10.11.2009 03:36

Nashville - Alabama.


Kæru vinir.
Nú er kellan í Amerikunni. Fórum til Orlando á þriðjudag fyrir tæpri viku. Þar sóttu Maddý og Gísli okkur og við höfum gist í Ölla herbergi í Epplagötu..Síðan fórum við til David og Stacey öll saman og þá kom áfallið. Á laugardagsmorgun klukkan sjö að okkar tíma hér hringdi Sigfús minn og sagði mér að mamma hefði kvatt okkur.
 
Auðvitað hefur hennar tími verið komin en hún var samt svo hress og síföndrandi og málandi fram á það síðasta. Ekki bara það, hún sendi mér kveðju á facebook (þar sem hún var eins og unga fólkið) eftir að ég fór út. Þetta er ekki óskastaða að vera erlendis við svona aðstæður. Við erum búin að flýta heimferð um tvo sólarhringa. Mamma hefði samþykkt það og ekki degi meir held ég:)

En við fórum í smá ferðalag vinirnir og skruppum til Nashville Tennessi eftir að vera í heimsókn hjá David og Stacey..Þar heimsóttum við Helgu frænku Erlu Jónu og það var mjög gaman. Síðan fórum við niður í miðbæ í Nashville og þar var margt að sjá. Kúrekar og aftur kúrekar!!

En nú erum við í smábæ í Alabama og höfum það notalegt. Klukkan hér er bara tíu að kvöldi og allir í fastsvefni heima..Sex tíma munur..En það er rosalega fallegt hérna og við höfum séð heilmikið nýtt.

En í bili læt ég þetta duga..
Hafið það sem allra best.
Ykkar Silla.

31.10.2009 21:42

Næturvinna.


Sæl öll vinir mínir.
Nú sit ég í vinnunni í Sandgerði og ákvað að nota auðan tíma til að skrifa smávegis. Venjan er nú ekki á þessum tíma að vera vinna frameftir. En það kom upp dæmi sem þurfti að leysa strax og þeir verða fimm að vinna í alla nótt. Eru að taka í gegn tank í Helguvík (hélt reyndar fyrst að þetta væri í Örfirisey þar eru þeir stundum líka) sem þarf að vera tilbúinn fyrir olíu á mánudag. En þegar þarf að vinna  á þessum óvenjulega tíma þá þarf líka að gefa þeim orku..mat og í því er ég. Matur klukkann tólf á miðnætti!

En annars er allt bara gott að frétta..Meðan fyrirtækið hefur vinnu erum við alsæl. Þetta er ekkert verra núna en hefur verið þessi 4 og hálft ár sem þeir hafa unnið við þetta. Veturinn er rólegi tíminn,sumrin fjörugri. Vona bara að fari aðeins að birta til í atvinnulífinu svona almennt.

Nú eru Maddý og Gísli farin til Flórida og Fúsi og Erla eru úti hjá þeim núna. Þau koma heim í næstu viku. Það eru ekki allir sem komast út á þessum tímum og bara frábært að geta leyft sér það eftir streðið í sumar.
Enhverntíma í haust förum við í hálfan mánuð :o)) Segi frá því seinna..

En allir eru heilsuhraustir..Smáflensur hér og hvar en engin fengið Svínaflensu enn sem komið er..sem betur fer.

En læt þetta duga og hafið það sem allra best.
Ykkar Silla.




24.10.2009 21:30

Perlan.


 Sæl öll kæru vinir mínir.

Ég hef svo sem eitt og annað að segja. Viðburðaríkir dagar að baki. David og Stacey fóru í dag og þessir tíu dagar liðu hratt. Þau voru í spes erindagjörðum sem ég segi kannski frá seinna. Þau gistu hjá okkur fyrstu dagana en síðan hjá Maddý og Gísla í Reykjavík og hér í Glaumbæ.


Toppurinn á þessu var Perlan..Ýmsir hafa horn í síðu Davíðs Oddssonar en þessi hugmynd og framkvæmd hans í sambandi við Perluna mun lifa. Hann lét hanna og byggja hana þegar hann var borgarstjóri. Við komum þar fyrst á 25 ára brúðkaupsafmæli okkar árið 1992.

