur pabba sem hefði orðið 94 ára ef hann hefði lifað. En það eru ellefu og hálft ár frá því hann lést. Það var 1. apríl 1997.

Ég ætla að útbúa brauðtertu og eitthvað nammi fyrir afmælið hans Jóhanns...Svo annað kvöld er saumaklúbbur hjá Lillu í Keflavík svo það verður ekki sultardagur á morgun.emoticon

Gunni er ásamt Fúsa og tveim öðrum í Búrfelli núna. Þeir eru að vona að það þorni upp svo þeir geti málað. Mér skilst að þeim vanti bara tvo þurra daga til að klára..Þeir þurru dagar hafa látið bíða eftir sér því það hefur rignt nær látlaust allann september. Og verið er að tala um úrkomumet. Þetta er ekki gott fyrir verkefnið þeirra. Sumarið var að vísu gott en það hefði mátt vera þurrt aðeins lengur. En vonandi kemur einhver uppstytta núna.

En ég er að lagast hratt í hnénu. Er meira að segja búin að prufa að hjóla aðeins. Svo þetta lítur vel út. En segi þetta gott í bili. Kíkið ef þið hafið áhuga á nýju myndaalbúmin hjá mér. Þar eru nýjar myndir frá ágúst og september og eldri myndir frá því í janúar.. 
Góðar stundir gæskurnar.emoticon

23.09.2008 12:01

Komin á ról.


emoticon
Komið þið sæl. Ein góð frá því í gamla daga og sígild:

Nú er ég klædd og komin á ról
Kristur Jesú veri mitt skjól
Í guðsóttanum gef þú mér
að ganga í dag svo líki þér.

Það eina sem ég hef oft velt fyrir mér það er þetta orð Guðsótti. Mér finnst að við eigum ekki að lifa í guðsótta heldur guðskærleika og trú. En þetta er sjálfsagt gamalt og gott! En ég fór að hugsa um þetta í samhengi við að ég er nú að koma til og farin að sleppa hækjunni, innanhúss allavega. Bráðum verð ég farin að hlaupa.

Og í dag ætla ég í búð að kaupa í ísskápinn.. Mamma þarf að fara í búð og tengdamamma er orðin vörulausemoticon...Svo ég ætla að skreppa. Og hef örugglega gott af því. Ég fer bara varlega og tek blessaða hækjuna með til vara. Annars er ég búin að fara nokkrum sinnum og æfa mig í tröppunum og þetta er bara mikið betra en ég þorði að vona. Kannski ég komist á hjólið bráðum. Læknirinn sagði að hjólreiðarnar væru mjög góðar í mínu tilfelli. Það er bara að vona að haustið verði ekki bara rok og rigning.

Konný var hjá mér í gær og var að reyna að kenna mér á myndaalbúmin. Það gengur hálf treglega. En þeir á 123.is skiptu um kerfi í vetur þegar ég var rétt að komast upp á lagið. En ég hlýt að læra inn á þetta. Gallinn við mig er að ég vil velja myndir inn, ekki setja allt sem ég tek og það flækir málin..emoticon Svo kannski ég komi með nokkrar nýjar myndir frá haustinu inn á næstunni. 

En ég læt þetta duga í bili. Eigið góðan dag.
Ykkar Silla.

19.09.2008 14:26

Haust.


emoticon
Já ég held að það sé að hausta. En allar árstíðirnar fjórar hafa sinn lit. Og haustið er oft litríkt og fallegt. Það sem er að gera haustið erfiðara núna eru þessar stóru lægðir með tilheyrandi roki og látum. En í fyrrinótt kom svo mikil selta með útsynningnum að það var eins og filma settist á gluggana. En nú er farið að rigna aftur svo kannski að rúðurnar fái þvott!!!emoticon

En ég er hér í Heiðarbænum að jafna mig eftir aðgerðina og það gengur eins og í sögu. Búin að fara niður og upp tröppurnar og æfa mig eins og vera ber. Svo fór ég líka aðeins í bíltúr svona rétt til að finna að ég get farið allra minna ferða. Sem auðvitað gekk vel. En ég ÆTLA að fara varlega. Um það snýst þetta dæmi.

