11.03.2007 22:43

Það er af sem áður var...


Það er af sem áður var
æskan nam og lék sér þar.
Nú er þar orðið einskonar
afdrep fyrir kvennafar.

Þessa vísu kenndi pabbi mér ásamt fleirum góðum.
Pabbi var fæddur 1914 og var næstyngstur sinna systkina. Hann var Miðnesingur í húð og hár og hreykinn af því.
Hann lést 1.april 1997. Og nú eru að verða tíu ár frá því hann lést.

Vísan hér að ofan er um barnaskólann sem var staðsettur í Hvalsneshverfinu og varð seinna samkomuhús hreppsins.
Núna er þetta hús eign Hákonar Magnússonar ,heiðursmanns sem á níræðisaldri rær til sjávar og ræktar sínar kartöflur..sem sagt ræktar sinn garð öðrum til eftirbreytni..
Meira seinna.
Kveðja Silla.

08.03.2007 20:13

Ömmurar og fermingarstúlkan.


Já við, Anna amma , Ástrós Anna og ég fórum í Reykjavíkina í dag í verslunarleiðangur.  Aðalástæðan var að finna fermingarskó á Ástrósu.
Það gekk bara nokkuð vel og var ferðin hin ánægjulegasta. Við fengum okkur kaffi og kók í Kringlunni og við Anna spjölluðum svo mikið  að Ástrósu þótti nóg um. En er það nú ekki gott að ömmur hafi um eitthvað að tala? Skórnir fundust og fermingarkjóllinn er klár. Þessi flotta stelpa verður örugglega fín í veislunni sinni þann 5. apríl n.k. 
En að öðru. Ísar er að vinna í aukavinnu í Heiðarbæ.  Leggja lagnir fyrir vatn og fl. Hann er farinn að vinna hjá ITS á Keflavíkurflugvelli og það er vaktavinna svo hann hefur einhvern tíma auka. Annars eru allir svo uppteknir allstaðar að það hálfa væri nóg.
Annað,. það var svolítið skondið að sjá bíl yfirmanna vegargerðarinnar fara hér um í morgun. Skyldi eitthvað hafa ýtt við þeim í því að skoða Stafnesveginn eða?
Ekki meira af hálfkveðnum vísum í dag...
Hafið það sem best.

07.03.2007 20:17

Víkurfréttir.


Við Konný höfum verið í sambandi við Hilmar Braga á Víkurfréttum í sambandi við Stafnesveginn. Og hann brást vel við enda hafa þeir sjálfir kynnst veginum í sambandi við fréttaflutning af Wilson Muuga. En það er mikið atriði fyrir íbúana að geta leitað eitthvað með svokölluð umkvörtunarefni. Og hann Hilmar lét ekki duga að skrifa eina frétt heldur hafði samband við Jónas hjá Vegagerðinni. Þar á bæ var honum sagt að alltaf hefði staðið til að laga veginn eitthvað.. í vor.  En ég hef nú heyrt þannig fréttir áður sem ekki hafa orðið að veruleika. En svona fréttir eins og hjá Víkurfréttum halda málinu að stjórnvöldum og við erum miklu vonbetri um lagfæringar eftir þessi fréttaskrif.
 Vonandi komumst við þessa 8 km til Sandgerðis á fínum vegi í blíðunni sem verður í sumar...
Með vor í sinni.
Silla.

05.03.2007 22:44

Íþróttamaður ársins 2006.


Já nú er komið að því: Íþróttamaður ársins 2006 í Sandgerði er Hafsteinn Helgason.
Góður drengur og flottur merkisberi okkar Sandgerðinga.

05.03.2007 14:11

5. mars.


Í dag fimmta mars er afmælisdagur Magnúsar heitins Þórðarsonar.Hann setti mark sitt á uppgang íþróttaiðkunar í Sandgerði á síðustu öld.  Í minningu hans er þessi dagur í heiðri hafður og þennan dag hvaða vikudag sem hann ber upp á er valið Íþróttafólk ársins í Sandgerðisbæ. Góður siður. Hver skyldi hreppa titilinn í dag?
Svo eiga nú fleiri afmæli eins og hún Maddý sem er nú stödd úti á Flórida. Já líka hún Júlla..Ég sem hitti hana í búðinni áðan þá mundi ég ekki neitt . ..líklega aldurinn eða..Jæja það hefur fjölgað í Fúsa ehf og nóg að gera. Minna framkvæmt í Heiðarbæ ,bíður betri tíma.