Síðan erum við búin að koma fjórum sinnum þarna. Þrjú af þeim skiptum hafa verið með útlendingum sem virðast hafa mjög mikinn áhuga á Perlunni og öllu sem henni tengist. 

Ég hitti frænku mín hana Sigríði Björg dóttir Huldu frænku..Hulda er dóttir Jónu systi pabba..Það var óvænt og gaman..Kveðja frænka mín!!!

En allt gengur annars nokkuð vel..Fyrirtækið hefur vinnu ennþá..Alltaf fellur eitthvað til sem heldur þeim gangandi..Enn sem komið er..Sem betur fer!!

Fúsi og Erla eru úti. Þau eru í Húsi Maddý og Ölla í Flórida. Reyndar núna í Nashville hjá frænku Erlu. Gott fyrir Fúsa eftir allt streðið í sumar. Segir mamman ;o))

En allra bestu kveðjur til ykkar.
Silla.






14.10.2009 15:40

Gestakoma.


Góðan daginn gott fólk.

Nú erum við búin að fá David og Stacey í heimsókn. Það eru vinir okkar frá Atlanta í Georgíu. Þau giftu sig hér í Hvalsneskirkju fyrir rúmum tveim árum. Þau komu eldsnemma á mánudagsmorgun en verða nokkra daga í Reykjavík hjá Maddý og Gísla. Það hefur verið mikil samgangur milli okkar allra þriggja hjóna undanfarin ár. En við kynntumst David 1990 þá 29 ára strák! Hann var sendur frá fyrirtækinu sem hann vann hjá til að uppfæra malbikunarstöðina hjá Gunna. En nú er sá vinnustaður (Malbikunar og steypustöðin) ekki lengur starfræktur.. Þegar maður keyrir Hafnaveginn framhjá stöðinni er ansi eyðilegt um að litast.

En það hefur verið líflegt hérna enda krakkarnir að kíkja í heimsókn og heilsa upp á þau. Stelpurnar mínar hændust að David þegar þær voru litlar enda er hann mjög barngóður. Ég veltist um af hlátri þegar ég sýndi þeim sviðahausana sem ég var með í matinn í dag..Svipurinn! Enda kannski ekki skrýtið.. En annars elska þau íslenska matinn og kaupa sósur og skyr til að fara með heim. Svo er kaffiframleiðsla Kaffitárs þeim mjög hugleikinn og það eru keyptir margir pokar af kaffi. Og ég er nú sammála því að það er betri matur á Íslandi en í Bandaríkjunum.

Við skruppum í Reykjavík í gær við þrjú. Fórum í 66°norður og þau keyptu líkt og Íslendingar í Ameríku!! Þau eru svo hrifin af þeim vörum. Og eru að kaupa jólagjafir fyrir fjölskylduna. Það er merkilegt hvað maður venst á að tala enskuna þegar maður þarf á því að halda. Stirður fyrst svo kemur þetta. Ekki er hægt að tala bara íslensku sem gestirnir skilja ekki. Annars er David orðinn nokkuð klár í einstökum orðum. Stundum erfitt að bera fram orð eins og hraðahindrun :)

En um síðustu helgi fórum við með starfsfólk Fúsa ehf í Reykjavík. Við gistum á hóteli og vorum fjórtán saman. Það var verið að gera sér dagamun eftir törnina í sumar. Erla Jóna skipulagði og við vissum ekkert fyrr en kom að því að fara eitt og annað. Við fórum í Keiluhöllina þar sem fólk skemmti sér vel. Við fórum á Askinn fyrra kvöldið og löbbuðum síðan heim á hótelið. Á laugardegi var farið í Perluna og skoðað Sögusafnið og síðan í Kolaportið! Aðalmálið var síðan kvöldverður á Hereford á Laugavegi..Þetta heppnaðis glæsilega og færði eigendur og starfsfólk (eigendur eru reyndar starfsfólk líka!) mikið saman.

En ætli ég láti ekki staðar numið að sinni.
Hafið það sem allra best.
Silla. 

05.10.2009 13:34

Snjókorn falla...

Sælir vinir mínir..

Nú eru snjókorn að falla..Veturinn við hornið greinilega. Reyndar bráðna þau við jörðina ennþá. Ég var nú að vona að það kólnaði ekki strax. En við búum á Íslandi og svona er þetta bara.