Það er annars lítið að frétta. Veðrið er að stríða Fúsamönnum í Búrfelli. Þar eiga þeir eftir frágang og þannig vinnu en í gær urðu þeir að hætta vegna veðurs. Það er hættulegt að vinna í svona hávaðaroki eins og geisar núna þarna uppfrá. Svo það er bara að vona að veðurguðirnir stilli sig eitthvað á næstunni. Spáin er ekki góð fyrir næstu daga..en..fljótt getur skipast veður úr lofti!

Og nú fara Benni frændi, Guðjón og Gumma að koma heim frá Flórida. Það verður munur á veðurfari hjá þeim að koma beint í rokið. En læt þetta duga í bili og skrifa fljótt á ný!
Kveðjur úr Heiðarbæ..emoticon


16.09.2008 21:19

Óveður.

emoticon  
Góða kvöldið.

Nú er heldur betur farið að blása. Leyfar af hitabeltisstorminum IKE eru víst að flengjast hingað til Íslands. Og veðrið á að versna með kvöldinu að sögn veðurfræðinga. Gunni er búinn að tína inn stytturnar mínar og ég vona að allt lauslegt sé komið í hús. Það getur orðið hvasst hér á Stafnesinu eins og víða á landinu og farið hátt í hæstu hviðum. En að öllu jöfnu er hér logn.

Hnéaðgerðin sem ég fór í tókst bara vel held ég. Nú er bara að vera hlýðin og góð og fara ekki í fjallgöngur strax...Reyndar er ég ekki í þeim svona almennt en ég verð að fara varlega fyrst um sinn. Ég er reyndar hissa hvað mér finnst ég orðin góð og finn alls ekki svo mikið til..Gærdagurinn var reyndar frekar þreytandi en það hefur sennilega mest verið út af svæfingunni.

En af því ég er föst hér heima og keyri ekki í nokkra daga þá hef ég fengið góða gesti til mín. Linda kom með Júlíu Lindu og Konný með Jóhann Sveinbjörn og Arnar Smára. Svo kom Maddý með heklunálina með sér því við vorum að spá í teppi sem ég þykist ætla að hekla. Svo hef ég tölvuna mína og les fréttir í henni. Ég er farin að venjast því og þá þarf ég ekki að henda eins miklum pappír.

En ágætu vinir ég ætla ekki að hafa þetta lengra og bestu kveðjur til ykkar allra.
Ykkar Silla.emoticon  

14.09.2008 19:58

Í aðgerð á morgun.


emoticon
Hæ hæ. Ég er að fara í aðgerð á hnénu á morgun! Það verður kannski erfitt fyrst á eftir en hlýtur svo að skána.emoticon Nú eru komnir inn fullt af nýjum broskörlum á 123.is eins og þið sjáið. Nú þarf ég að setja inn nokkra....ha ha.

Í dag fórum við Jóhanna og mamma í afmæli til Mölluemoticon... Hún varð 75 ára og er ekkjan hans Nonna frænda. Jón og mamma voru systrabörn. Marinella Haraldsdóttir er reyndar Sandgerðingur að uppruna og æskuár hennar voru í Uppsölum..(nú Uppsalavegur 8.)..Þau Nonni og Malla voru afar ung þegar þau byrjuðu saman. Hún var 14 ára og hann 18 ára..Hann lést fyrir 6 árum síðan aðeins 73 ára.emoticon Það var mjög gaman að hitta frændfólkið og frábært að sjá hver svipar til hvers. En þarna hitti ég líka Lilju Braga, Ragnheiði Valdimars og fleiri.Gaman að spjalla aðeinsemoticon.....

En sem sagt nú er bara fasta framundan og svo að bruna í bæinn í fyrramálið. Ég læt þetta duga þar til næst. Líði ykkur sem best.emoticon
Ykkar Silla.



11.09.2008 20:58

Komin heim að norðan.

Heil og sæl, nær og fjær! 

Við settið skruppum til Akureyrar á föstudag og erum komin heim á ný. Og Gunni NÝkominn á sjötugsaldurinn. Hann varð 60 ára 8.september. Hafsteinn bekkjarbróðir minn vill meina að hann fari ekki á sjötugsaldur fyrr enn á næsta ári. En hvað finnst ykkur? Þessi umræða er svipuð og í kring um aldamótin og sitt sýnist hverjum.

En við höfðum það fínt. Maddý og Gísli komu á eftir okkur daginn eftir og fóru á mánudag heim. Það var mjög gaman hjá okkur og við fórum til að mynda í leikhús. Við sáum verk eftir Guðrúnu Helgadóttur sem heitir Óvitar..Við óvitarnir höfðum mjög gaman af sýningunni. Svo komu Dúna og Lillý í heimsókn í raðhúsið sem við vorum með í láni hjá Verkalýðs og sjómannafélagi Keflavíkur og nágrennis. Og það var glatt á hjalla. Mikið spjallað og hlegið. 