Jæja nóg í bili

Kveðjur til ykkar.

02.03.2007 19:47

Nóg að gera..


Það er alveg makalaust hvað mér finnst alltaf nóg að gera hjá mér..

Samt er ég ekki í fastri vinnu ( útivinnandi heitir það). Og ég sem er hætt í bæjarstjórn og flestum nefndum.
Læt nægja að vera í stjórn VSFK. Það er mjög gott fólk þar og baráttuandi.   En mæting á almenna fundi félaga mætti vera betri.
Ég held að fólk hugsi ekki út í að það getur haft áhrif með því að mæta og segja sitt.  Kannski er fólk svona hrætt við að lenda í stjórn eða þurfa að taka eitthvað á sig.  Auðvitað hafa allir nóg með sig..  Annars fór dagurinn í þetta venjulega: Keyra tengdó í Keflavík og snattast með hana blessunina...Ekki veit ég hvernig hún kæmist af án mín..æ æ bara grínast.  Svo eldaði ég í hádeginu í karlana mína í Fúsa ehf.
Það er nú bara gaman.  Mamma er að ná sér af flensunni sem hefur hrjáð hana undanfarið og er öll að hressast.  Hún er ótrúleg kona að MÍNU áliti. Alltaf að reyna að sjá jákvæðar hliðar á lífinu.  Listamaður af Guðs náð og málar ,perlar, saumar og tileinkar sér allar nýungar.
Eina sem pirrar hana er heyrnarleysið.  Þrátt fyrir góð heyrnartæki er heyrnin slæm.  Og þá segir hún bara: Allt í lagi með mig ég hef góða sjón.  Já það er nóg að gera hjá mér og ég er þakklát fyrir að geta gefið af mér einhvern TÍMA.
Jæja nóg í bili..

Góða helgi elskurnar mínar.

01.03.2007 20:36

Veðurfarið.


Vinsælasta umræðuefni allra tíma er veðrið.
Sennilega oft þegar fólk veit ekki hvað það á að segja. Hm. Fínt veður í dag. Það er þó alltaf hægt að tala um veðrið. Nú spáir slyddu eða snjókomu en kannski fari þá að hlýna. En ég ætlaði í þessu sambandi að segja ykkur frá bekkjarbróðir mínum í Seattle honum Mumma. Hann sendi mér imail í dag (við skrifumst á gegnum netið) og sagðist ekki komast í vinnuna vegna snjókomu.
Í gær þegar hann var á leiðinni heim kom hann að fimmtíu bíla árekstri. Hann slapp sem betur fer.
En er ekki veðráttan eitthvað að breytast eða finnst manni það bara?
Með ósk um að vori snemma.

Kveðja til ykkar.

28.02.2007 21:39

Amma Silla


Jæja í dag var ég í ömmuhlutverkinu mínu og var að passa tvo yndislega stráka.
Konný skrapp í bæinn eftir hádegi og við Týra litli hundurinn minn gættum bús og barna. Reyndar er Týra svo hrædd við minnstu börnin að hún skríður með veggjum. Og Arnar Smári þessi skemmtilegi rauðkollur elti hana á röndum...Svo vorum við heilmikið að spjalla saman við Jóhann. Hann er náttúrulega stóri bróðirinn og rétti upp fjóra fingur til að segja mér það.Og bætti við bráðum FIMM.

Það er nóg að gera í vinnunni hjá Fúsa ehf og ég myndast við að elda fyrir þá þegar ég get. Í morgun hittumst við Lilla í Sundmiðstöðinni og ég skrapp til hennar í kaffi á eftir..Við höfum verið kuldaskræfur undanfarið en vonandi fer hlýnandi svo við hættum að slufsa við sundið.

Jæja ég verð að fara að setja inn myndir. Það verður aðeins meira upplífgandi 

Hafið það sem best öllsömul.

27.02.2007 14:27

Um veginn


                    

     Já það er vegurinn okkar. 


     Stafnesvegurinn!    Hann var nú farinn að láta á sjá á síðustu misserum en NÚNA!