Lilja Kristín tengdadóttir okkar varð fertug í gær. En það var of langt að skreppa í afmæliskaffi til Danmerkur svo síminn varð að duga. En þau gerðu eitthvað til hátíðabrigða og eru bara hress heyrist mér. 

Bjössi er kominn heim úr tíu daga Flóridaferð og það eru komnar nýjar myndir á síðuna hans..Það er ágætt að geta aðeins brugðið sér af bæ..Hann vinnur mikið hann Bjössi og þetta hefur verið kærkomið. 

Ásrós Anna kom í helgarfrí að norðan um helgina. Hún er í VMA á Akureyri. Ég reikna nú alveg eins með að hún fari næstu önn í FS..Fjölbrautarskóla Suðurnesja. Hún hefur samt haft gott af eins og allir að standa aðeins á eigin fótum.

Ég er að elda fyrir strákana mína flesta daga og var að því í morgun. Mér finnst bara gaman að því og ekki verra að verða vör við matarást :o)

Svo er ég í Átak líkamsræktarstöðinni tvisvar í viku og það er mjög gott. Ég er svo að skreppa fyrir mömmu og tengdó annað slagið..Gott að vera svona á lausu :o)

Hilmar og Guðbjörg komu í gær með börnin..Þau koma alltaf annað slagið og krakkarnir farnir að kalla mig ömmu.. Bara gaman..Svo er kisan þeirra grafin í dýrakirkjugarðinum hér fyrir og þau kíkja þangað..

Ég læt þetta duga í bili..
Eigið góðar stundir.
Ykkar Silla.

26.09.2009 20:37

Afmæli og afmæli..



Góða kvöldið kæru vinir.
Nú er ég búin að lofa að vera duglegri við bloggið mitt. Ég er ekkert lítið ánægð yfir því að heyra frá fólki sem les þetta reglulega. Mummi er einn, Erla Kidda Lár önnur og í afmælinu í dag hitti ég þrjá sem létu mig vita að ég skrifaði of sjaldan...Rétt er það og nú skal breyta um kúrs!

Já afmælin..Í dag fórum við í afmæli Binnu..Hún varð 80 ára og þetta var mjög gaman. Við hittum fjölda fólks sem hafa verið vinir okkar til áratuga. Og ekki skyggði það á að Bára systir hennar kom frá Los Angelis öllum á óvart. Alltaf jafn hress..Konný kom með okkur með yngri strákana tvo en aðrir krakkar mínir voru uppteknir. En sá misskilningur varð á milli okkar Gunna Þórs að ég lét ekki Sirrý vita eins og hann hafði hugsað heldur bara mín börn og tengdó..En ég veit að Sirrý var að vinna í dag svo líklega hefð'i hún ekki komist. Vona bara að þær Bára hittist því þær eru svo miklir mátar.

En svo er afmæli á morgun líka! Hannes hennar Konný er þrítugur  þann 21. september og stóri strákurinn þeirra varð sjö ára í gær..Svo það er sameiginlegt afmæli þar! Ég er að setja á brauðtertur fyrir Konný núna en annars er hún mjög flink sjálf í svona veisluhöldum.

En annars gengur allt sinn vanagang..Það hefur gengið yfir mikið rok og mikil læti í veðrinu síðasta sólarhring. Og það brimaði mikið við ströndina hér í dag..Í fyrirtækinu gengur allt nokkuð vel allavega miðað við aðstæður..En aldrei eru áhyggjurnar langt undan í því sambandi..en eins og er bara fínt. Ég elda mat fyrir karlana mína minnst fjóra daga í viku og hef bara gaman að því.

Tengdamamma er frekar léleg til heilsunnar og við höfum jú vissar áhyggjur af því. Mamma er eins og alltaf dugleg og er alltaf að föndra eitthvað. Það væri flott ef maður yrði eins og hún..

Ég er búin að vera á Moggablogginu ásamt mínu..(þessu) í tvö ár. Hætti reyndar í mánuð í sumar og skráði mig út..Var búin að fá nóg af ekkifréttum.. En ég hef eignast góða bloggvini og Sigurður sem var sveitarstjóri í Garði er einn. Reyndar hafði ég kynni af honum áður. En svo kom annar bloggvinur í heimsókn í vikunni og það var bara meiriháttar gaman.. Mikið hvað við gátum skrafað.

