18.09.2007 03:15

Á ferð í átt að Usa..


Halló, bara smá núna. Nú erum við í Regina ekki langt frá landamærunum til N. Dakota.
Ferðin gengur alveg sérstaklega vel allavega enn sem komið er. Við skemmtum okkur vel stoppum oft og sjáum margt sem við erum hissa á.

T.d áðan langaði okkur í piparsteik..Ójá allt í lagi fullt af grænmeti fyrst og við hin ánægðustu. En svo kom steikin. La la. Ég myndi segja að þetta hafi verið kubbasteik í súrsætri sósu. Við fengum að skoða matseðilinn aftur og þá stóð skýrum stöfum cubed peppersteik. Ekki það sem við ætluðum að fá. En best að lesa betur næst. Við vorum sko hissa.

En annars er allt gott að frétta. Við fórum frá Edmonton í morgun eftir velheppnaða heimsókn þangað. Sungum okkur hás í gærkvöld og það var mikið fjör. Nú dólum við okkur í rólegheitunum og verðum allavega komin yfir landamærin um hádegi held ég. Okkur finnst gaman að heyra frá mönnum og dýrum heima. Svo ef þið lesið þá er flott að commenta.

Hafið það svo öll sem best og ferðakveðjur frá Sillu Gunna Maddý og Gísla.

17.09.2007 00:48

Í Stony Plan.


Halló. Nú erum við í Edmonton eða reyndar í úthverfi sem heitir Stony Plan. Mjög skemmtilegur staður og við erum hér í besta yfirlæti. Nú er verið að grilla og alles svo ég notaði tímann og settist smá með tölvuna. Ekki ætlaði ég að blogga svona oft en það er allstaðar netsamband svo það er þægilegt. Klukkan hér er rúmlega hálf sjö og flestir sofnaðir heima.

En ég næ ekki að senda póst sem gerir ekkert til. Þið bara kíkið annaðslagið á mig og commentið. Það er flott, fæ fréttir af Týru og Vikký meira að segja. Vona að mannfólkið hafi það jafn gott. Hér var 20 stiga hiti í dag. Svona eins og best í sumar. Ég átti ekki von á svona hita hér því við erum jú norðarlega. Á morgun ekkert eldsnemma förum við svo að fikra okkur suður á við til USA. Komum sennilega niður í N. Dakota og svo áfram áleiðis til Milwaukee. Reiknum með að það flakk taki 3-4 daga.

En aftur að Stony Plan. Hér er frændfólk Gísla líka og ein frænkan talar íslensku..fædd hér. Hjónin sem við gistum hjá núna í tvær nætur heita Charlene og Barrý og eru aðeins yngri en við. Stórfín og elskuleg. Charlene hefur alla ættina á hreinu og hefur sett upp frábær albúm. Svo við erum komin á kaf í ættfræði milli þess að við sitjum úti á palli í sólinni. Þau eiga hús á þrem hæðum og allt til alls.

Nú held ég að maturinn sé að verða tilbúinn ..ekki fær maður að hjálpa..og ekki láta bíða eftir mér svo ég fer að hætta þessu í bili. Vona að allir heima hafi það sem best. Góðar stundir.

Kveðja frá Sillu og hinum flökkurunum.

15.09.2007 05:51

Foam Lake.


Hæ allir heima! Ég má til að láta vita af okkur. Við erum nú stödd í Foam Lake sem var ein stærsta Íslendingabyggðin hér í Kanada. Mikið af frændfólki Gísla býr hér og við gistum núna hjá Terry og Noreen sem eru stórbændur hér. Þau heita Markússon family .Við erum búin að fara um nágrennið með þeim og meira að segja vera í stærsta vinnutæki sem ég hef séð. Splunkunýrri þreskivél. Og í kvöld var kallað til fólk til að hitta okkur. Elsta var 93 ára og talaði íslensku bara nokkuð vel. Þetta fólk virðist mjög hrifið af að fá ættingja frá gamla landinu í heimsókn.