      Hann er að verða óökufær....

Það er vegna aukinnar umferðar vegna Wilson Muuga og einnig vegna allra þungaflutninganna sem fylgdu björgunaraðgerðunum .Umferðin er sérstaklega mikil um helgar.  Ég skil vel að fólki langi til að skoða skipið og allt í lagi með það en vegurinn er bara ekki undir það búinn.  Það hefur brotnað svo mikið upp úr honum að maður verður oft að keyra í moldarflagi meðfram ónýtri olíumölinni. Það keyra fleiri hundruð bíla um veginn um helgar , mikið af jeppum og stærri bílum.
Það fara allir eftir löglegum ökuhraða .Að minnsta kosti er ekki um hraðakstur að ræða held ég. En stundum langar mann að aka á meira en 25 km hraða en þá bara kemst maður ekki fram úr nei nei. Þetta er stundum bara broslegt. Palli einn í heiminum.

Jæja við verðum að fara að ýta við Vegagerðinni þetta er ekki hægt, það verður að laga veginn.

26.02.2007 22:32

Um daginn og veginn....

Jæja nú er búið að opna Franska safnið í Fræðasetrinu í Sandgerði. Ég á reyndar eftir að skoða en það mun líklega gefast tími því því er ætlað  að standa yfir í mörg ár. Flott viðbót við flóruna á Garðvegi 1.

Hann ætlar ekki að fara þessi kuldaboli sem hefur verið hjá okkur undanfarið. Reyndar hefur verið fallegt veður og frekar stillt.  En núna er átta stiga frost. Í gær vorum við Jóhanna að raða timbri fyrir utan Heiðarbæ og flott að fá smá hjálp. Líka skemmtilegra að vera tvær. Við vorum að giska á að um það bil 200 bílar hafi keyrt framhjá á þessum klukkutíma. Þvílík traffik, allir að skoða Wilson vesin, allavega flestir. Hrefna og Viðar kíktu en ekkert fengu þau kaffið. Ég þarf að fara með kaffivél í kotið svo ég geti tekið á móti gestum að góðum sveitasið! Svo skoðuðu Ómar og Gyða húsið og leist vel á.
Það er svo mikið að gera hjá Gunna og Fúsa að enginn aukastund hefur gefist fyrir Heiðarbæinn. Þetta kemur bara með kalda vatninu eða þannig. Það fer ágætlega um okkur í Bjössahúsi. Hann hefur ekkert talað um að henda okkur út ennþá  ha ha.
Konný var hjá mér rétt áðan og við vorum á netinu og allstaðar að spá í hlutunum vegna stóra atburðarins sem á að gerast í vor. Þá ætlar vinur okkar til sautján ára David Rose að giftast sinni heittelskuðu í Hvalsneskirkju. Nánar tiltekið 26. mai. Það er von á hópi fólks með þeim svo við höfum um nóg að hugsa.
En við erum ekki ein um undirbúning. Maddý og fleiri hjálpa til. Maddý og Gísli ætla að lána Glaumbæinn og þar verður margt um manninn í mai. Það verður ekki amalegt fyrir Ameríkubúana að gista þar.

Jæja fer að koma mér og karli í háttinn.

Hafið það öll sem best.


24.02.2007 15:58

Halló!

Jæja ég mátti til. Smituð af Bjössa, Konný og fleirum. Það eru allir með heimasíðu eða þannig.

Ég heiti Sigurbjörg Eiríksdóttir og bý sem stendur að Nýlendu í Stafneshverfi og við hjónakornin erum að byggja Heiðarbæinn okkar þar sem við ætlum okkur að eyða ellinni. Reyndar flytjum við fyrr vonandi og þessi elli kemur vonandi seinna..ha ha.

Karlinn minn heitir Gunnar Borgþór Sigfússon og saman eigum við fimm börn og ellefu barnabörn. Rík..

Læt þetta vera góða byrjun.

Læt ykkur svo heyra frá mér síðar.

Flettingar í dag: 81
Gestir í dag: 28
Flettingar í gær: 1914
Gestir í gær: 1077
Samtals flettingar: 105172
Samtals gestir: 22428
Tölur uppfærðar: 9.5.2024 09:26:25