En ég skal reyna að vera duglegri að skrifa hér vinir mínir..
Takk fyrir alla athyglina og hafið það sem allra best.
Silla í Heiðarbæ.

20.09.2009 11:41

Haust.


Góðan daginn kæru vinir nær og fjær.

Nú er sunnudagur 20.september og farið að hausta. Það hefur rignt ansi mikið núna í september en samt hafa síðustu dagar verið bara ágætir..Sól inn á milli og fallegir haustlitirnir að koma fram. Og oft logn! Við höfum verið að undirbúa veturinn og bæta við ljósum við húsið. Það var þörf á því og við fórum skrítna leið í lýsingu til bráðabrigða. Við keyptum ódýrar slöngur eins og margir nota á jólunum og settum í tröppurnar..(glærar) og það kemur bara ágætlega út. Vona bara að það dugi þar til við erum tilbúin að kaupa varanlega lýsingu.

En nú eru barnabörnin byrjuð í skólum og leikskólum..Aðeins sá yngsti Róbert Óli sex mánaða er ekki í skóla! Júlía Linda er kominn í leikskólann og ánægð með það..Allavega er hún farin að babla út í eitt...Hún er bara 16 mánaða. Í leikskólanum í Sandgerði eru líka Arnar Smári og Hrafntinna. Elsta barnabarnið Gunnar Borgþór er í Fjölbrautarskóla Suðurnesja og Ástrós Anna í VMA á Akureyri. Jóhann Sveinbjörn, Vilmundur Árni, Garðar Ingi og Ágúst Þór eru í Grunnskólanum í Sandgerði. Svo eru Sigurbjörg, Helgi Snær og Þorsteinn Grétar í skólum í Sönderborg á Jótlandi.

Heldri borgararnir mínir hafa það sæmilegt.. Mamma er alltaf jafn hress og dugleg í föndri og tölvu..Frábært að hún geti farið og skoðað síður og haft samband við afkomendur á msm. Tengdamamma er ekki eins hress..Hún er reyndar léleg. Hún fær mikil asmaköst og verður oft að sofa uppisitjandi..en reykir enn...Það eru ýmiss vandamálin við að etja.

Í Fúsa er nú orðið rólegra..Þeir eru fáir eftir eins og hefur verið yfir veturinn..Eitthvað eiga þeir eftir að vinna í Örfirisey og fleira sem fellur til daglega. En þar eins og í íslensku atvinnulífi er kyrrstaða ef stjórnvöld aðhafast ekkert. Engir eiga pening til að láta framkvæma þó það bráðvanti og það kemur niður á öllum sem hafa annast viðhaldsverkefni eins og Fúsi ehf.

En ekki þýðir annað en horfa inn í framtíðina. Ekki gagnar endalaust að hrærast í því liðna..En þetta Íslenska hrun verður samt að rannsaka ofan í kjölinn..Til þess að við getum byggt upp að nýju. Fólk er mjög sært, reitt og vonlítið..Ég þekki marga sem eru að hugsa um að fara úr landi. Ekki er það gott fyrir íslenskt þjóðfélag.

En ekki ætlaði ég að vera mikið í þessari umræðu.. 
Bestu kveðjur til ykkar allra sem nennið að kíkja á síðuna mína.
Ykkar Silla.




13.09.2009 13:48

Myndir



Það eru komnar inn myndir Mummi.:)



09.09.2009 19:33

Kominn tími til að blogga!


Sæl öllsömul..

Það er orðið langt frá síðasta bloggi. Tíminn flýgur áfram og veðrið hefur verið svo gott flesta daga. En einhver veðrabrigði virðast vera núna. Komin haustlægð og með henni næðingur. Svo þá er komin tími á bloggið. Ég hef verið dálítið á facebook og finnst það bara ansi skemmtilegt í hófi.