Í gær komum við aðeins við hjá fullorðnum hjónum í Church Bridge (Kirkjubrú). Húsbóndinn Pétur og Gísli eru þremenningar. Konan hans heitir Rúna. Þau töluðu bæði Íslensku eins góða og hún getur verið en hvorugt er fætt á Íslandi. Í þeim bæ voru líka margir landar sem settust þar að og kirkjan í þorpinu var byggð af Íslendingum. Já þau liggja víða sporin og þetta er hrein upplifun fyrir okkur. Mér finnst mikið rólegra yfir Kanadamönnum en nágrönnum þeirra í Bandaríkjunum. Minna stress.

Á morgun förum við til Edmonton sem er dálítið mikið vestar og tekur 7-9  tíma að keyra þangað. Þar bíða Charlene og Barrý eftir okkur. Það verður örugglega gaman að hitta þau. En hér á bóndabýlinu í Foam Lake er háannatími í uppskerunni svo við viljum ekki stoppa of lengi. Þau leggja dag við nótt núna því það er gott veður en hafði verið rigning um tíma. Þau hafa borið okkur á höndum eins og við værum kóngafólk!!

Jæja ætli sé ekki best að fara að sofa. Sum ykkar eru að vakna heima þvi við erum alltaf að fara yfir tímabeltin og nú munar sex tímum. Hér er klukkan 12 á miðnætti og sumir farnir að hrjóta við hliðina á mér..ha ha. Vona að þið hafið það öll gott og gaman að fá álitin (commentin) á síðuna núna. Veit ekki hvenær ég læt vita af mér næst. Svo þangað til hafið það sem best.

Silla og hinir flakkararnir.
 

13.09.2007 03:29

Í Gimli.



Halló elskurnar. Nú er ég stödd í Gimli í Kanada. Það er dulítið spes. Hér eru spor Íslendinganna sem flúðu volæðið á Íslandi í lok nítjándu aldar.
 
Við fórum út í Heklueyju í dag og það var frábært. Árnes,Keflavík,Sunnuhvoll,Árborg, Árnes,Selkirkja, Brekka og Brú eru smá sýnishorn sem við sáum. Og við vorum á barnum á hótelinu áðan og 2 af 3 voru Íslenskrar ættar.

Og nú erum  við að fara í háttinn kl.10.30. Ætlum að fara í útsýnisferð hér
með eldri konu..frænku.. í fyrramálið og síðan höldum við áfram að skoða Kanada. Ætlum okkur viku í ferð um svæðið..Stórt!! Gísli á mikið af ættingjum hér og þeir verða heimsóttir.

Þetta er svona bara til að láta vita að við höfum það gott. Reyndar er Gísli með flensu sem við ætlum að fæla burt úr honum fyrr en seinna. Vona að þið hafið það öll sem best og við biðjum öll að heilsa.
Kv. Silla.

 

11.09.2007 06:49

Ameríkuævintýri!!!


Halló allir heima. Þvílíkt hvað hefur gengið á hjá okkur. Þegar við komum upp í Leifstöð og búin að bóka okkur inn þá var fluginu okkar bara aflýst. Ekki gaman. Við höfðum af að fá miða til Baltimore og síðan greiddi Icelandair fyrir flugmiða til Minneapolis sem varð að vera með millilendingu. Ég held að þetta sé í fyrsta skipti sem ég fer ekki einu sinni inn í fríhöfn á leið út. Ha ha. Engin tími.

En við fengum þetta fína herbergi á Hilton hóteli í Baltimore og gerðum bara gott úr þessu. Rúsínan var að við vorum á Saga Class í fluginu og þar var stjanað við okkur. Þær voru yndislegar. En núna loksins vorum við að koma á hótelið hér í Minneapolis og klukkan er að verða tvö að nóttu eða sjö hjá ykkur heima. Seinkun um 30 klukkutíma... En ég á eftir að segja ykkur frá þessu öllu miklu betur seinna og það hefur verið mikið hlegið..Er annað hægt að gera.

Vildi bara láta vita af okkur og kveðja frá Gunna Maddý og Gísla.
Hafið það sem best.
Silla.