Við fórum svo til Dabbý systir og sáum nýja ömmubarnið hennar, strákinn hennar Berglindar. Og Berglind stendur sig vel enda 19 ára stelpan! Og mér finnst ekki langt síðan ég heimsótti Dabbý þegar hún var nýfædd....Það var í febrúar 1989..Æ æ er maður nokkuð að eldast....Þá voru Linda Ösp og Elvar Már stutt í annann endann!

Á þriðjudag fórum við til Húsavíkur og heimsóttum vini og ættingja. Hittum að vísu ekki alla en það var Anna Margrét sem við heimsóttum. Þar voru heima ásamt henni börnin hennar Gunnar Sveinn og Andrea. Og hjá henni var Hulda dóttir Erlu. Flott að sjá þessi skyldmenni mín. Við litum við í kirkjugarðinum þar sem systir mín Margrét hvílir. Svo fórum við í heimsókn til Millu og Gísla og það var virkilegt fjör hjá okkur. Milla er alltaf jafn hress og elskuleg kona. 

Svo var húsbóndinn farinn að ókyrrast í gær (ómissandi í vinnu) svo við héldum heim á leið. Við tókum stefnuna á Hofsós og ætluðum að skoða Vesturfarasetrið en komum að öllu læstu og lokuðu. Við hefðum átt að spá í að aðalferðamannatíminn er liðinn. En veðrið var svo gott að maður hugsaði ekki um að það væri að koma haust.

Nú eru Benni, Guðjón og Guðmunda úti í Jacksonville í Flórida og ég hefði viljað sjá framan í Dísu þegar hún sá að Benni var með því það var leyndó!! Hann hefur ekki farið út til hennar síðan um áramót 1992-3. En við hér biðjum að heilsa út og þó þið commentið ekki þarna Eplagötugengi, þá veit ég að þið lesið bloggið.

En það er komin tími til að enda þetta í bili.
Hafið það sem allra best.
Silla.


04.09.2008 17:03

Dagurinn nálgast!!


 Jæja nú fer betri helmingurinn að nálgast sjötugsaldurinn. Á mánudaginn næsta verður Gunni 60 ára..En við ætlum að laumast úr húsi þá stundina. Fyrir tíu árum hélt hann upp á afmælið í Samkomuhúsinu og þá mættu amk 110 manns. Það var fjör þá og verður ekki toppað.

En við finnum okkur eitthvað að dunda við og heimsækjum einhverja vandamenn sem geta ekkert annað en tekið á móti okkur..Aumingja þau! Annars ætla ég að segja ykkur það allt seinna. En hér er blíðan eins og flesta daga í sumar og það lítur út fyrir að þetta verði gott haust. Vonandi. Svo er ljósanótt um næstu helgi í Reykjanesbæ og við verðum að vona að þeir fái gott veður og enn betra en við á Sandgerðisdögum

Annars hef ég heldur lítið að skrifa um. Vona bara að þið hafið það sem allra best.
Kveðja úr Heiðarbænum.
Silla

01.09.2008 11:25

Helgin liðin.

........

Góðan daginn. Þá er Sandgerðishelgin liðin. Ég held að hún hafi tekist mjög vel. Það kom að vísu heljar haustlægð á föstudag en þá voru flest atriði innanhúss. Ég fór nú ekki eins mikið og mig langaði til. Okkur var t.d boðið í sextugsafmæli eitt kvöldið. En ég skrapp á laugardeginum og var t.d viðstödd þegar listaverk í tilefni 100 ára vélbátaútgerðar í Sandgerði var afhjúpað. Það var gaman og ég fann þar marga sem mér fannst gaman að hitta. 

Jóhanna var að vinna allan laugardaginn og til sex um nóttina við talningu í versluninni og Vilmundur gisti hjá okkur. Gunni var líka að vinna alla helgina og nennti ekki með mér á laugardagskvöldið. Svo þeir karlmennirnir vildu vera heima og ég nennti ekki ein. En nú er ég búin að vera að skoða myndir sem hafa verið teknar. Mikið á 245.is. Líka hjá Bjössa bróður og svo eru nokkrar hjá Ingþór. Setti tengil hans hér til hægri svo þið getið kíkt á fjörið!