En það hefur svo sem margt drifið á dagana frá 16.ágúst þegar ég skrifaði síðast. Eiríkur og Lilja eru farin af landinu heim til Danmerkur. Eiríkur og börnin öll byrjuð í skólanum en er Lilja atvinnulaus eins og er. Við urðum fyrir vonbrigðum með það að hún var ekki valin næsti sóknarprestur hér en svona er þetta bara. Ég geri því ráð fyrir að þau ílendist lengur í DK. Annars hefði hún komið stax og hluti fjölskyldunnar en Eiríkur klárar í vor skóladæmið.

Ég var reyndar að tala við þau áðan. Helgi Snær er þrettán ára í dag. Hann fæddist á brúðkaupsdeginum okkar strákurinn. Ritgerð Eiríks (sem hann vann með öðrum aðila) frá því í vor var valin sem kennslugagn í háskólanum og þeir tveir eiga að kenna hana í nokkra daga. Og á launum! Hann var stoltur af þessu strákurinn.

En að öðru. Sandgerðisdagar sem voru síðast í ágúst tókust vel. Hátíðahöldin eru alltaf að taka fleiri daga og fólk er mjög ánægt og tekur þátt. Það var afhjúpað minnismerki um Jón Forseta sem fórst hér við Stafnes árið 1928. Það stendur rétt við V-Stafnes. Bjössi er með myndir frá því og öðru á síðunni sinni..Tengill hér hjá mér..Mjög gott og þarft verk sem minnir á liðna tímann. Á fimmtudagskvöldið var svo Loddugangan svokölluð..Söguferð um Sandgerði og þá eru heimsótt nokkur fyrirtæki. Gangan endaði í Fúsa ehf og þar var göngufólki gefið snittur og bjór. Mikið fjör á bæ þá. Þetta voru um 250 manns sem tóku þátt. Konný var með málverkasýningu á laugardeginum og einnig ljósmyndasýningu í Grunnskólanum á sunnudeginum. Hún var búin að viða að sér eldri myndum úr bæjarfélaginu og tók svo nýjar í sumar á sama stað. Þetta gerði heilmikla lukku.

Við fórum norður með Ástrós Önnu 19-21 ágúst. Hún var að byrja í VMA og við vorum að hjálpa henni að koma sér fyrir í vistinni. Vonandi gengur henni vel. Hún hefur alla getu til þess.

En í dag eigum við brúðkaupsafmæli..Ekkert merkilegt bara 42 ára :o) En mér finnst dagsetningin í dag mjög skemmtileg...09.09.09...

En kæru vinir..Ég læt þetta duga og lofa ykkur að heyra frá mér bráðum aftur.
Bestu kveðjur.
Ykkar Silla.






16.08.2009 21:51

Sumarið 2009.


Sæl kæru vinir.

Ég held að þess verði minnst lengi hvað sumarið hefur verið gott hjá okkur..Allavega á suður og vesturlandi. Ég man ekki eftir svona löngum kafla sólar og góðviðris..Oft hefur maður minnst þess að fara út í kring um afmælið mitt í lok maí í pilsi eða stuttbuxum. En ég held ég muni ekki svona langt tímabil stanslausrar sólar og þurrks.

En þar sem svo langt er síðan ég skrifaði þá langar mig að fara stutt yfir sögu. Við höfum fengið mjög marga góða vini í heimsókn og margt hefur verið gert. Eins og ég sagði síðast bárum við fúavörn á húsið okkar og nú er bara eftir að mála kjallarann. Um síðustu helgi kíktu hingað Þorvaldur og Auður. Þau voru á rúntinum og sáu okkur úti við..Þannig á það að vera, bara kíkja. Valdi er bróðir Hrefnu vinkonu..En skondið sem það var vorum við einmitt að setja niður lerkitré úr garðinum hjá Hrefnu.. Vona svo að það lifi og vökva helling daglega.

Við vorum boðin í heimsókn til nágrannanna í Steintúni, Sigrúnar og Sveinbjörns. Yndislegt fólk í bústað sem þau eru búin að endurnýja frá grunni. Þar fengum við grillaðann humar og sumir kunnu sig ekki í átinu..Svei mér þá.

Við skruppum um síðustu helgi á Fiskidaginn á Dalvík..Fengum þá flugu í hausinn um að það væri gaman að sjá og reyna sjálf. Reyndar stoppuðum við stutt en höfðum samt mjög gaman að uppátækinu og gistum í bílnum uppi á Öxnadalsheiði.