P.s Við erum búin að sofa vel eftir flugferð á flugferð ofan. Vona að það verði ekki margir flugmenn veikir heima. þá stoppast allt. Vona að Týra og litlu greyin séu í góðum málum og ekki óþekk.
Kv.Silla.  Skrifað kl.9  að morgni 11.sept ..

08.09.2007 23:23

Já í Hvalsneskirkju!!



..sögðu þau Linda og Jón þegar s.r. Björn spurði þau hvort þau vildu lifa saman í blíðu og stríðu. Og allar óskir okkar eru á þann veg að þau megi lifa í sátt og samlyndi um ókomin ár.
O.k.. yngsta barnið okkar er gift og hvað merkir það? Erum við kannski komin til ára okkar? Já án vafa en samt er það svo að okkur finnst við bara á nokkuð góðum aldri. Held líka að aldur sé afstætt hugtak. Þú ert eins og þú vilt vera ef heilsa og annað leyfir.

Og veislan þeirra Lindu og Jóns var ekkert smá flott. Örn Garðars sá um hana og gerði með sóma. Flottur matur svo ekki sé meira sagt. Og mamma gamla kom ekki nálægt sem betur fer.

Og við yfirgáfum samkvæmið eftir nokkra dansa og erum komin heim í Heiðarbæinn. Og í fyrramálið fer Gunni með systkinin upp í flugstöð kl.átta svo best er að fara í háttinn. Svo förum við með Maddý og Gísla kl. tvö eftir hádegi og fljúgum til Minneapolis.

Ég verð örugglega ekki í svona bloggskrifum á næstunni en læt vita af mér af og til. Hafið það gott öll sem hafið nennt að skoða síðuna mína. Ég kem aftur..Þið eruð ekki laus við mig..Ónei,það vona ég ekki.
Kveðja Silla í Heiðarbæ.

07.09.2007 21:28

Á morgun!!


Já brúðkaup Lindu og Jóns er á morgun. Vona að þau verði ekki rennblaut því það spáir rigningu seinnipartinn. Annars var ég að heyra þá speki að rigning á brúðkaupsdegi þýddi frjósemi. Það líst mér bara vel á.

En David og Jennifer komu í fyrrakvöld á miðnætti. Og það var mikið spjallað og ekki snemma farið að sofa. En í gærkvöld komu Maddý og Gísli og við vorum sex hér í kvöldmatnum. Fiskur nýr og fínn í ofninum í Heiðarbæ. Og Maddý og Gísli fóru um tíu  en svo kom Eiríkur frá Danmörku um tólf og þá var auðvitað haldið áfram að spjalla. Síðustu fóru kl. þrjú en þá var mín gamla búin að fá nóg og farin upp í rúm.

En nú er stóri dagurinn framundan og best er að allir fari fyrr í háttinn. David og Jenn voru hér í mat í kvöld (sem þau komu með sjálf). Við erum báðar í tölvunum en Gunni og David eru í sjónvarpsmálum. Jóhanna kemur eftir smástund og Eiríkur en þau munu stoppa stutt við. Þau þurfa að fara heim til voffanna!! Reyndar er hún að koma úr vinnu. Þvílíkt vinnuálag þarna í Bónus.

Nú er talið í tímum þar til ferðin hefst. Við megum bara ekki vera að þvi að hugsa um hana fyrir hinu ævintýrinu. Vona að allir hafi það fínt. Góða nótt.

05.09.2007 19:55

Undirbúningur.



Nú er allt á fullu í sambandi við bryllupið!!! Æfing í kirkjunni í kvöld og Gunni fer að sjálfsögðu. Hann er nú í góðri æfingu í að leiða brúðir inn kirkjugólfið. En samt er auðvitað farið yfir málin. Og svo þarf að sækja fötin í hreinsun og muna eftir smáatriðunum. Hrafntinna er búin að vera með hita í tvo daga en er að lagast. Líklega jaxlarnir að koma sér upp. Hún hristir þetta af sér áður en foreldrarnir ganga í það heilaga.