En í dag á ég von á góðum gestum frá Húsavík. Hafliða, Huld og Jóa með Margréti Sif sem ég hef aldrei séð. Þau eru að fara til Tenerife í fyrramálið. Svo verður Hrafntinna hjá mér eftir að ég kem úr þjálfuninni. Hún er búin á leikskólanum klukkan tvö og þangað sæki ég hana. Mamma hennar er að fara í einhverskonar mömmuhitting. (nýtt orð fyrir mér 

En þetta læt ég duga að sinni.
Hafið það sem best.
Silla.


28.08.2008 13:24

Sandgerðisdagar



Góðan og blessaðan daginn! Nú eru að hefjast hinir árlegu Sandgerðisdagar. Þeir eru að verða sá viðburður sem stendur upp úr í bænum. Alltaf að verða betri og viðameiri. Bænum er skipt upp í gul, rauð, græn og blá hverfi. Við sunnan Sandgerðis tilheyrum því rauða og ég hef þegar sett rautt ljós í gluggann ....

Það er frábært hvað þetta nær að þjappa fólki saman og fólkið sem býr í Miðtúninu er áberandi duglegt að poppa upp stemninguna. Þau héldu pylsupartý eitt kvöldið ..svona fyrirfram.. og í gærkvöld buðu þau upp á vöfflur og súkkulaði. Mér skilst að mætingin hafi verið ótrúleg. Allt að fimm hundruð manns!!... Sumir voru komnir frá nágrannasveitarfélögunum að taka þátt í gleðinni. Já og þetta er bara rétt að byrja!!

Svo í kvöld er sauma-(bla bla)klúbbur hjá Sigrúnu í Pósthússtrætinu í Reykjanesbæ. Reyndar ekki atriði í Sandgerðisdögum !! 

Og annað kvöld ætla ég að taka mömmu með mér á setningu Sandgerðisdaganna í Safnaðarheimilinu. Þar verður ýmislegt sem gaman verður að sjá og heyra. Þá verður heiðursborgari bæjarins valinn í fyrsta sinn og upplýst hver það verður. Sandgerðislagið sem hefur verið í netkosningu verður kunngjört. Netkosningin vegur 30% og dómnefnd 70%. Svo verða fjölmörg skemmtiatriði. Veðurkortin sýna smá vætu en ef hún verður ekki lárétt þá er það í lagi!

En ég læt hér staðar numið að sinni.
Hafið það sem best.
Silla.

24.08.2008 21:47

Eins og hellt úr fötu.


Jæja þar kom að því! 
Nú rignir eins og hellt sé úr fötu. Og Bjössi valdi rétta tímann til að fara norður því þar er örugglega blíðan. Þannig er það á okkar ástkæra landi að ef við erum í sunnanáttum og rigningu þá er oftast sól og blíða norðan heiða.

En annars er allt gott að frétta. Mikil vinna hjá vinnudýrunum hjá Fúsa ehf. Ég hef ekkert verið þar til aðstoðar en Erla Jóna er krafturinn í aðalstöðvunum á Strandgötunni. Hún sér um launaútreikninga og er endalaust dugleg að hafa allt í röð og reglu..

Og silfur-STRÁKARNIR okkar eru auðvitað í huganum núna. Frábærir þó auðvitað sæist tár á kvarmi við að ná ekki gullinu. En þeir eru sannarlega sigurvegarar þessir strákar. Ég hef alltaf haft gaman að handbolta en hef aldrei séð svona marga jafnfæra og núna. Þvílík liðsheild! Til hamingju Íslendingar ..

Hundalífið er í algleymingi. Ég er að passa hunda Svandísar. Hún kemur á morgun. En þeir hafa verið mjög góðir og ég er farin að heypa þeim út nokkrum sinnum á dag. Og þeir svara alltaf þegar ég kalla svo þeir greinilega eru farnir að finna sig hér í Heiðarbænum. En að öllu jöfnu er nóg að hafa Týru og dótturina Vikký!


En nú er að koma háttatími hjá okkur gamla settinu svo ég kveð ykkur og segi góða nótt.
Ykkar Silla.
Flettingar í dag: 156
Gestir í dag: 39
Flettingar í gær: 1914
Gestir í gær: 1077
Samtals flettingar: 105247
Samtals gestir: 22439
Tölur uppfærðar: 9.5.2024 14:08:52