Sigrún og Alli komu hingað síðdegis í gær..Frábært að fá þau og margt spjallað um gamla og nýja daga. Ég hef þekkt Sigrúnu frá barnæsku og Gunni hefur þekkt þau hjón frá því við kynntumst..

Um helgina hefur Gunni verið að hjálpa fjölskyldunni á V- Stafnesi við að mála þakið og efri hæðina á húsinu. Mjög gaman að geta tekið þátt í svona endurbótastarfi í hverfinu. Ég tók myndir og setti á facebook..Þar hef ég lært að setja inn myndir..Þarf að fá tilsögn á 123.is um það sama.

En þetta er það helsta sem ég man í bili úr veðursældinni í Stafneshverfi.
Hafið það sem best kæru vinir.
Ykkar Silla.

04.08.2009 13:19

Verslunarmannahelgi.


Þá er ein mesta ferðahelgin að baki. Vonandi hafa allir komið heilir heim. Við vorum eins kyrr heima eins og hugsast gat;)  Hreyfanleg samt! Og það voru notaðir vel þessir frídagar. Eiríkur var hér föstudag til sunnudags og hjálpaði pabba sínum að klára að smíða þakkantinn á húsinu. Nokkuð sem hafði dregist.

Kristján vinur Eiríks bættist í hópinn á laugardag. Svo var borin á allt húsið fúavörn og að lokum notuðum við Gunni gærdaginn og þvoðum gluggana úti og inni. Svo maður er mikið lukkulegur með helgina.

Veðrið er búið að vera ótrúlegt. Sól og blíða og allt orðið of þurrt. En í dag er sólarlaust og jafnvel von á rigningu í kvöld. Það væri flott að fá vætuna en svo er maður orðin svo góðu vanur að maður óskar eftir meiri sól....

Í Glaumbæ eru Maddý og Gísli búin að vera að mála líka. Svo það hafa verið nokkur handtökin í hverfinu síðustu daga.

En þetta litla blogg læt ég duga í bili.
Hafið það sem allra best.
Silla.



25.07.2009 20:34

Ættarmótið!


Sæl öll.
Ég ætlaði svo sannarlega ekki að sleppa því að segja ykkur frá mótinu okkar um síðustu helgi. Það var ættarmót með frjálslegu sniði. Og yndislegt var það. Og veðrið lék við okkur.

Þannig var að í vetur komum við saman með hluta af börnum og tengdabörnum og vorum ákveðin í að hittast í útilegu eða tjaldsamkomu á sumri komenda. Stefnan var sett á Hellishóla í Fljótshlíð þar sem Sigfús og Erla Jóna hafa verið með hjólhýsið sitt undanfarið. Ég sendi póst á Hellishólana og fékk það svar að aðeins væri eitt lítið hús 16 fm til leigu. Ég vildi fá stærra hús þar sem margir voru tjald og húslausir. En ekki fékkst það..Leið nú tíminn og að lokum kom frábær lausn hjá stelpunum um að koma saman hjá okkur gamla settinu í Heiðarbæ. Eða í Nýlendu þar sem nóg tjaldsvæði voru fyrir hendi.

Það varð ofaná og það sem meira gerðist var að það kom fram mikill vilji til að endurreisa FKF eða félag kátra frændsystkyna í tengslum við þetta mót. Svör komu frá mörgum okkar kátu en svo var ákveðið að þetta mót okkar væri eitt allsherjar fjölskyldu-frænku og frændamót fyrir báðar ættir okkar Gunna.

Það varð niðurstaðan og fjölskyldumót Heiðarbæjarfjölskyldunnar var haldið með miklum ágætum. Hannes smíðaði fótboltamörk og mikið var um að vera. Unga fólkið fór með börnin í Melabergsfjöruna sem er hvítur og flottur sandur. Þar voru gerðir kastalar eins og gerast bestir í sandfjörum Spánar. Boggi frændi Gunna, Marta dóttir hans og Gunni Þór komu frá FKF sérstaklega. Og frænkur mínar Helga, Sibba og Kolla komu frá mínum ættboga. Elín hans Bjössa, Ása Ingibjörg og þeirra fólk komu og kíktu bæði föstu og laugardagskvöld. Maddý og Gísli og börn voru auðvitað sjálfboðin enda frænd og vinafólk og hverfisbúendur:) Bjössi sjálfur var auðvitað með í hópnum :)

Það er bara að segja frá þessum mannfagnaði að hann fór mjög vel fram og var í alla staði vel heppnaður. Það var mikið sungið, sagðir brandarar og hlegið. Og við flögguðum fána FKF og allir voru ákveðnir í að hittast að sama tíma að ári.