Rokið er gengið yfir í bili en spáin er svona og svona. Vona bara að það verði ekki rok og rigning á laugardag. Í kvöld um miðnætti förum við upp í flugstöð að sækja David og Jenn. Skemmtilegt að fá þau svona fljótt aftur. Þau eru á óvenjulegum flugtíma miðað við Amerikuflug. Einhver tilraun hjá Iclandair með hádegisflug út. Þau koma frá Boston.

Nú er ég farin að finna til töskur því áður en við vitum af verður kominn 9.sept. La la..Hrafnhildur sótti Grímu áðan og þá eru bara Tinna Eiríks voffi og Vikký eftir.Svo það hefur heldur betur fækkað í hundabæ. Mér heyrist bara ganga vel hjá þeim sem eru farnir. Auðvitað alltaf smáskælur í byrjun sem ganga yfir.

Og þetta læt ég duga í bili. Hafið það sem best. 

03.09.2007 21:43

Rok.



Það er hávaðarok í Stafneshverfinu þessa stundina. Dótið mitt á pallinum var farið að fjúka og ég dreif mig út til að bjarga því. Reyndar er ekki hundi út sigandi. Týra vildi endilega kíkja en var fljót inn aftur. Svo fylgja þessu þvílíkar skúrir á milli. Vona að veðrið verði skárra á morgun að ég tali ekki um laugardaginn. En það má víst búast við allavega veðri á þessum tíma.

Ég fór með Tátu litlu í Reykjavík á nýja heimilið. Þar verður sko örugglega hugsað vel um hana. Meira segja búið að finna vekjaraklukku (tikk takk eins og hjartsláttur) og hitapoka til að gera henni lífið létt. En hún skældi svolítið á leiðinni inneftir en ég veit að hún hætti því fljótt. Brúnó tekur Jóhönnu traustataki og Snati fylgir Guðbjörgu hvert fótmál. Svo nú eru þær þrjár eftir hér í Heiðarbænum smátíma í viðbót.

Ég var á fundi áðan í Verkalýðsfélaginu. Það eru einu fundirnir sem ég fer á núna. Þetta er mikil breyting frá því að ég var í bæjarstjórninni. Því fylgir bæði léttir og pínulítil eftirsjá. En mér finnst gott að vinna með stjórninni í V.S.F.K. Það er mikill áhugi á að reyna að bæta kjör og aðstöðu en það eru nú ansi fáir sem mæta á félagsfundi (þetta var reyndar stjórnarfundur). Það mætti lagast því þar getur fólk komið á framfæri málum sem þvi finnst fara miður ofl.

Nú eru fjórir dagar í giftingu hjá Lindu og Jóni og nóg að snúast hjá þeim og fleirum. David og Jennifer systir hans koma á miðvikudagskvöldið. Eiríkur mætir á fimmtudag frá Danaveldi. Dúna kemur að norðan á föstudag. Svo þetta fer að smella allt saman.
Segi þetta gott í bili...góðar stundir.

01.09.2007 20:17

Í Reykjanesbæ!


Ég tók sólina sem gægðist í gegn um skýin og brunaði með hana í Keflavík. Má ég ekki örugglega segja Keflavík? Við Sólrún skruppum og skemmtum okkur vel á Hafnargötunni. Hittum fjölmarga sem við þekktum. Ég hitti Vilmund barnabarnið mitt sem var þarna með elskulegri stjúpu sinni. Og við dönsuðum færeyskan dans. Sólrún hitti frænda sinn og svei mér ef mér fannst ekki að ég væri komin hálfa leið til Færeyja.

En við ætluðum á málverkasýningu sem var sögð vera í h.f húsunum en var ekki. Þar var Sigga Rosenkrans og gaman að kíkja á myndirnar hennar. Svo stormuðum við í lokin upp í Kjarna og skoðuðum Færeyska ljósmyndasýningu..flott. Svo ég er örugglega búin að ganga nóg í dag því bíllinn var upp við Hringbraut.

Svo fórum við upp á Þórsvelli til Hrafnhildar og tókum Grímu með okkur heim. Hún var búin að vera góð allan daginn en fór að væla í bílnum litla skinnið. Eitthvað óöryggi. Ég tók hana úr búrinu eftir að ég var búin að keyra Sólrúnu heim og hún var róleg þegar hún fór í það aftur.

Og svo er bara að kíkja til austurs úr Heiðarbænum í kvöld. Þá hljótum við að sjá flugeldasýninguna. En hm ég á eftir að athuga hvenær hún verður. Ætli það sé ekki mál að hætta þessu núna. Og seinna í mánuðinum verða bloggin færri..ykkur til huggunar!! Þá verðum við annarsstaðar en ég ætla samt með tölvuna með mér..

Góðar stundir.

P.s. Já ég sá flugeldasýninguna.. Hún byrjaði kl.ellefu. Það er ekki langt á milli vina í þessu samhengi. Og heiðin sem var mannskæð í gamla daga er ekki svo stór. Maður sér svvvoonnnna milli hverfa..

01.09.2007 13:32

Gaman..saman.



Jæja þá er partý ársins búið. Við höfðum það notalegt í gærkvöld og ég vona að gestirnir okkar hafi verið jafn ánægðir og við. Við vorum búin að ákveða þetta með mánaðar fyrirvara og þau voru búin að taka kvöldið frá. Þetta var í fyrsta sinn sem við höldum svona matarboð í meira en tvö ár. Og líklega verður ekki svona fjölmennt aftur fyrr en um jól þegar fjölskyldan kemur saman.


En gestunum leist vel á Heiðarbæinn og þau voru sko dregin upp á loftið líka í koníakstofuna!!... Þau sem voru hjá okkur voru Sólrún og Óskar, Sigurður Valur og Hulda og Jón Norðfjörð og Lóa. Við vorum með bílaþjónustu..ha ha. sótt og sent heim eða þannig... Gunni sótti þau og Konný keyrði þau til baka fyrir okkur.  Mér skilst nú að þeim köppunum sem sátu í aukasætunum hafi fundist þau vera barnasæti!! En bíllinn minn er sjö manna..(ef nauðsynlegt er).



Nóg af partýtali. Hrafnhildur kemur á eftir og ætlar heim með litla voffann sinn. Og svo verður Snati sóttur á morgun. Hann er búin að fá merkta ól um hálsinn. Guðbjörg kom í gær með hana. Hann er nú svolítið að klóra sér. Finnst þetta eitthvað skrítið..Þarf að venjast. Nú kúra þeir niðri greyin. Sælan að vera uppi búin. Fyrst voru þeir ósáttir en það gekk fljótt yfir.


Ég fór með afganga og hitaði upp fyrir karlana mína sem eru að vinna við skemmu hjá Fúsa ehf. Slapp vel þar og gott að nýta upp matinn. Á morgun ætlar Ágúst Þór að halda upp á afmælið sitt en hann varð ellefu ára tíunda ágúst. Nú hætti ég þessu pikki í bili og eigið góðan dag elskurnar.
Silla

30.08.2007 20:39

Ljósanætur.



Það eru ekki fyrr búnir Sandgerðisdagar þegar við taka ljósanætur. Reyndar segja Reykjanesbæingar ljósanótt í eintölu en hátíðin stendur yfir í þrjá daga eins og hjá okkur. Það fara margir til nágrannanna í heimsókn og þeim sem ég veit um hefur líkað vel. En allavega núna verðum við heima. En ef veðrið verður sæmilegt sjáum við örugglega flugeldasýninguna héðan.

Þeir hafa verið að þrasa svolítið um ljósalagið sitt. Þar er nefnilega sungið ó Keflavík. Og sumir móðgaðir í Njarðvík. En ef fólki finnst bærinn Reykjanesbær vera bærinn þeirra þá getur þetta ekki rist djúpt. Lagið er flott og textinn frábær. Enda labbaði ég Hafnargötuna í Keflavík og var á rúntinum þar í den. Stapinn var vinsæll og hann var í Njarðvík. En þetta er bara svo mikil nálægð þarna í hverfunum ef við undanskiljum Hafnirnar sem eru bara hérna rétt hjá mér.