Það geri ég að mínum orðum og hvet allt frændfólk til að skoða hvað hverfið okkar hefur mikið upp á að bjóða. Við þurfum alls ekki að leita langt yfir skammt.

Góðar stundir.

22.07.2009 21:03

Landsveitin.


Sæl mínir kæru vinir nær og fjær.
Ég hef verið skelfilega löt við bloggið undanfarið. Enda sumarið yndislegt og nóg annað að gera. Reyndar hef ég verið svolítið inni á facebook og það kannski tekið eitthvað frá þessu aðalbloggi mínu.

En mig langar til að segja ykkur góða ferðasögu :)
Við fórum í ferðalag í dag. Ég, mamma og Maddý mín besta vinkona og frænka. Við fórum með mömmu í sveitina hennar Landsveit. Það fór ekki á milli mála að mamma hafði gaman af ferðinni en ég held ég segi ekki ósatt að við frænkurnar nutum hennar út í æsar.

Við lögðum af stað héðan úr Stafneshverfi klukkan tíu í morgun. Sóttum mömmu og tókum olíu á bílinn og vorum svo klárar í slaginn kellurnar þrjár.

Við byrjuðum á því að fá okkur bita á Selfossi í hádeginu. Næsta stopp var í afleggjaranum að Hjallanesi í Landsveit þar sem Sigga vinkona mömmu er alin upp og útsýnið var flott.  Við fórum að Heysholti og þar er bæjum vel við haldið. Þar voru mamma og pabbi vön að koma í heimsókn.

Síðan komum að æskuslóðum mömmu að Minni-Völlum. Þar kíktum við á gömlu þústirnar. Nýr bær er þar á jörðinni mömmu til mikillar gleði. Og unga húsmóðirin Dóra (Dórothea) bauð okkur inn í kaffi og góðgæti að ekta íslenskum sið. Hún var að útskrifast úr kennaraskólanum og er að fara að kenna á Hellu næsta vetur. Yndisleg framkoma við bláókunnar manneskjur og henni til sóma. Hún býr þar ásamt manni og þrem börnum.

Þaðan var haldið að Hvammi. Þar bjuggu ömmusystur mínar Sigurbjörg og Steinunn í mörg ár. Þær voru giftar bræðrunum Ásgeiri og Guðmundi. Þær bjuggu í Norðurbænum sem er horfinn en Frambærinn stendur. Í Hvammi var mamma líka á sumrin eftir að hún flutti til Reykjavíkur vegna veikinda afa sem fékk berkla þegar mamma var fimmtán ára. Þarna hittum við barnabarn Óskars sem mamma hafði þekkt.

Næst var það Skarð hið forna höfuðból í Landssveit. Við fórum að kirkjunni og inn í hana skoðuðum leiði okkar ástkæru vina og tókum myndir!  Þar hittum við Jónu sem mamma kannaðist við og var barnabarn Jóns á Minni-Völlum. Manns sem mömmu þótti vænt um alla tíð. Hann var þar þegar hún kom þangað fjögurra ára. Í Skarði hittum við líka Dóru eldri ömmu Dóru á Minnivöllum og ekkju Guðna í Skarði. Bara gaman! Reynar hafði ég hitt hana við jarðarför Gauju vinkonu mömmu í vor.

Svo lá leiðin að Leirubakka þar sem mamma bauð upp á kaffi og ís. Flott hvernig búið er að byggja upp Heklusetur. Útlendingarnir hafa mikinn áhuga sýnist mér.

Næst var brunað að Galtalæk öðru höfuðbóli í sveitinni. Þar var afi minn Arnbjörn alinn upp frá þriggja ára aldri. Lítið fundum við þar af gömlum minjum en mikið er fallegt þar!