Strákarnir hjá Auðunni Pálssyni voru að lagfæra hér hjá okkur í dag. Bara allt annað og á morgun fáum við fína möl í innkeyrsluna. Ég var að lagfæra kjól fyrir Konný áðan og hér var mikið af fulltrúum yngstu kynslóðarinnar í fjölskyldunni.Vilmundur Árni, Arnar Smári og Jóhann Sveinbjörn. Hrafntinna kom með mömmu sinni. Svo var Dísa svilkona Konný með litluna sína. 

Maddý og Gísli kíktu í gærkvöld og umræðan snérist mikið um ferðina framundan. Hilmar Bragi, Guðbjörg og börnin komu að kíkja á Snata sinn. Veit að þau bíða spennt eftir honum. Það var líka mikið spáð í Brúnó og fleiri í dag. Og Vikký þykir snilldarhundur!!

Jæja nú ætla ég í smá göngu..fínt veður í augnabikinu.

Góðar stundir.





28.08.2007 21:19

Hundalíf í Heiðarbæ.



Ég meina ekki að það sé leiðinlegt líf heldur líf með hundum og með hunda á heilanum ha ha . Fyrir nokkrum árum var þessi fyrirsögn á grein í virtu blaði á Suðurnesjum..Hundalíf í Sandgerði og mynd af hundi fyrir framan hús bæjarstjórans. Margir urðu hálfmóðgaðir. Já þetta er svolítið tvírætt. En ég get fullvissað ykkur um að í Heiðarbæ líður öllum vel, okkur og voffunum.

Í dag fóru Brúnó og Vikký til Jóhönnubarna í aðlögun!!..Þau voru skilin eftir í fjóra tíma og allt gekk vel. En þau voru samt farin að skæla smá í lokin. Og rosa glöð að koma heim aftur í hópinn. En samt er nú gott að venja þau við. Það fer að koma að því að fara að heiman..

Hrefna og Viðar kíktu við áðan og fengu lánaða ferðatösku. Þau eru að skreppa til Noregs í fermingu. Hún var líka að úrbeina fyrir mig tvö læri. Hún er svo flink við svoleiðis..Við verðum með matarboð á föstudagskvöldið. Það fyrsta svona formlega í Heiðarbæ. Nokkurskonar innflutningspartý!

Djammið á þessu liði hugsar nú einhver.. hm. Reyndar mikið um að vera þessar vikurnar. En stundum kemur allt í bunum. Svo rólegheitin á milli.

Jæja ég hætti þessu bulli í bili. Sofið rótt.

P.s. Frábært hjá henni Selmu að senda nágrönnum okkar í Reykjanesbæ ljósalag. Henni er ekki fisjað saman. Lagið og textinn eru flott. Það kemur betur og betur í ljós hvað mikill fengur var að fá þau hjónin í bæinn okkar svo jákvæð sem þau eru. Það er hægt að hlusta á lagið bæði á 245.is og Víkurfréttavefnum. 





26.08.2007 18:25

FRÁBÆRT..Sandgerðisdagar..



Já aldeilis lukkuðust Sandgerðisdagar vel. Stemningin náði hámarki í gærkvöld þegar grillað var og gengið frá fjórum hverfum að Vörðunni og þaðan í stórri skrúðgöngu niður að bryggju. Ég vona að einhver hafi tekið myndir úr turninum á Vörðunni. Það hlýtur að hafa verið skemmtileg sjón. Gulir, grænir, bláir og rauðir í halarófu með fána, blöðrur og allavega dót og í allavega skemmtilegum fatnaði.

Já það sýndi sig að þetta virkaði. Allavega í rauða hverfinu þar sem við vorum í grilli og alles. Hef frétt að það hafi verið grillað á þrem stöðum í hverfinu!! Ég gæti trúað að bara þarna á grillstaðnum nokkar hafi verið 120-150 manns. Mikið spjallað og gleðin allsráðandi. Þyrfti kannski aðeins rýmri tíma í þetta atriði næst..Kannski af því að það var svo gaman!!! Og svo voru margir um grillin sem voru þó fjölmörg.