Ég ákvað að fara aðra leið heim svo við fórum fyrir Búrfellið og fram hjá virkjunnini sem Fúsamenn unnu við í fyrra og niður að Þjóðveldisbænum þar sem við Maddý örkuðum upp brekkuna og tókum myndir.Síðan ókum við niður hinn fallega Þjórsárdal áleiðis heim..

Við stoppuðum því næst í Bónus í Hveragerði þar sem keyptar voru nauðsynjavörur til heimilinna. Heim komum við um klukkan hálf átta og frábær ferð á enda.
Langaði bara að setja þetta á blað og leyfa ykkur að njóta :o)

Hafið það sem allra best..
Ykkar Silla.


 

05.07.2009 21:10

Sumar..


Sæl öll kæru vinir og fjölskylda.

Nú er sumar og ég mjög löt við bloggið. Það er frekar að ég droppi inn og fari á facebook.
En sumarið hingað til er búið að vera gott..En mér fannst kominn tími á að láta vita af mér. 

Hér hefur verið mannmargt síðustu daga og það er flott. Hér hafa verið Eiríkur og Lilja, Konný og Hannes börn og vinir þeirra, Vilmundur Árni var hér líka og í kvöld kom Jóhanna frá Akureyri.

Bara til að láta ykkur vita þá verður hér fjölskyldumót helgina 17-19 júlí og við vonumst til að allir frændur og allar frænkur nái þessu! Við höfum hverfið fyrir okkur og getum svo farið í sund í Sandgerði. Nánari upplýsingar eru á Facebook hjá Konný. Hún er búin að skipuleggja þetta vel og það væri frábært að fá ykkur kæru frændur og vinir til að samgleðjast okkur hér í Stafneshverfinu.

Þið þurfið ekki að vera náskyld en upphaflega var þetta hugsað um okkur og afkomendur. En svo kom það inn að fá frændfólkið i FKF sem eru svo miklar og góðar minningar bundnar við.

Endilega komið þið sem getið og verið velkomin í Stafneshverfi og í Heiðarbæ. Og ef ekki alla helgina þá bara dagpart! Bara að hittast og knúsast.

En að öðru og ekki síðra: Fermdir verða tveir strákar í Hvalsneskirju um næstu helgi. Það eru þeir Þorsteinn Grétar og Helgi Snær.

Svo nóg að hugsa um hér á bæ..
Bestu kveðjur til ykkar. 

21.06.2009 03:37

Pínu-lítið blogg.


Sæl kæru vinir og ættingjar nær og fjær (eins og segir í jólakveðjunum)..

En nú er reyndar hásumar. Lengstur sólargangur er á morgun 21.júní.
En allt gott er að frétta hér um slóðir í dag.
Maddý og Gísli eru í ferðalagi á Vestfjörðum og ekki eins margmennt hér og hefur verið síðustu daga. En þó erum við nokkuð mörg hér í hverfinu og sem erum búsett allann ársins hring;)

Bjössi var í dag við útskrift dóttur sinnar Hlífar sem var að útskrifast úr Háskóla Íslands.

Hlíf er alveg frábær og dugleg stelpa (eða kona). Henni tekst það sem hún ætlar sér.
Vinnusöm, dugleg og verkstjóri inn við beinið. Kannski ættgengt!
En til hamingju Hlíf og Bjössi til lukku með dótturina!

En við gömlu hjónin erum að vinna í Fúsa ehf. á morgun sem og aðra daga. Reyndar er ég bara að leysa Erlu og Hörpu af. Þær hafa verið flesta daga en allir þurfa smá frí.


En í dag er bróðurdóttir David vinar okkar að gifta sig á eyjunni Puerto Rica. Okkur var reyndar boðið í brúðkaupið en það var ekki möguleiki á að þiggja það. Of langt, of dýrt, þó okkur væri boðin gisting. Verkefnin hjá fyrirtækinu eru svo áríðandi nú.

En að lokum..Hafið það sem best kæru vinir.
Ykkar Silla.
Flettingar í dag: 156
Gestir í dag: 39
Flettingar í gær: 1914
Gestir í gær: 1077
Samtals flettingar: 105247
Samtals gestir: 22439
Tölur uppfærðar: 9.5.2024 14:08:52