Svo tók við skemmtunin niðurfrá sem endaði svo með glæsilegri flugeldasýningu. Mannhafið var slíkt að manni datt í hug að maður væri staddur í Reykjavíkinni í miðbænum. Margir brottfluttir Sandgerðingar sem maður rakst á en auðvitað náðist ekki að hitta alla.... Veðrið lék við okkur sérstaklega seinnipart dags. Það var smá gjóla um miðjan daginn. En svo sannarlega hafa þessir dagar heppnast vel í heildina litið og sýnir að svona nær fólk að þjappa sér saman.

En við hjúin skemmtum okkur konunglega og tókum svo bara leigubíl heim..Minnsta mál. Og svo er búið að vera mjög gestkvæmt hér í dag. Held nú samt að Tinna, Gríma, Brúnó,(áður Strumpur) Snati, Táta og Vikký hafi haft mesta aðdráttaraflið. Það eru ansi margir hreint sjúkir í að skoða þau. Svo kunna þau vel við að láta strjúka sér. En þau leika sér núna og svo fer að styttast í að þau fari eitt af öðru.

Læt þetta duga í bili. Hafið það sem best.

25.08.2007 10:03

Setning Sandgerðisdaga í súld og bullandi regni.


Já ekki fór það svo að almættið vildi ekki minna okkur á að sumarið væri ekki eilíf sól. Sandgerðisdagar voru settir í mildu veðri en súld og meira að segja dembum af rigningu. Gott að vera í úlpu og svoleiðis. Mér fannst frábært hvernig þau orða þetta á 245.is..Rífandi stemning og Veðurguðirnir gátu ekki einu sinni haldið vatni!!! 

Annars var fjöldi fólks mættur en sumir flúðu inn í tjöld sem eru á svæðinu og bílana. En allt gekk þetta nú ágætlega og mikð af fólki með hatta á staðnum enda verið að vekja upp Hattavinafélagið sem var stofnað fyrir átta árum á Sandgerðishátíð. Og áfram verður sama stjórn þ.e  Höfuðpaur, skammari og skrásetjari.ha ha ..

En nú er sólin komin aftur og spáin lofar góðu fyrir daginn. Það skiptir flesta meira máli. Alltaf hefur aðaldagurinn verið laugardagur. Þá verður grillað í hverfunum og eftir það farið niður að hátíðasvæði. Margt annað er líka um að vera og Bylgjan hefur hér aðsetur eins og í gær. Svo nú er bara um að gera að stilla á 98.9..

Ég fer snemma á fætur þessa daga því hvolparnir mínir þurfa athygli og vilja fá mömmu sína í morgunsárið. Og þvílik kæti eða eigum við að segja græðgi í hana Týru. Það fer nú að fækka þessum spenatímum því þeir geta orðið bjargað sér og mamman orðin löt við þá. Hún er samt að siða þá til og það er bara fyndið að sjá aðfarirnar.

En Ólöf og Día komu í gær með pabbann með sér og hvað litlu skinnin urðu hrædd við hann!! Held nú að hann hafi verið enn smeikari við afkvæmin..eitthvað óþekkt fyrirbæri!!! Día er búin að kaupa búr sem hún skildi eftir og bíður spennt eftir Tátu sinni. Hún ætlar að taka hana til sín 3. sept. Svo þá verður Snati bróðir hennar líka nýfarinn heim til sín. Og í gær fór ég með þau í bólusetningu,örmerkingu og fleira. Þeir eru svo margir að dýralæknirinn var 45 mínútur við þessa vinnu.

Jæja Linda var gæsuð í gær með pomp og pragt. Þetta er orðin liður í giftingunum í dag. Nema ef fólk smeygir sér í kyrrþei til séra... Þetta er orðið svolítið Ameríkst  hjá okkur. En það er gaman að þessu í hófi. Svo nú fer litla barnið mitt bráðum að gifta sig. Ekki langt síðan hún vara lítil eða það finnst mér. En hún er nú orðin 24 ára.


Stoppa hér og vonum að dagurinn verði ánægjulegur.
Silla.

Flettingar í dag: 176
Gestir í dag: 49
Flettingar í gær: 1914
Gestir í gær: 1077
Samtals flettingar: 105267
Samtals gestir: 22449
Tölur uppfærðar: 9.5.2024 18:07:34